„Við megum aldrei gleyma því að við getum fundið tilgang í lífinu, jafnvel þótt við séum í vonlausri aðstöðu gagnvart örlögum sem ekki verða umflúin.“ - Viktor E. Frankl.
Alexis Carrel, (f. 28.06.1873, d. 05.11.1944) var franskur skurðlæknir og líffræðingur sem hlaut Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði 1912 fyrir brautryðjandi æða-aðgerðartækni. Hann, í félagi við Charles. A. Lindbergh, hannaði og smíðaði fyrstu streymdælu sem varð upphaf að möguleika til líffæraígræðslu. Carrel ávann sér m.a. frægð fyrir leikni í meðhöndlun særðra hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni og fyrir fullkomnun sína á aðferðum til vefjaræktunar. Með vefjaræktuninni tókst honum að sýna fram á að hægt væri að halda vissum frumutegundum lifandi um aldur og ævi. Carrel lét sér ekkert óviðkomandi sem snerti mannlegt eðli. Hugsanir hans svifu með leifturhraða milli hins röktengda heims vísindanna og hins leyndardómsfulla heims andans. Hann var í senn líffræðingur, skurðlæknir, trúmaður, heimspekingur og listamaður.
Alexander Carrel sótti út til ystu marka hugsunarinnar í lausnum og athöfnum og ávann sér í senn aðdáun fyrir leiftrandi framsækni og djörfung á sviði líf- og læknisfræði, en einnig andúð vegna andans innsæi, sem hinu hefðbundna vísindasamfélagi þótti frekar tákn um óvísindalega hugsun og nálgun frekar en jákvæða samlegð til þekkingarauka í þágu læknisfræði. Í huga Carrels gilti einu hvernig eða hvaðan uppspretta lausnanna kæmi, svo fremi að hún skilaði framþróun í lækningu. Hið helga fyrirbæri líf, var honum mikilvægast öllu öðru. Engin verkefni voru svo flókin og stórbrotin fyrir huga Carrels að ekki væri þau verðug atlögu, eygði hann möguleika á framþróun í þágu lífsins. Þannig varpaði Carrel fyrir róða öllu sem snerti vísindalegri sjálfs-yfirhafningu fyrir lausnir og lækningar. Auðmýkt og áhugi Carrels beindist fyrst og fremst að manninum, sem hann upplifði á einhvern hátt sem leið til Guðs og öfugt.
Heimurinn utan takmarkasviðs líkamans hreif huga hans og knúði hann til að leita að óskilgreindri brú milli raun,-og andans heima. Carrel var í vissum skilningi þessi brú, því að í honum bjuggu í senn atgervi vísindamannsins og hjarta munksins. Í bókinni, „Maðurinn, hin óþekkta vera", sagði Carrel...„að efnisheimurinn væri manninum of þröngur, þrátt fyrir ómælanlega stærð sína. Hann sagði, að mennirnir væru ekki að öllu leiti háðir takmörkunum hinnar efnislegu tilveru...að maðurinn næði lengra út fyrir takmörkun efnis heildarinnar.....að einstaklingurinn næði út fyrir takmarkasvið líkamans jafnt í tíma sem rúmi og að hann væri einnig af öðrum heimi."
Sem ungur læknir skrifaði Carrel einnig handritið að bókinni; „Förin til Lourdes“ og var hún ein af fyrri tilraunum hans til að finna brú milli heimanna tveggja, vísinda og trúar. En sögu Lourdes má segja í fáeinum orðum: Árið 1858 varð smalastúlka ein fyrir vitrun og sá persónu, sem kaþólskir menn kalla Maríu mey. Vitrun þessi leiddi til þess, að fjöldi af veiku fólki, sem komið var með til Massabielle hellisins, læknaðist. Síaukinn fjöldi manna tók að leggja leið sína til hellisins, og þurfti fljótlega að leggja járnbraut til að mögulegt væri að anna vaxandi straum fólks þangað. Í lifanda lífi, lét Carrel ekki gefa út þessa bók. En við ævilok, var Carrel ennþá sokkin í þá sannfæringu sína að finna brúna milli heimanna tveggja. Á banasæng í Boquen klaustrinu, tjáði hann vini sínum, Dom Alexis eftirfarandi: „Ég bið Guð þess, að hann gefi mér tíu starfsár enn. Ég held, að með því sem ég hef reynt, muni mér takast að sýna á vísindalegan hátt fram á vissan hlutlægan skyldleika milli hins andlega og efnislega og leiða mönnum þannig fyrir sjónir sannindi og blessun kristnidómsins.“
Handritið að bókinni, „Förin til Lourdes" fannst meðal annars óútgefins efnis Carrels, að honum látnum. Bókin er áhrifamikil og persónuleg frásögn af reynslu hans og upplifun í Lourdes árið 1903. Læknirinn ungi hafði ritað bókina undir dulnefninu Lerrac sem er nafn Carrel lesið afturábak. Athuganir þessa unga læknis og vísindamanns í Lourdes höfðu djúpstæð og afgerandi áhrif á viðhorf hans og hugsun til vísinda og trúar til æviloka. Það sem hann gerði sér e.t.v. ekki grein fyrir á banalegunni, er að hann hafði þegar veitt vísindasamfélaginu ómetanlega innsýn inn í víddir bænarinnar og andans með þeirri rannsóknarvinnu sem grundvallaði handrit hinnar óútgefnu frásagnar.
