Þessi grein er um blóðmerahald á Íslandi og líftækniiðnað, sem skipulega er haldið leyndu fyrir þjóðinni af hagsmunaaðilum og stjórnvöldum. Síðar í greininni er útskýrt hvað blóðmeri er. Hvernig hún er misnotuð, meðferð á blóðmerum og folöldum þeirra, aðbúnaði, aðstöðuleysi og svívirðilega ágengni manna á líkamleg þolmörk þeirra.
Alheimsvirðing íslenskrar hrossaræktar á undir högg að sækja
Íslenska hrossið nýtur mikillar virðingar á heimsvísu. Þegar best lætur á Íslandi er aðbúnaður og framkoma mannsins við hross til mikillar fyrirmyndar, langt umfram það, sem lög krefjast og gott siðferði gerir tilkall til. Þá ímynd verður að vernda og hrossinu ber að sýna þakklæti og virðingu. - En svo er því miður ekki alls staðar á Íslandi.Blóðmerin er tilraunadýr til að auka kjötframleiðslu
Blóðmerahald er iðnaður, skilgreindur, sem tilraunadýrastarfsemi af Matvælastofnun (MAST) og hefur þann eina tilgang, að framleiða hormónið, PMSG, hvata til að auka frjósemi í svínaeldi til manneldis.Skilgreining MAST, framkvæmdaaðila laga um velferð dýra, er, hóflega til orða tekið, mjög umdeild, enda viðurkennir stofnunin, að aðförin að blóðmerum sé á mörkum þess, að stangast á við ákvæði laga um velferð dýra. Á gráu svæði. Lögin eiga samt að tryggja átta þátta grundvallarvelferð allra dýra, sem þau eiga að vernda. Samkvæmt vitnum með yfirburðaþekkingu er vegið verulega að fimm þessara þátta í umgengni við blóðmerar og folöld þeirra þ.e.:
að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli
og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið
laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
- sbr. 1. gr. laga um velferð dýra.
Að vetri bætast jafnvel atriðin hungur og þorsti við, enda er vanræksla alltof margra í þeim efnum landsþekkt. - Þá fer mælirinn, semsagt að verða fullur eða 7/8 og meginreglan að engu höfð.
Þegar dýraníð verður grundvöllur iðnaðar
Skrif þessi beina athyglinni að dýraníði þessa iðnaðar, sem um ríkir skipulögð umfangsmikil þöggun hagsmunaaðila, landbúnaðarráðherra og MAST. Af hverju það er svo skýrist betur síðar í greininni. Upplýsingabrunnur greinarinnar er áreiðanlegur. M.a. er byggt á nýlegum rannsóknum erlendra dýraverndarsamtaka á Íslandi sl. haust og ýmsum öðrum gögnum og áralangri almennri vitneskju um eðli blóðmeraiðnaðarins, sem svo hljótt hefur farið um hérlendis. Á meðal gagna má nefna fjölda fréttaskýringaþátta frá virtum þýskum sjónvarpsstöðvum.Um hvað snýst blóðmeraiðnaðurinn?
Byrjum á byrjuninni. ,,Lög um velferð dýra boða meginregluna, sem getið var í upphafi. - Allt sem er undirstrikað á við um að brotið sé á merum í blóðmerabúskap á Íslandi skv. vitnum með góða þekkingu í hrossahaldi.Andi, tilgangur og markmið laga um velferð dýra er ótvíræður og skýr enda sagði flutningsmaður laganna og þáverandi landbúnaðarráðherra Steingrímur J. Sigfússon úr ræðustól þegar hann mælti fyrir lögunum 2012: ,,að engan afslátt skyldi nú lengur gefa þegar kæmi að dýravernd".
