Ég hef nú búið í Adelaide í Ástralíu í 32 ár, og setið við þetta gullna hlaðborð sköpunar, innan um alla liti sem skaparinn setti í húð fólks og náttúruna.
Við höfum mörg hundruð plöntur í garðinum við hornhúsið okkar og þar búa smáeðlur sem ég sé samt sjaldan, þær halda sér mikið út af fyrir sig. Það er mikið af fuglum eins og fallegum páfagaukum sem heimsækja trén og njóta safa blóma ástralskra plantna.
Einu sinni fengum við vatnshænu í heimsókn í garðinn, hún var langt frá sínu venjulega umhverfi, en virtist hafa komið í þennan garð til að heila sáran fót, hún var hér í nokkrar vikur, einn daginn var hún svo horfin. Fóturinn trúlega orðinn góður af næringunni við að narta í góðgætið í garðinum.
Garðvinna er í gangi allt árið um kring, og hægt að rækta allt mögulegt eftir æskilegustu árstíðum fyrir hverja tegund allt árið um kring. Hunangsflugur fljúga um með sín verkefni, og vespur hafa skapað sér heimili á veröndinni en aldrei gert okkur mein, og ekki heldur hunangsflugurnar.
Einstaklingar af öllum húðlitum eiga heima hér í Ástralíu, og við hér í Adelaide, höfum góðan þverskurð af öllum flokkum jarðar sem hafa valið að hafa Ástralíu sem heimili sitt. Borg, sem er fjórum sinnum mannfjöldi hinnar íslensku þjóðar.
Ég skil að litróf húðarlita mannkyns geti hafa verið frá því hversu mikið magn var af sól þar sem sá hópur byrjaði af sköpunar hálfu, en það eru víst nokkrar aðrar kenningar í gangi um ástæður mismunandi lita í húð.
Það að vera fædd foreldrum sem höfðu búið í löndum þar sem þetta litróf er í einu landi, þýddi að okkur var aldrei sagt að okkar húðlitur væri hærri eða betri en annar.
Eitt af því merkilega sem ég upplifði eftir að koma hingað var að horfa á þætti Oprah Winfrey. Hún opnaði það stærsta Pandórubox sem ég hafði upplifað. Það var um alla mismeðferðina sem fólk kom í þætti hennar með til að tjá sig um, og til að deila með heiminum. Þau fengu rödd í fyrsta skipti á ævinni um lífsreynslu sína. Málefni sem voru bönnuð í því umhverfi sem ég kom úr á Íslandi og höfðu verið þögguð niður víðast um heiminn um aldir.
Þar sást að ruglið í prestum um að öll börn sem fæddust væru heilög og að þau væru elskuð af Guði. Málið er nú samt því miður þannig að ef börn upplifa ekki að vera elskuð af sínum jarðnesku foreldrum, að þá er sú ást ansi fjarlæg og upplifist ekki sem sú næring sem þau þurfa. Og margt dökkt um mannlegt eðli kom fram í þessum þáttum.
Mannleg gæði koma í öllum litum mannvera
Oprah Winfrey er með brúna húð eins og Nelson Mandela, Mathma Ghandi, Desmond Tutu og aðrir sem hafa sýnt heiminum kærleika sem hefur ekki endilega alltaf verið eins áberandi frá fólki með hvítu húðina á hinu stóra sviði fjölmiðla. Það eru frábærir leikarar á kvikmyndaskjánum með allavega lita húð. Sem sýnir líka að þetta með liti er hluti sköpunar og það er tími til að endurskoða þessa gömlu lita-fóbíu um húðliti.
Þegar ég kom til Íslands í tvö síðustu skiptin var því ljúft að sjá fleiri húðliti á göngu á Laugaveginum.
Mannleg gæði fara eftir innri manni, sálarþroska, góðu eðli og vilja til að gera vel við sambræður sína. Ekki litnum á húð þeirra.
Þau fara ekki eftir lit á húð viðkomandi mannveru. Hvítt fólk drepur, rænir, stelur og gerir aðra slæma hluti ekki síður en þeir sem hafa annan lit á húðinni. Þannig er sköpun alltaf að sýna að litróf þess er mun meira og víðfeðmara og margvíslegra, en ýmsir þeirra sem hafa stýrt heiminum í trúarbrögðum og stjórnmálum hafa viljað koma auga á.
Annars hefði ekki verið þrælahald á fólki með litaða húð, það væri ekki enn verið að bíða með að leyfa frumbyggjum Ástralíu að fá það sem þeir eiga rétt á að fá en eiga samt eftir að fá til að vera séðir sem sami hluti af samfélaginu og við öll hin.
