Allur annar kafli stjórnarskrár lýðveldisins Íslands fjallar um embætti forseta Íslands, alls 28 greinar. Sá kafli hefur þótt mjög opinn til túlkunar enda greinir bæði jafnt leika sem lærða á um hvert raunverulegt hlutverk og valdsvið forsetans er. Sömuleiðis hafa verið uppi vangaveltur um eðli embættisins, samspil og tengsl þess við þing, ráðherra og aðra stjórnsýslu. Til eru þeir fræðimenn sem hafa haldið því fram að á Íslandi ríkti í raun forsetaræði eða hálf-forsetaræði.
Það verður ekki rakið frekar hér enda mögulegt, og hefur verið gert, að skrifa langar greinar um eðli og völd forsetaembættisins. Hér verður nær eingöngu horft til viðhorfsins við mótframboði gegn sitjandi forseta og hvernig það hefur þróast.
Hér er heldur ekki ætlunin að taka afstöðu til þeirra sem hafa gefið kost á sér til embættis forseta Íslands nú sumarið 2020, heldur fyrst og fremst að ígrunda viðbrögð við frambjóðendum sem eru utan alfaraleiðar þjóðfélagsins og þeirra sem skorað hafa sitjandi forseta á hólm.
Greinin byggir að hluta til á fræðilegri grein Markúsar „Ósvífnu forsetaframboðin“ sem birtist í tímaritinu Sögnum árið 2018.
Forsetarnir sjálfir
Fyrstu tveir forsetar lýðveldisins voru í raun mjög pólitískir, höfðu talsverð afskipti leynt og ljóst af stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Enda voru þeir langt í frá óumdeildir, hið minnsta á pólitíska sviðinu. Þriðji forsetinn gegndi sínu embætti á stormasömum áttunda áratugnum sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika. Hann, eins og fleiri forsetar, íhugaði jafnvel myndun utanþingsstjórnar þegar allt virtist í hnút.
Fjórði forsetinn þurfti svara spurningum um kynferði sitt, hjúskaparstöðu og yfirstaðin veikindi meðan á kosningabaráttunni stóð. Henni tókst að sanna að einhleyp kona með barn geti hæglega gengt embættinu þrátt fyrir háværar efasemdaraddir um það.
Þótt ríkisstjórnir væru langlífari en áratuginn á undan hefur sá forseti sagt að síðasta kjörtímabil hennar hafi verið mjög erfitt á margan hátt. Einkum íþyngdu tvö mál mjög og annað þeirra er enn umdeilt á Íslandi; inngangan í EES.
Hugtakið sameiningartákn þjóðar yfir forsetann virðist hafa orðið til einhvers staðar á fyrstu áratugum lýðveldisins og hún styrkti það mjög.
Fimmti forsetinn, áður mjög umdeildur stjórnmálamaður, setti mjög mark sitt á embættið. Hann beitti fyrstur málskotsrétti stjórnarskrárinnar sem bæði stjórnmálamenn og ýmsir fræðimenn sögðu dauðan eða jafnvel hættulegan bókstaf.
Fyrstu fjögur ár núverandi forseta minna ef til vill svolítið á tíma þriðja og fjórða forsetanna en breyttir tímar hafa leitt til þess að hann þykir ekki undanþeginn gagnrýni. Honum er hrósað fyrir mildi og manngæsku en öðrum þykir hann t.a.m. ekki nægilega afgerandi í embætti.
Stundum virðast aðfinnslurnar byggja á ýmiss konar túlkunum á hlutverki og verksviði forseta sem mögulega standast ekki alltaf nánari skoðun. Það kann að vera vegna þess að ákvæði stjórnarskrárinnar er hægt að túlka á ýmsan hátt en við förum ekki nánar út í það hér enda sennilega aðrir betur til þess fallnir.
Að því sögðu er óhætt að fullyrða að hver einasti forseti hafi í raun mótað embættið eftir sínu höfði – og mögulega tíðarandanum hverju sinni..
Sitjandi forseti fær mótframboð
Alþingi kaus fyrsta forsetann á Þingvöllum 17. júní 1944. Sveinn Björnsson sem hafði gengt embætti ríkisstjóra hlaut 30 atkvæði en Jón Sigurðsson skrifstofustjóri fimm. Þingmenn voru 52.
