Ég rakst á Jónas í Byko um daginn, sem endaði með því að við tókum spjall saman. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að ég þekki Jónas nánast ekkert, veit ekkert um hans hagi og hef ekki rekist á hann í áraraðir. Jónas er eitthvað eldri en ég, en ég kannast við hann í gegnum Kjartan hálfbróðir minn. En ef ég á að vera heiðarlegur þá sá ég Jónas útundan mér þar sem ég stóð í spartldeildinni þegar hann gekk framhjá mér ásamt konunni sinni – ég held alla vega að þetta hafi verið konan hans – en ég lét sem ég væri niðursokkinn í að lesa aftan á spartltúbuna sem ég hélt á í stað þess að eiga frumkvæði að samskiptum við Jónas. Þegar Jónas sá mig kom aftur á móti á hann augnabliks hik, en svo vatt hann sér upp að mér og heilsaði mér með virktum (þó hvorki með handabandi, faðmlagi né kossum). Við áttum í kjölfarið mjög gott og skemmtilegt spjall á ganginum í Byko sem lauk með því að ég sló eitthvað á létta strengi og hjónin – ég geri enn ráð fyrir því að konan hans Jónasar hafi verið með honum – hlógu dátt. Síðan kvöddumst við.
Ástæða þess að ég hef pistilinn á þessari sögu er sú að spjallið við Jónas gerði mér gott. Mér hlýnaði um hjartarætur að Jónas hafi tekið þá ákvörðun að koma og tala við mig á ganginum í Byko. Einnig var ég ánægður með að hann og konan (hans) hafi hlegið að glettni minni, það blés mér byr í brjóst. Og vegna frumkvæðis Jónasar að spjallinu okkar þá var ég ekki með samviskubit yfir að hafa ekki þóst taka eftir Jónasi og konunni (hans) þegar þau voru í þann mund að ganga fram hjá mér í versluninni stuttu áður. Ég var því nokkuð brattur og glaður þegar ég gekk út úr verslun Byko þennan eftirmiðdaginn, þrátt fyrir að það hafi verið á öðrum degi samkomubanns á Íslandi vegna COVID-19 veirunnar.
Sem félagsfræðingi þá er mér sérstaklega umhugað um félagslega heilsu þjóðarinnar á tímum sem þessum. Og ég er vonandi ekki einn um það, því í þessu samhengi má rifja upp að í skýrslu forsætisráðuneytisins á hagsæld og lífsgæðum íslensku þjóðarinnar, frá því í september 2019, kemur fram að félagsleg samskipti skipti mjög miklu máli fyrir lífsgæði fólks hér á landi og jafnvel meiru máli en hagvöxtur. Forsætisráðherra hefur í því sambandi sérstaklega nefnt að stjórnvöld þurfi að hlúa vel að því hvernig þau geti betur byggt upp félagsleg tengsl manna á milli. Það verkefni á sérstaklega vel við um þessar mundir.
Það er okkur mannfólkinu bæði gagnlegt og nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum og leitumst við gjarnan eftir því að tengjast og tilheyra einhverju stærra en við erum sem einstaklingar. Við erum félagsverur. Í umfjöllun sinni um trúarbrögð fyrri tíma benti franski félagsfræðingurinn Emilé Durkheim til að mynda á að trúarbrögðin hefðu verið vel til þess fallinn að endurskapa samvitund borgaranna (e. the conscience collective); það er að tengja borgaranna sterkari félagslegum og siðferðislegum böndum sem þar með gæti styrkt undirstöður samfélagslegar einingar. Í gegnum trúarbrögðin öðluðust ókunnugir sameiginlega sýn, tilgang, skilning og sjálfsmynd og tengdust þannig sameiginlegum böndum.
En í afhelgaðri heimi nútímasamfélagsins – sem einkennist af vaxandi einstaklingshyggju og ópersónulegri tengslum fólks, samhliða hnignun trúarbragða sem og annarra hefðbundinna stofnana samfélagsins – er ýmislegt annað en trúarbrögðin sem geta treyst hin samfélagslegu bönd. Það gera til að mynda íþróttir. Í nýrri fræðigrein sem er að koma út eftir mig og ber heitið „National sport success and the emergent social atmosphere: The Case of Iceland” sýni ég til dæmis fram á hvernig íslenska þjóðin hefur á undanförnum árum fylkt sér á bak við karlalandslið í knattspyrnu, til að mynda þegar liðið tók þátt í lokakeppni Heimsmeistaramótsins árið 2018. Niðurstöður könnunar meðal landsmanna, sem birtast í greininni, sýndu meðal annars að þjóðin upplifði betri félagslega og andlega líðan á meðan á mótinu stóð en alla jafna. Til dæmis töldu þrír af hverjum fjórum svarendum að Íslendingar væru almennt glaðlegri, um 65% að þeir sýndu meiri samkennd og ríflega helmingur svarenda töldu að samlandar þeirra væru vinalegri á meðan á Heimsmeistarakeppninni stóð, en að öllu jöfnu. Það hafði jafnframt í för með sér að ríflega 70% svarenda upplifðu aukið þjóðarstolt, ríflega 60% fannst þeir tilheyra betur samfélaginu sem þeir búa í, tæplega helmingur svarenda fann fyrir aukinni vellíðan og um 40% töldu að lífið væri betra á meðan á mótinu stóð, heldur en vanalega. Þegar vel gengur og árangur næst geta íþróttirnar þannig aukið samkennd og samhug og stuðlað að vellíðan einstaklinga og hópa samfélagsins.
