Nýliðið ár virðist hafa verið einkar blómlegt í bókmenntum landsins og nú nýtur bókafólk afraksturs erfiðis okkar fjölmörgu og frábæru rithöfunda sem auðga ekki einungis menningu okkar, skemmta okkur og dýpka skilning okkar á sögu og samtíð heldur eru margir þeirra farnir að gera garðinn frægan utan landsteinanna. Þrátt fyrir hrakspár og aukna samkeppni virðist því bóklestur sem betur fer halda sér nokkuð vel.
Lestur er notaleg einvera, hugrækt, gæðastund með sjálfum sér í félagsskap tilbúinna persóna sem kristalla manneskjuna og lífið snilldarlega þegar best lætur. Og það sem meira er, í heimi síaukinnar einsleitni og hjarðhugsunar er lestur góðrar og krefjandi bókar ákveðin yfirlýsing, friðsamleg andspyrna gegn heimsku og gleymsku.
Stundum er sagt að móðurmálið sé fólki svo inngróið að það geti orðað hverja hugsun nánast fyrirhafnarlaust, það geti sagt nákvæmlega það sem því býr í brjósti, sagt það sem það hugsar. Öðru máli gegni hins vegar með erlend tungumál, tungumál sem við höfum lært á lífsleiðinni. Á þeim segi fólk aðeins það sem það getur sagt. Með öðrum orðum: á móðurmálinu segjum við það sem okkur langar að segja, en á erlendu máli segjum við aðeins það sem við getum sagt.
Í löngu og ítarlegu viðtali sem birtist í Tímariti Máls og menningar árið 1994 varð franska heimspekingnum Jacques Derrida tíðrætt um þá ábyrgð sem hver kynslóð ber á menningararfleifðinni sem sem henni beri að viðhalda og helst auka við. Viðtalið nefnist „Vofa gengur nú ljósum logum um heiminn, vofa Marx!“ en þar segir Derrida meðal annars:
„Að erfa er ekki fyrst og fremst að þiggja eitthvað, eitthvað sem er gefið, sem maður getur síðan átt. Að erfa er virk fullyrðing. Vissulega er orðið við skipun en í arfi felst einnig frumkvæði, að undirrita, eða kvitta fyrir (fr. contresigner) það sem maður þiggur eftir nokkra umhugsun. Þegar maður erfir eitthvað, þá velur maður, skoðar, dregur eitthvað fram, gefur því nýtt gildi.“
Er Derrida ekki þarna í rauninni alveg óvart að lýsa því hvernig við höfum reynt að umgangast tungumálið: við höfum kvittað fyrir móttöku arfs genginna kynslóða og reynt að gefa málinu nýtt gildi, aðlaga það nýjum og nýjum aðstæðum, meðal annars með nýorðasmíð eða með því að blása nýju lífi í gömul og stundum gleymt orð? Með öðrum orðum: er ekki málrækt einmitt það að taka á móti þessari arfleifð, íslenskunni, skoða hana í krók og kring, draga fram það nýtilegasta úr henni og gefa því nýtt gildi? Í þessu sambandi má geta þess að við erum sannarlega auðug þjóð, höfum beinan aðgang að orðaforða allt aftur til ritunartíma fornritanna, sjö til átta hundruð ár, jafnvel enn lengra aftur. Við munum þannig ansi langt aftur miðað við velflestar þjóðir. Til dæmis hafa nútíma Frakkar ekki beinan aðgang að textum nema svona fjögur hundruð ár aftur í tímann, eftir það taka sérfræðingar við. Venjulegur Frakki tekur ekki verk eftir sextándu aldar snillinginn François Rabelais og les hann orðabókarlaust. Hann verður að lesa hann í nútímaþýðingu.
Það er svolítið gaman að velta fyrir sér þessari virku afstöðu til arfsins, móðurmálsins: það þýðir að fólk er í rauninni alla ævina að læra tungumálið, endurnýja það, gleyma, tileinka sér ný orð og orðatiltæki, bæta við og missa úr, rifja upp og týna niður. Þessi stöðuga vinna með málið á að sjálfsögðu við talmál og ritmál, en ég ætla hér að halda mig við ritað mál, enda þótt mörk tals og texta sé gífurlega spennandi viðfangsefni, sbr. pælingar margra áhugaverðustu höfunda samtímans eins og Patricks Chamoiseau frá Martinikk sem kom hingað til lands sem gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavíkhaustið 1995.