Ferðin til Lourdes
Alexis Carrel fór í þessa för til að rannsaka með vísindalegum aðferðum hvort þrálátur orðrómur og vitnisburðir um lækningu hinna ýmsu kvilla ætti við rök að styðjast. Þrátt fyrir forvitni hans um andans heima og tryggð við kristna trú var hann fullur efa en tilbúinn að opna hugann fyrir þeim möguleika að lækningar fengjust staðist.
Carrel var starfsmaður læknadeildar háskólans í Lyon með sérgrein í kennslu krufninga, líffærafræði og tilraunavísinda. Sögurnar um lækningarnar í Lourdes höfðu fyrir löngu dregið að sér athygli hans en fjarlægð milli háskóla hans í Lyon og Lourdes voru einungis liðlega 700km. Sökum vísindalegrar menntunar sinnar gat hann ekki lagt þekkingarlegt mat á þær ótal frásagnir sem birtust í kaþólskum trúarritum af lækningum, en þótti hins vegar með eindæmum athyglivert að rithöfundurinn og Nóbelsskáldið Emil Zola, sem lítt þótti til um pólitík kaþólsku kirkjunnar, staðfesti í rituðu máli af eigin raun, að lækningar og kraftaverk hefðu átt sér stað í Lourdes. Vitnisburður Zola varð honum ekki síst hvatning til að kynna sér málin að eigin raun.
Carrel var sannleiksleitandi maður umfram allt annað. Á þann þátt í hugsun hans skyggði hvorki trú, hindurvitni né sögusagnir. Carrel hugsaði því með sér, að ef ekki yrði hægt að sannreyna lækningarnar með vönduðum vísindalegum aðferðum, þá væri hvort sem er ekki miklum tíma eytt til ferðarinnar og sannleikurinn yrði þá öllum ljós og hindurvitnin þar með hrakin. Tilgangurinn var því umfram allt, að sanna eða afsanna líffræðilega lækningu fyrir kristilegar bænir.
Í lestinni til Lourdes voru prestar, munkar, nunnur og læknar ásamt mörgum sjúklingum. Lestarferðin tók á alla, þar sem margir sjúklinganna voru við dauðans dyr og illmögulega ferðafærir. Þannig var andrúmsloft þessa pílagrímsferðar eins og sú hinsta fyrir marga. Kaþólskur prestur sem var með í förinni tjáði Carrel þetta vera 25. ferð sína til Lourdes og að hin heilaga mey, María hafi veitt u.þ.b. 20% sjúkra fulla lækningu. Carrel spurði prestinn hvað yrði um hina, þar sem þeir lifðu tæpast af ferðina til Lourdes, hvað þá til baka? Presturinn svaraði því til að það yrði að taka trúna með í reikninginn: Í öllum tilvikum öðluðust þeir sálarfrið og yfirgæfu jarðarsviðið sáttari og hamingjusamari en fyrr, sem væri mikil sáluhjálp. Presturinn bætti við: Þannig öðlast allir sem til Lourdes koma, annað hvort líkn líkamlegra meina sinna eða andlegra.
Lestin nam staðar við litla sveitastöð og hjúkrunarkona kallaði á Carrel og bað hann að flýta sér til að huga að sárþjáðum sjúklingi. Þetta var ung kona sem lá á þunnri dýnu ofan á tréfleti. Hún bylti sér á fletinu, greinilega sárþjáð. Hjúkrunarkona og þeir sem konunni fylgdu voru í öngum sínum en fengu lítt við ráðið.
-„Ég þoli þetta ekki, ég dey, stundi unga konan". Hún var frá af þrautum.
Carrel gaf henni morfínsprautu og þjáningunum linnti samstundis og hún sofnaði. Daginn eftir, sendi hjúkrunarkonan aftur eftir Carrel. Unga konan, sem hét María Ferrand hafði misst meðvitund. Hún lá hálfklædd á dýnunni með grænleitan blæ á andlitinu. Hún rankaði lítillega við sér:
-„Ég lifi það ekki af að komast til Lourdes, stundi hún í örvæntingu sinni". Carrel gaf henni aðra morfínsprautu. Húðin á kvið ungu konunnar var strekt og gljáandi enda útblásin. Rifbeinin skárust út í skinnið á síðunum og auðséð að útþenslan stafaði af þéttu efni og bólgum innan úr kviðarholi þar sem vökvi hafði safnast. Hiti húðarinnar var meiri en eðlilegt gat talist og auðséð að að öll einkenni bentu til berklabólgu í lífhimnunni. Bjúgurinn var einnig mikill á fótum, hjartsláttur og andardráttur örari en eðlilegt teldist. Unga konan hafði þjáðst af þurrhósta og blóðuppgang frá sautján ára aldri svo ljóst að hún væri langt gengin berklasjúklingur. Foreldrar hennar höfðu einnig látist úr berklum. Hjúkrunarkonan sem var samferða ungu konunni tjáði Carrel að læknar á St. Jóseps sjúkrahúsinu hafi upplýst fjölskyldu hennar að María hefði enga von aðra, en bíða örlaga sinna þar sem aðgerð hverskonar myndi ríða henni að fullu. Með semingi samþykktu þeir að lofa henni að takast á hendur förina til Lourdes. Sjúkdómsgreining Carrels á ungu Mariu Ferrand kom heim og saman við læknanna á St. Joseps.
