Mér finnst ekki mjög gaman að eiga afmæli akkúrat núna, en samt alveg ágætt. Samt var alveg gott að það voru ekki of miki læti. Ég bauð einum gesti, Kára frænda mínum, í afmælisköku og pizzu. Það var skemmtilegra en ég hélt að það myndi verða að vera bara tveir. Við eigum alltaf eftir að muna eftir þessu skrýtna afmæli. Svo kom pabbi líka í heimsókn og fékk kaffi og pizzu.
Við Kári eigum fyndna mynd af okkur saman sem mamma ætlar að stækka og eiga. Ég held að ég eigi alltaf eftir að muna þetta afmæli, það er svo ólíkt hinum afmælunum mínum. Eins og hjá frænku minni sem á afmæli 11. september og man alltaf eftir afmælinu þegar flugvélarnar flugu á turnana því allir voru svo sorgmæddir.
Ég fékk allavega bestu gjafirnar sem ég hef fengið í lífinu mínu. Ég fékk fótboltaföt með Valsmerkinu og fótboltatösku. Og Kári frændi gaf mér gerviskalla og spray svo ég gat spreiað hárið mitt bleikt. Og ég gerði það! Ég held að þetta hafi verið eitt besta afmælið, þó að það hafi verið skrýtið.
Allir krakkar sem þurfa að fresta að afmælinu sínu geta örugglega haldið risapartí í sumar. Eða í síðasta lagi í haust. Og meira að segja úti í garði ef það verður í sumar og þau eiga garð. Þá er hægt að vera í fótbolta í afmælinu! Eða bara í Hljómskálagarðinum eða einhverjum garði nálægt, ef þau búa ekki í Reykjavík. Það verður fullt af krakkapartíum út um allt um leið og þetta kórónuhelvíti verður búið. Ég hlakka til.
Áfram krakkar!