Hér að neðan er almenn umsögn stjórnenda Kjarnans miðla við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum. Kjarninn miðlar ehf. leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að endurgreiðsluhlutfallið verði á ný hækkað úr 18 í 25 prósent, líkt og nefnd um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem skipuð var af Illuga Gunnarssyni, þáverandi menntamálaráðherra og þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og starfaði undir formennsku Björgvins Guðmundssonar, lagði til í skýrslu sinni sem skilað var í janúar 2018.
Engin sýnileg rök voru færð fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu frá því að því var dreift á Alþingi og þar til að það komst á dagskrá. Ljóst er að breytingarnar draga úr áhrifum stuðningsgreiðslna á þá fjölmiðla sem uppfylla sett skilyrði um stuðning en geta átt von á lægri stuðningsgreiðslum en 50 milljónum króna. Ef endurgreiðsluhlutfallið er hækkað aftur í 25 prósent mun það skila öflugri og fjölbreyttari fjölmiðlaflóru, sterkari lýðræðisstoðum, fleiri krónum aftur í ríkissjóð í formi aukinna skattgreiðslna samhliða vexti og fleiri störfum fyrir metnaðarfulla blaðamenn.
Endurgreiðslur vegna ritstjórnarkostnaðar stærstu fjölmiðla landsins verða hins vegar þær sömu óháð því hvort að hlutfallið verði 18 eða 25 prósent. Breytingin hefur því engin áhrif á þá.
Frekari rökstuðningur
Kjarninn miðlar ehf., útgefandi Kjarnans og Vísbendingar, telur að frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á lögum um fjölmiðla, sem hefur það markmið að koma á stuðningi við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis, sé gott fyrsta skref í átt að því að bæta íslenskt fjölmiðlaumhverfi. Núverandi rekstrarumhverfi fjölmiðla er í margskonar ólagi vegna ýmissa þátta.
Fyrst ber að nefna að umhverfið hefur kúvenst vegna tækni- og upplýsingabyltingarinnar sem hefur gerbreytt neytendahegðun og haft mikil neikvæð áhrif á hefðbundin tekjumódel fjölmiðla. Fyrir vikið vilja færri greiða fyrir fréttir og fréttavinnslu og það hefur gert það að verkum að nýjar tegundir miðla, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.
Allt ofangreint sýnir að það er löngu orðið tímabært að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að laga þetta rekstrarumhverfi. Eitt slíkt skref er það frumvarp sem nú er til umræðu og því ber að fagna að frumvarpið sé loks komið í farveg. Stjórnendur Kjarnans styðja það að uppistöðu og telja að það muni stuðla að heilbrigðara og sterkara fjölmiðlaumhverfi. Rök um að í stuðningi hins opinbera við fjölmiðla, sem er sambærilegur og við ýmsar aðrar greinar sem njóta endurgreiðslna á kostnaði, felist hætta á að það dragi úr aðhaldi fjölmiðla gagnvart ríkjandi stjórnvöldum hverju sinni standast illa enda er um að ræða aðgerð sem hefur verið beitt í nágrannalöndum okkar um lengri tíma með góðum árangri.
Því ber sérstaklega að fagna að skýr skilyrði séu sett fyrir því að geta sótt um stuðningsgreiðslur. Þar skiptir mestu máli að gerð sé krafa um að öll opinber gjöld séu í skilum og að tiltekin rekstrarsaga sé til staðar áður en fjölmiðill telst stuðningshæfur.
Á frumvarpinu eru hins vegar vankantar sem tíundaðir verða í þessari umsögn og færð rök fyrir af hverju það sé æskilegt að þeir verði sniðnir af.
Of langt ferli
Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kom fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra. Frumvarpið byggir á vinnu þeirrar nefndar.
Það rekstrarumhverfi sem íslenskum einkareknum fjölmiðlum er sniðið er auk þess ólíkt því sem tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þannig eru beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla á öllum Norðurlöndunum, í Frakklandi, Lúxemborg, Lettlandi og Ítalíu.
Á hinum Norðurlöndunum, sem eru þau samfélög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einkarekinna fjölmiðla aftur til ársins 1990. Í Noregi og Svíþjóð hefur stuðningurinn verið aukinn umtalsvert undanfarin misseri. Dönsk stjórnvöld kynntu einnig aðgerðir til að bregðast við rekstrarstöðu fjölmiðla á árinu 2018, sem fólust meðal annars í því að draga saman umfang DR, danska ríkissjónvarpsins.
