Þar sem ég sat í gærkvöldi og horfði á myndband og reyndi að læra handtök meistaranna við að koma súrdeigi í eitthvað sem líktist pizzu, datt mér í hug setning sem einn ömmu-strákurinn sagði einu sinni við mig þegar ég rengdi ýkjusögur hans: Jú amma, það er víst satt, ég hef séð það á YouTube. Hann er einn þeirra sem getur legið tímunum saman með Ipadinn og horft á YouTube myndbönd. Þegar ég spyr hann hvort hann sé að horfa á einhvern þvætting þá segir hann mér oftast að hann sé að læra að spila Minecraft betur eða sé að skoða nýjar Legó-samsetningar. Og auðvitað trúi ég drengnum, alltaf.
Hann er ekki einn um það innan fjölskyldunnar að fylgjast með nýjungum á YouTube. Langamma hans sendir mér reglulega hlekki á myndbönd sem hún hefur notað til að þróa nýjar aðferðir í hekli, prjóni, bútasaum, bakstri eða eldamennsku. Hún er líka í nokkrum hópum á Facebook um áhugamál sín og flettir Pinterrest reglulega til skoða aðferðir annarra eða uppskriftir ásamt því að miðla myndum af eigin afurðum. Ég hef reynt að fara eftir sumu af því sem hún sendir mér og tekst það ekki alltaf, því þetta lærdómsferli eins og önnur, þarf að byggja á fyrri reynslu og færni ásamt ákveðnu læsi á myndbönd, myndir og uppskriftir. Ég hef ekki jafn langa reynslu og hún í þessum bransa.
Í þessu sambandi fór ég að velta fyrir mér að nú á tímum heimaveru og heimaskóla getur það komið til og ætti eiginlega alltaf að vera sjálfsagt að nemendur þrói með sér leiðir til að nýta alla þá miðla sem þeir velja sér sjálfir til að læra eitthvað nýtt og þjálfa eigin færni til að auka hæfni sína við að nota umhverfi sitt til náms; jafnt rafrænt sem í gegnum aðra miðla. Þannig æfist þeir í að læra allt lífið.
Í bók sinni Learning with ‘e’s: Educational theory and practice in the digital age (2015) kynnir Steve Wheeler PLE líkanið (e. Personal Learning Environment).
Með PLE-líkaninu hefur námsumhverfið verið stækkað og viðurkennt að nám sem styður við ævilanga menntun getur víðar farið fram en innan fjögurra veggja skólastofnunar þar sem nýttar eru áður þekktar og hefðbundnar leiðir. Það sem mér finnst áhugavert að skoða í þessu samhengi er þrennt. Í fyrsta lagi viðurkenningin á því að nám getur farið fram á marga vegu, hvar sem er og á hvaða tíma sem er. Í öðru lagi að skoða hvernig Wheeler gengur út frá því að nemandinn setur saman sitt eigið námsumhverfi. Og í þriðja lagi og sérstaklega á þeim áhugaverðu tímum sem nú eru, hvernig samskipti við eigið tengslanet,
í gegnum rafræna miðla, er hluti af námsumhverfinu sem styður við ævilanga menntun.
Af umræðuþráðum kennara á samfélagsmiðlum og þátttöku þeirra í vefnámskeiðum og rafmenntabúðum má ætla þeir hafi sjálfir tekið ný, mörg og stór stökk inn í breytta og rafræna kennsluhætti. Þar hafa þeir bæði nýtt sér eigið tengslanet og valið sér rafræn verkfæri. Ef horft er á það eitt og sér má segja sem svo að eigið persónulega námsumhverfi þeirra hafi á undanförnum vikum stækkað og orðið fjölbreyttara en fyrir tíma COVID-19 veirunnar.
Það sem mér mun svo finnast fróðlegt að fylgjast með til framtíðar er að minnsta kosti tvennt. Annars vegar hvort þessi faraldur hafi orðið til þess að „afnörda" rafræna kennsluhætti; þ.e.a.s. að ekki verði lengur litið á rafræna kennsluhætti sem eitthvert gæluverkefni eða áhugamál vinahóps „nördakennara", einstakra skóla eða sveitarfélaga heldur sem sjálfsagðan hluta af námsumhverfi nemenda. Hins vegar hvort notkun nemenda á eigin snjalltækjum og leiðanna sem þeir velja sér til náms verði líka sjálfsagður hluti af "formlegu" námi; með öðrum orðum, munu þessar formdæmalausu aðstæður verða til þess að má betur út skilin á milli formlegs og óformlegs náms? Mun lærdómur þessara tíma verða til þess að skólastarfið þróist örar í þá átt að taka tillit til breytinga í samtímanum og áhugasviðs nemenda þannig að nám þeirra uppfylli hæfniviðmið aðalnámskrár?
Því ef ég læri í formlega náminu hvaða leiðum og verkfærum ég geti treyst til náms, þá get ég sjálf valið hvað er ýkjusaga og hvað er ekki ýkjusaga á YouTube.
Heimild: Wheeler, S. (2015). Learning with ‘e’s: Educational theory and practice in the digital age. Carmarthen: Crown House Publishing.
Höfundur er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og ráðgjafi í skólaþróun hjá ráðgjafaþjónustunni Bjarkir.