Það hefur aldrei verið mikilvægara en á þessum síðustu og verstu tímum að skapa litlar hamingjustundir. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að jákvæðar tilfinningar geta hjálpað okkur við að draga úr neikvæðum áhrifum streitu auk þess sem þær styrkja ónæmiskerfið. Fólk sem hefur jákvæðar tilfinningar er sem dæmi fljótara að ná sér eftir flensu. Að hugsa jákvætt eykur seiglu og hefur þau áhrif að við náum okkur fyrr eftir mótlæti. Jákvæðni stuðlar einnig að skýrari hugsunum, meiri sköpun, betri ákvarðanatöku, betri lausn vandamála og auknum vitrænum sveigjanleika.
Hér fyrir neðan eru fjórar hagnýtar leiðir til að ýta undir jákvæðar tilfinningar:
- Njóttu litlu stundanna: Fjölmargar stundir í lífinu birtast í formi fábrotinnar ánægju á handahófskenndum augnablikum. Ilmurinn af kókoskaffinu, heitt vatnið á bakinu í sturtunni, sameiginlegur hádegismatur með fjölskyldunni, eða fallegur söngur í sjónvarpinu. Staldraðu við og taktu eftir í stað þess að vera á sjálfstýringunni. Á þann hátt gefurðu heilanum færi á að að vinna úr ánægjunni. Það eykur framleiðslu serótónins sem er taugaboðefni sem bætir líðan okkar og hefur róandi áhrif.
- Iðkaðu þakklæti: Skrifaðu niður þrjú atriði á hverjum degi sem þú ert þakklát/ur fyrir. Raunverulegt þakklæti er upplifun sem hefur bein áhrif á líkamsstarfsemi, bæði veitanda þess og þiggjanda. Að iðka þakklæti leiðir sem dæmi til betri heilsu, betri svefngæða, meiri gleði og hamingju, sterkari sambanda, meiri lífsánægju og aukinnar bjartsýni, og er þá talinn upp aðeins hluti þeirra góðu áhrifa þess að veita góðum hlutum í lífinu gaum.
Auglýsing
- Styrktu tengslin: Nú er tækifæri til að verja gæðatíma með fjölskyldunni. Gefðu þér tíma til að knúsa börnin eða makann, spila saman og eiga gott spjall við þau. Faðmlög og nánd stuðla að framleiðslu oxýtósíns, sem er hormón sem eflir tilfinningabönd. Það hefur einnig róandi áhrif á líkamann. Þegar magn oxýtósíns í líkamanum hækkar vinnur það gegn streituhormóninu kortísól.
- Veittu því góða athygli: Krísur geta kallað fram það besta hjá fólki. Síðustu vikurnar höfum við séð mörg dæmi um samstöðu, einingu og hugulsemi í samfélaginu. Heilbrigðisstarfsmenn sýna mikla eljusemi og fórnfýsi í sínum störfum, góðhjartaðir einstaklingar í útlöndum senda okkur öndunarvélar, kennarar vinna afrek við að breyta rauntímakennslu í fjarkennslu, tónlistarmenn halda tónleika fyrir eldri borgara, og alls staðar í samfélaginu réttir fólk hjálparhönd og lætur gott af sér leiða. Þessi samstaða gefur von.
Við getum sjálft gert svo margt til að skapa okkur vellíðan, m.a. með því að viðhafa jákvætt viðhorf, einblína á skemmtilega hluti og velta okkur ekki upp úr því sem við getum ekki haft áhrif á.
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.