Undirliggjandi var að tryggja að gagnrýnin umræða, aðhald, fjölbreyttar skoðanir og sjónarmið, menningarleg fjölbreytni, rannsóknarblaðamennska séu grundvöllur hvers lýðræðisríkis. Til þess að ná því markmiði þurfa fjölmiðlar að vera fjölbreyttir og í eigu ólíkra aðila.
Í kjölfarið var ráðinn verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd til að safna saman gögnum sem nýttust við að kortleggja stöðuna í fjölmiðlaumhverfinu og hver mögulegur kostnaður við aðgerðir yrði.
31. janúar 2019 kynnti Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drög að frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar og eftir samráðsferlið voru gerðar breytingar á frumvarpinu.
Ný útgáfa af fjölmiðlafrumvarpinu var kynnt á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí. Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20. maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi.
Í haust stóð til að mæla fyrir málinu í september en því var sífellt frestað. Loks tókst að mæla fyrir frumvarpinu 16. desember 2019, en það hafði þá enn tekið umtalsverðum breytingum, sem snéru sérstaklega að því að lækka endurgreiðsluhlutfall.
Stjórnendur Kjarnans benda á að þetta ferli hefur tekið langan tíma miðað við hversu lýðræðislega mikilvægt það var talið af nefndinni að ráðast í aðgerðir. Ferlið hefur staðið yfir á meðan að þrír mismunandi ráðherrar hafa setið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu (Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson og Lilja D. Alfreðsdóttir).
Þessi langi tími gerir það líka að verkum að nær ómögulegt er fyrir rekstraraðila fjölmiðla í vexti að skipuleggja rekstur sinn með vitrænum hætti þar sem óvissa ríkir um hvort að aðgerðir muni líta dagsins ljós og hvers eðlis þær verða.
Því er nauðsynlegt að afgreiða málið nú hratt og örugglega.
Markaðsbjögun í boði hins opinbera
Það er ekki síst mikilvægt að laga rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla nú vegna afleiðinga aðgerða, og aðgerðarleysis, hins opinbera síðastliðinn rúma áratug. Það ríkja engar eðlilegar leikreglur á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í stað þess að jafna þá stöðu sem þar er uppi, og gefa öllum tækifæri til að keppa á sömu forsendum, hefur hið opinbera lagt sitt að mörkum til að stuðla að enn frekari markaðsbjögun.
Hér verða nefnd nokkur dæmi um þetta.
Í fyrsta lagi hefur það viðgengist að huldumenn fjármagni rekstur fjölmiðla án þess að eftirlitsstofnanir grípi þar inn í. Með því er hægt að fela raunverulegt eignarhald fjölmiðla, sem hlýtur að teljast lýðræðisleg ógn undir öllum kringumstæðum. Þessi staða hefur valdið öðrum fjölmiðlafyrirtækjum sem reyna að reka sig heiðarlega, með gagnsæjum hætti og með sjálfbærni að leiðarljósi, miklum skaða.
Í öðru lagi ber að nefna allskyns meðgjöf sem ríkið hefur, beint og óbeint, veitt völdum fjölmiðlafyrirtækjum á síðastliðnum rúma áratug, á kostnað hinna sem við þau keppa. Birtingarmynd hennar er meðal annars sú að valdir fjölmiðlar hafa notið umfram stuðnings frá hinu opinbera með því að ríkið, stofnanir, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög kaupa mikið magn af auglýsingum í þeim. Þar er sannarlega ekki unnið eftir neinu heildrænu skipulagi og við blasir að ákveðnir fjölmiðlar hafa fengið mun meira í sinn hlut af því auglýsingafé en aðrir. Þar er um að ræða hundruð milljóna króna á ári.
Þá er rétt að nefna að skattgreiðendur hafa borið árlegan kostnað af því að urða dagblöð og frípóst þar sem slíkur kostnaður hefur gallið á fyrirtæki í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Í þriðja lagi ber að nefna að bankar sem eru í dag í ríkiseigu afskrifuðu milljarða króna af skuldum tveggja stórra fjölmiðlafyrirtækja á árunum eftir bankahrun.