Löngum hefur virst sem sú hugdetta ein að skora sitjandi forseta á hólm hafi dugað til að almenningur teldi þá sem það gerðu heldur skrýtna, slíkt framboð væri „[hámark ruddamennsku eða dómgreindarleysisins“ eins og Þórlindur Kjartansson hagfræðingur orðaði það árið 2004.
Þrisvar hefur sitjandi forseti þurft að heyja kosningabaráttu, árin 1988, 2004 og 2012. Svo er að sjá að nú orðið þyki ekki tiltökumál þótt sitjandi forseti sé skoraður á hólm, þótt ýmis konar viðhorf séu enn uppi um það.
Guðni Th. Jóhannesson sem kjörinn var forseti 2016 tilkynnti um áramót að hann gæfi kost á sér til áframhaldandi setu. Nú bendir flest til þess að hann fái að minnsta kosti þrjú mótframboð. Axel Pétur Axelsson sem titlar sig þjóðfélagsverkfræðing og Guðmundur Franklín Jónsson viðskipta- og hagfræðingur tilkynntu fyrir nokkru að þeir gæfu kost á sér. Sá síðarnefndi hafði dregið framboð sitt til baka fyrir fjórum árum þegar Ólafur Ragnar lét í það skína að hann ætlaði jafnvel að bjóða fram krafta sína áfram.
Báðir hafa verið iðnir við að kynna sig og komu strax fram með hugmyndir um hverju þeir myndu beita sér fyrir næðu þeir kjöri. Nýlega bættist svo fjórði frambjóðandinn við, Arngrímur Friðrik Pálmason að nafni. Hann er búfræðingur að mennt en hefur sjálfur sagt að hann sé sennilega fyrsti fatlaði forsetaframbjóðandinn á Íslandi.
Þeir hafa allir haft sig frammi í þjóðfélagsumræðunni undanfarin ár, hver með sínum hætti.
Í athugasemdum við fréttir um fyrirhuguð framboð þeirra Axels Péturs og Guðmundar Franklín má sjá margskonar viðhorf til fyrirætlunar þeirra. Mörg þeirra eða keimlík hafa heyrst áður þegar sitjandi forseti hefur verið skoraður á hólm.
Sumir höfðu á orði að þeir ættu að láta kyrrt liggja vegna kostnaðar við kosningar, aðrir fögnuðu framboðum þeirra. Eins fengu þeir yfir sig talsvert af háðsglósum um persónu þeirra og skoðanir. Eins var fullyrt að þeir skildu ekki hvert hlutverk forseta væri og að hugmyndir þeirra ættu frekar heima á Alþingi.
En vitaskuld styðja þá margir og hvetja til dáða. Þannig virkar lýðræðið.
Viðbrögð við mótframboði gegn sitjandi forseta
Í hvert sinn er forseti hefur tilkynnt embættislok sín hafa bollaleggingar um hugsanlegan eftirmann fljótlega hafist. Yfirleitt hafa þá nöfn áhrifafólks í samfélaginu verið nefnd, þeirra sem framarlega hafa verið í stjórnmálum, stjórnsýslu, viðskiptum, menningu og listum. Fyrir forsetakosningarnar 2012 velti Sigríður Dögg Auðunsdóttir fyrir sér hvaða eiginleikum góður forsetaframbjóðandi þyrfti að vera gæddur.
Niðurstaðan var sú að hann þyrfti að vera vel menntaður, með framtíðarsýn, tala erlend tungumál og vera lífsreyndur heimsborgari sem kynni að taka mótlæti jafnt sem meðbyr. Síðast en ekki síst þyrfti hann að hafa það sem nefnt hefur verið kjörþokki. Sjaldgæft er að óbreytt alþýðufólk hafi komist á blað yfir mögulega forsetaframbjóðendur, og dytti því í hug að impra á mögulegu framboði hafa viðbrögð orðið hörð.
Jóhannes Kr. Jóhannesson sem talinn var „kynlegur kvistur“ mun hafa ætlað að gefa kost á sér þegar til stóð að efna til almennra forsetakosninga árið 1945. Jóhannesi tókst ekki að safna tilskildum fjölda meðmælenda og því var Sveinn sjálfkjörinn.
