Er álverið í Straumsvík að fara að loka? Og Landsvirkjun þar með að missa hátt í þriðjung af tekjum sínum? Er eina leiðin til að halda álverinu hér áfram í starfsemi, sú að Landsvirkjun lækki raforkuverðið? Eða er kannski unnt að leysa þetta mál með öðrum hætti? Hér er um að ræða geysilega fjárhagslega hagsmuni fyrir báða aðila, auk þess sem álverið stendur undir fjölmörgum störfum á Íslandi; bæði beint og óbeint. Í þessari grein er sjónum beint að þessu athyglisverða máli og skoðað hvort eitthvert tilefni sé til að endurmeta raforkuverð álversins.
Öll álver vilja aðgang að sem öruggastri orku og lágu verði
Ál finnst ekki hreint í náttúrunni. Aftur á móti er unnt að skilja álið frá þeim efnum sem það er i efnasambandi við í náttúrunni og þannig framleiða hreint ál. Einn hluti þess ferlis er það sem á ensku nefnist aluminum smelting. Sú álbræðsla, þar sem súrefnið er skilið frá álinu, krefst geysimikillar raforku. Þess vegna er álframleiðsla sannarlega orkufrekur iðnaður eða stóriðja.
Á Íslandi er sjaldan talað um álbræðslur en oftar um álver. Alls eru hér þrjú álver og samanlagt nota þau um 75% allrar raforku sem framleidd er í landinu. Miðað við höfðatölu er Ísland það land sem framleiðir mest af áli í heiminum öllum. Samtals er álframleiðslan hér um 800-900 þúsund tonn á ári. Í heiminum öllum eru nú framleidd um 65 milljón tonn á ári og þar af um 35 milljón tonn bara í Kína. Þ.a. þó svo Ísland sé hlutfallslega mjög stór álframleiðandi nemur framleiðslan hér ekki nema um 1,5% af allri álframleiðslu heimsins. Og þá er vel að merkja ótalið allt það ál sem er endurunnið á ári hverju.
Álverin á Íslandi nota, eins og áður sagði, um 75% af allri raforku í landinu. Álver ISAL í Straumsvík, sem er í eigu risafyrirtækisins Rio Tinto, notar um fjórðung allrar raforku sem Landsvirkjun framleiðir og skilar orkufyrirtækinu hátt í þriðjungi allra tekna þess (þetta tekjuhlutfall er breytilegt milli ára). Raforkusala Landsvirkjunar til álversins í Straumsvík er ríkisorkufyrirtækinu því afar mikilvæg tekjulind. Um leið er álverinu mikilvægt að hafa aðgang að tryggu og stöðugu vatnsafli líkt og Landsvirkjun getur boðið, þ.e. stöðugum og öruggum aðgangi að raforku.
Ísland skorar mjög hátt í samanburði milli landa um öryggi í raforkuafhendingu. En það er samt raforkuverðið sem mestu skiptir um það hvar álver eru staðsett. Það er sem sagt trygg og ódýr raforka sem er mikilvægasti rekstrarþáttur álvera. Þar hefur vatnsafl jafnan verið í lykilhlutverki, sbr. t.d. Brasilía, Ísland, Kanada og Noregur, sem öll eru vinsæl lönd fyrir álver. Vatnsafl hefur líka lengi verið notað til að knýja álver í Rússlandi og nokkrum Afríkuríkjum. Og hér á landi er svo auðvitað líka dæmi um að jarðvarmi knýi álver, þ.e. álver Norðuráls i Hvalfirði.
Mikilvægi grænnar orku mun aukast
Þó svo sögulega séð hafi áliðnaðurinn að stærstu leyti verið knúinn með vatnsafli eru fjölmörg álver úti í heimi nú knúin með jarðgasi eða kolum. Ódýrt jarðgas í olíulöndunum við Persaflóa og á Trínidad og Tóbagó er notað í stórum stíl til að knýja álver og í Kína ganga fjölmörg álver á kolaorku. Með aukinni umhverfisvitund og baráttu gegn losun koltvísýrings má þó gera sér vonir um að aðgangur að endurnýjanlegri orku muni sífellt verða eftirsóttari og þ.á m. fyrir álver og aðra stóriðju.
