Angela Merkel, kanslari Þýskalands og leiðtogi hins frjálsa heims – eins og Barack Obama kallaði hana á fundi sem hann átti með henni, skömmu eftir en hann hætti sem forseti – er að fara hætta í starfi sínu, áður en langt um líður. Hún hefur verið kanslari frá árinu 2005.
Hún hefur á ferli sínum talað skýrt fyrir alþjóðasamvinnu, sameinaðri Evrópu, og mikilvægi þess að þjóðir takist í sameiningu á við áskoranir nútímans.
Eitt af því sem tala má um sem hápunkt á hennar ferli, var þegar hún beitti sér fyrir því að opna Þýskaland – á víðsjárverðum tímum, árið 2015. Þá samþykktu stjórnvöld að taka við einni milljón flóttamanna, sem flestir komu frá vígvöllum í Sýrlandi, Líbíu og nágrenni, með viðkomu í flóttamannabúðum.
Hún hefur síðan þurft að verja þessa ákvörðun af alefli, en grunnröksemdin hjá henni voru mannúðarástæður.
Spenna á landamærum ríkja í Austur-Evrópu – ekki bara við Þýskaland – var það sem ástæða var til að óttast.
Ekki eru nema 25 ár síðan Balkanskagastríðinu lauk, en á undraskömmum tíma – á árunum 1990 til 1995 – voru 200 þúsund manns látin, og milljónir á flótta í Evrópu, án þess að alþjóðasamfélagið hafi gripið inn nægilega snemma.
Flókið mál
Í fyrstu voru tugþúsundir af þessum fjölda sem kom til Þýskalands á umferðareyjum, í tjaldbúðum og víða á opnum svæðum í borgum, þar sem pláss var að finna.
Síðan var farið skipulega í að reyna að hjálpa flóttamönnunum að koma undir sig fótunum. Sumir fóru aftur til síns heima, en flestir – aldrei allir samt – í miklu betri stöðu en þeir voru fyrir. Aðrir hafa verið áfram í Þýskalandi og reynt að byggja upp nýtt líf.
Það væri mikil einföld að halda því fram, að það væri auðvelt að framkvæma svona og án hnökra.
Merkel taldi að Þýskaland hefði siðferðalega skyldu í þessum efnum, og byggðist opnunin á henni. Vissulega „raskaði þetta ró” margra, og hafði víða mikil áhrif – félagsleg, pólitísk og efnahagsleg – en líklega mun það aldrei koma fyllilega í ljós, hversu mikilvæg þessi ákvörðun var.
Mögulega afstýrði hún blóðugum átökum í Evrópu en það eitt er ljóst, að hún bjargaði mörgum mannslífum og var mikilvæg yfirlýsing um að vestrænar þjóðir geta lagt mikið af mörkum til að hjálpa þeim sem minna mega sín.
4.500 flóttamenn til Íslands?
Hlutfallslega er þetta eins og að íslensk stjórnvöld myndu ákveða, að taka við 4.500 flóttamönnum – hratt og örugglega. Hvernig haldið þið að sú ákvörðun myndi falla í kramið hjá Íslendingum og ekki síst baklandi stjórnmálaflokkanna? Ekki er víst að það yrði auðvelt að takast á við það.
Sé mið tekið af því hvernig spilast hefur úr stöðu mála í Þýskalandi, frá því að landið var opnað fyrir einni milljón flóttamanna, þá er ekki hægt að segja annað en staðan sé um margt góð.
Atvinnuleysi mælist nú 3,1 prósent, en til samanburðar er atvinnuleysi á Íslandi um 5 prósent og meðaltalið í Evrópu er nú 6,3 prósent, og hefur reyndar lækkað hratt á undanförnum árum, ekki síst í Suður-Evrópu.
Hagvaxtarhorfur í Evrópu eru ekki sérstaklega góðar – stöðnun er í kortunum á næstu tveimur árum, samkvæmt spám, sem er sambærilegt við það sem Seðlabanki Íslands telur að sé framundan hér á landi.
Stöndum saman
Oft er lítið rætt um grundvallarstefnumálin hjá Merkel – sameinuð Evrópu. Það er lykilatriði að hafa stórt sameiginlegt myntsvæði. Evruríkin eru nú 19, af 27 aðildarríkjum ESB, en þeim fækkaði um eitt með útgöngu Breta 31. janúar.
Hvernig ætli að það hefði verið, í fjármálakreppunni, að hafa 28 myntsvæði innan álfunnar í gjaldmiðlastríði, þar sem hver þjóð fyrir sig hefði reynt að verðleggja mynt sína þokkalega gagnvart Bandaríkjadalnum til að ná viðspyrnu í gang efnahagsmála? Ætli það hefði verið góður vísir að friði og yfirvegun í erfiðum aðstæðum?
Dæmi nú hver fyrir sig.
Í alþjóðavæddum heimi virðist það ekki alltaf til vinsælda fallið í stjórnmálum, að tala fyrir einbeittri stefnu fyrir samvinnu ríkja, í víðum skilningi. Þar á meðal í innflytjenda- og flóttamannamálum. Merkel hefur gert það og beitt sér fyrir lausnum, og vonandi mun einhver taka við keflinu þegar hún stígur af sviðinu.