Fyrstu forsetakosningarnar á Íslandi fóru fram á vordögum 1952 eftir andlát Sveins Björnssonar. Áðurnefndur Jóhannes mun hafa ætlað fram einu sinni enn en skilaði inn meðmælendalistum sem innihéldu nöfn fólks sem ekki var til.
Kosningabaráttan var hörð og óvægin en lyktaði með því að Ásgeir Ásgeirsson sigraði Bjarna Jónsson vígslubiskup naumlega. Bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn höfðu stutt Bjarna opinberlega. Þriðji frambjóðandinn Gísli Sveinsson, sem hlaut 6% atkvæða, er jafnvel talinn hafa haft þau áhrif að Ásgeir sigraði. Um það er þó ekkert hægt að fullyrða.
Svo virðist vera sem ekki hafi þótt tilhlýðilegt að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta, slíkt uppátæki sýnist hafa þótt ósvífið og mótframbjóðendurnir álitnir furðufuglar, auk þess sem kostnaður við forsetakosningar hefur þótt mikill.
Framboðsraunir Péturs Hoffmann Salómonssonar
Pétur Hoffmann Salómonsson var einn þeirra sem settu mark sitt á lífið í Reykjavík um miðbik 20. aldar. Hann sást oft ganga prúðbúinn um götur borgarinnar þar sem hann spjallaði við hvern þann sem hlusta vildi.
Hann var sagður hafa lifað mjög ævintýralegu lífi, á að hafa slegist við nokkra bandaríska hermenn á heimaslóðum sínum í Selsvör og haft mikinn sigur. Sömuleiðis lét hann slá mynt með eigin mynd, átti að kunna Íslendingasögurnar utan að og skrifaði sjálfur talsvert.
Hann gaf m.a. út lítinn bækling sem hann kallaði Smádjöflar: liðið ofsótti mig, en smádjöflar unnu á mér þar sem hann lýsti hvernig hann hefði hugsað sér að bjóða sig fram gegn Ásgeiri Ásgeirssyni forseta árið 1956, einkum vegna vonbrigða með embættisfærslur hans.
Pétur hélt því fram að margir málsmetandi menn, embættismenn sem aðrir hefðu gengið hver undir annars hönd að hræða hann frá framboði. Sé eitthvað sannleikskorn í orðum Péturs eru viðbrögðin keimlík því sem síðar gerðist þegar venjulegir, óþekktir og stundum svolítið sérstakir borgarar hugðust bjóða sig fram til embætti forseta Íslands.
Forsetakosningarnar 1980
Í ágústbyrjun 1979 sagðist Albert Guðmundsson alþingismaður ákveðinn í að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands, með fyrirvara um að Kristján Eldjárn gæfi ekki kost á sér en hann hafði þá ekki gefið afgerandi svar um áframhaldandi setu sína.
Mörgum þótti alþingismaðurinn of fljótur til og sýna Kristjáni og forsetaembættinu vanvirðingu með yfirlýsingagleði sinni. Einari Karli Haraldssyni öðrum ritstjóra Þjóðviljans fannst fréttaflutningur Dagblaðisins smekklaus og að stjórnmálamaðurinn Albert myndi tapa vinsældum og fylgi með því að gefa Kristjáni ekki tóm til að taka ákvörðun um áframhaldandi setu í embætti.
Þegar leið á haustið án þess að forseti tjáði hug sinn um framhaldið var að sjá að Albert sjálfur og stuðningsmenn hans teldu líklegt að þeir héldu framboði sínu til streitu hvaða ákvörðun sem Kristján tæki.
Við það kom upp það sem hefur hvílt mjög á þjóðinni þegar mótframboð hefur komið gegn sitjandi forseta; kostnaðurinn við kosningar þar sem mótframbjóðandi gæti ekki átt mikla möguleika gegn forsetanum. Það er einmitt eitt af rökunum gegn fyrirhuguðu framboði þremenninganna nú.
Þrátt fyrir að snemmbúin yfirlýsing Alberts Guðmundssonar um framboð hafi þótt ósmekkleg og dónaleg er ekki að sjá að hann hafi í raun ekki verið talinn eiga erindi í framboð, enda „málsmetandi“ maður, landsþekktur og fremur vinsæll stjórnmálamaður. Kristján Eldjárn tilkynnti ákvörðun sína um að hætta um áramótin 1980 og kosningabarátta fór í hönd.