Raunin hefur orðið önnur i tilviki blóðmera. Sem lögfræðingur með sérþekkingu á lögum um velferð dýra held ég því hiklaust fram, að unnið sé þvert gegn framangreindum viðmiðum í ýmsum greinum búfjárhalds á Íslandi, ekki bara í blóðmerabúskap. Ég hef raunar síðan 2012 haldið því fram og margoft rökstutt að lögin séu sniðin að búfjáreldi til manneldis og þeim hörmungum og virðingarleysi fyrir lífi dýra, sem því fylgir. - Lögin séu til þess fallin að varpa dýrðarljóma á búfjáreldi svo neytendur geti áfram (með góðri samvisku ) notið neyslu sinnar á afurðum úr þessari átt og með því reyna framleiðendur að draga hugsun þeirra frá uppruna og ferli hvers kjötbita eða annara afurða frá búfé. Því sem ég kalla: Hinni leyndu þjáningu búfjár á Íslandi - fyrirsögn lokaverkefnis míns um dýravernd á Íslandi við lagadeild Háskólans í Reykjavík árið 2012.
Blóðmerar þolendur hins harða heims útigangs
Blóðmerar eru útigangshryssur. Úti allt árið við afar misjafnar aðstæður. Við þessar aðstæður er skylda skv. lögum að veita þeim gott skjól, gegn veðrum, fóður og vatn. Það heyrði til undantekninga að samstarfsaðilar mínir sæju kröfuna um skjól uppfyllta en þeir höfðu viðkomu á um 40 stöðum blóðmerastóða hvar haldnar voru hundruð mera ásamt folöldum. Það kom og á daginn í nýlegu óveðri að hross gátu ekki veit sér skjól og drápust, hægum kvalafullum dauðdaga, þvert á ákvæði dýraverndarlaga. Margoft hefur verið gagnrýnt af ýmsum aðilum hvernig mörg útigangshross eru auk þess vanrækt að vetri til varðandi vatns og heygjöf.Iðnaðarþrælarnir blóðmerar og folöld þeirra
Blóðmerar eru gerðar fylfullar með reglulegu millibili til þess að líkami þeirra geti hafið framleiðslu blóðs, sem inniheldur PMSG, „gullmola" líftæknifyrirtækja, sem veitir þeim milljarðahagnað á ári hverju með fjöldaframleiðslu þess. Blóð er tekið úr merum í tuglítratali yfir sumarmánuðina. Þegar folald þeirra er orðið nokkurra mánaða gamalt er ýmsar sviðsmyndir mögulegar skv. mínum heimildarmönnum. Það er skotið á staðnum og látið liggja þar til móðir þess gefst upp, klárar sorgarferil sinn. Það er jafnvel framkvæmd fóstureyðing og svo hægt sé að sæða hryssuna aftur. Þau folöld sem fæðast eru grafin úti í haga eða það er tekið af móður þeirra og sent í sláturhús. Það skýrir gnægt framboð á ódýru hökkuðu kjöti á haustin.
Blóðmerar njóta lítillar verndar dýravelferðarlaga
Þessi magnaða, virðulega og tilfinningaríka dýrategund, sem hrossið er, ber að vernda eins og lög um velferð dýra og reglugerð um hrossahald skyldar. Heimsókn hinna virtu dýraverndarsamtaka Animal Welfare / Tierschutzbund Zürich (AWF/TZ) til Íslands sl. haust í þeim tilgangi að rannsaka íslenska blóðmeraiðnaðinn leiddi annað í ljós. Samtökin hafa náð eftirtektarverðum árangri i dýravernd m.a. í samvinnu við virtar þýskar sjónvarpsstöðvar og tengsl við áhrifafólk í innsta kjarna Evrópusambandsins. Markmið þeirra er að blóðmerabúskapur leggist af á Íslandi eins og annars staðar í heiminum enda þvert á alla viðurkennda nútímahugmyndafræði um dýravernd. Það er því í höndum alþingis að stöðva þessa brútal meðferð á dýrum og siðlausa nýtingu manna á blóði þeirra þvert á fyrirmæli setts réttar.Á tveggja vikna ferðalagi AWF/TZ um landið og skoðun á vinnubrögðum og aðstöðu við blóðtöku úr blóðmerum kom ýmislegt í ljós, sem óskað var eftir, af hagsmunaaðilum, að ekki lyti dagsins ljós. Svo ofsafengin voru viðbrögð nokkurra aðila, að gerðar voru tilraunir til að þvinga þau til að hætta rannsóknum sínum og þeim ráðlagt að halda til sinna heimahaga. Þ.á.m. var dæmdur ofbeldismaður, eigandi stórs blóðmerastóðs á suðurlandi.. Sætti það nokkurri furðu hjá þeim að Matvælastofnun skuli heimila honum dýrahald.
