Á langri ævi hefur æ sjaldnar brugðið við, að sá, sem þetta skrifar, hafi orðið undrandi og hlessa. Það varð þó s.l. laugardag, þegar ég hlustaði svona með öðru eyranu á fréttaskýringaþáttinn Vikulokin. Einn af þeim, sem þar sátu fyrir svörum, var Stefán nokkur Pálsson, landsþekktur maður fyrir margt og mikið – þ.á.m. afdráttarlausar skoðanir sínar á stjórnmálum.
Umræðan fór fljótlega að beinast að því þegar fjármála- og efnahagsráðherrann, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, hrakti virtan íslenskan fræðimann úr starfi við ritstjórn samnærræna tímarits vegna þess, eins og ráðherrann sagði, að stjórnmálaskoðanir fræðimannsins samræmdust alls ekki stjórnmálaskoðunum ráðherrans.
Undrandi og hlessa varð ég þegar ég heyrði Stefán Pálsson segja, að þessu hefði Þorvaldur mátt búast við. Ekki myndu þau Jóhanna og Steingrímur hafa staðið að neinni ráðningu Tryggva Þórs Herbertssonar og því væri þess að vænta, að Bjarni Benediktsson hefði sömu viðhorf gagnvart Þorvaldi Gylfasyni; hafnaði honum því stjórnmálaskoðanir hans væru aðrar en stjórnmálaskoðanir Bjarna.
Nýtt fyrir mér
Nú hefi ég fylgst talsvert með stjórnmálum síðustu áratugina. Ekki rekur mig minni til þess, að þau Jóhanna og Steingrímur hafi nokkru sinni beitt sér gegn ráðningu Tryggva Þórs til eins eða neins starfs – eða beitt ráðherravaldi sínu til þess að hrekja úr störfum nokkurn mann með þeim rökstuðningi, að stjórnmálaskoðanir hans eða hennar hafi verið öðru vísi en Jóhönnu eða Steingríms.
Vissulega getur svo sem vel verið, að Steingrímur hefði ekki ráðið Hannes Hólmstein til þess að fjalla fræðilega um „þetta svokallaða hrun“ (orðalagið haft eftir Mbl) eins og Bjarna þótti vel við hæfi, en engin dæmi veit ég til þess að hvorki Jóhanna né Steingrímur hafi svo mikið sem hreyft við starfi Hannesar Hólmsteins við Háskóla Íslands jafnvel þó hann hafi ekki verið sammála stjórnmálaskoðunum þeirra.
Þarfir umhverfisins
Fyrir margt löngu las ég frásögn um dýr, sem kallast kamelljón. Það, sem einna helst var talið auðkenna kamelljónið var, að það gæti breytt um lit eftir umhverfinu. Farið svona frá rauðu yfir í blátt þegar það samræmdist betur umhverfinu. Ekki veit ég af hverju, en mér datt þessi gamla saga um kamelljónið í hug þennan laugardagsmorgun þegar ég hlustaði á Stefán Pálsson.
Skyldi fleiri ljónategundir geta tileinkað sér þessa einstöku hæfileika? Og hvað um aðra. Getur Steingrímur t.d. hagað pólitísku litarafti sínu með tillit þarfa umhverfisins? Hvað þá um sjálfan forsætisráðherrann, Katrínu Jakobsdóttur? Sjá menn einhverjar litabreytingar hafa gerst eða vera að gerast þar?
Hvað segir Stefán Pálsson? Hann er jú fróður maður, þekkir manna best innsta kjarna skoðanabræðra sinna og systra. Telur VG sjálfsagt og eðlilegt, að formaður Sjálfstæðisflokksins hafni manni til starfa á erlendri grund af því hann sé honum ekki sammála í stjórnmálum. Gætu Steingrímur og Katrín hugsað sér að gera slíkt hið sama? Hvað segir Stefán Pálsson um það? Auðvitað þarf ég ekki að spyrja. Hann svaraði þeirri spurningu í útvarpsþættinum.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.