Einn þeirra sem tilkynntu um framboð sitt snemma árs 1980 var málarameistari úr Kópavogi, Rögnvaldur G. Pálsson að nafni. Hann hefur fengið þau eftirmæli að hafa verið „stór karakter sem enginn komst hjá að taka eftir“, „.litríkur og skemmtilegur kall“ og „merkileg og sérstök persóna sem setti svip á bæinn“.
Líklegt er að allt þetta hafi átt við um Rögnvald sem gaf meðal annars út þau kosningaloforð að hann ætlaði að hætta að veita fálkaorður og taka að selja þær frekar hæstbjóðendum og reisa forsetahöll í Viðey, enda Bessastaðir fulllágreistir fyrir hann. Hann talaði fjálglega um stuðningsmannahóp sinn í fjölmiðlum en virtist svo ætíð vera einn á ferð, við kynningu og atkvæðasmölun.
Ekki er annað að sjá en Rögnvaldur hafi fengið sömu tækifæri til að kynna sig í fjölmiðlum og aðrir frambjóðendur en honum gekk illa að sannfæra fólk um að framboð hans væri í fullri alvöru, hann fékk lítið brautargengi í skoðanakönnunum og dró að lokum framboð sitt til baka, að sögn vegna skorts á meðmælendum.
Þá sagðist Rögnvaldur ætla að snúa sér að stjórnmálum en byrja á að halda málverkasýningu. Samanburður við Pétur Hoffmann Salómonsson er nokkuð sláandi, báðir voru þeir „kynlegir kvistir“ sem virðast ekki hafa bundið bagga sína sömu böndum og samferðamenn þeirra, t.d. varði Rögnvaldur löngum stundum á seinni hluta ævinnar til undirskriftasöfnunar gegn þeirri vá sem hann taldi spilakassa vera.
Eins og alkunna er hafði Vigdís Finnbogadóttir sigur í forsetakosningunum 1980.
Forsetakosningar 1988
Mikla athygli vakti þegar Sigrún Þorsteinsdóttir ákvað að bjóða sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988. Það var í fyrsta skipti sem mótframboð gegn sitjandi forseta var boðað.
Viðbrögðin voru yfirleitt þau að það væri dónaskapur, hneyksli og fáránlegt að skora farsælan forseta á hólm, auk þess sem kostnaður við „vonlausar kosningar“ þótti allt of mikill.
Sigrún kveðst hafa boðið sig fram til að auka á lýðræði í landinu, vildi virkja forsetaembættið enn frekar og fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum. Því var þó haldið fram að framboð hennar væri til að vekja athygli á Flokki mannsins, en að hið „ósvífna framboð“ myndi líklega verða flokknum endanlega að falli. Flokkur mannsins var stofnaður 1984 og byggði hugmyndir sínar á hugmyndafræði húmanista enda starfar hann nú undir heitinu Húmanistaflokkurinn.
Vigdís forseti vildi lítið hafa sig frammi í kosningabaráttunni, með þeim rökum að þjóðin vissi hvað hún stæði fyrir. Eftir skoðanakönnun í byrjun júní sem sýndi slakt gengi Sigrúnar sagði einn stuðningsmanna Vigdísar að honum „eins og öðrum landsmönnum“ þætti eðlilegt að hún drægi framboð sitt til baka.
Andstaða við framboð Sigrúnar virtist vera mikil í samfélaginu, fjöldamargar greinar birtust um ósvífni hennar að bjóða sig fram, um þann óheyrilega kostnað sem af framboðinu hlytist og annað í þeim dúr. Oft var frambjóðandinn dreginn sundur og saman í háði í aðsendum greinum og leiðurum blaða en jafnframt birtust greinar í blöðum henni til stuðnings.
Ragnari Sverrissyni járniðnaðarmanni fannst „út í hött“ að ætla að meta lýðræðið til fjár og Áshildi Jónsdóttur fjölmiðlafulltrúa Sigrúnar fannst lágkúrulegt af fjölmiðlum að saka frambjóðandann um að kosta samfélagið mikla peninga með framboði sínu.