Í þessari för fylgdist Carrel með mörgum sjúklingum öðlast líkamlegan bata eða andlega líkn. Í þessari stuttu grein fylgjumst við þó eingöngu með þessari ungu konu, Maríu Ferrand.
Lestin rann inn á stöðina í Lourdes. Fölleit andlit sjúklinganna, ljómuðu af gleði og eftirvæntingu að fagna fyrirheitna landinu, Lourdes, þar sem væntingar þeirra um endalok sjúkdóma og eymdar yrði lokið.
Aftast í lestinni byrjaði einhver að syngja sálminn Helga:
Ave Marís stella
Dei mater alma.....
Í hverjum vagninum eftir annan tóku menn undir sálminn, uns allir sungu sem stunu gátu upp komið. Þetta var ekki venjulegur söngur af því tagi sem ung börn syngja í kirkjukór við guðsþjónustu, heldur vonarbæn fátæks og veiks fólks sem hungraði eftir brauði lífsins. Hungraði eftir lausn eða aflausn. Söngurinn barst vagni til vagns þar til allir í lestinni mynduðu hinn fallegasta sálmakór hamingju og vona.
Carrel var vel undirbúinn andlega fyrir það sem koma skyldi. Hann var þess meðvitaður að í pílagrímsferðum myndast mikill sefjunarmáttur. Þessi máttur kann að vera margfalt áhrifameiri en sá sem læknar hafa á að skipa með návist sinni og ráðgjöf. Við aðstæður sem þessar streymir einhver orka gegnum, frá sér numinn mannfjöldann sameinaðan í bæn, sem hefur áhrif á tilfinningar, hugsun og taugakerfi, en minni áhrif á líffærasjúkdómana sjálfa, nema undir tímabundinni sjálfs sefjun viðkomandi. Carrel minnti sig á, að hann tókst á hendur þessa för sem læknir og vísindamaður, fyrst og síðast.
Carrel var spurður af kardínála nokkrum sem var með í för um, hvernig sjúkdóma hann þyrfti að sjá fólk læknast af til að sannfærast? Hann svaraði því til, að hann þyrfti að sjá líffærasjúkdóma læknast, fót vaxa á aftur í stað þess sem tekinn hefur verið af, krabbamein hverfa eða meðfædd líkamslýti læknast í einni svipan. Ef hægt væri á vísindalegan hátt að sannreyna slíkt, þá myndu öll þau lögmál, sem við nú göngum að sem vísum hlut, hrynja og gætu menn þá leyft sér að viðurkenna íhlutun æðri máttarvalda.
Carrel benti kardinálanum á ungu konuna, Maríu Ferrand og sagði: Hún þjáist af berklabólgu í lífhimnunni á hæsta stigi og það er mjög tvísýnt um líf hennar. Hún hefur þjáðst af lungnaberklum og lungnabólgu og nú einnig berklabólgu í lífhimnunni. Ég lina þjáningar hennar reglulega með morfíni en hún getur látist hvenær sem er fyrir augum okkar. Ef slíkur sjúklingur myndi læknast fyrir bænir og böðun í Lourdes væri það tvímælalaust kraftaverk. Þá myndi ég aldrei aftur efast og hugsanlega gerast munkur. Maríu Ferrand hnignaði stöðugt. Hún hafði verið lögð inn á sjúkrahúsið í grend við lindina sem sjúklingar voru baðaðir upp úr. Um eftirmiðdaginn er Carrel vitjaði Maríu, var ástand hennar orðið svohljóðandi: Sjúklingurinn lá hreyfingarlaus á bakinu. Mjóir handleggirnir lágu máttvana með síðunum. Nef og hendur kaldar og neglur grænleitar. Andardráttur hraður og stuttur. Líkami hennar skinhoraður, tærður og útþaninn. Bólga var víðast hvar jöfn en þó aðeins meiri vinstra megin, púlsinn ör og hjartað að þrotum komið. Fótleggir voru bólgnar upp að hnjám. Carrel gaf henni koffein sprautu og kveinkaði María sáran er hún fékk sprautunálina í skinhorað lærið.
Hjúkrunarkonan spurði Carrel, hvort óhætt væri að fara með Maríu niður að böðunum. -„Hvað ef hún deyr á leiðinni?" Svaraði Carrel.
Hjúkrunarkonan svaraði því til, að sjúklingurinn hefði lagt á sig alla þessa leið til að láta baða sig svo ekki yrði hjá því komist að láta á það reyna. Annar læknir kemur að stúlkunni, hlustar hana og segir að sennilega muni hún deyja við, eða í böðunum. Hún hefur engu að tapa úr því sem komið er. Þau ákváðu að drífa ungu konuna niður að böðunum því hér lifir hún sennilega ekki daginn af.