Þjóðin vill að það verði gert, en sumir í stjórnmálum eru með andlega meltingartregðu um það.
Og þannig mætti lengi telja um hvernig er verið að mismuna fólki sem er frá upphaflegum frumbyggjahópum jarðar, af þeim sem eru með hvíta húð og telja sig hærri í öllu í visku og þroska, en mannverurnar með öðruvísi litaða húð.
Hrokinn þar er sorglegur, og sýnir vanþroska og mistúlkun á hvernig allt heila náttúrukerfið virkar. Hvort sem við skoðum það í mannlífinu, eða öllu hinu lífríki jarðar sem og himingeims.
Við höfum lært um Indverja hann Mahatma Ghandi sem var merkileg sál, og við vitnuðum manngæsku Nelsons Mandela eftir að hann fékk lausn úr fangelsi eftir 27 ár eftir að hafa verið settur í fangelsi fyrir að berjast gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku.
Það að læra um hann láta fanga og þolendur glæpa þeirra sitja og horfast í augu við hvert annað og vitna ástæður fyrir gerðum og tilfinningar þeirra sem lifðu við afleiðingar hræðilegra glæpa. Atriði sem ætti að vera gert í öllum slíkum tilfellum þegar mögulegt er. Og litróf húðar hans var ekki hvítt.
Hann var ekki efni í stjórnmálamann, en hann var mannvinur. Ungir menn með litaða húð sem voru svo miklir kjánar að láta blekkja sig til að smygla dópi fyrir örfáa dollara sem laun sem þeir töldu að myndi redda þeim í fátækt sinni en vissu ekki að þeir væru þá að selja sál sína. Í fangelsinu voru þeir búnir að fara í algera yfirhalningu um sig og sinn innri mann, og að hjálpa öðrum í fangelsinu á Bali.
Þeir voru samt teknir af lífi þrátt fyrir hinar stórkostlegu framfarir í þroska og iðrun sem þeir höfðu sýnt, og fengið frábæra andlega aðstoð frá áströlskum listamanni sem heitir Ben Quilty. Við vorum öll í sjokki yfir þessu óréttlæti vegna þess hve mikið þeir höfðu unnið í sér og þroskast.
Allar þær fréttir sem hafa komið frá hinum ýmsu löndum heims um þessa húðlita-fóbíu sýna að trúarbrögðin hafa ekki skilið að manngæði eru í öllum litum, og slæmar mannverur koma líka í öllum litum, og þau með hvítu húðina ekkert meiri englar, en þeir sem hafa öðruvísi litaða húð. Við höfum séð margar konur frá Afríku sem búa hér, og eru með þá dekkstu húð sem til er, sýna í þátttöku sinni í ýmsu sjónvarpsefni, að þær væru stórkostlegir leiðtogar þjóða.
Það er hreinlega unaðslegt að vitna alla þessa dásamlegu einstaklinga sem veita ekki bara Ástralíu heldur öllu mannkyni þjónustu sína með þekkingu og mannkærleika. Það er fallegur þverskurður frá upprunalegu plani sköpunar.
Það er ungur maður með víetnamskan uppruna hér sem vinnur nú við að nota tækni þekkingu sína til að létta stórlega fötluðu fólki lífið með tækjum sem hjálpa þeim að tengja við bæði þeirra eigin hæfileika í tónlist eða öðru og svo til að tengja út í hinn ytri heim. Hlutir sem þeir sem lifðu í slíku ástandi um aldir höfðu ekki tækifæri til að gera.
Hann er hreinlega himnesk sál, og egó ekki greinanlegt frá honum. Og það er líka annar ungur maður frá Víetnam sem er lærður lögfræðingur en vann svo Master Chef fyrir einhverjum árum síðan, og gefur okkur innsýn í heim sinn um mat frá öllum mögulegum menningum.
Svo er enn annar ungur maður með litaða húð sem er söngvari en lyftir sálum ungra barna með því hvernig hann með öðrum kennir börnum að læra gildi tónlistar fyrir líf sitt. Hann var líka einn af þeim á The Voice hér og var ásamt Boy George með mun betri leið til að fá kúnnana sína, en önnur konan sem var með þeim.
Hann notar sumt af því fjármagni sem hann aflar til að reka athvarf fyrir konur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi. Og þannig gæti ég talið endalaust upp um meiriháttar sálir með allskonar húðliti sem eru hér til að bæta ástand mannkyns. Það er gaman að sjá Boy George aftur hér og sjá hvernig hann hefur þróast í gegn um árin frá því að muna eftir honum þegar hann kom fyrst fram áður en ég flutti hingað.
