Í október 2018 birtist grein í alþjóðlega vísindatímaritinu tímaritinu Arts doktorsritgerð dr. Sofiu Nannini, sem fjallar um upphaf notkunar á steinsteypu á Íslandi. Greinin er skrifuð á ensku og nefnist Frá móttöku til uppfinningar: koma steinsteypunnar til Íslands og málflutningur Guðmundar Hannessonar ( From Reception to Invention: The Arrival of Concrete to Iceland and the Rhetoric of Guðmundur Hannesson ).
Sofia Nannini var í námi við arkitekta- og hönnunardeild tækniháskólans í Tórinó á Ítalíu (Department of Architecture and Design, Politecnico di Torino ). Hún lauk þar prófi í byggingarlist 2017. Þar sem lítið er um heimildir á málum öðrum en íslensku um upphaf steinsteypualdar á Íslandi, lærði hún íslensku hjá Árnastofnun og gat þannig lesið þær heimildir, sem hún þarfnaðist fyrir doktorsritgerðina. Í hvorutveggja ritgerð sinni og greininni leggur hún mikla áherslu á þá staðreynd, hvað læknisfróður einstaklingur lagði mikið af mörkum til þessarar byltingar í íslenskri byggingasögu. Hún bætir við, að þessi rannsóknaritgerð fjalli um það tæknilega hlutverk, sem steinsteypan lék frá fyrstu notkun sements árið 1847 til byggingar sementsverksmiðju á Íslandi 1958. Markmið rannsóknarinnar er að skoða ástæðurnar fyrir útbreiðslu á byggingatæknilegri notkun steinsteypu á Íslandi ásamt pólitískri og menningarlegri þýðingu þessa byggingaefnis. Þar sem ekki hefur verið minnst mér vitandi á þessa doktorsritgerð í íslenskum fjölmiðlum eða annars staðar á íslensku, fannst mér ástæða til þess að kynna hana hér.
Í upphafi ritgerðar sinnar um upphaf steinsteypualdar á Íslandi gefur Sofia Nannini stutt yfirlit yfir aðstæður við húsbyggingar á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar á Íslandi:
„Sú mikla umbylting, sem varð skyndilega á Íslandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar og síðar, var ekki eingöngu falin í innflutningi á fiskitogurum og bifreiðum til landsins. Meðal tækninýjunga var steinsteypan, sem varð það lykilefni, sem breytti byggðu landslagi eyjunnar og var snemma tekið til notkunar af fyrstu íslensku arkitektunum t.d. Rögnvaldi Ólafssyni ( 1874 - 1914 ) og Guðjóni Samúelssyni ( 1887 – 1950 ). Áhugavert er, að aðal formælandi þessa efnis var Guðmundur Hannesson ( 1866 – 1946 ) læknir og áhugamaður um borgarskipulag, sem ritaði greinar og meira að segja leiðarvísi um steinsteypu, sem birtur var árið 1921. ( Steinsteypa: Leiðarvísir fyrir alþýðu og byrjendur ). Í landi, sem var í leit að eigin arkitektúr til að sýna umheiminum, voru honum ljósir þeir tæknilegu og útlitslegu möguleikar, sem steinsteypan bauð upp á. Með greiningu á greinum hans og ritverkum er þessari ritgerð ætlað að kynna kenningar Guðmundar Hannessonar og hlutverk hans í ritun íslensks kafla í sögu steinsteypunnar, allt frá fyrstu tilraunakenndu notkun hennar til nýtísku íslenskrar byggingarlistar”.
Sofia greinir því næst frá upphafi steinsteypualdar í Evrópu í lok nítjándu – og byrjun tuttugustu aldarinnar með tilvísun í marga tæknimenn frá þeim tíma. Hún nefnir það heillandi hlutverk, sem steinsteypan lék um þessi aldamót, allt frá frumstæðri notkun til fæðingar nýtísku byggingarlistar. Hin aldalanga efnislega og stjórnmálalega einangrun Íslands, ásamt hörku í veðurfari, kemur fram í vöntun á hefðbundinni sögu byggingarlistar. Fyrstu áratugir tuttugustu aldarinnar einkenndust af hægri og ofbeldislausri baráttu fyrir sjálfsstjórn og sjálfstæði frá Danmörku, ásamt hraðri nýsköpun og þéttingu byggðar. Það hafði í för með sér nauðsynlega umræðu í landinu um það, hvernig og hvað skuli byggja, til þess að sýna andlit lands og þjóðar. Vandinn við að nálgast timbur, eldhætta og þörfin fyrir að losna undan áhrifum hins danska byggingarstíls, sem einkenndist af steinhleðslu, allt kallaði á notkun nýs byggingarefnis, segir Sofia, sem ætlað var að sýna byggingafræðilegt andlit þjóðarinnar, og þetta efni var steinsteypan.