-„Við förum með hana eftir fáeinar mínútur."
Carrel stakk eterflöskunni og sprautunni í vasann og þau bjuggust til að flytja Mariu Ferrand niður að hellinum til böðunar.
Litlir vagnar nálguðust, sem sérstakir burðarmenn drógu sjúklingana á, niður að hellinum. Þarna lá vesalings María Ferrand, sem hafði orðið að eyða mest allri ævi sinni á berkladeildum sjúkrahúsa og var nú í andarslitrunum án þess nokkurn tímann hafa lifað eðlilegu lífi. Carrel var hugsi: Þarna fylgdist hann með dauðvona sjúklingi sem var tilbúin að að leggja á sig ferðalag til Lourdes í þeirri trú að það gæti fært henni bata grundvallaðan á því að hún festi alla von sína á Jesú Krist og fæli honum sál sína. Andlát trúaðs manns, hugsaði Carrel með sjálfum sér, er friðsælt andlát, því fyrir hann, táknar það ekki annað en að flytjast í dýrðlega heima hinnar helgu meyjar og Krists. Furðulega hrífandi hlaut það að hafa verið, að sjá Jesú rísa hægt og stillilega á fætur í vorgróðri Júdeufjalla og flytja þar fjallræðuna. Öllum hinum þjáðu bauð hann eilífa huggun. Hvað það virtist miklu viturlegra að trúa, og hve ímynd hinnar heilögu meyjar var óendanlega mild, hennar, sem bauð öllum mönnum vernd sína og samúð í hörmum þeirra.
Carrel sat þarna meðal sárþjáðs fólks. Fólks, sem lifði í einhvernvegin vonlausri aðstöðu gagnvart því sem taldist til heilbrigðs lífs. En sjúkur maður á sér víst eina ósk. Óskina um bætta heilsu. Þess vegna sóttu allir til Lourdes. Það var þessi einlæga von og barnslega trú. Varla var það tilviljun, að Jesú Kristur læknaði sjúka með bænum og handaryfirlagningu. Að hann sýndi í verki mátt og vilja Guðs til að endurreisa þann máttvana til máttar. Að vekja andvana til lífs.
Carrel var gagntekinn löngun til að trúa því, ásamt þessu veikburða fólki sem hann var mitt á meðal, að heilög María og Kristur væru ekki einungis töfrandi sköpun mannsheilans. Hann var ósjálfrátt farinn að biðja meðal allra hinna. Biðja Maríu mey að gefa Maríu Ferrand, sem hafði liðið svo óbærilegar þjáningar, heilbrigt líf og sjálfum sér trúna. Hann rankaði við sér og hreif sig snöggvast úr þessari sjálfs sefjun og knúði sig inn á hinar öruggu brautir vísindalegra rannsókna til að gæta algjörs hlutleysis. Hann vissi að sjúkdómur Maríu Ferrand var ólæknandi, að þeim sem þjáðust af berklabólgu í lífhimnunni á hæsta stigi varð ekki bjargað. Samt ætlaði hann alls ekki að láta það koma sér til að taka afstöðu, en var reiðubúinn til að fallast á hverja þá sönnun, er leiddi af hverju því fyrirbæri, sem hann kynni að verða sjónarvottur af.
Litanían mikla átti að fara að hefjast. Sveittir sjálfboðaliðar unnu hörðum höndum við að raða börum sjúklinganna. Þúsundir voru á svæðinu og andrúmsloftið vægast sagt ólíkt því sem Carrel hafði nokkurn tíma kynnst. Hinum megin við bekkinn var beljandi mannhafið, föl andlit og ber höfuð alla leið niður að árbakkanum. Carrel sá, hvar María Ferrand var borin framhjá. Líkamsástand hennar var óbreytt og var hún ennþá jafn óhugnanlega bleik með kviðinn jafn útþaninn og fyrr. Hjúkrunarkonan sagðist hafa helt örlitlu vatni úr ánni yfir kviðinn á henni þar sem hún þyldi ekki að vera dýft ofan í. Næst förum við með hana út að Massabielle-hellinum.
Carrel sneri aftur inn á afgirta svæðið. Prestur nokkur, ungur með rennsveitt andlit, kraup frammi fyrir röðinni af sjúkrabörunum, lyfti höndum og myndaði kross með handleggjunum. Barnslegur augnsvipurinn og augljós trúareinlægni hans var það eina sem kom í veg fyrir að fólki fyndist hann broslegur. Rödd hans var svo hás, innileg og ástríðuþrungin, að svo virtist sem hin heilaga mey gæti ekki hjá því komist að hlusta á hann.
-„Heilaga mey, lækna þú sjúklinga vora"-hrópaði hann með barnslegum hætti sem bar vott um tilfinningahita.
-„Heilaga mey, lækna þú sjúklinga vora, svaraði mannfjöldinn", -og var hrópið eins og brimgnýr.
-„Heilaga mey, tónaði presturinn, heyr þú bænir vorar."
-„Jesus, vér elskum þig."
-„Jesus, vér elskum þig."
