Þetta eru sannarlega skrítnir tímar, um það er ekki deilt. Mörgum er sagt upp og við bíðum helst eftir því að það sjáist loksins í Himalaya-fjöllin eða eftir því að höfrungar birtist á ólíklegum stöðum. Í þessari undarlegu hringiðu eru hópar sem virðast gleymast.
Helmingur þeirra stúdenta Háskóla Íslands sem áður voru í hlutastörfum hefur annað hvort verið sagt upp að þeir lækkaðir í starfshlutfalli. Samt hafa aðeins 2% stúdenta getað nýtt sér hlutabætur stjórnvalda. Líklega er það vegna þess að það úrræði hentar helst fólki í fullu starfi. Á sama tíma hafa atvinnurekendur ólíklega lagt áherslu á úrræðið fyrir hlutastarfsfólk.
Af launum stúdenta er greitt tryggingargjald eins og af öðrum launum en engu að síður eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þeir eiga bara að taka námslán ef þeir eru ekki nú þegar búnir að klára frítekjumarkið. Eiga stúdentar að vera eini hópur samfélagsins sem stendur ekkert annað til boða en að skuldsetja sig út úr vandanum?
Stúdentar hafa lagt fram skýrar kröfur og tillögur til lausna á vandanum:
- Stúdentar sem voru í hlutastarfi eiga að geta sótt sér atvinnuleysisbætur til 1. júní.
- Stúdentar eiga að geta sótt um atvinnuleysisbætur í sumar.
- Leita þarf allra leiða til þess að sem fæstir þurfi að nýta sér úrræði 2). Um þær leiðir má lesa í kröfum Stúdentaráðs.
Stúdentar eru allir af vilja gerðir til finna lausnir fyrir sumarið en stjórnvöld verða að koma með raunhæfar tillögur en ekki bíða eftir Himalaya-draumum.
Höfundur er varaforseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
*Byggt á könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands (6.-10. apríl) meðal stúdenta skólans.