Framundan eru kosningar í Bandaríkjunum í nóvember, þar sem Donald Trump mun freista þess að fá umboð frá þjóðinni til að vera fjögur ár í viðbót forseti. Demókratar eru nú mitt í þeirri vegferð að velja sér frambjóðanda, sem á að verða forsetaefni flokksins.
Þetta kjörtímabil hefur um margt verið sögulegt, og ekki meiningin í þessum pistli að rekja allt það sem gengið hefur á. En staða mála núna er sú, að allt bendir til þess að kosningarnar verði spennandi.
Hart barist í fimm ríkjum
Eins og staða mál horfir við mér, þá verða hinir pólitísku vígvellir í kosningunum einkum í fimm ríkjum. Það eru Wisconsin (10 kjörmenn), Michigan (16 kjörmenn), Ohio (18 kjörmenn), Pennsylvanía (20 kjörmenn) og Florída (29 kjörmenn). Flestar kannanir sýna, að verulega mjótt er á munum milli Repúblikana og Demókrata í þessum ríkjum. Í flestum öðrum ríkjum er ólíklegt að það verði miklar breytingar, eins og vindar blása núna og hafa gert allt kjörtímabilið.
Miðkjörtímabilskosningarnar 2018 sýndu að Trump gæti lent í erfiðleikum með að fá nægilegan stuðning í þessum fyrrnefndum ríkjum, þó meiri líkur séu taldar á sigri hans í Flórída heldur að hann tapi þar. Sögulega hefur þar oft verið mjótt á munum, og úrslit þar ráða oft úrslitum um það hver verður forseti með því að tryggja sér 270 kjörmenn.
Síðast vann Trump í Wisconsin með 47,2 prósent atkvæða en Hillary Clinton fékk 46,5 prósent. Í Michigan munaði aðeins 0,3 prósentustigum. Trump fékk 47,3 prósent en Hillary 47 prósent.
Líklegt er að Demókratar muni horfa verulega í það - þegar á hólminn er komið - hver það er úr þeirra röðum, sem er líklegastur til að vinna Trump í þessum fyrrnefndu ríkjum.
Í Wisconsin búa 5,8 milljónir, í Michigan 10 milljónir, í Ohio 11,6 milljónir, í Pennsylvaníu 12,8 milljónir og í Flórída 21,3 milljónir. Samanlagt búa rúmlega 60 milljónir manna í þessum ríkjum, eða tæplega 19 prósent af 327 milljónum sem búa í Bandaríkjunum.
Eftir því sem nær dregur kosningum, er líklegt að kosningabaráttan muni færast að miklu leyti til þessara ríkja og að framboð Repúblikana og Demókrata muni reyna allt til þess að vinna. Ekki er víst að það verði allt fallegt, eins og stjórnmálin hafa þróast í Bandaríkjunum.
En hvað er að gerast í Bandaríkjunum?
Þessa spurningu hafa örugglega margir Íslendingar sem búsettir eru í Bandaríkjunum fengið, á undanförnum árum, og er þá ekki síst vitnað í ófáar fyrirsagnir þar sem Twitter færslur forsetans gefa tóninn, og hneykslunarbylgjan tekur svo við.
Sé litið alveg framhjá þessu brölti stjórnmálamanna - og ekki síst hjá forsetanum sjálfum - þá eru um margt spennandi tímar í Bandaríkjunum.
Til dæmis hafa viðbrögð fyrirtækja, ríkja og borga við kjöri Trumps verið þau, að herða enn frekar á markmiðum sínum um vistvænni lifnaðarhætti með markmið Parísarsamkomulagsins sem leiðarljós.
Þetta stelur ekki fyrirsögnunum, en svoleiðis er það nú samt. Meginþunginn í aðgerðum er oft hjá fyrirtækjum og borgum, og þar er mikil framþróun - bæði á sviði tækni og umhverfismála - og stórtækar breytingar í mörgum tilvikum langt um róttækari en þekkist í Evrópu.
