Fer ráðuneyti með framkvæmdavald? Nei, ráðuneyti er eins og nafnið bendir til ætlað að vera ráðherra til ráðuneytis en það er ráðherrann sem fer með framkvæmdavaldið. Ráðherrann er æðsti yfirmaður hvers ráðuneytis og ráðuneytinu er ætlað að vinna í samræmi við vilja ráðherrans og starfa í anda þeirrar stefnu, sem ráðherra markar. Því veit ég ekki nokkur dæmi þess, að ráðuneyti hafi beitt sér þvert gegn vilja þess ráðherra, sem yfir það er settur. Sá ráðuneytisstarfsmaður, sem það hefði gert hefði verið brotlegur gagnvart ráðherra sínum, sem ber ábyrgð á framkomu og athöfnum hans eins og öðrum starfsmönnum síns ráðuneytis.
Var boðinn velkominn
Hví geri ég þetta að umræðuefni; ræði mál, sem öllum hlýtur að vera augljóst og engar deilur hafa staðið um. Ástæðan er bæði einföld og nærtæk. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem á að starfa í samræmi við vilja ráðherra síns, hefur beitt sér gegn því að ráðinn hafi verið til þess að ritstýra norrænu tímariti um efnahagsmál víðkunnur íslenskur hagfræðiprófessor, sem nýtur ekki bara álits og viðurkenningar meðal samlanda sinna fyrir störf sín heldur ekkert síður á erlendum vettvangi þar sem hann er bæði vel þekktur og mikils metinn. Þorvaldur Gylfason hafði verið ráðinn sem ritstjóri tímaritsins Nordic Economy Policy Review - ráðinn af samnorrænum hópi fólks, sem þekkti vel til starfa hans og bar bæði traust og virðingu fyrir honum, hafði boðið hann velkominn til starfa og beðið hann að ráða sem aðstoðarritstjóra hvern þann, sem hann treysti.
Öðruvísi mér áður brá
Þetta framferði er meira en ámælisvert. Þeir sömu og þarna stýra málum beittu valdi sínu m.a. til þess, að ráðherrar, sem ábyrgð báru á hruninu, sem leiddi margar hörmungar yfir þessa þjóð, voru ráðnir til háttsettra opinberra starfa á erlendri grund.
Þessi sömu öfl og þar áttu hlut að máli beittu valdi sínu núna til þess að hindra, að hagfræðiprófessor, sem naut mikils trausts og álits erlendis yrði ráðinn til trúnaðarstarfs á vegum norrænna þjóða. Rökstuðningurinn var m.a. sá, að fjármála- og efnahagsráðuneytinu – ráðherranum Bjarna Benediktssyni – félli ekki afskipti, sem hann hefði haft af stjórnmálum sem ekki voru á sömu lund og afskipti og málflutningur framangreindra ráðherra úr hrunstjórninni hafði verið.
Mislestur – ekki mistök
Eins og íslenska stjórnkerfið er upp byggt og því er ætlað að starfa geta svona afskipti fjármála- og efnahagsráðuneytisins ekki verið túlkuð öðru vísi en að umrædd gjörð, sem gerð var í nafni ráðuneytisins, hafi verið með vitund og vilja sjálfs ráðherrans. Sá starfsmaður, sem talaði þar í nafni ráðuneytisins virðist helst bera því við, að hann hafi mislesið upplýsingar um prófessorinn – eins og það varpi einhverju ljósi á málið. Nei, sá ráðuneytisstarfsmaður er þess ekki umkominn að varpa neinu ljósi á þá fordæmalausu ákvörðun.
Fordæmi ekki framkvæmdavaldshafinn sjálfur, ráðherrann Bjarni Benediktsson, framferði síns eigin ráðuneytis, fordæmi jafnframt afskipti þess af málinu og fordæmi það ekki bara gagnvart eigin þjóð heldur gagnvart norrænum samstarfsaðilum þá er það vegna þess, að hann sjálfur hefur a.m.k. vitað af gangi málsins og verið samsinnugur þeim gangi. Þá hlýtur það að jafnframt að vera hlutverk ráðherrans að takast á við umrædda afgreiðslu innan síns eigin ráðuneytis og gera þeim ljóst, sem þar hefur eða hafa að verki staðið, að framferði þess eða þeirra sé vítavert og verði ekki liðið.
Hann einn á svarið
Ég á virkilega erfitt með að trúa því, að framkvæmdavaldshafinn, ráðherrann Bjarni Benediktsson, hafi viljað hvað þá heldur óskað þess, að ráðherravaldi hans yrði beitt með þessum hætti. Aðeins viðbrögð hans sjálfs og þau ein geta sýnt og sannað hvort svo hafi verið eða ekki verið. Eigum við Íslendingar virkilega að trúa því, að Bjarni Benediktsson hafi beitt ráðherravaldi sínu með þessum hætti gegn virtum og vel metnum landa sínum? Var hann þar að verki sjálfur – eða bara svona hálfvegis, bæði og, eða hvorki né? Því getur bara einn maður svarað svo ekki verði í efa dregið. HANN SJÁLFUR. Með framferði sínu og framgangi – NÚNA.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.