Við Íslendingar höfum verið svo lánsöm að hér hefur lengst af verið lítið atvinnuleysi. Það þýðir að fáir hafa þurft að stóla á flatar atvinnuleysisbætur sem taka við eftir fyrstu þrjá mánuðina í atvinnuleysi á 70% af fyrri heildarlaunum. Atvinnuleysisbótakerfið íslenska hefur ekki verið mjög örlátt og því veitt frekar laka tryggingavernd.
Þegar fáir hafa verið atvinnulausir hefur lítið reynt á þetta. Nú þegar mun fleiri hafa misst vinnuna vegna kórónuveirufaraldursins en áður hefur sést er staðan orðin allt önnur.
Þegar líður á sumarið og uppsagnafrestir líða út og þau sem þá verða enn atvinnulaus klára rétt til 70% af fyrri heildarlaunum (3 fyrstu mánuðirnir) þá falla þau á flötu bæturnar sem eru tæpar 290 þúsund krónur á mánuði.
Þá lenda þau flest í mikilli kjaraskerðingu með tilheyrandi erfiðleikum við að standa við skuldbindingar sínar. Þau sem eru á meðallaunum missa meira en helming tekna sinna og láglaunafólk með um 400 þúsund krónur fær hátt í 30% kjaraskerðingu.
Þetta er hópurinn sem er í hættu á því að verða fyrir mestum áhrifum af Covid-kreppunni – þau sem munu bera þyngstu efnahagslegu byrðarnar.
Atvinnuleysisbótakerfið ætti að verja slíkt fólk mun betur en nú er. Það blasir því við að ef við viljum létta undir með helstu fórnarlömbum kreppunnar þá þarf að hækka flötu atvinnuleysisbæturnar. Einnig þyrfti að lengja í tímabilinu á 70% af fyrri heildarlaunum, helst úr 3 í 6 mánuði.
Þegar við skoðum samband milli flötu atvinnuleysisbótanna og lágmarkslauna á vinnumarkaði yfir tíma, þá má sjá að atvinnuleysisbætur hafa dregist umtalsvert afturúr launum á síðustu árum (sjá myndina hér að neðan).
Það er því mikið tilefni til að hækka bæturnar myndarlega.
Árið 2009 munaði litlu á upphæðum atvinnuleysisbóta og lægstu launa en nú er munurinn verulegur, eða sem nemur 45.490 krónum. Stjórnvöld hafa ekki staðið sig nógu vel á þessu sviði.
Ég hef ítrekað bent á að tryggingavernd íslensku atvinnuleysisbótanna er of lítil, í greinum hér á Kjarnanum (sjá hér og hér).
Verkalýðshreyfingin hefur undanfarið lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að bæta úr á þessu sviði, meðal annars í stefnuplaggi ASÍ („Rétta leiðin“ út úr kreppunni).
En slíkt umbótastarf væri ekki bara réttlætismál heldur myndi það einnig gagnast atvinnulífinu sem örvun innlendrar eftirspurnar ef kaupgeta langtíma atvinnulausra væri betur tryggð.