Í október 1981 birtist mynd af Bubba Morthens með sígarettu í munnvikinu á forsíðu tímaritsins Samúel. Hún er nú notuð sem hluti af kynningarefni sýningarinnar 9 líf í Borgarleikhúsinu. Þar hefur sígarettan verið fjarlægð í þeim tilgangi að unnt sé að birta myndina á Facebook. Eyrnalokkur hefur einnig verið fjarlægður. Björgvin Pálsson ljósmyndari tók myndina og hefur lýst því í fjölmiðlum að tímaritið Samúel hafi keypt hana til að birta í blaðinu. Hann hefur einnig upplýst að Borgarleikhúsið hafi fengið leyfi fyrir notkun myndarinnar en ekki óskað eftir heimild til að breyta henni.
Við þetta vakna spurningar um hvort eða hvernig sé heimilt að breyta ljósmyndum af þessu tagi án samþykkis ljósmyndara og hvort breytingar geti falið í sér brot á réttindum ljósmyndarans skv. höfundalögum.
Um höfundarrétt af ljósmyndum fer eftir höfundalögum. Sú vernd sem ljósmyndum er veitt samkvæmt þeim lögum getur verið mismunandi eftir því hvort tiltekin mynd teljist listrænt verk eða ekki. Það mat heyrir undir dómstóla. Til eru í það minnsta þrjú tilvik þar sem héraðsdómur hefur hafnað því að myndir af fólki birtar án leyfis höfundar geti talist listaverk sem njóti verndar höfundaréttarlaga sem slík. Í tveimur tilvikum var um að ræða ljósmyndir sem voru teknar af MySpace síðum einstaklinga og birtar í Séð og Heyrt og í einu tilviki taldi dómurinn að eingöngu væri um að ræða „einfaldar andlitsmyndir“ sem ekki gætu talist listaverk í skilningi höfundalaga. Í öllum tilvikum var hins vegar fallist á að notkun myndanna án leyfis fæli í sér brot á 49. gr. höfundalaga sem er ætlað að veita ljósmyndum sem ekki teljast listaverk í skilningi laganna tiltekna þrengri vernd.
Í Danmörku hefur verið talið að afbökun lita á ljósmynd, ef eingöngu hluti myndar er sýndur eða jafnvel stafræn lagfæring á ljósmynd geti hugsanlega falið í sér brot á sambærilegum rétti skv. dönskum lögum.
Í viðtali við ljósmyndarann er haft eftir honum um breytinguna: „Þetta er viss frelsissvipting, að taka sígarettuna því hún var nú kannski stærsti hlutinn af myndinni.“
Bubbi telur breytinguna ritskoðun.
Val Borgarleikhússins á ljósmyndinni í þeim tilgangi að kynna leikrit um líf Bubba felur í sér ákveðna vísbendingu um að leikhúsið telji hana hafa listrænt gildi.
Hér renna saman menningarsaga, listfræði, lögfræði og lýðheilsa tengd notendaskilmálum á Facebook. Viðbrögð við þessari sérstöku blöndu hafa ekki dregið úr áhuga á sýningunni.
Höfundur er lögmaður sem sérhæfir sig m.a. í hugverkarétti.