Það hefur engum dulist að til að bregðast við þeirri niðursveiflu sem blasir við okkur í kjölfar COVID-19 hefur ríkisstjórnin fyrirhugað fjárfestingar af margvíslegum toga. Fjárfestingarátök eru framundan sem heyra undir hin ýmsu ráðuneyti. Leggjast á í flýtiframkvæmdir hjá sveitarfélögum og hefja fjölbreyttar nýframkvæmdir í samgönguinnviðum af hálfu hins opinbera. Ráðist verður í viðhaldsverkefni um land allt sem eflaust hafa setið á hakanum, bæði á vegum sveitarfélaga og hins opinbera.
Barist um bitana
Margir verða um hituna og vilja sem flestir fá bita af kökunni enda mörg fyrirtæki sem berjast í bökkum. Þá þarf að tryggja að hlúð sé að samkeppni og að hún sé gegnsæ. Hornsteinn laga um opinber innkaup er m.a að tryggja jafnræði fyrirtækja, efla samkeppni, nýsköpun og þróun.
Með því að nýta úrræði laganna er einnig hægt að auka umhverfisvernd í innkaupum hins opinbera, stuðla að ýmsum félagslegum markmiðum og koma í veg fyrir spillingu í meðferð opinbers fjár. Innkaup eru mikilvægt tól í rekstri ríkisins og miklir hagsmunir fólgnir í opinberum innkaupum og þá sérstaklega á tímum sem þessum.
Sókn í nýsköpun
Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar í aðgerðarpakka vegna efnahagslegra áhrifa af völdum COVID-19 er m.a. að auka nýsköpun. Nýsköpun er eitt markmiða laga um opinber innkaup sem hefur verið vannýtt tól til þessa. Höfundur hefur áður fjallað um nýsköpun og opinber innkaup hér.
Nú er tækifærið til að horfa meira til þeirra þátta sem hafa fengið litla athygli til þessa og efla um leið efnahagslíf landsins!
Höfundur er lögmaður hjá Ríkiskaupum.