Á fimmtudagskvöldið 13. desember greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir.
Síðarnefnda félagið var stofnað haustið 2017 til að kaupa fjölmiðla út úr Pressusamstæðu Björns Inga Hrafnssonar, sem þá var komið að niðurlotum eftir að hafa vaxið hratt með því að kaupa nánast alla miðla sem voru í augsýn með skuldsettum yfirtökum, án þess að nokkrar viðskiptalegar forsendur væru fyrir uppkaupunum.
Pressusamstæðan skuldaði fyrir vikið mörg hundruð milljónir króna og hafði auk þess, árum saman, tekið há ólögleg lán hjá hinu opinbera og starfsfólki sínu í óleyfi með því að skila ekki inn staðgreiðslu skatta, innheimtum virðisaukaskatti, lífeyrissjóðsgreiðslum, stéttarfélagsgreiðslum og jafnvel meðlagi sem dregið hafði verið af starfsmönnum.
Þegar Frjáls fjölmiðlun birtist eins og riddari á hvítum hesti greiddi félagið háa upphæð fyrir að kaupa út valda fjölmiðla úr því sem síðar varð þrotabú Pressunnar. Fjármunirnir voru notaðir til greiða hluta þeirra opinberu gjalda sem voru í vanskilum og þar með forða þáverandi forsvarsmönnum Pressunnar frá því að lenda jafnvel í fangelsi. Sá sem reiddi fram fjármunina fyrir hönd Frjálsrar fjölmiðlunar var lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Á mannamáli þýðir þetta að þarna sé um fjármuni að ræða sem ríkið átti með réttu, Pressan notaði ólöglega og nú er vafi um að muni skila sér aftur í ríkissjóð.
Botnlaust tap
Frjáls fjölmiðlun hóf síðan starfsemi haustið 2017 og hélt áfram útgáfu á þeim miðlum sem félagið hafði keypt. Ekkert lá fyrir um hvaðan fjármunir til þess höfðu komið.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun var félagið Dalsdalur ehf., í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar.
Á fyrstu 16 mánuðunum sem hin nýja fjölmiðlasamsteypa DV starfaði, frá september 2017 og út árið 2018, tapaði hún 283,6 milljónum króna. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið tapið verður á þessu ári en miðað við að samdráttur hefur orðið í auglýsingasölu hjá flestum, ef ekki öllum, fjölmiðlum í ár þá má búast við að það hafi verið umtalsvert. Raunar sagði skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar, Sigurður G., við RÚV fyrir rúmri viku að „reksturinn er mjög erfiður[...]þetta er búið að vera rekið með tapi frá árinu 2017.“
Kjarninn hefur opinberað að Frjáls fjölmiðlun skuldaði 610,2 milljónir króna í lok síðasta árs. Skuldirnar eru nær allar við eigandann, Dalsdal og engin sérstakur gjalddagi er á þeirri skuld, sem ber heldur enga vexti. Eina eign þess félags er Frjáls fjölmiðlun.
Í samtali við Stundina fyrir rúmu ári vildi Sigurður ekki upplýsa um hver það væri sem hefði lánað Dalsdal mörg hundruð milljónir króna vaxtalaust. Sá huldumaður fékk að leynast. Engin opinber eftirlitsstofnun hefur gert athugasemd við það eða talið nauðsynlegt að beita sér fyrir því að lánveitandinn yrði opinberaður. Ekki fjölmiðlanefnd, ekki ríkisskattstjóri. Ekki samkeppniseftirlitið.
Eftir að fjölmiðlar félagsins voru seldir til Torgs þá getur viðkomandi huldumaður tryggt að það muni aldrei glitta í hann. Miðlarnir voru eina eign Frjálsrar fjölmiðlunar. Nú verður hægt að setja félagið í þrot og afskrifa kröfurnar. Málið dautt.
Feluleikur blessaður
Eina ályktunin sem rökrétt er að draga er að það megi fela raunveruleg yfirráð yfir fjölmiðlum á Íslandi. Og fyrst það hefur ekki verið neinn áhugi innan stjórnmálastéttarinnar að laga þessa stöðu með lagasetningu, þrátt fyrir að margoft hafi verið greint frá henni opinberlega, þá verður að gefa sér það að slík leynd sé allt í lagi.
Samkeppniseftirlitið mun samþykkja samrunann án athugasemda þar sem að þeim rökum verður beitt að Frjáls fjölmiðlun sé fyrirtæki á fallandi fæti. Það þýðir að ef enginn kaupir félagið muni það fara í þrot. Og í ljósi þess að engar viðskiptalegar forsendur hafa verið fyrir rekstrinum verður fallist á það.
