Það er áreiðanlega þarft að fjalla um uppbyggilega þætti sorps, nánar tiltekið lífúrgangs. Ekki er langt síðan ég skrifaði hér um málefni SORPU enda um mikilvægan samfélagsþátt að ræða og úrgangsmál eru yfirleitt fyrirferðarmikil í umræðum manna á milli, ef rætt er um umhverfismál. Það er greinilegt að mjög mörgum finnst mikilvægt að flokka og endurvinna úrgang, og það er frábært. Það er líka svo nærtækt að pæla í ruslinu, sem er alstaðar nálægt – á heimilinu, í fyrirtækinu, opinberum stofnunum o.s.frv. Fyrir stuttu fór ég yfir einhæfa og neikvæða umfjöllun um SORPU hér í Kjarnanum. Auðvitað á umræða um neikvæða þætti rétt á sér, en samfélagslega mikilvægir þættir eiga það líka, sérstaklega ef málefnið er brýnt.
Gas- og jarðgerðarstöð SORPU er bráðnauðsynleg breyting, mikið framfaraskref. Það besta við stöðina er ábyggilega að það verður svo augljóst að úrgangur er ekki úrgangur (= vesen, mengun og ógeð) heldur hráefni, eins og allt er á einhverjum tímapunkti í þessum heimi, þ.e.a.s. í lífinu. Ekkert hverfur bara, ekki heldur þótt það hverfi okkur sjónum (hvort sem það endar í Álfsnesi eða Langtíburtistan), því í alvörunni sjálfri eru líf og hráefni aðal – við þekkjum þetta alveg: Af jörðu ertu komin/n og allt það. Og úr hráefnum búum við til alls kyns afurðir og nú mun SORPA gera það líka úr sínu hráefni, sorpinu, og það ekkert slor: Metan og moltu. Metanið er loftslagshlutlaust eldsneyti og moltan inniheldur mikilvæg áburðarefni og húmus sem eru mikilvæg hringrásarefni. Sumir kalla þessa breytingu á meðferð sorps byltingu og ég tel það ekki orðum aukið. Og því fleiri sem þekkja og skilja hlutverk hennar og áhrif, því magnaðri er byltingin.
Metan úr auðniðurbrjótanlegum lífúrgangi höfuðborgarsvæðisins
Metanið er umhverfisvottað af Norrænni Umhverfismerkingu (Svanurinn) – svo fyrirhyggjusamir voru SORPU-stjórnendur. Metanframleiðsla úr urðun hefur verið stunduð hjá SORPU í 20 ár, svo löng og góð reynsla er komin á þá framleiðslu. Metanið telur ekki eins og jarðefnaeldsneytið í koldíoxíðbókhaldinu. Þannig getum við núllað út tugi strætisvagna og rútur og hundruð og jafnvel þúsundir minni ökutækja ár hvert. Við þetta bætist að með stýrðri vinnslu nást mun betri heimtur metans og því minnkar losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangs talsvert, sem er bráðnauðsynlegt og telur væntanlega í bókhaldinu í tengslum við Parísarsamkomulagið. Með samstilltu átaki stjórnvalda og þar til bærra aðila, t.d.. nokkurra bænda, væri vel mögulegt að koma á metanvæddu Íslandi. Þýskir bændur í þúsundavís stunda metanframleiðslu og dágóð reynsla og þekking er til staðar af tækninni.
Gull jarðyrkjans
Oft hef ég heyrt og lesið það sem erlent jarðyrkjufólk hefur að segja um mikilvægi moltu sem jarðvegsbætis. Talið hana sinn helsta fjársjóð. Og það er gott að hafa það bak við eyrað, að moldin, jarðvegurinn, er uppspretta lífsins. Gróðurinn lifir á jarðveginum og dýrin á plöntunum. Molta er sambærileg við mikilvægan hluta jarðvegs og inniheldur m.a. hinn lífsnauðsynlega fosfór. Fosfór er í öllum lífverum, m.a. í kjarnsýrunum, og hann er mikilvægur í orkubúskap frumna. Tilbúinn fosfóráburður er unninn úr námum og rétt eins og jarðolían gengur hann til þurrðar. Því miður er ekkert sem kemur í hans stað, ekkert staðgengilsefni.
Fyrr en síðar þurfum við að endurheimta þessi efni úr úrgangi, koma hringrásinni aftur í gang. Það er hreinlega siðferðilega rangt að láta hið góða hráefni sem lífúrgangur er fara til spillis og þannig lífefnum. Ómengaður, rétt meðhöndlaður lífúrgangur er gull garðyrkjufólks og bænda og grunnur að góðri ræktun. Eins og ég ræddi í síðustu grein minni hér er þörf á þróunarvinnu hjá SORPU á moltu, svo hægt sé að selja hana. Eins er grundvallaratriði að gæðavotta hana. Með hringrásarhagkerfi, sem mikið er talað um á tyllidögum hér (en ESB hóf innleiðingu á fyrir 4-5 árum) ætti markaður að fara að skapast fyrir moltu. Ekki að markaður sé nauðsynlegur fyrir alla skapaða hluti, en það er hefðbundið kerfi nútímans. Öfugt við náttúrulögmálin þá eru „markaðslögmálin“ nefnilega ekki frumforsenda samfélagsins, enda eru þau tilbúningur mannanna á meðan náttúrulögmálin eru óbreytanleg. Það væri áreiðanlega góð tilhögun að íbúar á starfssvæði SORPU gætu fengið það moltumagn sem samsvarar lífúrgangi þeirra frítt (þeir borga jú fyrir meðhöndlunina) og þetta fyrirkomulag byði jafnframt upp á uppbyggilega tengingu við náttúruna og hringrásir hennar.
Höfundur er MSc. umhverfis- og auðlindafræðingur. Sérhæfing: Nýting lífúrgangs (B.Sc. líffræðingur) og sjálfbær þróun.