Enn er þessi vottaða græna framleiðsla á áli fremur lítil, en mun eflaust aukast á komandi árum. Það getur því orðið talsverður ávinningur fyrir álfyrirtæki að hafa aðgang að rafmagni sem flokkast sem endurnýjanleg orka. Líkt og er hér á landi. Þetta veldur því að góðar líkur eru á að álfyrirtæki muni alls ekki vilja gefa frá sér aðgang að tryggu íslensku vatnsafli; a.m.k. ekki ef slík raforka fæst á verði sem er hóflega hærra en verð á raforku frá gas- eða kolaorkuveri.
Rio Tinto vill lækkun á raforkuverðinu
Með hliðsjón af framangreindu kom það eflaust mörgum á óvart þegar Rio Tinto, eigandi ISAL, tilkynnti í febrúar s.l. að fyrirtækið sé að skoða stöðu álversins í Straumsvík. Ástæðan er sögð vera erfið samkeppnisstaða álversins, sem nú takist á við bæði lágt álverð og það sem fyrirtækið kallar ósamkeppnishæft raforkuverð. Af ýmsum fréttum og ummælum sem hafa birst í kjölfar þessarar tilkynningar Rio Tinto er ljóst að það sem fyrirtækið vill er að vikið verði frá gildandi orkusölusamningi ISAL og Landsvirkjunar og raforkuverðið lækki. Að öðrum kosti megi búast við að álverið loki.
Það er ekkert smámál þegar kaupandi að um fjórðungi af öllu rafmagni sem Landsvirkjun framleiðir vill fá verðlækkun. Og það þrátt fyrir að hafa áður skuldbundið sig til að kaupa ákveðið magn orku á tilteknu samningsverði allt til 2036. Þarna er að birtast okkur sá möguleiki sem sumir vöruðu við eða bentu á fyrir all nokkrum árum síðan. Þ.e. að aukin samkeppni frá kínverskum álverum myndi þrengja að stöðu álveranna á Íslandi. Þetta hefur nú gengið eftir að einhverju marki.
Vegna mjög hratt vaxandi álframleiðslu í Kína hefur myndast offramboð af áli og þar með eykst útflutningur áls frá Kína. Þetta heldur álverði niðri og þrengir að afkomu álvera um allan heim. Þar með eru mögulega komnar upp þær aðstæður að við Íslendingar þurfum að finna aðra stóra kaupendur að hluta þeirrar geysilega miklu raforku sem nú fer til álvera á Íslandi. Það kann þó að vera að unnt sé að finna lausn sem bæði hentar Rio Tinto og Landsvirkjun þ.a. álverið í Straumsvík eigi hér áfram góðan rekstur.
Ýmis dæmi eru um hótanir um lokun álvera nema raforkuverð sé lækkað
Álfyrirtæki sækjast eðlilega eftir sem lægstu raforkuverði. Og þar sem álver hafa verið byggð þrýsta fyrirtækin oft á lækkun raforkuverðs til að bæta afkomu sína. Mörg álverin eru staðsett í fámennum samfélögum þar sem efnahagslegt mikilvægi verksmiðjanna er yfirgnæfandi. Álfyrirtækjunum verður því oft vel ágengt í því að ná fram lækkun rafmagnsverðs með því einfaldlega að tilkynna um yfirvofandi framleiðslusamdrátt (og uppsagnir starfsfólks) eða lokun ef ekki fáist lækkun á raforkuverði. Þetta hefur ítrekað gerst t.d. í Bandaríkjunum, í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi og orðið enn meira áberandi eftir því sem kínverski áliðnaðurinn hefur vaxið.
Landsvirkjun verður að standa í lappirnar
Þetta er áhugaverð staða. Fyrirtækin eru með bindandi samning allt til 2036. Og álfyrirtækið óskar nú breytinga á þeim samningi, en hótar lokun álversins ella. Er einhver möguleiki að Landsvirkjun geti einfaldlega orðið við slíkri ósk Rio Tinto og þannig vikið frá gildandi langtímasamningi fyrirtækjanna? Almenna svarið er nei; Landsvirkjun getur ekki fallist á slíka ósk Rio Tinto. Fyrir því eru ýmsar ástæður.
Ef Landsvirkjun féllist á ósk Rio Tinto um að lækka raforkuverðið myndi það ekki aðeins minnka samningsbundnar tekjur Landsvirkjunar. Slíkt myndi t.a.m. augljóslega einnig skapa varhugavert fordæmi og veikja samningsstöðu orkufyrirtækisins gagnvart annarri stóriðju. Þá gæti það haft margvísleg önnur neikvæð áhrif á rekstur Landsvirkjunar. Þannig gæti lækkun raforkuverðsins komið niður á lánshæfismati Landsvirkjunar og þar með kynni fjármagnskostnaður þessa nokkuð svo skulduga fyrirtækis okkar Íslendinga að hækka með óæskilegum afleiðingum fyrir arðsemi Landsvirkjunar.