Fólkið hélt áfram að biðja hárri raust. Hér og þar réttu menn út hendurnar meðan sjúklingarnir, sem til þess höfðu getu, risu upp við dogg á börum sínum. Andrúmsloftið var þrungið eftirvæntingu.
Presturinn stóð á fætur.
-„Bræður mínir, lyftum höndum vorum í bæn.”
Allir lyftu höndum. Það var eins og vindur blési gegnum mannþröngina, eitthvað svo óáþreifanlegt, þögult, máttugt og ómótstæðilegt sem svipti því til eins og fjallastormur. Carrel fann greinilega þessi sterku áhrif sem var ómögulegt að lýsa en áhrifin tóku fyrir kverkar honum og það fór titringur um hrygg hans. Hann fann fyrir varnarleysi og langaði til að gráta. Þessi stund hafði slík áhrif á Carrel að hann bjóst við að sjá sjúklingana, sérstaklega þá sem taugaveiklaðir voru, rísa upp og fagna lækningu sinni.
Hann leit yfir fjöldann og á andlitum sjúklinganna mátti ekki greina neina lækningu, né að enginn reis á fætur til að lýsa yfir slíku. Enginn hreyfði sig og frekar eins og ró og kyrrð færðist yfir mannþröngina en að einhverjar breytingar eða fögnuður væri merkjanlegur. Carrel gekk meðfram mannþrönginni og nam staðar við árbakkann. Ungur læknastúdent frá Bordeux sem Carrel hafði hitt fyrr um daginn tjáði honum að enginn hafi læknast utan fáeinir móðursjúkir sjúklingar sem er ekkert frábrugðið daglegum veruleika á sjúkrahúsum. Semsagt, engin sjáanleg lækning á nokkrum manni. Carrel bað læknastudentinn að skoða Maríu Ferrand með honum. Hellirinn var ennþá uppljómaður þúsundum kertaljósa og veggirnir alþaktir rósakrönsum og hækjum. Innan hárra járngrindanna var stytta af hinni heilögu mey. Klukkan var hálf þrjú og María Ferrand lá hreyfingarlaus og virtist á þrepskildi viðskilnaðar. Stöðugur straumur var af sjálfboðaliðum og burðarmönnum inn á litla afgirta svæðið. Stuttu síðar varð Carrel brugðið. Hann sá hvar húðlitur Mariu Ferrand virðist vera að taka breytingum. Honum er verulega brugðið. Djúpu skuggarnir á andliti hennar voru horfnir og eðlilegur roði að færast yfir hörund hennar. Fyrstu hugsanir vísindamannsins voru að þetta hlyti að vera missýnir. Hann rýndi inn á við og ákvað að skrá allt hjá sér, jafnvel þótt það kynni seinna meir að afhjúpa hans eigin sálrænu upplifun, óháð bata skjúklingsins. Bænarathöfnin hafði jú tilfinningaleg og sálræn áhrif á hann sem hann gæti ekki afneitað. Hann krotaði allt á minnisblöð sín sem fyrr og dró ekkert undan. Klukkan var að verða þrjú og hafi þetta verið missýnir, voru það hans fyrstu er sjúklingur átti í hlut.
Carrell var brugðið. Gat verið að heilsa Maríu væri að taka breytingum? Hann tók ekki augun af henni og duldist ekki að líkamsástand hennar var skyndilega að færast í betra horf. Carrel spennti vöðvana til að hindra að hann kæmist andlega úr jafnvægi vegna geðshræringar. Gat þetta verið? Hann studdist við lága vegginn rétt hjá börum Maríu og einbeitti öllum athyglismætti að henni. Hann tók ekki af henni augun. Prestur var að flytja ræðu yfir sjúklingunum og pílagrímunum á meðan sálmar voru sungnir og bænir beðnar á milli. Andrúmsloftið var þrungið tilbeiðslu. Carrel horfði köldu hlutlausu augnaráði á andlit Maríu Ferrand sem tók að breytast til eðlilegra horfs. Augu hennar, sem áður höfðu verið sljó eða lokuð, horfðu nú í átt að hellinum, ljómandi af hrifningu. Breytingin á henni lá nú í augum uppi.
Carrel fölnaði yfir því sem hann varð áskynja. Ábreiðan, sem hafði verið lögð yfir útþaninn kvið hennar var að síga niður smám saman. Hann gat ekki leynt geðshræringu sinni:
-„Lítið á kviðinn á henni !" Hann færði sig að börum hennar og athugaði hana hugfanginn, andardrátt hennar og æðislög á hálsi. Hjartslátturinn var að vísu mjög tíður ennþá, en hann var orðinn reglulegur. Enginn vafi var lengur á að eitthvað jákvætt var að gerast.
-„Hvernig líður yður?"
-„Mér líður vel", svaraði hún lágum rómi.
-„Ég er að vísu þróttlítil ennþá, en finn að ég hef læknast."
Carrel stóð agndofa hjá börunum í djúpri geðshræringu, allsendis ófær um að gera sér ljósa grein fyrir því sem var að gerast fyrir augum hans. Líkamsástand Mariu Ferrand var svo gjörbreytt, að hún var nærri því óþekkjanleg. Carrel stóð þögull og hugur hans var sem lamaður. Þessi atburður var í beinni andstöðu þess sem hann hafði búist við. Þessi upplifun gat ekki verið annað en draumur.
