Vegna nokkuð ítarlegrar fréttaskýringar Kjarnans um úrskurð héraðsdóms í Reykjavík í máli sem Glitnir HoldCo höfðaði gegn Útgerðarfélagi Reykjavíkur (ÚR) vil undirritaður framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR) gera örfáar athugasemdir og koma með nokkrar ábendingar fyrir þá sem áhugasamir eru um þetta mál.
Fyrst skal nefna að af fréttaskýringu Kjarnans má skilja að ÚR hafi helst borið fyrir sig að Glitnir hafi haft hag að því að gengisfella íslensku krónuna. Það er vissulega ein af 14 ástæðum sem ÚR lagði fram í vörn sinni en ekki sú helsta. Rétt er geta þess að sú málsástæða byggir á niðurstöðu þriggja matsgerða sem lágu fyrir í málinu sem sýna að Glitnir hagnaðist um tugi milljarða á gengisfalli íslensku krónunnar árið 2008 og að uppistaðan í ávinningi Glitnis var stöðutaka með afleiðusamningum viðskiptavina Glitnis. Með vísun til laga um verðbréfaviðskipti þar sem segir að fjármálastofnun skuli forðast hagsmunaárekstra við viðskiptavini og upplýsa viðskiptavini um alla hagsmunaárekstra er það óskiljanlegt fyrir undirritaðan að lesa það í dómi héraðsdóms sem segir á bls 54 : „Jafnvel þótt gögn málsins bendi til þess að Glitnir hafi hagnast, amk. til skamms tíma litið , af lækkandi gengi íslensku krónunnar telur dómurinn ekki fram komið að Glitnir hafi markvisst stuðlað að lækkun íslensku krónunnar eða búið yfir sértækum upplýsingum um þróun gengis hennar sem honum var skylt að upplýsa viðskiptavini sína um.“ ÚR hefur ekki haldið því fram sem þarna segir heldur einungis að Glitnir hafi verið skylt að upplýsa um hagsmunaárekstra sem eru bannaðir samkvæmt gr. 8. í verðbréfalögum no. 108/2007. Þá er jafnframt rétt að geta þess að í ofangreindum matsgerðum kemur fram að Glitnir var í raun orðinn gjaldþrota í október 2008 þegar samningarnir sem deilt er um áttu að hafa verið gerðir. Því eru þeir ógildir því bankinn hafði rangt við í sínum uppgjörum.
Aðal málsástæðan siem ÚR hefur byggt á í þessu máli er að ekki nokkur starfsmaður ÚR hvorki bað um, gerð né staðfesti 23 af 31 samningum sem deilt er um og mynda þeir samningar um 90% af heildarkröfu Glitnis á hendur ÚR. Í 8 ár eða frá 2008 til 2016 hélt Glitnir því fram að fyrrverandi starfsmaður ÚR sem lét af störfum í september 2008 hefði gert afleiðusamninga í október 2008. Þegar ÚR fékk loksins eftir langan málarekstur afrit af samtölum sem staðfestu að Glitnir var með allar upplýsingar og starfsmenn Glitnir vissu að umræddur maður var ekki starfsmaður ÚR, lét Glitnir vísa málinu frá með því að mæta ekki í fyrirtöku. Málinu var stefnt aftur í maí 2016 og þá hélt Glitnir því fram að ungur maður sem var ný byrjaður að vinna hjá ÚR hefði gert þessa samninga. Lögmaður Glitnis hafði í hótunum við unga manninn en háttsemi lögmanns Glitnis var kærð til Lögmannafélagsins sem ávítti lögmanninn. Glitnir lagði fram einn tug samtala af nokkur hundruðum slíkra sem Glitnir átti við starfsmenn ÚR. Af þessum 10 samtölum sem voru hljóðrituð og lögð fram var ekkert sem staðfestir gerð umræddra samninga. Bæði starfsmenn Glitnis og starfsmenn ÚR staðfestu það fyrir dómi.
Í fyrirspurn til Ríkisendurskoðanda sem undirritaður sá eftir að málflutningi lauk segir: „Það liggur skýrt fyrir að svokallaðar eftirstæðar eignir (retained assets) voru hluti af eignasafninu sem slitabú Glitnis framseldi ríkinu með samningi, dags. 10. desember 2015, um uppgjör á stöðugleikaeignum.„Um þessar eignir sagði starfsmaður Ríkisendurskoðanda ennfremur: „Eftirstæðar eignir, þ.m.t. afleiðusamningar, hafa allar verið metnar og færðar upp til eignar í efnahagsreikningi ríkissjóðs…”
Framburður Hauks C og Steinars Þórs er því ekki í samræmi við ársreikninga Glitnis 2015 til 2019, Ríkisreiknings 2016 og svar frá Ríkisendurskoðanda eftir að málið var dómtekið.
Það er rétt í fréttaskýringu Kjarans sem segir „Því blasir við að Útgerðarfélagið hefur getu til þess að greiða skuldina við Glitni HoldCo, sem mun að óbreyttu renna í ríkissjóð sem hluti af stöðugleikaframlaginu”. Ástæðan fyrir því að Héraðsdómur átti að vísa málinu frá er að Glitnir er annað hvort rangur aðili máls eða málið var svo stórlega vanreifað að dómur átti aldrei að falla í málinu.
Höfundur er framkvæmdastjóri ÚR.