Svo fór að sitjandi forseti fékk afgerandi meirihluta atkvæða sem túlkað hefur verið sem staðfesting á stöðu hennar sem sameiningartákn. Kjörsókn var ríflega 72 af hundraði og Sigrún mat niðurstöðuna þannig að þeir sem heima sátu hafi viljað virkari forseta.
Sigrún kveðst hafa gefið kost á sér til að draga eðli forsetaembættisins fram og skyldur hans gagnvart kjósendum sem eini þjóðkjörni embættismaður landsins. Sé svo er þá ekki nema að hluta rétt það sem Gunnar Helgi Kristinsson, Indriði H. Indriðason og Viktor Orri Valgarðsson héldu fram í grein sinni um forsetakosningarnar 2012 að þær hafi snúist meira um eðli forsetaembættisins en fyrri kosningar.
Forsetakosningar 1996 og 2004
Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands árið 1996. Fjögur voru í framboði en fleiri hófu þó vegferðina. Einn þeirra var Ragnar Jónasson orgelleikari og í frétt Alþýðublaðsins af framboðinu var sérstaklega nefnt hversu „gersamlega óþekktur“ hann væri. Til stæði þó að grafast fyrir um fortíð hans og látið í það skína að þar væri óþægileg leyndarmál að finna. Ragnar tilkynnti fljótlega að hann væri hættur við enda hefðu „ákveðin dagblöð […] farið offari í að sverta […] persónu“ hans.
Líða nú átta ár. Eftir einhverja hörðustu pólitísku orrahríð sem forseti Íslands hafði lent í, synjun staðfestingar fjölmiðlalaganna árið 2004, buðu tveir menn sig fram gegn sitjandi forseta, „[h]vorugur … þungavigtarmaður“ eins og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur orðaði það í bók sinni Saga af forseta.
Eftir átta ár á forsetastóli þurfti Ólafur að etja kappi að nýju við Ástþór Magnússon sem hafði einmitt fengið á sig svipað orð og Pétur Hoffmann og Rögnvaldur Pálsson, að vera „furðufugl“, til alls líklegur. Ástþór var forvígismaður samtaka sem kölluðu sig Frið 2000, vildi „virkja Bessastaði“ og segist hafa orðið fyrir miklu mótlæti á Íslandi síðan hann stofnaði þau árið 1995.
Hann á án efa nokkurn þátt í að skapa sér kostulega ímynd með atferli sínu, t.d. mætti hann við fyrirtöku í dómssal íklæddur jólasveinabúningi og fullyrti í kosningabaráttunni 2004 að Ólafur Ragnar Grímsson hegðaði sér eins og krakki.
Ástþóri tókst að safna nægilegum fjölda meðmælenda og það tókst einnig kaupsýslumanninum Baldri Ágústssyni sem taldi brýnt að auka á virðingu fyrir forsetaembættinu.
Fjórði maðurinn hugðist bjóða sig fram, Snorri Ásmundsson listamaður, sem hætti við framboð sitt á síðustu stundu með þeim orðum að kosningarnar bæru yfirbragð „skrípaleiks og sirkuss“, auk þess sem hann hefði ekki tíma til að standa í því að vera forseti vegna mikilla anna í myndlistarheiminum.
Í BA ritgerð í listfræði við Háskóla Íslands staðhæfir Hildur Jörundsdóttir að með framboði sínu hafi Snorri verið að framkvæma listrænan gjörning, sem einhverjir í samfélaginu hafi áttað sig á, en aðrir tekið alvarlega og gagnrýnt virðingarleysi Snorra fyrir forsetaembættinu harðlega.
Snorri hafði fengið mjög lélegar undirtektir í skoðanakönnunum, Ástþór Magnússon galt mikið afhroð í kosningunum og fékk aðeins 1.5% greiddra atkvæða. Baldur virtist frekar ná eyrum kjósenda og fékk tæp 10% meðan sitjandi forseti, fékk 63 af hundraði.
