Fólk þarf fréttir – það er svo sem ekkert nýtt – en við finnum vel að nú er sérstaklega mikil eftirspurn eftir fréttum og fréttatengdu efni. Við vöndum okkur við umfjöllun um kórónuveiruna, greinum áhrif hennar á samfélagið og reynum eftir fremsta megni að halda í okkar sérstöðu – gæði og dýpt.
Ef Kjarninn væri vefverslun með klósettpappír og lestrartölurnar okkar væru sölutölur þá værum við sannarlega á grænni grein. Kjarnarúllurnar rykju út og við gætum dundað okkur við að telja peninga. En vegna þess að fréttir og fréttaskýringar eru ekki eins og hver önnur söluvara þá þarf vefmiðill eins og Kjarninn að finna sér ýmsar leiðir til að afla tekna. Þótt mikil spurn sé eftir áreiðanlegum fréttum og fréttaskýringum þar sem kafað er dýpra í fréttamál líðandi stundar þá er ekki þar með sagt að lesturinn umbreytist í peninga.
Sú staða sem sjálfstæðir fjölmiðlar standa frammi fyrir, vandinn við að afla nægra tekna til að sinna þeirri þjónustu sem spurt er eftir, er ekki einkamál Kjarnans. Í greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögum um fjölmiðla sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram á þingi í fyrravetur segir: „Síðustu ár hafa rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla hér á landi versnað til muna. ... Kaup á auglýsingum færast í auknum mæli til erlendra stórfyrirtækja svo sem net- og samfélagsmiðla sem leitt hefur til samdráttar í auglýsingasölu hjá hinum hefðbundnu einkareknu fjölmiðlum.“ Þar er með öðrum orðum viðurkennt að staða fjölmiðla hefur verið erfið um nokkra hríð.
Unnið hefur verið að því frá árinu 2016 að sníða stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og nú í vetur komst loks skriður á málið þegar áðurnefnt frumvarp var tekið til umfjöllunar í þinginu. Í því er lagt til að einkareknir fjölmiðlar geti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, „fengið tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni hér á landi.“ Í fyrstu var stefnt að því að endurgreiðsla yrði 25% kostnaðar en með breytingum hafði það hlutfall verið lækkað niður í 18% en síðan hækkað aftur í 20% samkvæmt nýjustu útgáfu frumvarpsins sem var til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd áður en starfsáætlun þingsins var sett á ís af þekktum ástæðum.
Mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið verður sjaldan eins ljóst og einmitt í krísu. Á tímum þegar við gleypum í okkur hvern fréttatímann á fætur öðrum, lesum langar og ítarlegar efnahagsgreiningar frá upphafi til enda og þyrstir í að lesa viðtöl og reynslusögur fólks dag hvern þá verður okkur ljóst hvaða gildi fjölmiðlar hafa í samfélaginu.
Það skiptir því máli að árétta að staða fjölmiðla var erfið áður en við lögðum af stað upp brekkuna sem nú er fram undan. Við á Kjarnanum, líkt og aðrir í þjóðfélaginu, höldum áfram og stöndum vaktina þrátt fyrir að leiðin sé grýtt og torfær. Við ætlum ekkert að hætta að segja fréttir, greina stöðuna og birta vandaðar fréttaskýringar. Kjarninn ætlar miklu frekar að gefa í, vinna hraðar, vinna meira.
Sú tekjuöflunarleið sem Kjarninn hefur reitt sig hvað mest á undanfarin ár, auk auglýsinga, eru frjáls framlög frá lesendum Kjarnans. Við köllum þessa leið Kjarnasamfélagið.
Tilurð Kjarnasamfélagsins byggir á þeirri einföldu ályktun að ekki aðeins þurfi fólk vandað fréttaefni heldur vilji fólk lesa vandað fréttaefni á netinu og sé tilbúið að greiða fyrir það. Þessi ályktun er ekki úr lausu lofti gripin, heldur voru það lesendur Kjarnans sem sjálfir óskuðu eftir að fá að greiða mánaðarlegt gjald fyrir aðganginn að efni Kjarnans, þótt vefurinn hafi alltaf verið opinn. Fólk er tilbúið að greiða fyrir það sem vel er gert, þótt það sé ekki að inna af hendi greiðslu fyrir sérstaka þjónustu heldur reiða fram styrk, mánaðarlegt framlag fyrir upphæð að eigin vali.
Á tímum sem ekki eiga sér hliðstæðu í sögunni þarf að huga að mörgu. Við þurfum vissulega að eiga nóg af klósettpappír! En við þurfum líka að eiga nóg af fjölmiðlum - vönduðum fjölmiðlum sem líta á starf sitt sem þjónustu í þágu almennings. Ritstjórn Kjarnans tekur sér ekki frídag á næstunni og venjulegur vinnutími hefur verið lagður til hliðar. Við ætlum einfaldlega að vera á tánum öllum stundum.
Ríkisstjórnin hefur kynnt efnahagslegar björgunaraðgerðir á þessum erfiðu tímum. Einhverjar þeirra munu nýtast fjölmiðlum líkt og öðrum fyrirtækjum í landinu. Engu að síður verðum við á Kjarnanum að takast á við þá stöðu að óvissa er um afdrif fjölmiðlafrumvarpsins sem tryggja átti stuðning til fjölmiðla í erfiðu rekstrarumhverfi. Við vitum ekki enn hvort við getum reiknað með þeirri endurgreiðslu sem lagt var upp með í frumvarpinu og gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum þessa árs (og á fjárlögum), þrátt fyrir að Kjarninn uppfylli sannarlega skilyrði um að teljast meðal þeirra miðla sem „beinlínis efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu.“ Ennfremur er óvissa um hvort stjórnvöld hyggjast grípa til einhverra viðbótarráðstafana til að styðja fjölmiðla í gegnum þann samdrátt sem nú blasir við vegna heimsfaraldurs.
Aðstæður eru vissulega sérstakar og ráðamönnum er vandi á höndum sem enginn kann fullkomlega að takast á við. En það er ekkert óeðlilegt við það að spyrja: Má þá lýðræðið bara bíða? Á að efla það einhvern tímann seinna, þegar fjölmiðlar eru farnir að týna tölunni?
Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur sína í nærri sjö ár og við ætlum okkur að vera það áfram. Við höfum ekki í hyggju að hefja sölu á klósettpappír en minnum á að Kjarnasamfélagið er enn mikilvægari stoð undir okkar rekstur en áður. Ef þú kannt að meta Kjarnann þá geturðu skráð þig fyrir mánaðarlegu framlagi til Kjarnans með því að smella á styrktarhnappinn efst til hægri á vef okkar. Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að það er hægt að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is.
Takk fyrir styrkinn – þið haldið Kjarnanum gangandi!