Hjálparstarf kirkjunnar hefur það hlutverk að veita fólki sem býr við fátækt félagslega ráðgjöf og efnislegan stuðning í neyðartilfellum. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins þekkja því vel til aðstæðna fólks sem býr við kröppustu kjörin á Íslandi og hafa verið öflugir talsmenn þess að farsæld ná til allra þjóðfélagshópa. Starfið hefur líka snúist um að styðja við fólkið sem til okkar leitar þannig að það treysti sér til að láta rödd sína heyrast og berjast fyrir bættum hag.
Undanfarnar vikur hefur fólk sem ekki leitar til okkar öllu jafna nú komið til okkar í neyð. Námsmenn sem ekki hafa átt þess kost að taka námslán að fullu og verið í íhlaupavinnu með námi, sérstaklega þá námsmenn sem eru einstæðir foreldrar, útlendingar sem hafa verið í tímavinnu og hafa því ekki réttindi, öryrkjar sem hafa stundað vinnu að einhverju leiti og þá án ráðningarsamnings, - þetta er fólkið sem hefur misst vinnuna en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Stjórnvöld, og þá sérstaklega á sveitarstjórnarstigi, verða að huga að þessu fólki.
Við erum samheldið samfélag þegar á reynir og við erum öll af vilja gerð. Við verðum að passa að gleyma engum í okkar frábæru almannavörnum. Ekki gleyma að hugsa um þennan hóp!
Höfundar starfa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.