„Ólafur Ragnar Grímsson náði vitaskuld endurkjöri en erfitt var að túlka úrslitin honum í vil“ skrifaði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur árið 2010. Ólafur hafði staðið í mikilli orrahríð við ríkisstjórn og alþingi vegna synjunar fjölmiðlalaganna og niðurstaða kosninganna bendir til að meirihluti kjósenda hafi viljað hafa þann mann áfram í embætti sem líklegastur var að standa uppi í hárinu á ríkjandi stjórnvöldum.
Kjörsókn var óvenju rýr, tæp 63% og um 21% skilaði auðu.
Forsetakosningar 2012
Forsetakosningarnar 2012 höfðu þá sérstöðu að sitjandi forseti hafði gefið í skyn í áramótaávarpi sínu að hann hygðist draga sig í hlé. Yfirlýsing forsetans var nógu óljós til að mjög skiptar skoðanir voru um hvort hann hygði á áframhaldandi setu eða ekki.
Jón Lárusson, lögreglumaður og sagnfræðingur, tilkynnti í viðtali á Útvarpi Sögu 9. janúar að hann byði sig fram til embættis forseta Íslands „ … að vel ígrunduðu máli“. Viðbrögð við framboði hins nánast óþekkta lögreglumanns létu ekki á sér standa, einstaka fagnaði framboði Jóns en athugasemdir eins og „[h]vaða Dúddi Mæjónes er nú þetta?“ og „[e]r ekkert lengur hægt að gera hér á Íslandi svo sómi sé að?“ sáust á athugasemdakerfum vefmiðla.
Ummæli sem þessi gætu bent til að tiltölulega óþekktur Íslendingur þætti þá ekki eiga erindi í forsetaframboð. Svo fór að Jón dró framboð sitt til baka, að sögn vegna skorts á meðmælendum og kvaddi með þeim orðum að fjölmiðlar hefðu ekki álitið framboð hans „alvöru“ og:
Sá tími sem liðinn er frá því að ég gaf kost á mér, hefur opinberað fyrir mér það sem ég í raun taldi mig vita, að þó við viljum meina að við séum öll jöfn, þá eru sumir jafnari en aðrir.
Þessi orð Jóns Lárussonar lýsa vel því viðhorfi sem tiltölulega óþekktir einstaklingar hafa mátt þola þegar þeir hafa reynt að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Sé frambjóðandinn ekki landskunn manneskja er líklegt að viðkomandi fái þann dóm að vera furðufugl með annarlegar hugmyndir og sé eingöngu að valda ríkissjóði miklum útgjöldum með framhleypninni.
Hik forseta að tilkynna framboð kann að hafa aukið umburðarlyndi fjölmiðla og almennings fyrir framboðum gegn honum. Þótt Jón næði ekki tilskyldum meðmælendafjölda tókst algerlega óþekktum Íslendingi búsettum í Noregi það, Hannes Bjarnason fékk um 1% atkvæða að lokum.
Andreu J. Ólafsdóttur, sem hafði staðið í mikilli baráttu gegn stjórnvöldum og var nokkuð kunn fyrir störf sín fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, gekk lítið betur en Ólafur Ragnar Grímsson forseti sigraði í kosningunum með um 53% atkvæða að baki. Var það mun lægra hlutfall en sitjandi forseti hafði áður fengið í kosningum.
Helsti andstæðingur Ólafs var Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona sem var landsþekkt og virt fyrir störf sín.
Forsetinn, sem hafði tvisvar á kjörtímabilinu synjað lögum staðfestingar, hlaut þó enn brautargengi, líklega vegna þess að hann hafði verið staðfastur í afstöðu sinni gagnvart stjórnvöldum. Bloggari nokkur hafði enda fullyrt að framboð gegn Ólafi gæti „rústa[ð] forsetaembættinu í þeirri mynd sem það er í dag til þess að flokkarnir og formenn þeirra haldi þeim völdum sem þeir eitt sinn höfðu.“
Óvenju margir hugðust bjóða sig fram í kosningunum 2016 en að lokum tókust níu manneskjur á um embættið. Svo fór að sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hafði sigur með ríflega 39% atkvæða. Nú stefnir í lok fyrsta kjörtímabils hans og allt útlit er fyrir kosningabaráttu.
Lýðræðið
En má ekki líta á framboð gegn forseta sem einn þátt þess lýðræðis sem við teljum okkur búa við?