Hinn mikli ótti við veruleika litrófsins
Áður en ég kom hingað, upplifði ég að vitna mikla mismunun og vanþekkingu og fordóma í allavega sumum einstaklingum í íslensku þjóðinni um þetta með húðlitina. Og það kom mjög sterklega fram í senu sem gerðist á vinnustað mínum.
Kona sem vann á sama vinnustað og ég, var að segja okkur að systir sín væri að ættleiða börn frá landi þar sem börn hafa annan húðlit en Íslendingar höfðu haft. Þá hreinlega varð önnur kona æf, og hún öskraði: Hvernig dirfist hún að taka börn með annan húðlit inn í hið íslenska samfélag?
Það var hámark slæmrar spillingar í viðhorfi til húðarlits í heilabúi þeirrar konu. Blinda sem tilheyrir engan veginn því sem skaparinn hefur haft í sínu kerfi. En hvítt mannkyn bjó til handa sér og hefur haldið í um aldir.
Við sjáum það til dæmis í því að það sé í lagi fyrir hvítan lögreglumann í Ameríku að skjóta ungan mann með dökka húð burtséð frá hvort sá með dökku húðina hafa gert eitthvað rangt eða ekki. Þeir skjóta bara af því að þeim líkar ekki við brúnan húðlit, og sleppa við fangelsi. En ef það gerist á hinn veginn endar sá sem hefur brúnu húðina í langri fangelsisvist burtséð frá magni sektar.
Þessi hræðilega aðskilnaðarstefna er í gangi, þessi oftrú á hvítu holdi. Oftrú á að þeir sem hefðu og hafa hvítt hold væru og séu betri og hærri á mannlega skalanum, en þeir sem skaparinn hafði gefið aðra húðtóna af þeim ástæðum sem það var. Við munum kannski aldrei vita af hverju það var, þó að ég telji að það hljóti að vera tengt magni sólar á þeim hluta jarðar sem sá hópur skapaðist. Svo er hægt að hugsa sér að skaparinn hafi haft kímnigáfu og viljað láta mannkyn reyna á umburðarlyndi sitt? Og hefur trúlega alltaf einhverja tegund af kímnigáfu. Kímnigáfu sem við náum ekki alltaf að skilja.
Þeir með hvítu húðina hafa oft verið hræðilega grimmir við upprunalegu hópana í heiminum þegar þeir töldu sig meira útvalda af almættinu, af því að þeir höfðu hvíta húð. Það er í raun með ólíkindum að þeir höfðu ekki einu sinni næga forvitni um þessa einstaklinga. Eins og til dæmis ameríska Indíána, sem eins og ástralskir frumbyggjar skildu sköpun mun betur en hvítskinnungar gerðu.
Þeir sem höfðu meiri liti í húðinni og höfðu lifað í beinum og hollum tengingum við sköpun í náttúrunni og oft án húsa. Og sá hroki hvítra einstaklinga er enn í gangi. Eskimóar fengu samskonar meðferð.
Hinir sambýlisfélagarnir okkar á jörðu
Svo eru það dýrin, trén, skordýrin og allt umhverfið sem fólkið með hvítu húðina hafa verið hvað sekastir um að skaða í gegn um aldirnar. David Attenborough, Jane Goddall, Brian Cox og ótal aðrir eru að minna okkur á það að sjá fækkun allra dýra sem voru sköpuð í tilgangi fyrir jörðina og lífríkið. Og Gréta Thunberg að sjá um að heimurinn vakni úr dvala um hvernig við höfum komið fram við móður jörð. Gréta Thunberg, er líka að kalla á mannkyn að vakna til að sjá að jörðin var ekki búin til bara fyrir fólk nokkurra kynslóða til að eyða, drepa, og höggva niður.
Ég var svo sannarlega ekki vöknuð til þess sem hún skilur, þegar ég var á hennar aldri. Og ég myndi svo sannarlega hafa hrokkið í milljón bita ef ég hefði átt að ávarpa þjóðarleiðtoga heims.
Hún Gréta Thunberg er greinilega hér á jörðu í þessum tilgangi að vekja okkur enn betur upp úr eigin dekur-dái eftir að lið stjórnmálaaðila hafa skipt um skoðun, og vilja frekar lifa í eigin blekkingarkúlu, en hafa augun opin fyrir raunverulegu ástandi jarðar. Það er svo leitt að vitna suma leiðtoga gera lítið úr skilaboðum hennar.