Má þar nefna framkvæmdaáætlun Washington ríkis um 100 prósent vistvæna orku, sem samþykkt hefur verið í ríkinu, og skyldu sem lögð hefur verið á húsbyggjendur í Kaliforníu um að þök á öllum nýjum húsum þurfi að geta unnið rafmagn úr sólarorku.
Nefna má mun fleiri dæmi, þar sem róttækar breytingar eru að verða til batnaðar, og þvert á alls konar yfirlýsingar úr Hvíta húsinu, þó þær steli fyrirsögnunum og athyglinni.
Framtíðin er komin
Annað sem er áhugavert við þróun mála í Bandaríkjunum, er að hin svonefnda fjórða iðnbylting, sem oft er talað um að muni skella á í framtíðinni, er víða þegar farin að hafa djúpstæð áhrif á atvinnuvegi og lifnaðarhætti. Eins og oft er raunin með Bandaríkin, þá gerast hlutirnir þar hratt og áður en þeir koma af þunga inn hjá öðrum samfélögum.
Hinar róttæku breytingar endurspeglast ekki síst í því, að ríki austur- og vesturstrandarinnar hafa upplifað mikið vaxtarskeið - sem ekki sér fyrir endann á - á meðan mörg af miðríkjunum glíma við erfiðleika, bæði efnahagslega og félagslega, þar sem hæfileikaríkt fólk hefur flutt burt í hópum og ekki komið heim aftur.
Í ítarlegri greiningu sem Matthew Bloch, Larry Buchanan, Josh Katz og Kevin Quely unnu fyrir Upshot, undirvef New York Times á sviði efnahags- og þjóðmála, má greina hvernig þessi þróun mála birtist í stjórnmálunum í forsetakosningunum 2016.
Fólk á helstu velmegunarsvæðum Bandaríkjunum - sem búa ekki aðeins við betri aðstæður fyrir viðskiptaflutninga á sjó, flugi og landi, heldur einnig á svæði tækni, fjárfestinga og rannsókna - virðist kjósa fremur með aukinni alþjóðavæðingu og opnum stjórnmálum. Á meðan fólk á öðrum svæðum - ekki síst í dreifbýli - vill önnur stefnummál, eins og að „verja” störf heima fyrir með tollum og upphafningu á öllu því sem bandarískt er (hvort sem það er svo raunin eða ekki).
Hægt er að fjalla um þetta í löngu máli, en stóra myndin sem fyrrnefnd greining dregur skýrt fram, er að himinn og haf eru á milli viðhorfa fólks eftir því hvernig efnahags- og félagsleg staða er. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér, en hvert tímabil í sögunni hefur sýn sérkenni, og ætli það séu ekki helst dúndurskot forsetans á Twitter sem skilja hann frá öðrum í bandarískri sögu.
Um þessar mundir hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum ekki verið minna í tæplega hálfa öld, og mælist rúmlega 3 prósent. Yfirspenna er á mörgum svæðum, meðal annars á Vesturströndinni, þar sem um 50 milljónir búa. Það sama má segja um svæði eins og Texas, sem er á við öll Norðurlöndin í íbúafjölda. Hagvaxtarhorfur eru taldar nokkuð góðar, 2 til 3 prósent hagvöxtur, og hið lygilega hækkunarskeið á verðbréfamörkuðum (22 prósent árið 2019, S&P 500) virðist enn vera í gangi, þó ekki sé á vísan að róa í hlutabréfaviðskiptum.
Sé horft framhjá stóryrtum yfirlýsingum stjórnmálamanna - og vissulega mörgum umdeildum athöfnum og stefnumálum sömuleiðis, ekki síst á alþjóðavettvangi - þá eru tímarnir í Bandaríkjunum um margt spennandi þessi misserin. Stjórnmálin eru ekki upphaf og endir allra hluta, þó þau séu mikilvæg og kastljósið á þeim oftar en ekki.
Stundum er kastljósið helst á þeim sem hrópar hæst og gjammar um allt og ekkert, á meðan það sem samþykkt er í sátt og með mikilli vinnu - þar sem margir koma að - fær enga athygli. En samt nýtur fólk góðs af því.