Umdeilt og aflagt erlendis
Iðnaður þessi er mjög umdeildur erlendis og hefur opinberun hans, af dýraverndarsamtökum í samvinnu við sjónvarpsstöðvar, leitt til þess að hann hefur verið aflagður vegna hinnar illu meðferðar á merum og afkvæmum þeirra. Þá telst tilgangur framleiðslu PMSG, af líftæknifyrirtækjum og þátttaka hrossabænda, á mörkum góðs siðferðis og hjá hagsmunaaðilum á ,,gráu svæði" eins og þeir kjósa líka að orða það sjálfir.- Það vekur því nokkra furðu að íslenskir dýralæknar skuli fást til að taka þátt í þessum óyndisiðnaði horft til þess eiðs, sem þeir samþykkja þegar þeir þiggja dýralæknaleyfi sitt frá stjórnvöldum. Dýralæknar einir mega framkvæma blóðtökuna. Þar virðist því fjárhagsleg hagsmunagæsla þeirra ganga framar meginreglum laga um velferð dýra og laga sem gilda um dýralækna. Gengið hefur verið á dýralækna um skýringar á þessu óvenjulega háttalagi þeirra en þeir færast undan að svara. Í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, 2. gr. stendur:Dýralæknar og heilbrigðisstarfsmenn dýra skulu standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari og velferð þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra.
Ekki er hægt að komast að þeirri niðurstöðu, í lögfræðilegum skilningi, að tuglítra blóðtaka úr merum með folöld falli undir það, sem 2. gr. fyrrnefndra laga boðar. Það er því litið svo á af löggjafanum að brot á lögum um dýralækna séu verulega ámælisverð en greinir hljóðar svo:
Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum gefnum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar.
Fjandsamlegt samþykki MAST
Með góða þekkingu á tilgangi og markmiðum laga um velferð dýra, tel ég sterk rök fyrir því að þessi iðnaður stangist á við meginreglur þeirra laga. Um það sannfærðist ég eftir margra daga rannsóknarvinnu AWF/TZ sl. haust og ég liðsinnti auk þess sem þau, nutu aðstoðar erlends lögmanns, sem þekkir vel til innviða hrossaræktar á Íslandi. Vegna þess á hve gráu svæði þetta er gagnvart lögum um velferð dýra og án nokkurs vafa vegna þrýsting frá hagsmunaaðilum er MAST neytt til að fella þetta undir ákvæði einhverra laga. Fyrir valinu varð ákvæði í lögum, sem fjallar um tilraunadýr og á ekkert skylt við það fjandsamlega inngrip í velferð mera, sem blóðmeraiðnaðurinn er. - Ég segi bara það var og! - Þegar yfirdýralæknir á í hlut kemur fátt á óvart, en hann ásamt landbúnaðarráðherra bera að lokum ábyrgð á þessari ámælisverðu sniðgöngu stjórnvalda á lögum um velferð dýra. - Verst er þegar önnur stjórnvöld láta sér fátt um finnast þó upplýst sé um svona.Dýraverndarsamband Íslands styður dýraníð blóðmeraiðnaðarins
Frá 2007 má segja að Dýraverndarsamband Íslands hafi verið krypplingur í dýravernd. Það ár lést þáverandi leiðtogi íslenskrar dýraverndar frú Sigríðar Ásgeirsdóttir og við tók hörmungarsaga, sem engan endi virðist ætla að taka. Félagið er slagkraftslaust en um átakanlegt framtaksleysi stjórna þess félagsskapar, svik o.fl. síðustu áratugi mun ég fjalla á næstunni til að varpa ljósi á hvers vegna dýravernd hérlendis er svo langt á eftir t.d. í samanburði við nágrannalönd okkar. Ætla þó, að fjalla hér stuttlega um stuðning þess við blóðmeraiðnaðinn.28. ágúst 2017 sat fulltrúi Dýraverndarsambandsins (DÍ) fund Fagráðs um dýravelferð. (Fagráðið er skipað af ráðherra og með mikilli einföldun ráðgjafi MAST um álitaefni sem varða dýravernd).