Þarna er sem sagt ýmislegt sem veldur því að Landsvirkjun verður að fara varlega í að taka jákvætt í ósk Rio Tinto um lækkun raforkuverðsins. Og þarna þarf yfirstjórn Landsvirkjunar, stjórn fyrirtækisins og sá ráðherra sem fer með eignarhaldið að vera samstíga. Það er líka vert að hafa í huga að álverið í Straumsvík hefur verið til sölu í nokkur ár og lækkun á raforkuverðinu myndi að sjálfsögðu gera álverið söluvænlegra. Það er ekki hlutverk Landsvirkjunar að veita Rio Tinto fjármuni til að hækka virði álversins í Straumsvík.
En jafnvel þó svo þarna þurfi Landsvirkjun að sýna festu vill fyrirtækið eðlilega halda áfram viðskiptum við álverið og selja því áfram raforku. Þess vegna þarf að kryfja stöðuna vandlega og bregðast við með réttum hætti. En áður en við förum að spá í hvernig mögulega megi tryggja áframhaldandi viðskipti fyrirtækjanna er rétt að líta aðeins til baka og rifja upp forsögu orkusamningsins. Kíkjum aðeins á söguna.
Skuldbindandi samningur um raforkuverðið 2010
Það er um hálf öld síðan álframleiðsla hófst í Straumsvík og smám saman var álverið stækkað. Núverandi raforkusamningur Rio Tinto og Landsvirkjunar er að uppistöðu frá árinu 2010. Sá samningur var vel að merkja gerður fyrr en nauðsynlegt var og það að ósk álfyrirtækisins. Á þeim tíma var ennþá í gildi eldri samningur fyrirtækjanna. Hann átti að renna út 2014 og samkvæmt honum mátti Rio Tinto framlengja samninginn um áratug og þá hefði hann gilt allt til 2024.
Gamli samningurinn var áhættulítill fyrir Rio Tinto. Þar var grunnverð á raforkunni mjög lágt og þar að auki var verðið tengt við álverð. Þetta hefur verið staðfest af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). En þrátt fyrir að álverið hefði getað haldið í þennan hagstæða samning enn um sinn, var endursamið um raforkuviðskiptin strax árið 2010. Og það vel að merkja að ósk Rio Tinto, eins og áður sagði.
Þar kom til að álfyrirtækið vildi auka álframleiðslu sína í Straumsvík. Og til að svo gæti orðið samdi álverið við Landsvirkjun um að útvega því meira rafmagn. Í þeim nýja samningi var samið um breytta útreikninga á rafmagnsverðinu og til að efna samninginn réðst Landsvirkjun í að byggja Búðarhálsvirkjun. Sú virkjun kostaði Landsvirkjun á bilinu 25-30 milljarða króna. Þetta er í hnotskurn forsaga núgildandi raforkusamnings og þess raforkuverðs sem er í gildi.
Rio Tinto var ánægt með samning fyrirtækjanna
Í tilefni af nýja orkusamningnum 2010 lýstu forsvarsmenn álversins í Straumsvík samningnum sem „mikilvægum áfanga“ fyrir álverið. Og Landsvirkjun hófst handa við að reisa Búðarhálsvirkjun, sem hefði ekki verið byggð svo snemma nema vegna samningsins við álfyrirtækið. Virkjunin var svo tilbúin 2013. Vegna tæknivandræða hjá álverinu varð framleiðsluaukningin mun minni en fyrirtækið hafði áformað. Þess vegna óskaði álfyrirtækið eftir því að að kaupskylda álversins á raforku yrði minnkuð frá því sem samið hafði verið um 2010.
Eftir nokkrar viðræður náðu álfyrirtækið og orkufyrirtækið saman um breytingar á kaupskyldunni. Það var árið 2014 að fyrirtækin sömdu um að minnka kaupskyldu álversins gegn ákveðinni bótagreiðslu til Landsvirkjunar. Þessar breytingar voru sagðar báðum aðilum til hagsbóta. Engar breytingar voru gerðar á raforkuverðinu. Nú einungis sex árum síðar vill Rio Tinto enn og aftur semja um breytingu frá því sem samið var um árin 2010 og 2014. Og nú með þeim hætti að raforkuverðið verði lækkað.