Stuttu seinna reisti Maria höfuðið upp, hreyfði lítillega og sneri sér síðan á hliðina án sársauka eða aðstoðar. Klukkan var að verða fjögur. Stúlkan sem lá banaleguna, var að lifna við aftur.
-„Þetta var upprisa frá dauðum,-það var kraftaverk."
Carrel hafði ekki rannsakað Maríu innvortis enn sem komið var þótt hún virtist augljóslega vera að ná fullum bata. Hann hafði með eigin augum séð slík batamerki á líkamsástandi hennar að, það út af fyrir sig leit út sem kraftaverk. Það sem kom honum á óvart, var hvernig þetta gerðist. Engin oflæti neinsstaðar, engin hróp eða köll, enginn að baða út höndum né tala tungum, heldur einungis þessi ólýsanlegi friður, kyrrð og rósemi.
Carrel var í einhverskonar leiðslu og hélt aftur inn á Rósatorgið í átt að skjalasafni lækningastofnunarinnar í Lourdes. Þegar hann kom þangað, sagði hann yfirlækni stofnunarinnar í Lourdes, dr Boissarie frá því sem hafði gerst. Dr Boissarie sýndi engin merki um undrun. Yfirlæknir Lourdes stofnunarinnar var roskinn maður, lágur vexti, gildur með skarpa andlitsdrætti og slétta húð. Augabrúnir voru þykkar, augnlokin þung og augun daufleg. Læknirinn var sagður skapheitur maður. Carrel hafði lesið bækur dr Boissarie um kraftaverkalækningar en lagt takmarkað trúnað á, þar sem honum fannst frjálslega farið með lýsingar og ónógur vísindalegur bakgrunnur vera til rökstuðnings lækningunum. Dr Boissarie var þó reyndur læknir sem átti virðingu skilið fyrir einlægan tilgang og fórnfýsi í störfum sínum í þágu sjúkra í Lourdes.
Carrel og dr Boissarie sammæltust um að skoða Mariu Ferrand á læknastofunni morguninn eftir. Í samtali þeirra í millum sagðist Carrel ætla að skoða sjúklinginn gaumgæfilega með gagnrýnum huga. Það er hreint út sagt óskiljanlegt að mein af þessu tagi hverfi eins og dögg fyrir sólu. Dr Boissarie svaraði því til, að fyrir bænir í Lourdes, og fyrir þennan leyndardómsfulla mátt, hafi fólk læknast af nánast öllum þekktum meinum.
Carrel hélt aftur til gistihússins, fullur eftirvæntingar um hvert ástand sjúklings hans muni verða daginn eftir. Hann varð vitni að fleiru en skilningarvit hans gætu meðtekið á einum degi. Það hljóta að verða á þessu rökréttar skýringar sem hægt yrði að skilja á vísindalegan hátt. Hann var hugsi yfir atburðum dagsins og sofnaði hamingjusamur.
Fyrsta hugsun hans um morguninn var að vitja Mariu Ferrand á sjúkrahúsið í Lourdes. Hann gekk rakleiðis að stofu hennar og rúmi og nam staðar orðlaus af undrun. Breytingin sem hafði orðið á henni var gífurleg. Hún sat upprétt í rúminu klædd hvítum jakka. Hún var föl í andliti og svipurinn tærður eftir langvinn veikindi en geislandi af lífi. Augun ljómuðu og daufur roði að færast í kinnarnar. Rúnir þær sem margra ára þjáning höfði rist við munnvik hennar, voru enn sýnilegar, en nú stafaði frá henni ólýsanlegur friður, sem barst um alla sjúkrastofuna og fyllti fögnuði.
-„Læknir, ég er orðin alheilbrigð. Ég er ennþá mjög máttfarin, en ég held ég geti gengið."
Carrel tók um úlnlið hennar. Púlsinn sló hægt og reglulega, áttatíu slög á mínútu. Andadráttur hennar var orðinn fullkomlega eðlilegur. Brjóst hennar hófst og hneig hægt og reglulega. Carrel var utan við sig. Var þetta einungis sýndarlækning, furðulegur ytri bati, afleiðing geysisterkrar sjálfssefjunar, eða höfðu meinin í raun og veru læknast? Var þetta sjaldgæft náttúrufyrirbrigði sem menn höfðu áður kynnst, eða var þetta ný staðreynd, undraverður atburður, sem ekki var hægt að fallast á? Var þetta kraftaverk?