Fulltrúi DÍ er doktor Ólafur nokkur Dýrmundsson, fyrrverandi formaður DÍ og fyrrv. starfsmaður Bændasamtakanna. Auk hans sátu fundinn fulltrúi Dýralæknafélags Íslands, Katrín Andrésdóttir, dýralæknir frá MAST, Þóra Jónasdóttir og siðfræðingur frá HÍ, Henry Alexandersson. Formaður ráðsins, yfirdýralæknir, Sigurborg Daðadóttir, nú ný krýnd riddarakrossi fyrir framlag til dýraverndar, virðist hafa verið víðs fjarri og engin boðaður í hennar stað skv. fundargerð.
Í fundargerðinni kemur fram: „Umræður um hvort „blóðhryssur“ falli undir nýja reglugerð um notkun dýra í vísindalegum tilgangi, Fagráðið túlkar reglugerðina þannig að svo sé". (engin Fagráðsaðila hefur menntun í lögfræði, sex ára+ háskólanám) Einhver brjálaðasta niðurstaða í lögfræði, sem ég hef séð. Barnaskólabörn hefðu aldeilis komist að hinu gagnstæða, af því að þau nota sitt óspillta innsæi og vita að það er ljótt að fara illa með dýr.
Á þeim tíma, sem Fagráðið fjallaði um þetta, má geta sér til um að leyfisveitandinn MAST hafi verið að leita að lagaheimild til að fella blóðmeraiðnaðinn undir og það tókst m.a. fyrir tilstuðlan fulltrúa DÝRAVERNDARSAMBANDS ÍSLANDS á fundinum og skyldi ei gleyma ,,framlagi" fulltrúa Dýralæknafélags Íslands. Frekar glatað háttalag yfirlýstra dýravina og yfirdýralæknir er undir sömu sök seld. Og til að toppa allt, Ólafur og yfirdýralæknir eiga það það sameiginlegt að hafa verið sæmd riddarakrossi fyrir að sinna vinnu sinni sem lýtur og laut að dýravernd og landbúnaðarmálum. Þá er aðkoma siðfræðingsins mjög athygliserð og ekki yfir gagnrýni hafin í ljósi þeirrar hröðu þróunar, sem orðið hefur á fræðasviðinu animal ethics, eða dýrasiðfræði við erlenda háskóla.
Þöggunin er æpandi
Hagsmunaaðilar í blóðmeraiðnaðinum eru hrossabændur, á norður og suðurlandi, íslenskst líftæknifyrirtæki, dýralæknar og stjórnvaldshafar og virðast allir samtaka um að halda þessu leyndu fyrir almenningi, hér og erlendis, vegna hættu á verulegri ímyndarskerðingu íslenskrar hrossaræktar. Ef upp kæmist eru verulegar líkur á því að sú ímyndarskerðing framkallaði svakalegt fjárhagstjón fyrir hrossabændur, líftækniiðnaðinn og svínaeldi. Þjóðverjar tækju þetta t.d. mjög alvarlega, eitt helsta markaðssvæði íslenska hrossins. Krafa þeirra er almennt sú að hlutir séu í lagi og agi ríki í kringum viðfangsefni eða eins og þeir orða það sjálfir: „ordnung muss sein" - Regla og agi skulu viðhöfð.Ímyndarskerðing stöðvaði blóðmeraiðnaðinn í Evrópu og víðar
Ímyndarskerðingarhættan hefur valdið sjálfvirkri stöðvun þessa iðnaðar í mörgum löndum enda iðnaðurinn kenndur við siðleysi og illa meðferð dýra. Í þeim löndum þar sem upp hefur komist um hann hefur hann hreinlega lagst af og líftæknifyrirtækin fært sig til annarra landa þar, sem stjórnvöld láta hann afskiptalausan. Greinilegt að augu þessa iðnaðar hafa beinst Íslands með framangreindum árangri enda virðast íslensk stjórnvöld þannig innrætt gagnvart velferð dýra að undrun sætir á sumum sviðum. T.d. heimila þau enn þá loðdýraeldi, sem bannað hefur verið í flestum Evrópuríkjum, af siðferðisástæðum. Slíkt nægir í siðuðum ríkjum, en að því er virðist ekki á Íslandi.Leyndarhyggjan undirstrikuð
Fyrir liggur, vegna viðbragða íslenskra hagsmunaaðila, þegar þeir uppgötvuðu heimsókn AWF/TZ , að þeir vilja alls ekki að um starfshætti blóðmeraiðnaðarins á Íslandi sé fjallað opinberlega. Af því má ráða að þeir telji að ímynd íslenska hrossins hlyti verulegan álitshnekki á heimsvísu en útflutningsverðmæti hrossa hleypur á hundruðum milljóna króna. Þá er íslenski lífefnaiðnaðurinn, PMSG framleiðslan, ekki meðtalin.Svo vel er þessi iðnaður falinn, að á meðan tveggja ára rannsóknarvinnu minni stóð, vegna meistararitgerðar minnar í lögfræði, Hin leynda þjáning búfjár á Íslandi, árin 2009 til 2011, uppgötvaði ég ekki þennan óyndisiðnað fyrr en að því verki loknu og þá einungis lítillega, því miður, því opinberun ritgerðarinnar varpaði ljósi á margt, sem mátti betur fara í íslensku búfjáreldi.
