Forfeður íslenska hestsins eru til þúsunda ára aðlagaðir að og upprunnir úr aðstæðum sem gera hann sérstaklega hæfan til að lifa úti á Íslandi. Hestar eru því það búfé hér á landi, sem kemst hvað næst því að fá að lifa í samræmi við það markmið íslenskra laga um velferð dýra að þau fái tjáð sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
Þetta getum við veitt hestunum m.a. vegna þess að við getum haldið þá úti við árið um kring og leyft þeim að njóta frjálsræðis í hjörðum innan sinnar tegundar þar sem þeir taka þroska í samneyti við hvorn annan og þroska sérstakt sjálfstæði sitt og hæfni.
Íslenski hesturinn hefur það mjög gott úti að uppfylltum nokkrum grunnkröfum um atlæti og aðstæður en það verður líka alveg sérstaklega að gera greinarmun á hrossum sem eru í brúkun og þeim sem eru ekki í brúkun.
Uppruni og sérstaða íslenska hestsins
Forfaðir hestsins þróaðist í átt að núverandi mynd þegar grassteppur komu fram og hann varð farsæll grasbítur. Hann er flóttadýr og félagsdýr sem skýrir rýmis- og hreyfiþörf hans og félagsgreind. Núverandi tegund (equus) kom fram fyrir 4-4,5 m. ára. Hesturinn var líklega taminn fyrir 5-6 þúsund árum síðan og talið er að allir tamdir hestar séu komnir af minnst fjórum ólíkum villtum stofnum sem lögðu hver til sína eiginleika. Íslenski hesturinn sem er norrænn, er talinn hafa næstan upprunaskyldleika við hjaltlandshestinn og norska norðlandshestinn, sem eiga forföður í mongólska hestinum. Mongólski hesturinn hefur verið í Mongólíu í a.m.k. 3 þúsund ár. Annar náskyldur er yakutian hesturinn sem hefur þróast af sama mongólska stofni og kom þaðan til Síberíu á 14. öld.Þetta eru sannkallaðir vetrarhestar, en kuldinn í Síberíu getur farið niður í allt að -70° þar sem hestarnir lifa úti við, líkt og sá mongólski og sá íslenski gera. Í Mongólíu getur frost farið niður fyrir mínus 40° á vetrum og upp fyrir 40° að sumri svo hrossin hafa þurft að aðlagast miklum veðurfarslegum öfgum. Það hafa þau gert mjög vel.
Íslenski hesturinn er kominn af þessum hestum og talinn skyldastur mongólska stofninum af þeim kynjum sem eru til í dag. Það skýrir hvað hann ræður vel við aðstæður og veðurfar hér á landi. Íslenska kynið er eitt hreinræktaðasta hrossakyn í heimi, en það hefur ekki blandast öðrum kynjum í yfir þúsund ár og einnig haft þann tíma til að aðlagast hér. Stofninn er stór og hraustur.
Vel fóðraður og heilbrigður útigangur
Ef hestar á útigangi eru heilbrigðir og í góðum holdum að hausti þá eru þeir vel undir veturinn búnir. Hestarnir þurfa nægilegt fóður og rými og að geta valið sér (náttúrlegt eða manngert) skjól ef þeir það vilja. Þeir nota skjólin síður í stórhríðum á vetrum enda vilja þeir ekki láta fenna að sér, og standa þá jafnvel fremur hátt og láta snjóinn fjúka fram hjá sér. Þeir nýta skjólin fremur í umhleypingum þegar þeir eru í feldskiptum á hausti eða vori. Með útigangi er átt við stóðhross, þ.e. tryppi í uppvexti, hryssur með fyli, folaldshryssur og annan útigang sem ekki er í brúkun, til dæmis eldri hesta sem njóta hvíldar áður en þeir eru felldir eða hross sem eru í hvíld frá brúkun af öðrum ástæðum.Hestar mynda mikinn innri hita við meltingu á fóðri. Fitulag og feldur einangra hitann mjög vel. Hárafar íslenska hestsins einkennist líkt og þess mongólska af þykkum hlýjum feld á vetrum, en snöggum á sumrin. Hárafar hestanna okkar er almennt þétt og fitusmurt og ystu hár í vetrarham eru síð vindhár sem leiða vætu frá einangrandi innra laginu. Fóður og líkamlegt ástand ráða miklu um hárafar og horaður hestur verður þurr á húð og hár og þá er meiri hætta á lús og holdhnjúskum sem rjúfa einangrun feldsins. Áríðandi er því að hestar fari ekki grannir inn í veturinn á útigangi.
Reiðhestar hafa aðrar þarfir vegna brúkunar
Reiðhestar verða aftur á móti að vera inni því þeir þurfa bæði að vera mun léttari á holdum en útigangurinn og einnig vegna þess að þeir eru svitaðir í reið, sem rýrir einangrunargildi felds þeirra. Þeir kólna jafnframt eftir brúkun sem er þeim skeinuhætt úti við. Um reiðhesta í reiðhestsholdum gilda því allt önnur lögmál en um útiganginn og verður að gera greinarmun á þörfum þeirra fyrir húsvist.Þetta virðist ekki liggja nógu skýrt fyrir, þessi grundvallarmunur á útigangi og reiðhestum og lýsir það miklu vanmati á getu hestanna og aðlögunarhæfni. Bæði gildir að reiðhestum líður vel inni við eðlilegar aðstæður og að útigangi líður vel úti við eðlilegar aðstæður.