Og það var einmitt upp úr þessu, segir Sofia, sem íslenskir smiðir eða bændur reistu fyrstu húsin úr steinsteypu úti í sveit, annað þeirra að Görðum á Akranesi 1878-1881 og hitt í Sveinatungu í Norðurárdal 1895. Hin eiginlega steinsteypuöld hafi svo hafist í reynd um aldamótin 1900, þegar Jón Þorláksson ( 1877-1935 ), einn af fyrstu verkfræðingum Íslands og áhrifamikill stjórnmálamaður, skilgreindi það tímaskeið, sem var í aðsigi í Búnaðarritinu árið 1911 undir fyrirsögninni: „Hvernig reynast steinsteypuhúsin“?
„Það er nú ekki lengur neinum efa undirorpið, að húsagerðarlagið í landinu er að breytast. Timburhúsaöld sú, sem hér hefir gengið yfir um hrið, er að enda, en steinsteypuöldin upp runnin”.
En þótt Jón Þorláksson hafi skrifað þessa tímamótagrein var það ekki hann sem ritaði sögu sementsins og steypunnar framan af steinsteypuöldinni á Íslandi eða var helsti hvatamaðurinn að notkun hennar. Aðalmeðmælandi notkunar steinsteypu á Íslandi var á þessum tíma, skrifar Sofia, tvímælalaust Guðmundur Hannesson læknir. Hann lærðí læknisfræði í Kaupmannahöfn 1887-1895 og fluttist til Reykjavíkur 1907, tók þátt í stofnun Háskóla Íslands 1911 og varð prófessor þar. Bágborin húsakynni landsmanna voru honum mikið áhyggjuefni og kom hann fram með leiðbeiningar um gerð þeirra í Búnaðarritinu 1913. Kjörorð hans voru „hlý og rakalaus steinhús“ og gaf hann út leiðbeiningar um gerð slíkra húsa. Þar lagði hann mikla áherslu á að lærðir iðnaðarmenn sæju um framkvæmdir. Sofia vitnar þó líka í Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness, sem lýsir tortryggni margra í garð þessa nýja byggingarefnis í bók sinni Sjálfstætt fólk.
Fleiri greinar um byggingaraðferðir og skipulagsmál gaf Guðmundur svo út á áratugnum 1910-1920. Eftir 1920 helgar Guðmundur Hannesson sig útgáfu rita um notkun steinsteypu í húsagerð. Má fyrst nefna : „Steinsteypa, leiðarvísir fyrir alþýðu og viðvaninga“, sem kom út árið 1921 á vegum Iðnfræðafélags Reykjavíkur. Lýsti hann þar samsetningu og notkun steypunnar. Útgáfan var ætluð óvönum byggingamönnum og fyrir minni byggingaframkvæmdir. Er þar um að ræða einstakt verk á meðal tæknirita á Íslandi og sérstaklega tengt sívaxandi steyputækni á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Má e.t.v. líkja þessu riti við handbók Portland Cement Association fyrir framleiðslu á steinsteypu frá árinu 1916. Í ritinu nefnir Guðmundur gjarnan byggingarvenjur, sem tíðkuðust á þessum tíma í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Í því sambandi kemur hann inn á gæði mismunandi innfluttra sementstegunda, aðallega frá Noregi og Danmörku. Þá minnist hann í framhaldinu á allt að því einkaleyfis-ástandið, sem var á sementsinnflutningi, mál sem síðar varð upphafið að áætlunum um íslenska sementsframleiðslu.
