Sterk innlend fjármálafyrirtæki hafa gegnt lykilhlutverki í vexti efnahagslífs hér á landi á liðinni öld og verið atvinnulífinu nauðsynlegur bakhjarl. Staða bankanna er enn sterk og efnahagsreikningur þeirra traustur en til lengri tíma litið eru blikur á lofti verði ekki tekið í taumana og starfsskilyrði þeirra lagfærð því of langt hefur verið seilst í setningu séríslenskra reglna og við álagningu séríslenskra skatta á fjármálafyrirtæki. Fordæmalaus sértæk skattlagning og háar eiginfjárkröfur á bankana hafa leitt til þess að íbúðakaupendur með mest eigið fé leita í auknum mæli eftir lántöku hjá lífeyrissjóðum og stöndugustu fyrirtækin leita til erlendra fjármálastofnana eftir fjármögnun. Ef við horfum til sögunnar þá er þetta varhugaverð þróun því aðkoma erlendra banka að fjármögnun íslenskra fyrirtækja verður alltaf varfærinn og sveiflukennd eftir árferði hér á landi og þá er það umhugsunarvert hvort æskilegt sé að útlánaáhætta vegna íbúðalána flytjist til aðila sem ekki eru undir það búnir að mæta henni.
Lífeyrissjóðir umfangsmeiri í fjármálakerfinu en bankarnir
Á fundi sem Samtök fjármálafyrirtækja stóðu fyrir nú í nóvember fjallaði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, m.a. um stöðu fjármálafyrirtækja. Sagði hann meðal annars að íslenskt bankakerfi hafi skroppið saman sem hlutfall af VLF. Er það nú á pari við það sem það var um síðustu aldamót og er lítið í erlendum samanburði sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá dró seðlabankastjóri einnig fram þá staðreynd að lífeyrissjóðir eru nú orðnir umfangsmeiri í íslensku fjármálakerfi en bankarnir. Árið 2017 voru íslensku bankarnir um 36% af fjármálakerfinu (samanburður er án Seðlabanka) sem er lágt í erlendum samanburði. Þegar þetta minnkandi umfang er dregið fram er mikilvægt að staldra aðeins við, skoða vel hvað veldur og meta hvaða áhrif þessi þróun getur haft á stöðu fjármálafyrirtækjanna sem bakhjarl atvinnulífssins.
Séríslenskar reglur og skattar auka vaxtamun
Kostirnir við að búa í litlu samfélagi eru margir, við búum við öryggi, höfum gnægð náttúrugæða til að njóta og fáum fjölbreytta reynslu því fáar hendur kalla á að við göngum í öll verk, en það kostar líka sitt. Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem unnin var fyrir stjórnvöld og kynnt undir lok síðasta árs eru ytri ástæður þess að vaxtamunur íslenskra fjármálafyrirtækja er jafn hár og raun ber vitni dregnar fram og er smæðin ein þeirra. Smæðin veldur því að að ekki er hægt að ná sömu stærðarhagkvæmni og stór fjármálafyrirtæki erlendis ná. Þá er í hvítbókinni einnig fjallað um áhrif hárra eiginfjárkrafna sem gerðar eru til íslensku bankanna sem eru töluvert hærri en gerðar eru annarsstaðar og áhrif hinnar sértæku skattheimtu sem er margfalt hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Er þetta kallað Íslandsálag í hvítbókinni sem hafi ekkert með skilvirkni í rekstri bankanna að gera. Þetta Íslandsálag er að stórum hluta heimagerð staða sem hefur mikil áhrif á kjör sem fólki og fyrirtækjum bjóðast hér á landi en hefur einnig haft mikil áhrif á samkeppnisstöðu bankanna gagnvart t.d. lífeyrissjóðum og erlendum fjármálafyrirtækjum.
Samkeppnisstaðan skekkt með lögum
Segja má að stjórnvöld hafi beinlínis ákveðið að skekkja samkeppnisstöðuna með því að viðhalda sértækri skattheimtu sem er ótengd afkomu á aðallega þrjú fyrirtæki. Þess ber þó að geta að nýlega samþykkti Alþingi frumvarp fjármálaráðherra um að draga úr þessari sértæku skattheimtu með lækkun hins svokallaða bankaskatts í fjórum þrepum sem hefst árið 2021. Er þetta vel en eftir stendur að lækkunin verður ekki komin til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum og þá stendur engu að síður eftir skattheimta sem enn verður hærri en þekkist í öðrum ríkjum og leggst fyrst og fremst á kerfislega mikilvægu bankana þrjá. Íslensk fjármálafyrirtæki eru í harðri samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki sem fjármagna nú flest stærstu fyrirtækin hér á landi og lífeyrissjóðina sem geta boðið fólki með 30% eigið fé betri kjör á húsnæðislánum, án sértækra skatta og án eiginfjárkrafna eins og bankarnir búa við. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að minnast á fjársýsluskattana tvo, fjársýsluskatt og sérstakan fjársýsluskatt, sem lagðir eru á fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög. Er sá fyrrnefndi lagður á launakostnað þessara fyrirtækja og því starfsmannahald í þessum fyrirtækjum dýrara en fyrirtækjum í allri annarri starfsemi hér á landi. Engin rök eru fyrir því að viðhalda þessu fyrirkomulagi og endurskoðun tímabær.