Ýmislegt hefur þokast í rétta átt en allt of mikið er enn þá ógert. Það þarf Alþingi að taka til skoðunar enda eftirlitsaðilinn, MAST, að mínum mati alls ekki starfi sínu vaxinn.
Vítahringur sem verður að rjúfa
En, þar sem MAST, samþykkir þetta illvirki og er þar með farið að sniðganga, jafnvel vinna gegn því, sem Alþingi hefur falið stofnunni að framkvæma, lög um velferð dýra, er komin vítahringur, sem verður ekki rofinn nema æðra settir aðilar innan stjórnsýslunnar eða þingið sjálft horfist í augu við, hvernig markvisst er sneytt fram hjá lagaframkvæmd í þessum efnum. Alþingi þarf að fjalla um þetta og ráðherra þarf að banna MAST háttalag af þessu tagi, misbeitingu laga, sem er stofnuninni, því miður nokkuð tamt, yfirleitt vegna þrýstings hagsmunaaðili í gegnum tíðina eða hreinlega vegna þekkingarleysis á túlkun dýravelferðarlaga, enda efa ég að nokkur lögfræðingur, þar innandyra hafi lagst yfir rannsóknir á tilgangi og markmiðum þeirra laga. Vinnubrögðin bera þess merki. - Þá þarf þingið að endurskoða löggjöf tengda dýrum miklu tíðar en gert er, með tilliti til nútíma þekkingar á því sviði. Gott dæmi um það eru lög um innflutning dýra. 30 ára gömul og óbreytt á sama tíma og vísindarannsóknir eru nær daglega að færa okkur nýja þekkingu í þeim efnum, sem krefst endurskoðunar reglna í samræmi við slíka þróun.Lokaorð
Er Ísland móttökustaður búfjáreldis sem inniber illa með dýra? - Já það má rökstyðja.Tvær búgreinar á Íslandi þykja ekki lengur siðferðislega boðlegar í Evrópu. Loðskinnaframleiðsla af minkum og blóðmeraiðnaðurinn. Loðskinnaiðnaðurinn hefur verið mikið gagnrýndur hérlendis enda hafa erlendir aðilar sótt hingað þar sem íslensk yfirvöld heimila hann. Það sama á við um blóðmeraiðnaðinn. Hann á undir högg að sækja erlendis og því sækja hagsmunaaðilar hingað.
Og þetta virðist Alþingi, landbúnaðarráðherra og Matvælastofnun þykja hið besta mál, að það búfjárhald, það sem er illa séð í siðuðum löndum búfjáreldis sé greidd gatan á Íslandi.
Höfundur er lögfræðingur og sérhæfir sig í lögum um dýravernd. (Ljósmyndir eru eftir greinarhöfund og er birting þeirra óheimil án leyfi höfundar).
Hér að neðan má finna heimildarmyndir, sem framangreind dýraverndarsamtök hafa framleitt og birt opinberlega og hafa þau staðfest að heimfæra megi við íslenskar aðstæður.