Sá skaði bætist við allskyns viðbótar meðgjöf sem ríkið hefur, beint og óbeint, veitt völdum fjölmiðlafyrirtækjum á síðastliðnum rúma áratug, á kostnað hinna sem við þau keppa. Birtingarmynd hennar er meðal annars sú að valdir fjölmiðlar hafa notið umfram stuðnings frá hinu opinbera með því að ríkið, stofnanir, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög kaupa mikið magn af auglýsingum í þeim. Þar er sannarlega ekki unnið eftir neinu heildrænu skipulagi og við blasir að ákveðnir fjölmiðlar hafa fengið mun meira í sinn hlut af því auglýsingafé en aðrir. Þar er um að ræða hundruð milljóna króna á ári.
Þá er rétt að nefna að Sorpa, fyrirtæki í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið að bera tugmilljóna króna kostnað árlega af því að urða dagblöð og frípóst. Sá kostnaður fellur óbeint á skattgreiðendur, eigendur Sorpu, og má vel túlka sem niðurgreiðslu á starfsemi þeirra fjölmiðla sem miðla sínu efni á pappír sem endar í ruslatunnum landsmanna, í stað þess að miðla því stafrænt og án þeirra kostnaðarsömu, og óumhverfisvænu, afleiðinga.
En hæst ber auðvitað 4,5 milljarða króna afskriftir ríkisbankans Íslandsbanka á skuldum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og 3,7 milljarða króna afskriftir lífeyrissjóða og ríkisbankans Landsbankans á skuldum gamla 365 þegar fjölmiðlar þess, nú í eigu Sýnar og Torgs, voru seldir inn í nýtt félag en það gamla skilið eftir í þroti.
Þá er ótalið að RÚV stundaði samkeppnisrekstur sinn, sem felur í sér sölu á auglýsingum og kostunum, ekki í samræmi við lög vegna þess að hann var ekki hafður í dótturfélagi. Um komandi áramót á að bæta úr því þegar félagið RÚV sala tekur til starfa. Það verður til ríkisfyrirtæki sem selur auglýsingar sem birtast bara í öðru ríkisfyrirtæki.
Vökvið sprota
Hluti þessara væringa hafa átt sér stað á sama tíma og frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla hefur verið í mótun, en um þrjú ár er síðan að vegferð þess hófst. Tilgangur frumvarpsins er meðal annars að bregðast við því að rekstarforsendur einkarekinna fjölmiðla eru alltaf að verða erfiðari og erfiðari vegna breyttrar neytendahegðunar, breytinga á miðlun efnis, minni vilja til að greiða fyrir efni og verulegs samdráttar í birtum auglýsingum.
Allt eru þetta alþjóðlegar áskoranir. Á Íslandi bætist líka við ofangreind markaðsbjögun, sem ríkið ber ábyrgð á annað hvort með afskiptaleysi gagnvart fyrirtækjum sem reka sig ólöglega, eða með því að greiða fjárhagslega götu valinna fjölmiðla fram yfir aðra án sýnilegra skýringa. Ofan á það kemur að sérhagsmunaaðilar hafa eytt síðastliðnum áratug í að sanka undir sig stærstu einkareknu fjölmiðla landsins og skeyta litlu um að reka þá á viðskiptalegum forsendum. Ríkt fólk er tilbúið til að henda háum fjárhæðum í að halda starfsemi á floti sem virðist ekki eiga sér neinn tilverugrundvöll í núverandi mynd. Ástæður eignarhaldsins eru aðrar.
Frumvarpið um stuðning til einkarekinna fjölmiðla, sem nú hefur verið útvatnað að kröfu hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks, miðar meðal annars að því að litlir en mikilvægir fjármunir fari til fjölmiðlafyrirtækja sem eru í vexti. Þeirra sem eru ekki skuldsett upp í rjáfur og eru að auka veltu sína ár frá ári. Að finna sér fótfestu í breyttum veruleika.
Þumalputtareglan segir að það eigi að vökva slíka sprota. Það er gert með sambærilegu endurgreiðslukerfi fyrir rannsóknir og þróun, kvikmyndagerð og vegna bókaútgáfu. Það skilar fjölbreyttari fjölmiðlaflóru, sterkari lýðræðisstoðum, fleiri krónum aftur í ríkiskassann í formi aukinna skattgreiðslna samhliða vexti og auðvitað fleiri störfum fyrir metnaðarfulla blaðamenn.
En meginþorri þeirra fjármuna sem ríkið ætlar að útdeila í þessum tilgangi fer ekki til vaxtafyrirtækja, heldur í að niðurgreiða þegar orðið tap stærstu miðlanna.
Vitrænt væri að snúa þessu við.
Kjarninn er einn þeirra miðla sem myndi fá úthlutað stuðningsgreiðslum verði frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra að lögum. Að óbreyttu myndi um 2,5 prósent af heildargreiðslu úr ríkissjóði vegna stuðningsins fara til Kjarnans. Meginþorri hans færi til Árvakurs, Torgs og Sýnar.