Carrel hikaði áður en hann hóf úrslitarannsóknina á Mariu Ferrand. Hann fletti ábreiðunni varlega af henni, milli vonar og ótta. Hörundið var slétt og hvítt. Það blasti við honum grannar lendar og innfallinn kviður ungrar, vannærðrar stúlku. Hann studdi léttilega á kviðvöðvana og þrýsti á. Þeir voru mjúkir viðkomu en mjög magrir. Það olli henni ekki hinum minnsta sársauka þótt hann þreifaði á henni kviðinn og mjaðmarholið er hann leitaði eftir einhverju merki um útþenslu. Hart bólguþykknið sem hann hafði ekki einungis fundið áður, heldur blasti við sjónum hans og allra annarra, var með öllu horfið. Öll sjúkdómsummerki voru horfin eins og slæmur draumur. Kviðarholið var allt með fullkomlega eðlilegum hætti en fæturnir ennþá eilítið bólgnar, þó svipur hjá sjón, miðað við daginn áður. María Ferrand var orðin heilbrigð. Stúlka sem var farin að blána í framan með útþaninn kvið, hafði læknast að fullu, fyrir utan almennan slappleika og tæringu eftir langvinn veikindi.
Svitinn spratt út á enni Carrels. Hann var sleginn og fékk ákafan hjartslátt. Hann beitti járnhörðum viljastyrk til að halda sér í skefjum tilfinningalega. Tveir aðrir læknar voru mættir að rúmi ungu konunnar. Carrel biður þá um að skoða Maríu og vék sér hljóður til hliðar. Meðan starfsbræður hans skoðuðu ungu konuna vandlega, stóð hann hljóður hjá með geislandi svip í augum. Niðurstaða læknanna tveggja staðfestu sömu niðurstöðu og Carrel komst að, Maria Ferrand var orðin heilbrigð. Annan eins atburð hafði hann aldrei upplifað. Það var í senn ægilegt og dásamlegt að sjá lífsaflið streyma á ný um líkama sem hafði, fast að því verið gjöreyðilagður, eftir margra ára þjáningarfull veikindi.
Lækning hennar var óhrekjanleg staðreynd, en staðreynd þó, sem ómögulegt var að samræma vísindum. Deyjandi stúlka hafði læknast.
Carrel var í geðshræringu yfir því sem hann hafði orðið vitni að. Hann fór yfir fyrri sjúkdómsgreiningar sínar, efaðist og sannreyndi ítrekað, bar saman bækur sínar við aðra lækna, og yfirfór allt ferlið aftur og aftur. Sjúkdómsgreiningar allra lækna féllu saman í megin atriðum við hans eigin. Þær heimildir skráði hann gaumgæfilega. Allir læknar sem mátu ástand Maríu Ferrand, fyrir og eftir athöfnina, komust að sömu niðurstöðu og hann. Hún hafði læknast og öðlast fullan bata. Carrel var þögull, hugsi og utan við sig. Hann mælti vart orð og vissi í raun ekki hvað hann átti að segja eða halda. Engin vísindaleg rök voru fyrir lækningu ungu konunnar. Ef til var þetta kraftaverk? Ef svo var, þá var ekki um annað að ræða en trúa á kraftaverk. María Ferrand var leyst undan þjáningum sínum. Hamingjusvipurinn og ljóminn á andliti hennar leyndi sér ekki. Henni hafði verið skilað aftur til lífsins ljóss, frelsis og kærleika.
-„Hvað ætli þér nú að gera, fyrst þér eruð orðin heilbrigð'"spurði Carrel sjúkling sinn.
-„Ég ætla að ganga í systra reglu heilags Vincents De Paul og hjúkra sjúkum," svaraði hún.
Carrel vék sér undan til að leyna tilfinningum sínum. Það skipti engu, hversu mjög hann reyndi að sannfæra sjálfan sig um, að hans hlutverk í þessu máli væri það eitt, að skrásetja með nákvæmni það sem hann varð sjónarvottur að, og ekkert umfram.
Tilvistarkreppa hans sem læknis og vísindamanns var augljós: lækning hafði raungerst fyrir trú og bænir án frekari skýringa. Honum fannst hálft í hvoru eins og grundvelli væri kippt undan tilveru hans, menntun og sannfæringu. Hann reyndi að koma skipulagi á hugsanir sínar en þær brutust alltaf út fyrir litla svæðið sem hann leitaðist við að króa þær inni á. Carrel var eirðarlaus og óþolinmóður og leitaðist við að reyna að útskýra þetta undur, þessa furðu, þessa náð, sem hinir trúuðu kölluðu kraftaverk. María Ferrand hafði hlotið það sem kallaðist undralækning. Hún hafði staðið á þröskuldi dauðans fyrir hádegi, en var orðin heilbrigð um sjö leitið. Hvernig gat hann sem vísindamaður staðfest og fært sönnur á lækningu sem gerðist utan þekktra kenninga læknisfræðinnar? Þarna var Guð að verki, æðri máttur sem upphefur náttúrulögmálið eins og við þekkjum það. Carrel var vitni að kraftaverki sem í öllu falli ætti að vera fögnuður, og var svo í raun. Hann bara gat með engu móti, staðfest þetta með þekktum aðferðum læknavísindanna eða þekkingarinnar yfir höfuð.
Carrel minntist þess að hann hafði lesið Zola fyrir allöngu síðan. Ég minnist sérstaklega lýsinga hans á lækningu Elise Rouquet. Hann vissi, að margt óvenjulegt gerðist í Lourdes; að bólgur sem líktust krabbameini höfðu læknast. En þetta var allt annað mál. Carrel varð nú persónulega vitni að, Maria Ferrand, sem var langt genginn berklasjúklingur, að dauða komin, læknaðist.