Það er staðreynd að jörðin mun halda áfram að blómstra enn betur án okkar mannkyns en með, þegar við komum svona fram við hana. Og auðvitað eigum ég og mín kynslóð okkar skammt af sektinni í því með öllum öðrum sem komu á undan okkur, og settu iðnvæðinguna af stað. Þó að við höfum ekki öll drepið dýr, höggið niður tré, eða tekið málma úr jörðinni sjálf. En við höfum notað og keypt allt frá þeim í gegnum árin.
Það er sláandi að heyra suma stjórnmálamenn heims afneita að það sem er að gerast nú á jörðinni sé frá hlýnun af mannavöldum. Það er af því að þeir lifa í sinni eigin þægindaveröld, og geta ekki hugsað sér að það sé mannkyni að kenna að svona sé komið fyrir jörðinni.
Sú staðreynd að þeir sýndu meiri viðleitni til að viðurkenna slíkt fyrir nokkrum árum, en hafa svo skipt um skoðun. Sem er trúlega af því að það er of mikið í andlitið á þeim að verða að hugsa um það, og frá því að neyðast til að gerbreyta svo miklu í stefnu sinni um framkomu við umhverfið í stað þess að einblína bara á að bæta efnahagsástand.
Hvernig getum við vakið þessa menn?
Skógareldarnir sem hafa verið hér að undanförnu eru frá hlýnun jarðar og allir virðast sjá það og skilja, en forsætisráðherrann er í afneitun. Og það hugsanlega með stuðningi flestra í liði sínu, en samt ekki allra.
Það er með ólíkindum hræðilegt að hugsa um eitt hús brenna, hvað þá hundruð húsa og þá líka oft útihús, dýrin, trén, skordýrin og allt heila klabbið. Og þó að við höfum ekki haft eld hér í miðborg Adelaide, þá finnum við lyktina af reyknum frá „Kenguru Island“. Það eru engin orð til um sorgina sem það er að tapa öllu í slíkum bruna.
Tapið á fæðuframleiðslu allra þeirra bænda sem hafa búið við þurrk og svo margir líka skógarelda, minnir á þá staðreynd að án bænda er enginn matur. Án alls sem hægt hefur verið að rækta í þessu stórkostlega landi er mikið í hættu.
Af því að Ástralía var vön að sjá mörgum öðrum löndum fyrir fæðu af öllum tegundum, kjöti, grænmeti, ávöxtum og hnetum og fleiru kemur í ljós hvort að fleiri muni svelta vegna þess að þetta sólríka land geti ekki fætt allt þetta fólk lengur. Það væri hræðileg sorg og mikið tjón fyrir alla.
Ef enginn matur er til vegna þurrka og skógarelda, þá er ekkert líf heldur. En sumir af yngri kynslóðum eins og í Bandaríkjunum hafa haldið að maturinn væri búinn til í súpermörkuðum, eins og Jamie Olíver lærði um árið þegar hann fór til Ameríku að opna hug nemenda sem annarra með kærleika sínum og góðmennsku. Hann er svo sannarlega einn af englum jarðar.
Eins og að það eru dýr á jörðu sem eru rándýr, og vilja borða hin dýrin sem þau voru trúlega sköpuð fyrir, að þá eru til mannverur af öllum litbrigðum sem eru líka rándýr á sinn hátt, en sem þurfa þess þó ekki.
Þær mannverur eru oft að lifa frá þeirri hugsun sem er hin þekkta græðgi, og er að smáræna samfélög heims af lýðræðislegu réttlæti með svo mikið af peningum samfélaga enda í færri höndum en var um tíma, og sem er ekki réttlátt. Vvið tökum peningana ekki með okkur yfir um.
Ef vel efnaðir menn á Íslandi sem vilja ekki að skattpeninga þeirra sé notið í samfélaginu fyrir heilsugæslu og öðrum grunnþörfum, eru þeir að plata sjálfa sig. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að einn daginn geti þeir dáið fyrir aldur fram, af því að það er ekki hægt að sinna vandamáli þeirra á staðnum, á Íslandi og eiga að fljúga til annars lands sem heilsa þeirra hefur ekki tíma fyrir. Er það kannski hluti af kímnigáfu skaparans að sýna slíka satíru í verki?
Lífsviðhorf og verðmætamat mikilvægara en litur á húð
Þetta með litrófið í húðlitum mannkyns er eitt. Hverjir og hvernig hver einn og einstaka einstaklingur séu er svo annað og hvaða verðgildi viðkomandi hefur skiptir mun meira máli en hvernig viðkomandi er á litinn.
