Það er auðvelt að týna sér í smáatriðum hversdagsleikans. Flest gerum við það reglulega, gerum það sama í dag og við gerðum í gær, en veltum okkur minna upp úr því hvað við erum raunverulega að gera eða gefum okkur tíma til að líta til baka og meta árangur þess sem við tökum okkur fyrir hendur. Við þurfum að vita hvar við erum til að geta ákveðið hvert við ætlum að fara.
Á yfirstandandi ári hafa Píratar á Alþingi náð nokkrum árangri við að gera líf fólks réttlátara, jafnvel óvenju miklum sé tekið tillit til þess að hreyfingin er ekki í ríkisstjórn. Tíðavörur og getnaðavarnir hafa lækkað í verði þar sem þær bera nú lægri virðisaukaskatt, enda nauðsynjavörur, ekki lúxus. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er upphafsmaður og formaður nefndar um gerð nýrra lögræðislaga, sem Alþingi samþykkti í vor að koma á fót. Mannréttindi eru þverbrotin í núverandi lögum, sérstaklega hjá fötluðum einstaklingum, og kominn tími á heildarendurskoðun þeirra.
Þingmáli Björns Levís Gunnarssonar um styttingu vinnuviku var vísað til ríkisstjórnarinnar í vor, sem þýðir að ríkisstjórninni beri að vinna áfram að framgangi málsins. Virðist vera almennur vilji til að stytta vinnuvikuna og tilraunir til þess hafa gefið góða raun.
Nú rétt fyrir jólafrí náðum við fram enn einu réttindamálinu, en það snýr að því að efla sjálfstætt eftirlit með lögreglu. Ekki vegna þess að við treystum ekki lögreglunni, heldur vegna þess að lögreglan hefur mikið vald gagnvart hinum almenna borgara og allt vald krefst aðhalds.
Þá er ekki hægt í slíkri yfirferð að líta framhjá baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá. Á vormánuðum lögðu Píratar fram nýtt frumvarp til stjórnskipunarlaga byggt á tillögum Stjórnlagaráðs og þeim breytingum sem gerðar voru á því frumvarpi í meðförum Alþingis. Slíkt heildarrit hafði ekki litið dagsins ljós áður en Píratar tóku það saman. Á núverandi þingi flytur Samfylkingin þetta sama mál ásamt Pírötum, sem sýnir hversu breið samstaða er við mikilvægasta mál samtímans á þingi.
Krafan er og verður ný stjórnarskrá byggð á frumvarpi Stjórnlagaráðs.
Meirihlutasamstarf Pírata í Reykjavík hefur einnig gengið vonum framar. Meðal þeirra áherslumála okkar fyrir síðustu kosningar sem nú þegar hafa náð fram að ganga má nefna stóraukið fé í búsetuúrræði, aukið gagnsæi, til dæmis með aðkomu minnihluta að forsætisnefnd og heildarendurskoðun á innkaupastefnu borgarinnar, að ógleymdri Borgarlínu sem verður senn að veruleika. Það er óhætt að segja að drifkraftur Pírata í borginni er ómetanlegur við að gera Reykjavík umhverfisvænni, framsýnni og opnari, og við að tryggja öllum Reykvíkingum þak yfir höfuðið.
Þar að auki hefur Reykjavíkurborg ráðið til sín gagnastjóra, en fyrir þingi liggur sambærileg tillaga Smára McCarthy um að setja á fót embætti tæknistjóra ríkisins, en hluti af því að tryggja öryggi gagna ríkisins er einmitt að hafa sameiginlegan tæknilegan grundvöll milli ólíkra eininga.
Smári hefur þurft að nýta tíma sinn vel síðasta ár. Samhliða þingstörfum, setu í tveimur fastanefndum og formennsku í alþjóðanefnd hefur hann einnig verið formaður framtíðarnefndar forsætisráðherra, en hugmyndin að þeirri nefnd kom einmitt upprunalega frá Pírötum. Þar eiga allir flokkar á þingi fulltrúa og horfa mun lengra fram í tímann en til næstu fjárlaga eða næstu kosninga. Nýlega gaf nefndin út sína fyrstu skýrslu þar sem farið var yfir vænta þróun atvinnulífs, umhverfis, byggða og lýðfræðilegra þátta til áranna 2035-2040 og tillögur gerðar um aðgerðir vegna hennar.
Ekki er þó hægt að ræða framtíðina af einhverri alvöru án þess að fjalla um loftslagsmál. Píratar, ásamt Samfylkingunni, lögðu fram þingsályktun um grænan samfélagssáttmála. Er honum ætlað að varða leiðina að kolefnishlutlausu Íslandi, sjá til þess að sjálfbærni og velsæld verði rétthærri en skyndigróði á kostnað samfélagsins og umhverfisins og gera Ísland að leiðarljósi annarra þjóða þegar kemur að sjálfbærni.
En þessu góðu mál fæðast ekki í tómarúmi. Píratar væru ekki til ef ekki væri fyrir allt það hugsjónafólk sem tekur þátt á hverjum degi í starfi hreyfingarinnar. Það er alltaf jafn magnað að hitta Pírata, hvort sem það er á félagsfundi í Reykjavík, á ráðstefnu í Blábankanum á Þingeyri eða bara á Laugaveginum. Þetta fólk brennur fyrir bættu samfélagi, hefur stórkostlegar hugmyndir, frábærar útfærslur og kemur jafnvel til okkar með fullunnin þingmál. Það er greinilegt af ferðum okkar í kring um landið að Pírata er alls staðar að finna og verður sérstaklega áhugavert að taka þátt í starfi okkar á landsbyggðinni næsta ár.
Því miður fær þátttaka í pólitísku starfi oft á sig neikvæðan stimpli, eins og reyndar stjórnmálin öll, en ég fullyrði að enginn flokkur geti vaxið og dafnað nema hann hafi öfluga grasrót með jákvæðni og framtíðarsýn að vopni.
Það er því miður ekki þannig að fólk hafi endalausan tíma til að taka þátt í stjórnmálum, góðgerðastarfi, félagsstarfi eða bara nái að elda kvöldmat. Píratar hafa enga töfralausn við almennum tímaskorti, frekar en nokkur annar. En við teljum okkur þó hafa hluta af lausninni, svo sem styttri vinnuviku, framboð á húsnæði með góðum almenningssamgöngum, ódýrari nauðsynjavörur og auðvitað borgaralaun.
Þar að auki þurfum við líka að auka samheldni í samfélaginu. Það þýðir ekki að við þurfum öll að vera sammála um hvaðeina, heldur aðeins að trú okkar á grunnviði samfélagsins sé sameiginleg. Ný stjórnarskrá sem veitir aðhald gegn spillingu og ábyrgðarleysi er lykillinn að því. Fólk þarf að geta treyst því að eftirlit sé sanngjarnt en áhrifaríkt, að lögreglan sé hlutlaus en mannleg og að Alþingi snúist um almannahag frekar en sérhagsmuni.
Á undanförnum misserum hefur það sýnt sig að stefnumál Pírata um borgararéttindi, tjáningarfrelsi, gagnsæi, ábyrgð, friðhelgi, upplýsingafrelsi og betra lýðræði skipta lykilmáli í samfélagi framtíðarinnar. Ný stjórnarskrá, styttri vinnuvika, grunnframfærsla, umhverfismál, ábyrg stjórnmál, fagleg vinnubrögð og síðast en ekki síst mannleg reisn. Þetta eru allt grundvallar skref í átt að þeim lýðræðis- og samfélagsumbótum sem framtíðin krefst af okkur.
Höfundur er þingmaður Pírata.