Orkuverðið kemur til endurskoðunar 2024
Vert er að geta þess að í orkusamningnum árið 2010 var samið um þann möguleika (option) að raforkuverðið komi til endurskoðunar árið 2024. Bæði Landsvirkjun og Rio Tinto hafa sem sagt verið sammála um að þá fyrst komi til greina að breyta orkuverðinu. Á þeim tímapunkti verður skoðað hvort samkeppnisstaða samningsaðilanna gefur tilefni til að breyta verðinu. En fram að þeim tímapunkti, þ.e. 2024, er samningsverðið alveg skýrt og samningar fyrirtækjanna frá 2010 og 2014 gera ekki ráð fyrir neinum breytingum á raforkuverðinu fyrr en í fyrsta lagi 2024.
Þetta fyrirkomulag voru báðir samningsaðilar sammála um; bæði árið 2010 og aftur árið 2014. Með því að biðja um annað núna eru stjórnendur Rio Tinto að biðja Landsvirkjun um breytingar álfyrirtækinu í hag, þ.e. að tekjur Landsvirkjunar verði minnkaðar til að auka arðsemi álversins. Eðlilega getur Landsvirkjun ekki orðið við því, .a.m.k. ekki nema mjög sterk og raunveruleg rök séu að baki þeirri beðni Rio Tinto.
Hver sú greiðsla nákvæmlega er hefur ekki komið fram opinberlega, en hún mun vera tilgreind í samningi fyrirtækjanna. Hver greiðslan er mun skýrast ef orkusamningur fyrirtækjanna verður gerður opinber. Og þá myndi líka vafalítið koma í ljós að raforkuverðið sem álverið í Straumsvík greiðir er ekkert sérstaklega hátt i alþjóðlegu samhengi, en vissulega töluvert hærra en þau álver greiða sem eru að greiða lægsta raforkuverðið af öllum álverum heimsins. En jafnvel þó svo raforkuverðið í Straumsvík sé þokkalega hóflegt alþjóðlegu samhengi má vel vera að álverið sé ekki og sjái ekki fram á að verða arðbært miðvað við núverandi verð á áli. Um það er þó ekki unnt að fullyrða nema álverið opni bókhald sitt.
Landsvirkjun er tilbúin í samtal
Augljóslega hlýtur vilji Landsvirkjun að vera sá að raforkusamningurinn verði efndur og það allt til ársins 2036 líkt og samið var um 2010 og staðfest 2014. Orkusamningurinn er í gildi og honum verður ekki rift, hvorki af hálfu Landsvirkjunar né af hálfu álversins, nema gegn hárri bótagreiðslu. Og ef breyta á samningnum er eðlilegt að viðkomandi samningsaðili byrji á því að setja fram slíka ósk við hinn samningsaðilann og útskýri vandlega og rökstyðji þá ósk með tilheyrandi gögnum.
Þó svo Landsvirkjun vilji eðlilega að orkusamningurinn sé efndur er að sjálfsögðu ekki unnt að þvinga álverið til að halda uppi starfsemi. Ef álfyrirtækið vill loka verksmiðjunni getur það gerst, jafnvel þó svo bótagreiðslan til Landsvirkjunar sé mjög há. Lokun verksmiðjunnar er þó varla góður kostur fyrir Landsvirkjun, jafnvel þó bótagreiðslan kunni að vera mjög há upphæð. Æskilegra er að álverið haldi áfram starfsemi og því er til nokkurs unnið að reyna að finna leið sem hentar báðum aðilum.
Enda hefur Landsvirkjun þegar tilkynnt að samtal milli fyrirtækjanna sé byrjað. Það merkir væntanlega að skoðað verður hvort tilefni sé til að Landsvirkjun og Rio Tinto fari í viðræður um orkusamninginn. Sú skoðun eða athugun mun þá leiða í ljós hvort tilefni er fyrir Landsvirkjun að taka upp formlegri viðræður við álfyrirtækið um samninginn og eftir atvikum mæta óskum álfyrirtækisins um breytta verðskilmála með einhverjum hætti.