Hægir á útlánavexti
Í áðurnefndu erindi seðlabankastjóra kom fram að hægt hefur á útlánavexti og hrein ný útlán til fyrirtækja hafa dregist saman. Ástæður þessa eru margar og spila þeir þættir sem í þessari grein eru nefndi þar inn en önnur ástæða er t.d. aðgengi fjármálafyrirtækja að lausafé. Á undanförnum misserum hefur aukning innlána ekki fylgt aukningu útlána. Ástæðan virðist vera hnökrar í peningaframboði Seðlabanka. Innstreymi fjár í Seðlabanka á vegum Íbúðalánasjóðs og inngripa Seðlabanka á gjaldeyrismarkaði hefur minnkað peningaframboð Seðlabanka. Þá virðast reglur um lausafé einnig hefta peningaframboð Seðlabanka. Seðlabankinn er að bregðast við þessari stöðu að hluta til en meira þarf til svo útlánateppa dragi ekki úr hagvexti á komandi ári.
Mikilvægi fjármálafyrirtækja í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi
Fjármálafyrirtæki gegna ekki eingöngu mikilvægu hlutverki við miðlun fjármuna. Þau eiga einnig í nánu samstarfi við stjórnvöld og löggæslu í t.d. baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Innan þeirra starfar nú fjöldi sérhæfðs starfsfólks sem sinnir vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, auk þess sem flest starfsfólk fær þjálfun á þessu sviði. Varnir gegn peningaþvætti komust nú heldur betur í kastljósið á árinu eftir að FATF setti Ísland á gráan listann svokallaða. Athugasemdir FATF lutu ekki að íslenskum fjármálafyrirtækjum enda eru varnir gegn því að þau séu misnotuð í glæpsamlegum tilgangi ríkur hluti af þeirra starfsemi og lúta fjármálafyrirtæki ekki síst kröfum um ákveðna ferla og eftirlit í gegnum sín viðskiptasambönd erlendis. Fjármálafyrirtæki, ásamt fjölda annarra fyrirtækja í ólíkri annarskonar starfsemi, eru tilkynningaskyld ef grunur leikur á peningaþvætti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Á þessu ári hafa fjármálafyrirtæki sent langt á annað þúsund slíkra tilkynninga og standa einna fremst í þessum vörnum hér á landi. Þó að athugasemdir FATF hafi ekki snúið að aðildarfyrirtækjum Samtaka fjármálafyrirtækja finna þau fyrir áhrifunum. Þannig eru nú framkvæmdar auknar áreiðanleikakannanir á flutningi fjármagns yfir landamæri sem felur í sér tíma og kostnað við aukna upplýsingagjöf. Þá eru langtímaáhrifin ókunn og verða stjórnvöld því að halda áfram vel á spöðunum við að uppfylla kröfur FATF svo langtímaáhrifin raungerist ekki.
Árið 2020...
...verður vonandi árið sem hægt verður að ræða starfsemi fjármálafyrirtækja kreddulaust. Ef við horfum á bankakerfið eins og fyllta lakkrísreim og fyllingin er hlutverk þeirra og vöruframboð; þá eru hinar séríslensku reglur og skattar hægt og rólega að kreista fyllinguna úr reiminni. Eftirspurnin eftir því sem kreist er út minnkar ekkert og fer annað, jafnvel þangað sem eftirlit nær ekki til. Fjármálafyrirtækin og ekki síst stóru bankarnir þrír búa við öflugt eftirlit og gera eftirlitsaðilum daglega grein fyrir ólíkum þáttum í sinni starfsemi. Þetta eru því mjög aðgengilegar stofnanir fyrir stjórnvöld og eftirlit, með skýrt hlutverk og ábyrgð - eru hluti okkar mikilvægustu innviða. Því ætti á árinu 2020 að halda áfram að gera til þeirra ríkar faglegar kröfur en hefjast handa við að jafna leikinn þegar kemur að regluverki og álögum.
Höfundur er framkvæmdstjóri Samtaka fjármálafyrirtækja