Kórónavírusinn í Kína hefur kallað fram umfangsmestu opinberu aðgerðir í áratugi, þegar kemur að ferðabanni fólks. Tugmilljóna borgum hefur verið lokað, útgöngubanni komið á og flugsamgöngur – til og frá Kína og fleiri svæða – felldar niður. Umfangið er gríðarlegt.
Upplýsingarnar frá Kína hafa ekki svarað öllum mikilvægum spurningum, en það eitt er vitað að vírusinn hefur breiðst hratt út, og yfirvöld í Kína reyna nú allt til að ná að hefta útbreiðsluna – og hafa kallað eftir víðtæku samstarfi við þjóðir heimsins.
Þjóðir eins og Bandaríkin, Frakkland og fleiri, hafa beint því til borgara sinna að koma sér frá Kína og öðrum svæðum, þar sem útbreiðslan hefur verið hröðust. Víðtækt samstarf ríkja hefur verið virkjað.
Í máli Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, á fundi bankans í gær, var miklu púðri eytt í vírusinn, og hann sagður vera ein mesta óvissan þegar kæmi að horfum efnahagsmála í heiminum þessi misserin. Seðlabankinn fylgist grannt með, enda verkefni hans margslungið, með yfir 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins í Bandaríkjadal.
Federal Chair Jerome Powell on #coronavirus: "It's a very serious issue…there is likely to be some disruption to activity in China and possibly globally." pic.twitter.com/VZe1nehQl8
— Elma Aksalic (@ElmaAksalic) January 29, 2020
Í Foreign Policy hefur komið fram, að mörgum spurningum sé ósvarað, en meðal þess sem almenningur víða um heim hefur séð, í gegnum fréttamyndir, er skelfilegur aðbúnaður á mörgum matarmörkuðum í Asíu.
Hreinlæti, öryggi og ábyrgð í framleiðslu, er ekki það sem kemur upp í hugann, þegar þessar myndir koma fyrir augun.
Fyrir lítið eyríki eins og Ísland - sem á allt sitt undir góðu aðgengi að markaðssvæðum heimsins, og ekki síst stöðugum og góðum flugsamgöngum – þá er hætta á ferðum.
Til skamms tíma geta áhrifin verið þó nokkur á viðskipti almennt, en til lengdar ætti Ísland og íslensk fyrirtæki, að hafa tækifæri og mikið fram að færa.
Líklegt verður að teljast, að enn meiri kröfur verði gerðar til matvælaframleiðslu, vegna Kórónavírussins, og þeirra gríðarlegu áhrifa sem hann hefur nú þegar haft, og mun hafa áfram.
Ísland hefur mun meira fram að færa, þegar að þessum kemur, en margar aðrar þjóðir, og það getur einnig unnið með okkur að vera eyríki - að vissu leyti einangrað frá umheiminum.
Auðvelt er að draga fram hvernig framleiðsla hefur farið fram og heilbrigðis- og öryggiskröfur á Íslandi eru mun meiri en gengur og gerist á mörgum öðrum markaðssvæðum, meðal annars í Asíu og mun víðar.
Vonandi tekst alþjóðasamfélaginu að bregðast við af nægilega miklum krafti, til að hefta útbreiðslu veikinda, sem hafa nú þegar leitt til margra dauðsfalla. Eitt af því sem Ísland getur lagt til, er þekking á uppbyggingu innviða við matvælaframleiðslu sem tryggja betur heilbrigði og öryggi. Mikil þörf er á alheimsátaki á þessu sviði, eins og skelfileg birtingarmynd þessi misserin sýnir.