OECD er helsta ráðgjafarstofnun vestrænna stjórnvalda. Sjónarmið þeirra hafa oftast orðið ríkjandi sjónarmið í efnahags- og samfélagsmálum á síðustu áratugum.
Upp úr 1980 talaði OECD gjarnan fyrir úrræðum í anda nýfrjálshyggju.
Við kreppu eins og nú ríkir hefðu þeir þá mælt með skattalækkunum til fyrirtækja og fjárfesta, minni ríkisútgjöldum, niðurskurði velferðarríkisins, afnámi reglugerða og auknu markaðsfrelsi.
En nú er öldin önnur!
Nýfjálshyggjan er dauð, brennd og grafin. Reynslan af henni hefur séð til þess.
Það er táknrænt fyrir þessi umskipti að úrræði sem OECD mælir nú með í Kóvid-kreppunni eru að miklu leyti í andstöðu við nýfrjálshyggjuna.
OECD boðar nú aukna áherslu á velferðarríkið til að vernda viðkvæma þjóðfélagshópa og þá atvinnulausu fyrir áhrifum kreppunnar.
Uppbyggingin í kjölfar sóttvarna eigi síðan að vera sjálfbær, bæði félagslega og umhverfislega (inclusive and green growth). Hagvöxturinn skuli skila öllum almenningi kjarabótum og verða grænni en verið hefur.
Aðstoð við atvinnulíf eigi að taka mest mið af litlum fyrirtækjum og verkafólki sem er í viðkvæmri stöðu.
Með þeirra eigin orðum
Í nýlegri skýrslu um stefnu til að bregðast við kreppunni (Policy Brief) segir OECD eftirfarandi:
„Áhrif kreppunnar til skemmri og milli tíma verða sérstaklega erfið fyrir þá þjóðfélagshópa sem verst standa fyrir, sem felur í sér hættu á auknum ójöfnuði…
OECD útfærir stefnuáherslur fyrir fleiri svið og þeirra á meðal eru sum þeirra úrræða sem gripið hefur verið til hér á landi, svo sem frestun skattgreiðslna fyrirtækja, lán til fyrirtækja með ríkisábyrgð og tímabundinn stuðningur við greiðslu launakostnaðar (sbr. hlutabótaleiðin).
Það er athyglisvert fyrir þá sem hafa fylgst með OECD til lengri tíma að sjá þessar breyttu áherslur sem nú koma fram með skýrari hætti en fyrr.
Þó er einnig rétt að benda á, að í árlegum skýrslum sínum um atvinnumál frá 2018 og síðar (t.d. Employment Outlook 2018) leggur OECD áherslu á mikilvægi kjarasamninga og verkalýðsfélaga fyrir bætta virkni vinnumarkaða og nauðsynlegt viðnám gegn sívaxandi ójöfnuði í umhverfi alþjóðavæðingar.
Hér áður fyrr töldu OECD-menn að verkalýðsfélög væru til óþurfta og að ójöfnuður væri nauðsynlegur til að ná góðum hagvexti.
Nú vara þeir við því að ójöfnuður dragi úr hagvexti og leiði til óstöðugleika og þeir sýna skilning á mikilvægi verkalýðsfélaga.
Það má því segja um OECD-liða, að batnandi mönnum er best að lifa!
Í takti við áherslur verkalýðshreyfingarinnar
Ofangreindar áherslur OECD á mikilvæg kreppuúrræði eru í ágætum takti við það sem verkalýðshreyfingin hér á landi hefur talað fyrir og ítrekað á síðustu vikum.
Þetta er líka í samræmi við þann lærdóm sem draga má af afleiðingum fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008, en þá kom í ljós að öflugri velferðarríkin vörðu almenning best gegn neikvæðum afleiðingum af kreppunni (sjá um það hér).
Fyrir okkur á Íslandi eru veikustu varnirnar núna í atvinnuleysisbótakerfinu, sem býður upp á of lágar bætur, ekki síst fyrir þá sem verða atvinnulausir í meira en 3 mánuði, eins og verkalýðsfélögin hafa ítrekað.
Við endurreisn ferðaþjónustunnar og skyldra fyrirtækja verður síðan mikilvægt að skilyrða stuðning hins opinbera við sjálfbæran rekstur, félagslega jafnt sem umhverfislega, og tryggja að ekki sé stutt með skattfé við bakið á rekstri sem ekki greiðir eðlilega skatta né fylgir heilbrigðum viðskiptaháttum.
Ríkið er eini bakhjarlinn – Buffett reyndist léttvægur
Þessi skrif OECD um viðbrögð við kreppunni sýna glögglega að ríkið eitt er til bjargar þegar á reynir.
Stjórnvöld OECD-ríkjanna hafa alls staðar dælt fjármagni til fyrirtækja og víðast tekið að sér framfærslu atvinnulausra, auk þess að fjármagna heilbrigðisþjónustuna sem berst við veiruna.
Warren Buffett, sem kallaður hefur verið konungur einkafjárfestanna í heiminum, hefur á síðustu árum eignast hluti í bandarískum flugfélögum. Hann hefur stært sig af því að hann vilji vera “bakhjarl flugfélaganna” í heimalandi sínu.
Nú í kreppunni hefur hann hins vegar selt alla hluti sína í þessum flugfélögum með þeim orðum að hann vilji ekki taka á sig tímabundinn kostnað vegna kreppunnar (sjá hér).
Þar fór „bakhjarlinn” fyrir lítið!
„Samfélagsleg ábyrgð” reyndist innantómur fagurgali.
Aðrir geta séð um að tryggja flugsamgöngur til framtíðar.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.