Áðurnefndur Emilé Durkheim hélt því enn frekar fram að það er ekkert sem þjappar fólki betur saman (þá hugmyndafræðilega og tilfinningalega sem hóp eða þjóð) heldur en utanaðkomandi hættur – líkt og COVID-19 er fyrir okkur um þessar stundir. Utanaðkomandi hættur þétta raðirnar. Þá skiptir nefnilega engu máli hvort fólk er til hægri eða vinstri í pólitík, haldi með KR eða Breiðablik, býr fyrir sunnan eða vestan, hlusti á Bó eða Bríeti, eða ferðist um á Hummer jeppa eða Trek hjóli. Óværan gerir nefnilega engan mannamun, sem minnir okkur á að þegar allt kemur til alls þá erum við öll í sama liðinu. Og eins og í öllum góðum liðum þá getur sjálf þátttakan í liðinu dregið fram það besta hjá öllum liðsmönnum sem í framhaldinu gerir liðið eitthvað stærra, meira og sterkara en summa eininganna sem mynda það – ekki ósvipað fótboltalandsliðinu okkar. Með öðrum orðum, undir slíkum krefjandi kringumstæðum þá getur fólk myndað jákvæða og uppbyggilega hópstemmningu sem smitast svo manna á milli og sameinar fólk – hvort sem um er að ræða liðsmenn fótboltaliðs eða almenna borgara – í baráttunni gegn andstæðingnum.
Og þrátt fyrir samkomubann og skynsamleg tilmæli okkar helstu sérfræðinga um einangrun vegna COVID-19, og kannski sérstaklega vegna ástandsins, þá er mikilvægt að við hugum að þessum jákvæðu og uppbyggilegu félagslegu samskiptum á komandi vikum og mánuðum. Eitt lítið og jákvætt hæ!, bros, vink, nikk, netspjall eða símtal getur þannig haft uppbyggileg áhrif á aðra, sem og okkur sjálf. Við getum í því samhengi tekið Franciscu Mwansa – kassaafgreiðslukonu sem margir viðskiptavinir Bónus kannast við – okkur til fyrirmyndar. En jákvæðni hennar og útgeislun gerði það að verkum að maður fór ánægðari út úr Bónus en maður var þegar maður kom inn í verslunina. Og ekki nóg með það, þá kom maður ánægðari heim eftir að hafa verslað hjá hinni glaðlyndu Franciscu. Því má segja að Francisca hafi ekki einungis haft jákvæð áhrif á mig sem viðskiptavin Bónus heldur einnig á fjölskylduna mína heima fyrir – þrátt fyrir að fjölskyldan mín hafi aldrei nokkurn tímann séð hana eða hitt. Þannig er áhrifamáttur félagslegrar smitunar (e. social contagion). Hegðun og viðmót smitast frá manni til manns og myndar stemmingu sem hefur enn frekari áhrif á líðan okkar og lund.
Bros, vingjarnlegt viðmót, hjálpsemi og tillitsemi kosta nefnilega ekki neitt, en bæta allt samfélagið í formi aukins félagsauðs (e. social capital) – sem er sennilega einhver besti díll sem ég veit um. Við getum þannig sem einstaklingar, og sem þjóð, tekið þá ákvörðun að við ætlum að sýna okkar bestu hliðar á komandi misserum með því að vera hjálplegri, vinsamlegri og tillitssamari, alveg eins og við vorum þegar fótboltastrákarnir okkar voru að keppa í Heimsmeistarakeppninni. Það gerir okkur öllum gott, og sérstaklega núna þar sem þörfin á jákvæðum og uppbyggilegum félagslegum samskiptum hefur sjaldan verið meiri.
Ég ætla sum sé að sýna mínar bestu hliðar. Því þegar sá gállinn er á okkur þá erum við ansi mögnuð. Og ef við komum okkur saman á þessum krefjandi tímum um að sýna okkar bestu hliðar í félagslegum samskiptum þá getur mótlætið sem við stöndum frammi fyrir styrkt okkur sjálf, fólkið í kringum okkur, nærsamfélagið sem og okkur Íslendinga sem þjóð til lengri eða skemmri tíma. Og svo allt í einu kemur lóan til að kveða burt snjóinn …
Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.