Í faraldrinum sem nú herjar á heimsbyggðina má ekki gleyma því að slíkir atburðir laða oft fram það besta hjá okkur mannfólkinu. Ekki aðeins kórónaveiran virðist bráðsmitandi heldur einnig góðvild, von og náungakærleikur.
Að sjálfsögðu berast okkur af og til kaldhæðnislegar sögur, t.d. af vopnuðum mönnum sem stela klósettrúllum í Hong Kong eða áströlskum konum sem slást í matvöruverslunum vegna deilna um klósettpappír. Byggt á þessum sögum væri hægt að draga þá ályktun að fólk hugsi bara um sjálft sig.
Ekkert er jafn fjarri raunveruleikanum. Almannavarnadeild ríkislögleglustjóra, sóttvarnalæknir, landlæknir og fjölmargir aðrir hafa undanfarnar vikur gengið fumlaust til verka við að skipuleggja varnir gegn útbreiðslu kórónuveirunnar hérlendis. Ríkisstjórnin hefur bakkað þetta frábæra fagfólk upp án fáts. Starfsfólk veirudeildar Landspítalans hefur unnið linnulaust við ótrúlegar aðstæður til að greina þúsundir sýna. Þúsundir lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða auk starfsfólks í ræstingum hafa lagt mikið á sig til að sinna veikum einstaklingum og tryggja að heilbrigðiskerfið geti starfað. Yfir 300 læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og lyfjafræðingar hafa auk þess skráð sig í sérstaka bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar.
Ástandið gerir okkur nánara
Frá Kína, Ítalíu, Spáni og Danmörku berast þær fregnir að krísan hefur gert fólk nánara. Í Kína hefur fólk að eigin sögn lært að þiggja aðstoð annarra. Vegna kórónuveirunnar og einangrunar sem margir hafa þurft að sæta hefur fólk stutt hvert annað í auknum mæli. Margir Kínverjar segja „jiayou“ („ekki gefast upp“) til að hvetja hvert annað. Á Ítalíu, þar sem hafa verið settar þröngar skorður og fólk hvatt til að vera heima hjá sér, létta Ítalir hver öðrum lundina með því að standa úti á svölum og syngja Abbracciame („faðmaðu mig“), lag frá Napólí sem allir þekkja.
Börnin skrifa „Andrà tutto bene“ („þetta reddast“) á veggina og hafa þessi hvatningarorðin, sem voru fyrst notuð af nokkrum mæðrum í Puglia, breiðst út um alla Ítalíu eins og annar faraldur. Á Spáni fóru íbúar landsins út á svalir rétt áður og útgöngubannið tók gildi og klöppuðu hátt til að þakka heilbrigðisstarfsmönnum landsins sem leggja nótt við nýtan dag til að tryggja heilsu og vellíðan fólks. Í Danmörku hefur verið stofnaður bakhópur á Facebook þar sem fólk býður sig fram til að hringja í aldraða, fara í innkaupaferðir og útréttingar fyrir þá, fara með póst eða sækja lyf.
Samstaðan er falleg
Hérlendis hafa einnig borist fjölmargar jákvæðar fréttir. Eftir að matarúthlutun Mæðrastyrksnefndar var hætt vegna smithættu bárust sem dæmi þau ánægjulegu tíðindi að framtak sjálfboðaliða væri komið af stað til að aðstoða þennan viðkvæma hóp. Grasrótin leysir þannig þennan vanda með hagsmuni samborgara sinna í huga án aðkomu stjórnvalda.
Rannsóknir hafa sýnt að ósérhlífni, hjálpsemi og samstaða eykst almennt þegar á reynir. Kaldhæðni víkur fyrir von. Við áttum okkur á því að við erum öll í þessu saman og þurfum að sýna ábyrgð og samstöðu. Áföll þjappa okkur saman og sýna hið rétta eðli Íslendinga. Alls staðar sést fólk sem vill leggja sitt af mörkum, með því að hlíta fyrirmælum um sóttkví, einangrun og samgöngubann og líka með því að bjóða fram hvers konar aðstoð. Ómetanleg verðmæti felast í þessari samstöðu. Kannski á heimsfaraldurinn eftir að færa okkur nær hvert öðru (ekki líkamlega þó). Eða eins og ítalski forsætisráðherran Guiseppe Conte orðaði það: „Höldum fjarlægð í dag, svo að við getum faðmast enn þéttingsfastara á morgun.“
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.