Þó að íslenskir ráða- og menntamenn hafi verið opnir fyrir notkun steinsteypunnar, var ritið Steinsteypa að mati Sofiu, ekki ritað fyrir verkfræðimenntaða lesendur heldur alþýðu manna. Íslendingar litu á þessum tíma mjög til danskra byggingafyrirtækja, þar sem járnbundin steypa var þegar notuð. Minnst er á fyrirtækið Christiani & Nielsen, sem hannaði brúna yfir Fnjóská. Ritið Steinsteypa var þó ekki sett saman fyrir slík mannvirki eða þaðan af stærri, heldur má líta á það sem leiðarvísi til þess að byggja hús og bóndabæi á þessu mikla breytingaskeiði í byggingarlist á Íslandi. Í byggingarsamþykkt fyrir Reykjavík frá 1903 kemur fram að slíkar byggingar má ekki lengur byggja úr torfi og grjóti.
Kalt loftslag og tæknivandamál voru ekki einu úrlausnarefnin, sem Guðmundur stóð frammi fyrir vegna þessa nýja byggingarefnis, heldur þurfti líka að huga að félagslegum og pólitískum þáttum á borð við nýja möguleika í byggingarstíl og útliti:
„Íslendingar lifa nú á hættulegu gelgjuskeiði í öllu sem að byggingum lýtur og þetta hefir aftur mikil áhrif á alt þjóðlíf vort. Í þúsund ár höfðum vér ekki úr öðrum byggingaefnum að spila en baggatækum spýtum, torfi og óhöggnu grjóti“.
Í riti frá 1926, sem Guðmundur nefndi „Húsakynni á Norðurlöndum að fornu og nýju,” um byggingar í Noregi og Svíþjóð, viðurkennir hann að: „útlendar fyrirmyndir henta ekki að öllu, þó að hugmyndir geti þar gefið nokkra leiðbeiningu“. Kemur þarna sennilega fram tilvitnun í umræður í þjóðfélaginu, þar sem nýjungar í byggingarstíl voru gagnrýndar. Hann minnir einnig á, að of fáir arkitektar hafi verið komnir til landsins á þessum upphafsárum, til þess að kenna notkun þessa nýja byggingarefnis, og minnir á að „það er mikill munur á góðum trésmið og góðum arkitekt“. En hann nefnir þetta árið 1926 í þátíð, því að þá hafði Ísland ekki aðeins hlotið fullveldi, heldur var þá einnig búið að stofna embætti Húsameistara ríkisins undir forystu Guðjóns Samúelssonar, sem breytti á skömmum tíma útliti ört vaxandi Reykjavíkurborgar.
Í grein Sofiu kemur fram að á pólitíska sviðinu tengdist steypan umræðum um opinbera byggingarlist og fékk þar ákveðið hlutverk sem verkfæri í sjálfstæðisbaráttunni við Dani. Þessi þjóðerniskennda afstaða studd af byggingarlist og efnisvali varð til þess, að einn þekktasti stjórnmálamaður landsins, Jónas frá Hriflu, sendi frá sér bók árið 1957 sem hann nefndi: „Íslenzk Bygging: Brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar“ Í reynd var það svo, að steinsteypan á Íslandi var ekki aðeins orðin byggingarefni nýtistefnu-byggingastílsins ( functionalism ) eftir 1930, heldur varð nokkurs konar myndrænt tól til að „frelsa [Ísland] undan danskri byggingartækni og arkitektúr“ og áþreifanlegur tákngervingur „sannrar íslenskrar byggingagerðar“, sem féll vel að hugmyndum landsmanna um séríslenskan byggingarstíl.
Síðasta stóra framlag Guðmundar Hannessonar til sögu íslenskrar byggingargerðar var bókin: „Húsagerð á Íslandi“, gefin út 1942. Þar koma fram flest atriði byggingarsögunnar, allt frá landnámi til daga höfundar, - með sérstöku tilliti til mismunandi byggingarefna, allt frá sögulegu torfi, timbri og grjóti til sements og að lokum, steinsteypu . Mesta breytingin sem orðið hefur frá fyrstu greinunum sem hann ritaði til þessarar síðustu bókar, segir Sofia, var efnissviðið. Í „Húsagerð á Íslandi“ var höfundurinn ekki aðeins áhugasamur um notkun byggingarefnanna og þá sérstaklega steinsteypuna heldur ekki síður um sögulega tengingu þeirra við Ísland.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Sementsverksmiðju ríkisins, Akranesi.