Ég velti fyrir mér vegna hvers umræða um ferðamannageirann, eins og hún birtist í fjölmiðlum, virðist gera ráð fyrir því að ekkert sé hægt að gera til að halda COVID-19 í skefjum og að þar með sé ekki hægt að koma ferðamannastraumnum af stað út árið. Það eina sem blasi við ferðamannageiranum sé að fara á laun hjá hinu opinbera, ella fara í gjaldþrot. Lítið heyrist lítið um lausnamiðaðar leiðir í þessu efni. Eftirfarandi er hugmynd sem vonandi nýtist þeim er málið varða.
Hvernig væri að fara yfir þá þekkingu sem aflast hefur á stuttum tíma í baráttu við COVID-19 og hefur skilað góðum árangri hingað til og gæti hugsanlega hjálpað til við að bjarga stærsta útflutningsatvinnuvegi landsins?
Við höfum aðferðir til að mæla hvort fólk er smitað og fáum niðurstöðuna á einum sólarhring. Þá höfum við þjálfað upp frábært smitrakningarteymi sem hefur sýnt fram á færni sína til að hafa uppá fólki sem telst hafa verið nærri smituðum einstaklingum og höfum nú smitrakningarapp til að gera þetta starf enn áhrifaríkara. Fólk sem telst hafa verið nærri smituðum einstaklingum er sett í sóttkví í 14 daga og smitaðir einstaklingar í einangrun eða á sjúkrahús. E.t.v. væri hægt að stytta sóttkvíartímann með sýnatöku, t.d. eftir 5 daga í sóttkví (sérfræðingar vita þetta trúlaga eða geta gert rannsóknir hvernig þessu víkur við).
Byggt á núverandi þekkingu er hægt að reikna út lykilstærðir. Smitgreiningar Íslenskrar Erfðagreiningar sýna að smithlutfall meðal Íslendinga í dag er 0,1 - 0,2 % og fer lækkandi. Það ætti að vera hægt að fá sambærilegar tölur frá nágrannalöndum okkar á næstu vikum.
Hvernig væri að beita þessari þekkingu til að opna fyrir ferðamannastrauminn með öruggum hætti. Einungis verið opnað fyrir ferðamenn frá löndum þar sem smithlutfall skv. áreiðanlegum mælingum er komið niður fyrir ásættanleg mörk að mati íslenskra yfirvalda t.d. niður fyrir 0,1 %? Þá mætti byrja varlega og opna fyrst fyrir ferðir fólks í atvinnuerindum og þarf að vera á landinu í marga daga, t.d. sérfræðinga og kvikmyndatökufólk og ferðamenn sem ætla að fara í tiltölulega langan tíma á landinu.
Í ljósi reynslunnar verði síðan opnað fyrir ferðamönnum sem koma til landsins í nokkra daga. Tekið verði smitsýni af hverjum einasta ferðamanni sem kemur til landsins á kostnað hins opinbera. Þetta getur varla kostað mikið miðað við þá hundruð milljarða sem í húfi eru. Þá er þetta hlutverk sem hið opinbera sér um hvort eð er. Með því að taka smitsýni úr hverjum einasta ferðamanni sem kemur til landsins kemur strax í ljós hvert smithlutfall er frá hverju landi og hægt að loka á slík svæði um leið. Hópar úr hverri flugvél fari beint í rútu á hótel, sem hvort eð er standa tóm í dag og yrðu útbúin til þess sem til þarf, þar sem sýni eru tekin úr hverjum ferðamanni og hann skyldaður til að vera í sóttkví á hótelinu þann sólarhringinn sem tekur að fá niðurstöðu veirumælingarinnar.
Það væri áhugavert að fá fólk með rétta þekkingu til að greina framangreindar hugmyndir og hagnýta ef árennilegar eru. Lausn sem þessi, ef fær er, gæti nýst til að koma ferðamannageiranum af stað (jafnvel nýta í auglýsingaskyni) og mundi kosta hið opinbera tiltölulega lítið, sérstaklega í samanburði við þá hundruð milljarða í gjaldeyristekjum sem þessi atvinnugrein skilar árlega í dag. Eigi að nýta lausn sem þessa eftir nokkar vikur/örfáa mánuði þarf að hefja undirbúning að slíku núna!
Höfundur er áhugamaður um lausnamiðaða umræðu og hag lands og þjóðar.