Réttarstaða hunda og eigenda þeirra væri mjög góð ef lagi væri komið á framkvæmd réttarheimilda, laga um velferð dýra og reglugerðar um velferð gæludýra og öðrum eldri réttarheimildum um sama efni yrði eytt.
Tilefni þessara skrifa er umræða, sem Félag ábyrgra hundaeigenda hratt af stað um lögmæti núverandi samþykkta um hundahald á Íslandi og stendur fyrir málþingi um á laugardag. Mér finnst því kjörið tækifæri, nú þegar FÁH ætlar að halda málþing um efnið að reifa það þokukennda ástand og réttaróvissu, sem ríkir í þessum efnum. - Þegar öllu er á botninn hvolft er það sinnuleysi alþingis, sem veldur hvernig málum er háttað í dag. Þingið hefur aldrei hlustað á efnislega sömu ábendingar frá öðrum áður.
Ég fagna því að áhrifaaðili í dýravernd láti sig málið varða því í sannleika sagt er framkvæmd laga um þennan málaflokk af hálfu stjórnvalda í lögfræðilegu rugli og hefur verið það í áratugi.
Sjálfur hef ég fjallað um þetta áður og rökstutt ítarlega með hvaða hætti þetta er lögleysa. Ætla ekki að endurtaka þá umfjöllun hér en stikla á stóru þar sem ég tel að lausnin á umkvörtunarefninu blasi við í lögfræðilegum skilningi.
Flækjustig núverandi ástands var aukið til muna vegna sinnuleysis löggjafans við gildistöku núverandi laga um velferð dýra því í þeim lögum og reglugerð um velferð gæludýra er allur sá texti, sem þarf til að halda verndarvæng yfir hundahaldi á Íslandi. Flækjustigið jókst vegna þess að eldri lög um sama efni (ákvæði úr lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir) héldu gildi sínu þrátt fyrir þá meginreglu í lögfræðinni að yngri lög skulu ganga fram eldri. Þá eru lög um velferð dýra lágmarksreglur og samtímis miklu ítarlegri en samþykktir hvað varðar skráningarskyldu og eftirlit með hundahaldi. Auk þess eru samþykktir miklu réttlægri réttarheimild en settur réttur og reglugerðir.
Til að geta búið til þessar reglur um hundahald, sem kallast samþykktir þarf að vera fyrir hendi leyfi í lögum. Þetta hundasamþykktaleyfi er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Já hlægið bara, en svona er þetta. Þar er þetta ákvæði að finna:
Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
1. bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds Í þessu ákvæði er mikilvægur texti: ,,sem ekki er fjallað um í reglugerðum" (sjá hér fyrir neðan af hverju)
Og hér situr hnífurinn fastur í kúnni eins og maður segir.
Þessi lagaregla stenst ekki lengur og hefur ekki gert amk. frá því 2013 þegar lög um velferð dýra tóku gildi. Um hundahald er nefnilega ekki bara fjallað í reglugerð um velferð gæludýra heldur líka í lögum um velferð dýra þannig að framangreint ákvæði er marklaust.
Í lögum um velferð dýra segir:
4. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
Í reglugerð um velferð gæludýra segir m.a.:
Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði gæludýra með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að þau geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.
Opinbert eftirlit. (úr sömu rgl)
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.
Umráðamanni gæludýra ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum gæludýrum og öllum þeim svæðum þar sem gæludýr eru haldin.
Merking og skráning.(úr sömu rgl)
Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skráningu dýra sinna.
Niðurstaða
Hér er ég sem sagt búinn að teikna upp að samþykktir standast ekki stjórnarskrá né lög um velferð dýra og ber viðkomandi yfirvöldum að fella þær úr gildi og alþingi að taka ákvæðið sem heimilar sveitarfélögum að setja þessar samþykktir
Auðvitað ætti ég að fjalla um þetta af meiri nákvæmni og með rökstuðningi en það er óþarfi að sinni en væri svo sannarlega gaman í fræðilegum skilningi síðar.
Ég held að öll heilbrigðiseftirlit yrðu fegin ef þessi kaleikur yrði tekin af þeim en ég er ekkert endilega viss um að Matvælastofnun fyndist það sniðugt ef ráðherra segði við stofnunina: farið að sinna eftirlitshlutverki ykkar því óvíst er hvort hún réði við það miðað við fjármögnun og mannafla.
Hundahaldsumhverfið á Íslandi og kúltúrinn í kringum það er gerbreytt frá því að alþingi datt í hug að heimila þessa hundahaldssamþykktir. Mín skoðun er sú að hundhaldsmenningin eigi skilið alvöru eftirlitsaðila í hverjum landsfjórðungi amk. og um hlutverk hans mætti rita aðra grein.
Í dag er staða uppi sem er ekki lengur boðleg og það er mín skoðun að með þessu átaki FÁH hreyfi þingið sig loksins og færi þessi mál í réttan farveg að lögum. Sá farvegur er skýr og ráðherrar málaflokkanna þurfa að tala saman og leysa þennan hnút. Fyrir því þurfa þingmenn nú að tala á Austurvelli. Þannig kæmist skriður á málið.
Höfundur er lögfræðingur með áherslu á öll lög um dýravernd.