Ég veit ekkert hvort ég hefði komist að dekkri eða bjartari niðurstöðu en opinber spálíkön, en það sem ég get fullyrt er að þau hefðu verið ólíklegri til að vera rétt. Ástæðan fyrir því er að ég hef engar forsendur til að ætla að ég geti gert betur en það teymi sem að baki opinberu líkönunum stendur.
Já, ég hef ágæta reiknihæfileika og tel mig hafa ágæta dómgreind, en það hafa tugþúsundir Íslendinga. Ég hef hins vegar enga sérþekkingu í faralds- eða veirufræði. 90% af því litla sem ég veit hef ég lært á síðustu 3-4 vikum. Ég hef heldur ekki það sjálfsálit að telja mig hafa lært meira á þeim tíma en það fólk sem mest hefur lært um þessi mál og hefur beinan aðgang að bestu upplýsingunum um stöðu mála.
Það getur jú verið eitthvað gagn í því að skoða rauntölurnar og hvernig þær eru að þróast, en það er varasamt að setja þær frá degi til dags í of stórt samhengi, hvort sem er í tíma eða samanburði við önnur lönd. Til þess eru íslensku tölurnar enn of litlar og sveiflurnar of stórar annars vegar, og aðferðafræðin of ólík á milli landa hins vegar.
Hver sá sem þykist geta fullyrt að hann (já, eru þetta ekki allt karlar?) viti betur en spár yfirvalda, án þess að byggja þá fullyrðingu eða hafa unnið sína greiningu með fólki sem hefur sérþekkingu í heilbrigðismálum er svo gott sem ómarktækur. Í besta falli er sá í aðstöðu til að spyrja góðra spurninga, en alls ekki til að fullyrða eitt né neitt.
Það sem er gott, er að klárt og vel meinandi fólk úr öllum áttum er að setja sig inn í hlutina og spyrja krefjandi spurninga. Það var virðingarvert hjá Víði Reynissyni á upplýsingafundinum í gær þegar hann þakkaði fyrir gagnrýnina og spurningarnar sem hefðu borist, því þannig gætu þau tékkað sig af.
Umfram allt annað hefur upplýsingagjöf til almennings í þessum faraldri verið til fyrirmyndar og ferlið ótrúlega opið. Fólkið sem að þessu stendur myndi taka slíkum umleitunum fagnandi og án efa taka tillit til þeirra. Öfugt við hina sjálfskipuðu faraldsfræðinga hafa þau nefnilega talað óhikað um það að þetta sé kvik staða og það sé mikil óvissa í þróuninni, sérstaklega framan af.
Eina fólkið sem er alveg örugglega ekki mark á takandi við þessar fordæmalausu kringumstæður er fólkið sem efast ekki hið minnsta um að það hafi rétt fyrir sér.
Mörg okkar eru hrædd, óörugg og leitandi í þessum kringumstæðum. Undir slíkum kringumstæðum eru dómadagsspár eða óhófleg bjartsýni byggð á litlum grunni, en miklu sjálfsöryggi því miður líkleg til að fá mikla athygli. Þau geta hins vegar verið stórskaðleg.
Munið að þegar fólk veit ekki hverju það á að trúa, þá hættir það að trúa nokkru - og þá fyrst getur fjandinn losnað.
Við ykkur sem standið í eigin útreikningum og ályktunum - margir hverjir góðir vinir mínir - hef ég þetta að segja: Fariði hægar, hugsiði dýpra, fáið fleiri með ykkur í lið, skoðið vinkla sem eru andstæðir ykkar og íhugið þann möguleika að þið hafið jafnvel rangt fyrir ykkur að einhverju eða öllu leyti. Setjið síðan spurningar ykkar og sjónarmið fram af meiri yfirvegun en hingað til og ég leyfi mér að fullyrða að þeim verður bæði svarað og tillit til þeirra tekið.
Þannig gerið þið mest gagn.
Höfundur er framkvæmdastjóri GRID og stjórnarformaður Kjarnans.