Carrel sagði:
-„Við vitum nú, að hún læknaðist. Ef ég læsi um þessa lækningu, án þess að hafa verið viðstaddur, teldi ég ýmist ýkjur á ferð, ranga sjúkdómsgreiningu, eða beinlínis svik í tafli. Þessari lækningu varð ég hinsvegar vitni að sjálfur og með eigin augum.”.
Sú staðreynd, að hann fann enga skýringu á þessum lækningum, olli honum skelfingu og óróleika. Sjálfsefjun gat ekki skýrt lækningu Maríu Ferrand og sannarlega gat lækningin ekki falist í vatninu sjálfu.
Að kvöldi dags, gekk Carrel fram og aftur um stóra afgirta svæðið fyrir framan kirkjuna í Lourdes. Hann var djúpt niðursokkinn í hugsanir sínar. Ólýsanlegur friður hvíldi yfir þögulu og kyrru umhverfinu í í tungsljósinu. Dalurinn var sveipaður hvítri gagnsærri móðu og fagrar útlínur bláleitra hæðanna bar við himininn. Andstæður í sál hans héldu áfram að togast á. Það var engin leið að sanna, að Guð væri ekki til og að hin heilaga mey væri aðeins hugarfóstur mannsheilans. Allt sem hann hafði upplifað á einum degi í Lourdes, færði honum meiri sönnur á tilvist hins æðra, að Jesú Kristur væri raunverulegur og lifandi í dag, jafnt sem fyrir tvö þúsund árum. Öll kristileg trúarrit sem hann hafði lesið gegnum tíðina, öðluðust nýjan og æðri skilning í huga hans eftir aðeins einn dag. Samt gat Carrel hvorki sannað tilvist Guðs né afsannað. Engin gat slíkt. Hugsun hans útvíkkaði. Hann spurði sig hvernig hann, sem læknir gæti fellt hugsun um Guð og hið æðra að vísindunum? Væri hann ekki hnepptur í sjálfheldu? Hann gæti ekki lengur beitt rökleiðslu sinni, því rökleiðslan næði ekki lengra en til staðreyndanna og afstöðu þeirra til hverrar annarar. Samt var þessi lækning staðreynd fyrir framan hann. Við læknarnir gátum bara ekki útskýrt þessa staðreynd. Þegar hann leitaði orsaka, var ekkert handbært að sjá, engar þekktar formúlur eða kenningar til að styðjast við. Engin sönnun á hvað væri rétt eða rangt. Hann hafði ratað inn í ríki leyndardómanna, þar sem hið ómögulega var mögulegt. Hann leit til himins.
Carrel hafði í upphafi verið sanntrúaður kaþólskur maður. Síðan hafði hann aðhyllst Stóuspekina og þaðan snúist til kenninga Kants en að lokum orðið umburðarlyndur efahyggjumaður. Ekkert hafði hann uppskorið á þessum þróunarstigum sínum annað en stanslausa leit án svara sem leiddu af sér óhamingju öðru fremur. Þegar hann leit um öxl, varð honum æ ljósara, að Kristnin innan kaþólsku kirkjunnar, sem hann augljóslega hafði ekki skilið til hlítar, hafi veitt honum meiri frið en allt annað. Hann sat einsamall í náttmyrkrinu og hugleiddi. Vitsmunakerfin rákust á. Þau virtust ekki hafa sömu þýðingu og áður. Kenningar, einar og sér, voru fánýtari honum en áður, þegar um líf og dauða var að tefla. Það voru ekki vísindin ein og sér, sem nærðu hið innra líf mannsins, heldur trú sálarinnar.
Þegar Carrel kom aftur til gistihússins, fannst honum sem margar vikur væri liðnar síðan hann gekk út úr því um morguninn. Hann tók stóru grænu minnisbókina upp úr handtöskunni og tók að skrifa lokaatburði dagsins. Klukkan var orðin þrjú. Í austri var fyrsti morgunfölvinn að brjótast gegnum náttmyrkrið og svalur andblærinn barst inn um gluggann. Carrel fann kyrrð náttúrunnar anda hæglátum friði inn í sál sína. Allar annir hversdagslífsins, tilgátur, kennisetningar og efasemdir vitsmunalífsins voru á bak og burt. Honum fannst hann hafa öðlast vissu fyrir tilvist Drottins undir handleiðslu heilagrar meyjar.
Þegar dagur rann í ólýsanlegri dýrð sinni, sofnaði Carrel sáttur.
Megi Páskarnir og upprisa Jesú Krists færa ykkur von, sálarfrið og gleði.
Árni Már Jensson
Dr Alexander Carrel samdi skýrslu um lækningu Maríu Ferrand á berklabólgu í lífhimnu árið 1909. Dr Boissarie birti hana síðar og sagði hana til fyrirmyndar um óhlutdrægni og nákvæmni. Hið rétta nafn Maríu Ferrand var María Bailly.
(Greinin er m.a. byggð á útdrætti úr bókinni, Förin til Lourdes, eftir Alexis Carrel, í þýðingu Torfa Ólafssonar.)