Stuðla verður að aukinni fjölbreytni og styrkja fyrirtæki í vexti
Fjölmiðlar verða að vera fjölbreyttir og í eigu ólíkra aðila. Það er undirstaða sterks aðhalds og að lýðræðið virki eins og það á að gera. Þær aðgerðir sem nú er rætt um eiga að styðja við grasrót fjölmiðla. Þær skipta minni miðla, og sérstaklega staðbundna landsbyggðarfjölmiðla og sérhæfðari miðla, miklu máli. Í sumum tilvikum er um lífsspursmál að ræða, líkt og komið hefur fram í umsögnum stjórnenda slíkra miðla. Endurgreiðslukerfi gerir þeim kleift að vaxa og fá meiri sjálfstæðan slagkraft. Nýlegar breytingar á frumvarpinu lækka greiðslur til þessara aðila, þeirra sem fara ekki yfir 50 milljóna króna endurgreiðsluþakið, um 20 prósent. Breytingarnar hafa hins vegar engin áhrif á greiðslur til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna þriggja (Árvakurs, Torgs og Sýnar). Þeir fá áfram sem áður sínar 50 milljóna krónahámarksgreiðslur.
Þumalputtareglan segir að það eigi að vökva sprota. Það er gert með sambærilegu endurgreiðslukerfi fyrir rannsóknir og þróun, kvikmyndagerð og vegna bókaútgáfu. Það skilar fjölbreyttari fjölmiðlaflóru, sterkari lýðræðisstoðum, fleiri krónum aftur í ríkissjóð í formi aukinna skattgreiðslna samhliða vexti og auðvitað fleiri störfum fyrir metnaðarfulla blaðamenn.
Auk þess er vert að benda á að endurgreiðslur til þeirra fjölmiðla sem eru vel undir endurgreiðsluþakinu geta líka hvatt til frekari fjárfestinga hluthafa eða annarra fjárfesta í þeim, þar sem fyrir liggur að 18-25 prósent af henni bætist við þá fjárfestingu árlega, verði frumvarpið að lögum.
Fylgið ábendingum Björgvinsnefndarinnar
Vert er að benda á að nefndin sem skipuð var til að greina rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi, og starfaði undir þremur ráðherrum, komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, sem skilað var í janúar 2018, að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða. Í skýrslu hennar sagði orðrétt: „Niðurstaða nefndarinnar er að þótt fjölmiðlaumhverfi á Íslandi sé á margan hátt fjölbreytt, sé tekið tillit til mannfæðar, þá dylst engum að rekstur einkarekinna fjölmiðla er erfiður. Rekstrarerfiðleikar fjölmiðla gefa hinu opinbera tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.“
Hún lagði til tillögur í sjö liðum um aðgerðir til að bæta rekstrargrundvöll fjölmiðla:
- Ein tillagan fól í sér stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla að norrænni fyrirmynd. Það er sú sem er til umræðu í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Afar mikilvægt er að byggja á grunninum sem vinna nefndarinnar lagði og ráðast í þær tillögur sem hún lagði fram hverja og eina, en ekki að nálgast viðfangsefnið eins og ein tillaga geti komið í stað annarrar. Þannig geta breytingar á veru RÚV á auglýsingamarkaði til að mynda ekki komið í stað stuðningskerfis. Til að stuðla að heilbrigði í rekstrarumhverfi fjölmiðla, stórra sem smárra, þarf að ráðast flestar tillögurnar.
- Önnur tillaga nefndarinnar fól í sér að breyta þyrfti stöðu RÚV á auglýsingarmarkaði. Stjórnendur Kjarnans styðja að ráðist verði í þær breytingar, samhliða því að staða RÚV verði varin, þrátt fyrir að mat sérfræðinga sé það að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði muni ekki skila Kjarnanum neinum viðbótartekjum sem máli skipta, heldur fyrst og síðast styrkja rekstrargrundvöll stærstu ljósvakafjölmiðla landsins. Að mati stjórnenda Kjarnans eru allar aðgerðir sem gera fjölmiðlaumhverfið í heild sterkara, góðar aðgerðir, og því styðja þeir sterkari rekstrarstoðir stórra samkeppnisaðila okkar. Það er hins vegar mikilvægt að þessari tillögu sé ekki blandað saman við þá fyrri, sem hefur annan tilgang og þarf að útfærast á jafnræðisgrundvelli svo hún nái markmiði sínu.