Ekki er nóg að fullyrða að orkuverðið sé ósamkeppnishæft
Rio Tinto heldur því blákalt fram að verðið sem ISAL greiðir Landsvirkjun sé ekki samkeppnishæft miðað við núverandi álverð. Í þessari fullyrðingu er óbeint verið að vísa til þess að mörg álver í heiminum eru með orkusamninga þar sem raforkuverðið sveiflast í takti við verðbreytingar á áli. Aftur á móti er ekki vitað til þess að Rio Tinto hafi birt gögn sem sýna svart á hvítu að álverið í Straumsvík geti ekki staðið undir raforkuverðinu. Meðan það hefur ekki verið gert er útilokað að fullyrða að raforkuverðið sé ósamkeppnishæft.
Ekki er nóg fyrir Rio Tinto að vísa til ársreikninga ISAL um að tap sé á rekstri álversins. Afkoma einstakra álvera byggist mjög á viðskiptum þeirra við önnur fyrirtæki í sömu samsteypu, t.d. vegna kaupa á súráli og kaupa á rafskautum. Og í mörgum tilvikum eru álverin í stórskuld við e.k. innanhúsbanka samsteypunnar og þar geta vaxtakjörin ráðið mjög miklu um arðsemi viðkomandi álvers. Til að Landsvirkjun geti fallist á að raforkuverðið sé ósamkeppnishæft myndi orkufyrirtækið fyrst þurfa að sjá bókhald ISAL og hina ýmsu samninga fyrirtækisins og þá ekki síst við félög innan Rio Tinto samsteypunnar.
Rio Tinto þarf að sýna Landsvirkjun fram á nauðsyn verðbreytinga
Fjárhagslegir hagsmunir Landsvirkjunar verða ekki endilega best tryggðir með því einu að krefjast efnda á orkusamningnum. Mögulega sér Landsvirkjun meiri eða jákvæðari verðmætamyndun í þeirri leið að mæta óskum Rio Tinto með einhverjum hætti. Það gæti hugsanlega gerst með t.d. tímabundnum breyttum reiknireglum raforkuverðsins gegn samningi um framtíðarávinning Landsvirkjunar af bættri afkomu álversins. Ef það er staðreynd að orkuverðið til Straumsvíkur sé óeðlilega hátt og nær útilokað sé að álverið ráði við óbreytt verð, hljóta fyrirtækin að fara vel yfir málið. Eðlilegt er að Rio Tinto byrji á því að sýna svart á hvítu af hverju fyrirtækið telur sig ekki geta staðið við að borga það raforkuverð sem mælt er fyrir um í gildandi orkusamningi fyrirtækjanna.
Fyrirtækin geta mögulega náð lausn sem er jákvæð fyrir alla
Verði Landsvirkjun sammála Rio Tinto um að aðgerða sé þörf ættu fyrirtækin að reyna að semja um hvaða aðgerða þarf að grípa til. M.ö.o. að finna sameiginlega lausn sem hjálpar álverinu yfir erfiðan hjalla og skapar Landsvirkjun um leið möguleika á auknum ávinningi til framtíðar. Það er lausnin sem fyrirtækin munu vafalítið vinna að ef samkomulag er um að skynsamlegt sé að endurmeta gildandi samningsákvæði um orkuverðið eða reiknireglurnar þar.
Til að liðka fyrir slíkum samningi hlýtur Rio Tinto að bjóða Landsvirkjun bæði tilteknar sérgreiðslur, sem myndu byrja um leið og lægra raforkuverð byrjar að bæta arðsemi álversins, og bjóða orkufyrirtækinu enn betri ábyrgðir fyrir framtíðargreiðslum. Eðlilegt er að Rio Tinto stígi fram með tilboð á þessum nótum. Það er að gegn svigrúmi m.t.t. raforkuverðsins muni Landsvirkjun fá enn betri ábyrgð á greiðslum út samningstímann og einnig njóta þess á viðeigandi hátt, með skýrum og afmörkuðum viðmiðunum, þegar arðsemi álversins batnar.
Það yrði sjálfsagt ekki sáraeinfalt að ná fram slíkum samningi. En ef álverið í Straumsvík er ekki úrelt verksmiðja með ósamkeppnishæfan tæknibúnað, ætti að vera unnt að finna lausn sem hentar báðum samningsaðilum. Nú reynir á hvort stjórnendur Rio Tinto og Landsvirkjunar séu sammála um að þarna sé raunhæft tækifæri til að skapa það sem gjarnan er kallað win-win-situation.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.