Spurningin er þá um það hvort að þau verðgildi passi sem viðkomandi hafi um lífið virki vel inn í það nýja samfélag sem viðkomandi einstaklingur vill komast inn í. Það er atriðið sem þarf frekar að skoða, en að meta eða dæma fólk eftir húðlit einum saman.
Við jarðarbörn getum aldrei nokkurn tíma skilið allt um hina stórkostlegu sköpun jarðar og umheims. Né af hverju sumir einstaklingar vilji kúga og drepa ótal mannverur, eins og hefur gerst víða um heim um aldir. Og engin mikil hönd hefur birst til að stöðva hvaða ósóma sem er í gangi.
Ekkert af því passar við loforðin sem prestar gáfu um árið í útvarpinu. Og engin stór himnesk hönd sá um að stoppa kynferðislegu misnotkunina heldur sem hefur verið í gangi, og það trúlega jafn lengi og mannkyn hefur verið til. En það mátti ekki orða slíkt fyrr en á síðustu árum.
Svo að eins og margir aðrir hafa vaknað til, sagði Stephen Hawking að almættið væri ekki eins vel skipulagt og trúarbrögð lofuðu. Það virðist ansi sönn skoðun, komandi frá manni sem skoðaði himingeiminn meira og betur en flest okkar. Og sá aldrei mikinn mann með grátt hár og svaka marga fingur til að vera inni í öllu mannkyni!
Hin ótal önnur tilbrigði sköpunar sýnileg sem og ósýnileg
Skapari og sköpun er ekki nein ein fjarstýrandi hönd eins og kennt var, heldur mjög flókið kerfi sem okkur sem erum á jörðu er ætlað að læra um í gegnum ævina sem og þess að gæta jarðar og nýta allt í hófi í því kerfi sem til er.
Það á líka við um að við nýtum sjötta skilningarvitið og sérstaka tegund af skynjun í hinum ýmsu einstaklingum sem hafa eins og Stephen Hawking heitinn fengið sína skammt af þeirri miklu og fjölbreyttu sköpun sem er bæði sýnileg sem og ósýnileg venjulegum augum í höfðum fólks. En hann fékk ekki skammtinn um þetta með sálir og ferðalög þeirra. Það hefði trúlega verið allt of stór skammtur. En milljónir einstaklinga hafa sjötta skilningarvitið án þess að vita að það sem þau skynja og vita sí svona, sé frá slíkum eiginleikum. Sumir hafa röntgen sýn inn í líkamann þegar hærri öfl orkusviða sjá þess þurfa.
Sjötta skilningarvitið birtist á mun fleiri vegu en nokkurn tíma hefur verið viðurkennt. Það er ekki nærri alltaf um að sjá dáið fólk, það getur verið um svo margt annað, eins og það að sjá dýpra inn í hluti í lífinu á heimilum og víðar. Og að sjá eða skynja og lesa sögu viðkomandi mannveru úr orkuhjúpnum sem geta verið fyrri lífa reynsla þeirra, eða frá þessu lífi. Það getur líka sýnt sig í að vera frábær í einhverju fagi, og fá sýn um hluti sem koma eins og þeir séu frá framtíðinni.
Það getur birst beint inn á rökhyggjusvið frekar en tilfinningasviðið, eða bæði hvolfin á sama tíma, og eru þá eitt. Það er mjög líklegt að ýmsar stórkostlegar byggingar eins og hið fræga og þekkta Óperu- og leikhús hér í Sydney virðist vera frá og það í gegnum danskan arkitekt. Svo er það tækni, listir, og annað sem hefur komið inn í heilabú viðkomandi einstaklinga á þann hátt.
Þá birtist það sem hugsanaflutningur frá þeim sem hafa eitthvað nýtt að færa þeirri mannveru um það sem þeim er líklegt hlutverk og tilgangur þeirra til þjónustu við mannkyn.
Hinar ótal orkutegundir sem mismunandi einstaklingar skynja og ótal tíðnisvið sem eru í hinum svokallaða ósýnilega heimi eru eins og þau eru, af því að það þarf að skynja þau í gegnum aðrar skynjunarleiðir en hin venjulegu augu ná.
Þau eru skynjuð með orkuhjúpum og öðrum atriðum í mannverum sem er erfitt að finna rétt orð yfir. Það getur birst í að manneskja bara viti og svo kemur í ljós að það sem viðkomandi vissi var sannanleg staðreynd. Ég hef fengið slíka upplifun. Það eru milljónir einstaklinga í heiminum sem skynja slíka hluti og nýta á sinn hátt í þjónustu og vinnu.