Í athugasemd við frétt af framboði Arngríms Pálmasonar sagði Hálfdán Ingólfsson:
„Er slæmt að allir og amma þeirra geti boðið sig fram til forseta? Þetta er síðasta vígið þar sem einstaklingar geta farið fram, stjórnmálaflokkarnir eru búnir að sauma utan um öll önnur framboð. Flokkarnir hafa full tök á prinsippinu "Mér er sama hverjir kjósa ef ég fæ að ráða hverjir eru í framboði". Alvöru lýðræði kostar fé og fyrirhöfn, sýndarlýðræði eins og hér ríkir að mestu leyti kostar samt miklu meira fyrir samfélagið [svo] þegar upp er staðið.“
Minnið er skondin skepna, fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. Þegar frá líður gleymast ágreiningsmál nema þau allra svæsnustu en það góða situr frekar eftir.
Franski félagsfræðingurinn Maurice Halbwachs setti fram kenningar um sameiginlegar minningar. Þær byggja á því að að fólk endurskoði ekki aðeins liðna atburði í huga sér heldur lagfæri þá. Í huganum styttir fólk atburðarás, gerir hana betri en efast ekki um að þessar endurunnu minningar séu nákvæmar. Fortíðin (og þá fólkið og atburðirnir í henni) verði því yfirleitt mun betri í minningunni en hún á skilið.
Forvitnilegt er í því samhengi að rifja upp að raunverulega var ekki alltaf lognmolla um Svein og Ásgeir, nú eða Ólaf Ragnar. Hann var hugsanlega sá forseti sem mest hefur kveðið að opinberlega og enn eru mjög skiptar skoðanir um embættistíð hans. Það var tímabil mikilla umbrota og einhverra mestu sveiflna í íslensku efnahagslífi á lýðveldistímanum.
Hann kom líka sjálfur úr hörðum heimi stjórnmálanna líkt og Ásgeir og þeir áttu það sameiginlegt að vera óhræddir við að láta aðra kjörna fulltrúa finna fyrir sér. Kristján Eldjárn var lítt umdeildur og Vigdís var ferskur blær í karlægt embættið. Þau stóðu þó oft í ströngu og þurftu að taka óvinsælar ákvarðanir, sem hefur þó fennt yfir í tímans rás.
Framan af lýðveldistímanum og jafnvel fram yfir kjör Ólafs er líkt og kjörinn forseti öðlist ákveðna tign. Á stuttum tíma fennir yfir fyrra líf þeirra og það sem þeim var talið til hnjóðs á meðan á kosningabaráttu stóð vék fyrir mikilvægi manneskjunnar í hinu nýja embætti. Það hefur þó eitthvað breyst.
Ólafur Ragnar fór sér fremur hægt á fyrsta kjörtímabili sínu og grjótharði stjórnmálamaðurinn vék fyrir nokkuð alþýðlegum forseta að því er virtist. Persónulegur harmur hans við andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur eiginkonu hans setti án efa mikið mark á upphafsár hans sem forseta.
Óhætt er að ætla að núverandi forseti standi enn, að loknu heilu kjörtímabili, frammi fyrir miklum samanburði við forvera sinn. Hann sat í tuttugu ár, lengur en nokkur annar forseti, varð æ pólitískt aðsópsmeiri eftir því sem á leið og mótaði embættið mjög og viðhorf almennings til þess.
Mögulega er arfleifð Ólafs svo sterk að ákvæði stjórnarskrárinnar um embættið gætu raunverulega þurft á verulegri endurskoðun að halda. Sömuleiðis hefur undanfarinn rúman áratug heyrst rík krafa eftir endurmati á þjóðfélagsgerðinni og styrkingu lýðræðisins enda þykir mörgum of fátt hafa breyst eftir efnahagshrunið 2008.
Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á stjórnarskránni, sú viðamesta var mannréttindakaflinn frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Óumdeilt er að ætlan þeirra stjórnmálamanna sem aðlöguðu stjórnarskrána fyrir lýðveldisstofnun var að hana skyldi endurskoða hið fyrsta. Sveinn Björnsson kallaði iðulega eftir þeirri endurskoðun í sinni forsetatíð.