Ef við hefðum ekki blessað ritmálið væri þetta stöðuga móðurmálsnám allt lífið í gegn skelfilegur barningur með vind gleymskunnar í fangið, eitt skref áfram og tvö skref afturábak. Ég býst við að flestir kannist við þá tilfinningu að bróðurpartur þess sem þeir heyra staldri stutt við í minninu, fari nánast bókstaflega inn um annað eyrað og út um hitt.
En menn fundu sem betur fer upp ritmálið, það má lesa aftur og aftur, rifja upp og leggja á minnið. Ritmálið hefur vitaskuld hagnýtt gildi, en ekki síður skemmtigildi. Það er hægt að toga það og teygja í ótrúlegar áttir, skoða það frá öllum hliðum í rólegheitum, leika sér með það: yrkja það og yrkja á því í orðsins víðustu merkingu.
Þess vegna getum við lesendur sótt endalaust í orðgnóttina sem þar er varðveitt, skemmt okkur við það hvernig skáldskapurinn lætur reyna á þanþolið fræga. Við getum hvenær sem er tekið okkur hvaða bók sem er í hönd, fiskað upp ný og gömul orð, snjallar setningar eða tengingar sem síðan skila sér beint eða óbeint inn í hugsun okkar og málfar. Og þá skiptir aldur skáldsins eða textans ekki máli. Magnaður bókmenntatexti er tímalaus og höfðar til alla kynslóða ef við höfum getu og móttökuskilyrði til að nema hann. Búið til myndir í huganum, sett okkur í spor persónanna, skilið aðstæður annarra tíma og framandi staða, ferðast í tíma og rúmi með hjálp ímyndunaraflsins, eins merkasta afls sem til er.
Skáldskapurinn er og verður glíma við málið, málfarið. Og möguleikarnir eru endalausir. Sum skáldin reyna að beita málinu á sem allra fjölskrúðugastan hátt, ausa úr nægtabrunni tungunnar. Önnur eru alveg á öndverðum meiði, skrifa heiðskírt, tært og tálgað, leika sér fremur með hugmyndir en tungumálið, segja margt í fáum orðum. Og allt þar á milli. Sumar þjóðir gengu á síðust öld öld í gegnum gríðarleg efasemdaskeið gagnvart eigin þjóðtungum og þessar efasemdir hafa síðan brotist út í hatrömmu og stundum dálítið kjánalegu (stundum skemmtilegu) uppgjöri, einkum eftir heimsstyrjaldirnar tvær. Slíkar efasemdir hafa líka getið af sér nýjar bókmenntastefnur, sbr. súrrealismann í Frakklandi og víðar eftir fyrra stríð og frönsku nýsöguna eftir seinna stríð. Ég held að gæfa okkar sé, fyrir utan það að hafa að mestu sloppið við þær hörmungar, sú að okkur hefur tekist furðu vel að viðhalda frjómagni tungunnar og það er meðal annars bókmenntunum og almennum bókmenntaáhuga landsmanna að þakka. Ef til vill treystum við Íslendingar tungumálinu mun betur en margar aðrar þjóðir. En við megum ekki treysta því í blindni og verðum stöðugt stunda þá leikfimi andans sem lesturinn er. Þetta traust á tungumálinu er kostur meðan við höldum áfram að sækja málaskóla lífsins, leika okkur með tungumálið, efast um það og lesa krefjandi og afhjúpandi bókmenntir. Ef við gerum það ekki, ef við höldum okkur einungis við örtexta netsins og fjölmiðla er hætt við að geti orðið að teyma Íslendinga áfram á asnaeyrunum. Með öðrum orðum: fólk sem ræktar mál sitt, m.a. með því að lesa bókmenntir, nær betri tökum á málinu og minnkar þannig líkurnar á því að aðrir noti þetta sama tungumál til að ná tökum á því. Það getur semsagt í það minnsta talið sjálfum sér og öðrum trú um að það sé frjálst. Þá er til nokkurs lesið.
Höfundur er bókmenntafræðingur og þýðandi.