- Þriðja tillaga nefndarinnar, um að lækka virðisaukaskatt á áskriftir, hefur þegar verið hrint í framkvæmd með frumvarpi sem var samþykkt á árinu 2018, og færði virðisaukaskatt á vefáskriftir úr 24 prósentum í 11 prósent. Stjórnendur Kjarnans styðja þessa aðgerð þótt hún hafi helst gagnast stórum samkeppnisaðilum hans, sökum þess að hún stuðlaði að betra rekstrarumhverfi fyrir fjölmiðla í heild.
- Fjórða tillaga nefndarinnar snéri að því að heimila áfengisauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum. Fullt tilefni er til þess að taka vitræna umræðu um kosti og galla þess fyrirkomulags sem nú ríkir um slíkar tegundir auglýsinga á vettvangi stjórnmála.
- Fimmta tillagan snérist um gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum. Nefndin lagði til að settar yrðu skýrar reglur um gagnsæi í auglýsingakaupum hins opinbera þannig að opinberum aðilum beri að birta sundurliðaðar upplýsingar um kaup á auglýsingum. Stjórnendur Kjarnans styðja að öllu leyti að ráðist verði í þá vinnu sem allra fyrst að gera þá tillögu að veruleika.
- Tvær af sjö tillögum nefndarinnar snúa að textun og talsetningu, sem snerta ekki rekstur Kjarnans með neinum hætti og því ekki viðeigandi að við séum að lýsa skoðunum okkar á þeim.
Hvað vilja stjórnmálamenn?
Samandregið þá eru þetta einfaldar spurningar sem þið stjórnmálamenn standið frammi fyrir: Viljið þið sterka, sjálfstæða fjölmiðla? Teljið þið þá mikilvæga lýðræðinu?
Ef svarið er já þá ættuð þið að styðja þetta frumvarp með breytingum þar sem endurgreiðsluhlutfallið er hækkað á ný og beita ykkur svo fyrir viðbótarleiðum til að bæta rekstrarumhverfi þeirra, stórra sem smárra, með því að ráðast í framkvæmd á fleiri af þeim tillögum sem Björgvinsnefndin lagði til.
Það frumvarp sem nú er til meðferðar býr til sterkari grunn fyrir fjölbreyttari fjölmiðlaflóru og hjálpar sérstaklega minni miðlum í vexti að styrkjast og vaxa. Það er gríðarlega hagkvæmt fyrir hið opinbera, enda skilar það fleiri skattkrónum aftur til baka.
Lýðræði þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla. Þeir eiga verulega undir högg að sækja. Uppsagnir blaðamanna með áratuga reynslu og þekkingu á undanförnum misserum sýna það ásamt þeim viðvarandi spekileka sem orðið hefur á síðustu árum þar sem frábærir blaðamenn skipta um starfsvettvang vegna þess að laun, vinnuaðstæður, rekstrarumhverfi og almennt áreiti sem fylgir því að vera gagnrýninn fjölmiðlamaður í örsamfélagi reyndist þeim um megn.
Styðjið þá.
Um Kjarnann
Kjarninn verður sjö ára í sumar. Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum. Að upplýsa almenning í stað þess að einblína á að skapa vefumferð. Þar er lögð áhersla á umfjöllun um alþjóðamál, innlenda þjóðmálaumræðu, viðskipti, efnahagsmál, stjórnmál og loftlags- og umhverfismál.
Fjölmiðlafyrirtækið hefur frá upphafi einbeitt sér að því stuðla að nýsköpun í rekstri í stað þess að treysta á eldri viðskiptamódel sem virðast vera úr sér gengin að mestu leyti. Í þeirri hugmyndafræði felst meðal annars að nýta sér stafrænar dreifingarleiðir eins vel og hægt er til að kostnaður við dreifingu verði í algjöru lágmarki. Í því samhengi má benda á að laun starfsmanna og verktaka Kjarnans mynda um 90 prósent af rekstrarkostnaði hans. Það þýðir að annað, t.d. húsaleiga, skrifstofuhald og dreifingarkostnaður, er einungis um tíu prósent. Með því nýtist fjármagnið sem Kjarninn aflar sér til þess, fyrst og síðast, að búa til efni og greiða góðum blaðamönnum laun.