Reiði var mikil í hruninu og árin á eftir, og sárin virðast ekki alveg gróin. Gremja sprettur iðulega fram þegar á bjátar í samfélaginu og forsetinn fer ekkert varhluta af henni. Ætlast er til að hann bregðist við og bjargi því sem bjargað verður, þótt það sé ekki alltaf í hans verkahring.
Það gæti skýrt að hluta til þá viðhorfsbreytingu að ekki þyki lengur jafn ósvífið og áður að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.
Samantekt
Sitjandi forseti hefur þrisvar þurft að berjast fyrir endurkjöri, 1988, 2004 og 2012. Að óbreyttu stefnir í kosningar í sumar. Albert Guðmundsson þótti ósvífinn að tilkynna um framboð sitt áður en Kristján Eldjárn hafði opinberlega ákveðið hvað hann hygðist fyrir, árið 1979.
Líkast til komst hann upp með ósvífnina vegna þess hve þekktur hann var, enda málsmetandi stjórnmálamaður. Rögnvaldur Pálsson hugðist bjóða sig fram til forseta 1980 en náði ekki tilskyldum fjölda meðmælenda. Hann þótti nokkuð sérstakur í háttum og virtist hafa einkennilegar hugmyndir um eðli embættisins og hlutverk.
Þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur 1988 fannst fjölmiðlamönnum mörgum, og almenningi hún harla ósvífin að ráðast gegn farsælum forseta og valda samfélaginu kostnaði.
Harla erfitt hefur verið fyrir „meðaljón“ að bjóða sig fram til embættis forseta, frambjóðandi virðist hafa þurft að hafa náð að sanna sig með einhverjum hætti frammi fyrir alþjóð áður en hæfilegt þykir að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.
Hvorugur andstæðinga Ólafs Ragnars Grímssonar árið 2004 var álitinn þungavigtarmaður og nokkrir með/mótframbjóðenda hans árið 2012 guldu þess að vera ekki nægilega þekktir í samfélaginu.
Að einhverju leyti virðist svipaðra viðhorfa gæta gagnvart framkomnum forsetaframbjóðendum ársins 2020. Þó fer mun minna fyrir því en á árum áður. Með tilkomu samfélagsmiðla af ýmsu tagi er orðið mun einfaldara að koma skoðunum sínum á framfæri og verða áberandi í þjóðfélagsumræðunni.
Tveir þeirra a.m.k. eru nokkuð kunnir sem viðmælendur og álitsgjafar í fjölmiðlum og allir fyrir skrif sín og framkomu á veraldarvefnum og víðar. Ekki virðist mikið um að þeim sé brigslað um dónaskap fyrir að skora forseta á hólm en þeir hafa þurft að sitja undir margskonar öðru ámæli. En ekki má gleyma að fjöldi fólks styður þá og hvetur til dáða.
Lengi virðist sem ekki hafi þótt viðeigandi að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta, þótt ósvífið og fólk sem það reyndi stundum álitið furðufuglar. Það viðhorf sýnist á undanhaldi af ýmsum ástæðum sem velt var upp í greininni.
Ennþá er talsvert rætt um að kostnaður við „ónauðsynlegar“ forsetakosningar sé of mikill. Háværustu rökin gegn því eru að lýðræði kosti peninga og að þjóðfélagið verði að sætta sig við þau útgjöld.
Áhugavert verður að fylgjast með baráttu forsetaframbjóðenda á þessum fordæmalausu tímum.
Viðauki – atkvæðahlutfall kjörins forseta og fjöldi frambjóðenda
1952: Ásgeir Ásgeirsson 46.7% (Þrír frambjóðendur)
1968: Kristján Eldjárn 65,6% (Tveir frambjóðendur)
1980: Vigdís Finnbogadóttir 33,8% (fjórir frambjóðendur)
1988: Vigdís Finnbogadóttir 92,7% (Tveir frambjóðendur)
1996: Ólafur Ragnar Grímsson 41,4% (Fjórir frambjóðendur)
2004: Ólafur Ragnar Grímsson 67,5 (Þrír frambjóðendur)
2012: Ólafur Ragnar Grímsson 52,78 (Sex frambjóðendur)
2016: Guðni Th. Jóhannesson 39,1% (Níu frambjóðendur)