Á óvissutímum er eðlilegt að fólk komist í uppnám. Eins og orðið gefur til kynna þá felur óvissa í sér ástand þar sem fleiri spurningar en svör er að finna. Okkur líður best ef að við vitum hvað er í vændum og getum gert ráðstafanir. Mig langar að fjalla um 6 atriði sem tengjast hegðun og tilfinningalífi okkar á meðan á óvissuástandi stendur. Margt að því sem fer hér á eftir getur virst augljóst en getur svo gleymst þegar álagið eykst. Því er mikilvægt að æfa sig á þessum viðbrögðum á meðan álagið er minna svo við getum notað þau þegar á reynir.
1. Við lærum af mótlæti
Fólk er almennt sterkt og þrautseigt. Ef við þyldum ekki álag værum við löngu útdauð.
Bestu viðbrögð: Við getum notað þennan tíma til að læra betur inn á okkur og hvernig við bregðumst við álagi. Klöppum okkur á bakið fyrir það hversu kærleiksrík og umburðarlynd við erum og hversu hratt og skipulega við bregðumst við. Útkoma þessa álagstíma gæti því verið að við sýnum náunganum meiri samúð og skilning.
2. Einföldum upplýsingar
Við skiljum betur einfaldar upplýsingar undir álagi. Margvísleg skilaboð eru að berast okkur á sama tíma og við höfum ekki getu til að vinna úr þeim öllum. Einnig gleymum við frekar hlutum sem sagðir eru við okkur undir álagi.
Bestu viðbrögð: Tölum með einföldum hætti hvort við annað og köllum eftir viðbótarupplýsingum ef að við teljum okkar hafa misskilið eitthvað. Vörumst að endurhlaða fréttasíðurnar til að fá nýjustu upplýsingar. Það viðheldur oft óþarfa uppnámi. Mín vinnuregla er að ráðleggja fólki að fara inn á fréttamiðla ekki oftar en 3-4x á dag til að skoða nýjustu fréttir. Meiri fréttaneysla hefur ekki jákvæð áhrif á tilfinningalíf eða getu til að bregðast við aðstæðum.
3. Temjum okkur sveigjanleika
Erfitt getur verið að breyta hegðunarmynstri fólks í óvissu sérstaklega ef að það gengur gegn sannfæringu þess. Við réttlætum hegðun okkar með tilfinningum frekar en rökum. Ef að margir bregðast við eigin uppnámi frekar en að hlusta á rök er meiri hætta á glundroða.
Bestu viðbrögð: Það er því mjög mikilvægt að upplýsingar komi frá aðilum sem almennt eru taldir áreiðanlegir og traustvekjandi. Opinberar stofnanir þurfa að tala með skýrum hætti við þjóðina eins og mér sýnist þeir hafi gert hingað til. Við þurfum þá að vera tilbúin að taka sönsum og breyta hegðun samkvæmt því.
4. Treystum fagfólki
Eðlilegt er að fólk finni til hræðslu og kvíða við svona aðstæður. Kvíði getur verið hjálplegur upp að vissu marki en við þær aðstæður sem eiga sér staðar í dag er hætt við að of mikill kvíði vinni gegn okkur. Óróleiki vekur upp aukinn kvíða í okkar nánasta umhverfi sem aftur smitar út í samfélagið og eykur almennt uppnám.
Bestu viðbrögð: Einföldum áreitið með því að fara eftir ábendingum frá ábyrgum aðilum og láta þar við sitja. Treystum yfirvöldum eins og við óskum eftir því að börnin okkar treysti okkur. Sinnum hugðarefnum okkar og róum okkur niður frekar en að sækjast eftir æsingi. Heyrum í vinum og vandamönnum og stöndum saman. Sýnum áhyggjum annara skilning en ýtum ekki undir of miklar áhyggjur.
5. Vörumst sjálflægni
Hætt er við að sumum finnist gengið fram hjá sér við þessar aðstæður og vilja fara eigin leiðir. Margar ástæður geta verið fyrir því. Til dæmis að viðkomandi skortir upplýsingar; efasemdir um fyrætlanir stjórnvalda; mikið uppnám eða mikil sjálflægni. Slík viðbrögð hafa bæði neikvæð áhrif á viðkomandi og hafa margfeldnisáhrif út í samfélagið þar sem traust minnkar og fólk fer að vinna hvert fyrir sig frekar en sýna samstöðu.
Bestu viðbrögð: Eins og kom fram hér að ofan er mikilvægt að treysta opinberum aðilum. Þeir geta gert mistök undir miklu álagi og hröðum breytingum en eru samt þeir sem hafa mesta hæfni, fjármagn og mannafla til að ákveða bestu viðbrögðin. Ef við teljum að sumir í kring um okkur séu að fá sérmeðferð er mikilvægt að skoða það með ró og röksemdum og setja í samhengi. Það er ekki víst að við skiljum aðstæður rétt þegar við erum sjálf undir álagi.
6. Leitaðu hjálpar ef þörf krefur
Við erum ekki sérfræðingar í krísum. Við munum því gera mörg mistök og bregðast óheppilega við. Aukning getur verið á rifrildum hjóna og óþolinmæði gagnvart börnum. Vantraust getur aukist í samfélaginu.
Bestu viðbrögð: Sýnum okkur skilning og höldum áfram á þeirri leið sem við höfum markað okkur. Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr ósætti og deilum jafnvel þótt að það gæti virst sem við séum að láta í minni pokann til skamms tíma. Það ber vott um þroska að láta ekki reiði og réttlætiskennd ráða för. Ef okkur líður eins og við getum ekki lengur höndlað þær tilfinningar sem við erum að takast á við getur verið gott að leita tímabundið á náðir sálfræðings eða annarra fagaðila.
Höfundur er sálfræðingur hjá fjarþjónustu Tölum Saman.