Kjarninn rekur fréttavef þar sem lögð er áhersla á mun færri en ítarlegri efni en aðrir daglegir fréttamiðlar á Íslandi bjóða upp á. Á árinu 2019 birtust alls 432 fréttaskýringar á Kjarnanum og 2.430 fréttir. Kjarninn vill líka vera vettvangur umræðu og á árinu hafa 581 skoðanagreinar verið birtar, langstærstur hluti þeirra eru aðsendar greinar og stór hluti þeirra frá sérfræðingum. Skoðanaefni ritstjórnar, leiðarar og önnur skrif þar sem skoðanir ritstjórnar birtast eru 1,7 prósent af öllu birtu efni Kjarnans, sem voru 3.556 talsins á árinu sem nú er nýliðið.
Kjarninn hefur líka farið nýjar leiðir í að byggja upp tekjustoðir. Frá því í lok árs 2016 hefur Kjarninn boðið lesendum sjálfum að styrkja miðilinn. Slíkt tekjumódel, sem útilokar ekki ógreiðandi frá því að lesa Kjarnann, hefur notið sífellt meiri hylli víða um heim á undanförnum árum. Á meðal þeirra sem byggja á því eru stórmiðlar á borð við The Guardian í Bretlandi og NPR í Bandaríkjunum. Kjarninn var fyrsti fjölmiðillinn á Íslandi sem byggði upp slíka rekstrarstoð og sá eini sem hefur getað gert hana að undirstöðu í sínum rekstri. Eins og staðan er í dag kemur rúmlega helmingur af öllum rekstrartekjum Kjarnans úr Kjarnasamfélaginu.
Kjarninn hefur einnig gefið út gjaldfrjálsan morgunpóst með helstu fréttum gærdagsins af miðlinum frá árinu 2014. Nú eru áskrifendur að honum um sex þúsund talsins og opnunarhlutfallið langt yfir því viðmiði sem þykir eftirsóknarvert á alþjóðavísu. Ljóst er því að þjónustan fellur notendum mjög vel í kramið.
Þá var Kjarninn brautryðjandi í hlaðvarpsgerð á Íslandi, en líkast til er ekki meiri gróska í neinum anga fjölmiðlunar á Íslandi í dag en henni. Fyrstu hlaðvörp Kjarnans voru send út á árinu 2014. Í dag eru reglulega allt að tíu mismunandi hlaðvörp á dagskrá Kjarnans vikulega.
Þá gefur Kjarninn út Vísbendingu, vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun, og ensk fréttabréf. Báðar þær vörur eru seldar í áskrift.
Kjarninn er vaxandi miðill, sem gerir sífellt meira á hverju ári sem líður. Hann stækkar á hverju ári. Og hver ný króna sem kemur inn í reksturinn er nýtt til að ráða fleira starfsfólk, framleiða meira og betra efni og þar af leiðandi þjóna betur okkar lýðræðislega hlutverki sem í felst að veita aðhald, upplýsa almenning, setja hlutina í samhengi og segja satt og rétt frá.
Af ofangreindu má ljóst vera að Kjarninn hefur bætt miklu við íslenska fjölmiðlaflóru frá því að miðlinum var hleypt af stokkunum. Á Kjarnanum eru starfsmenn sem eru með yfir 70 ára samanlagða reynslu í blaðamennsku. Kjarninn hefur hlotið tilnefningu til Blaðamannaverðlauna á hverju ári síðan að hann varð til. Tvívegis hafa starfsmenn hans hlotið verðlaunin á þessum nú rúmu sex árum. Þá eru bara taldir til fastir starfsmenn, ekki skrifandi verktakar sem sumir hverjir búa einir og sér yfir áratuga reynslu. Síðast þegar traust til fjölmiðla var mælt heildrænt mældist Kjarninn sá miðill sem næst fæstir vantreystu, á eftir RÚV, og Kjarninn var eini miðillinn í efstu átta sætunum í þeirri traustkönnum sem bætti við sig trausti milli ára.
Höfundar eru ritstjóri og framkvæmdastjóri Kjarnans. Kjarninn miðlar er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir endurgreiðslu í frumvarpinu og því mun samþykkt þess hafa fjárhagsleg áhrif á rekstur fyrirtækisins.