Hesturinn okkar er almennt sterkbyggður, mjög þolinn og þolgóður, ratvís og sjálfbjarga. Ef við myndum þurrka út alla mannabyggð (og allar girðingar) á Íslandi en hesturinn yrði hér eftir og fengi að ganga hér villtur er lítill vafi á því að hann myndi bjarga sér vel hér í stórum hjörðum. Að sama skapi er alveg víst að stór skörð yrðu höggvin í hjarðirnar inn á milli vegna náttúruhamfara á borð við eldgos, ofsaveður, snjóflóð eða vegna mjög langvarandi jarðbanna, svo eitthvað sé nefnt.
Hamfaraveður og aðrar náttúruhamfarir
Hamfaraveður eru allt annað en venjuleg veður. Þegar það koma furðuveður eins og gerðist hér fyrir norðan í desember þá getur orðið hrossafellir, það er hinn harði veruleiki. Þetta er sem betur fer sjaldgæft, en er hið óhjákvæmilega gjald sem við greiðum fyrir að leyfa hestunum að njóta eðlis síns og frjálsræðis. Auðvitað reynir fólk allt sem það getur til að koma í veg fyrir felli, en stundum verða aðstæður yfirþyrmandi og óviðráðanlegrar. Auðvitað þarf líka alltaf að hafa vakandi auga með velferð hrossa eins og annarra dýra. Það er allt í lagi að tala um þetta.En það er hinsvegar að mínu mati engin velferð fólgin í því að þvinga stóðhross inn í hús í tíma og ótíma í varúðarskyni yfir veturinn og í sumu tilliti er það jafnvel þvert gegn velferð hestanna.
Það er jafnframt mjög erfitt að meta aðstæður á Íslandi svo vel að aldrei bregði út af bestu lausnum. Þetta er veruleiki okkar hér. Sama á við um dýrin, bæði þau villtu og tömdu, þau geta orðið undir vegna aðstæðna á Íslandi alveg eins og við. Því miður er það landlægur og nánast kerfisbundinn misskilningur hér að hestunum okkar sé svo kalt úti. Já, okkur sjálfum væri sannarlega kalt en hestunum er það hinsvegar ekki.
Ég vona að með tíð og tíma átti almenningur sig betur á því hvað þessi hánorrænu dýr hafa það almennt gott hér og hversu nærri þau eru eðli sínu í frjálsræði hjarðarinnar, við atlæti úti við. Ég vil votta öllum þeim sem misstu hesta í hamfaraveðrinu hluttekningu mína. Jafnframt hvet ég alla þá sem telja að tiltekunum hrossum hafi ekki verið sinnt nægilega vel við þessar aðstæður til að tilkynna það án tafar til Matvælastofnunar og óska eftir úttekt á aðstæðum þeirra og viðeigandi aðhaldi.
Einnig til að láta sig áfram almennt varða þá hesta sem ekki er gefið nægilega vel eða veittar nægilega góðar aðstæður. Þess verður alltaf þörf að veita aðhald. Að því sögðu, þá bið ég fólk að draga línu. Við verðum að skilja muninn á afleiðingum náttúruhamfara og á afleiðingum skeytingarleysis eða vanrækslu. Það sem þetta snýst í grunninn er hvort við viljum leyfa hestunum að njóta vafans, njóta síns eðlis við útivist, eða ekki.
Leyfum hestum að njóta eðlis síns við góðan kost
Undirrituð hefur umgengist íslenska hesta hér í 45 ár og haldið þá óslitið í 40 ár og þessi pistill er ritaður sem hugleiðing hestakonu til ykkar hinna, vonandi til að upplýsa einhverja og til að vinda ofan umræðu sem hefur einkennst af misskiliningi að miklum hluta. Ég hvet þá sem hafa áhuga á velferð hrossa til að kynna sér líffræði þeirra og hæfni og bið fólk að byggja mat sitt á upplýstri þekkingu en ekki skoðunum eða sögusögnum.Mér þykir sjálfri mjög vænt um þessa hesta og myndi ekki undir neinum kringumstæðum tala gegn velferð þeirra. Ég einfaldlega veit að hrossum líður best úti við ef þau eru ekki í brúkun og að þau ráða mjög vel við útivistina ef kosturinn er góður. Í umræðum hefur verið vísað í aðstæður eins og þær voru hér áður fyrr. Það er alveg af sem áður var þegar horaðir og þreyttir vinnuhestar voru í neyð settir út ,,á guð og gaddinn“ á haustin eins og gert var hér í gamla daga, þar sem þeir sultu og kólu til bana við ömurlegar aðstæður. Svokallaðir horkóngar, menn sem gjarnan söfnuðu stórum stóðum og áttu hvorki hey né land fyrir stóðin eru horfnir í dag. Aðhald samfélagsins gagnvart eftirliti með hestum er mikið meira en það var og reyndar meira en gagnvart nokkrum öðrum dýrum hér á landi.
Þessir vondu tímar eru því liðnir sem viðmið enda eru afföll í hestastofninum mjög lítil í nútímanum við venjulegar íslenskar aðstæður og sómasamlegt atlæti. Reyndar eru afföll minnst hjá hrossum, ef miðað er við allar aðrar búfjártegundir sem haldnar eru hér á landi.
Vonandi er þetta síðastnefnda eitt og sér umhugsunarefni.
Höfundur er hestakona í Hafnarfirði.