Auglýsing

Fyrir rúmri viku birti Kjarninn frétt um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði gert fjármála- og efnahagsráðuneytinu að afhenda tölvupósta um einstakling sem sóttist eftir því að verða ritstjóri norræns fræðatímarits, og sagðist hafa fengið tölvupóst sem staðfesti það. Ráðningin var svo dregin til baka að kröfu íslenskra stjórnvalda. 

Einstaklingurinn taldi tölvupóstana frá ráðuneytinu hafa spillt fyrir sér, en ráðuneytið sagði að svo væri ekki. Það vildi samt ekki afhenda honum þá og bar fyrir sig að ríkir almannahagsmunir krefðust þess að gögnin færu leynt. Því var úrskurðarnefndin ósammála.

Í fréttinni, og úrskurðinum, kom fram að kær­and­inn teldi ráðu­neytið hafa átt í sam­skiptum um per­sónu sína með ótil­hlýði­legum hætti og sett fram rang­færsl­ur, sem hafi orðið til þess að ráðn­ing hans í rit­stjóra­starf var dregin til baka. Ráðuneytið staðfesti síðar við Kjarnann að það hefði leið­rétt upp­lýs­ingar sem settar hefðu verið fram um kær­andann, sem í ljós hefði komið að væru úrelt­ar. 

Þorvaldur birtist

Frekari eftirgrennslan blaðamanns leiddi í ljós að kærandinn var Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði. Hann er fyrirlitinn af ákveðnum kreðsum á Íslandi fyrir að hafa verið sem þátttakandi í þjóðfélagsumræðu mjög opinn með skoðanir sínar á meðal annars fiskveiðistjórnunarkerfinu og stjórnarskrármálum. Og fyrir að hafa gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn ítrekað.

Alþjóðlega nýtur hann virðingar og velgengni. Þorvaldur var farinn að starfa sem hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 25 ára í kjölfar þess að hafa lokið doktorsprófi frá Princeton-háskóla, hefur skrifað 20 bækur, um 300 ritgerðir og kafla sem birst hafa í erlendum/innlendum tímaritum eða bókum, meðal annars virtum ritrýndum ritum, og setið í ritstjórn og/eða ritstýrt European Economic Review, Japan and the World Economy, Scandinavian Journal of Economics og Macroeconomics Dynamics. Þorvaldur hefur líka starfað að rannsóknum, ráðgjöf og kennslu víða um lönd, meðal annars á vegum Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins, Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Sameinuðu þjóðanna.

Norræna fræðaritið sem Þorvaldur hélt að hann væri að fara að ritstýra er Nordic Economic Policy Review, eða NEPR. Um er að ræða ritrýnt rit með svokallaðan „academic project manager“. Í ritinu má lesa að þótt það sé stofnað af Norrænu ráðherranefndinni þá séu efnistök þess ekki endilega endurspeglun á „skoðunum, álitum, viðhorfum eða meðmælum“ nefndarinnar. 

Auglýsing
Þetta er semsagt rit, sem starfað hefur á akademískum grunni, ekki pólitískum, með það markmið að styðja við stefnumótun aðildarríkja. Það er gert með því að birta ritrýndar greinar eftir sérfræðinga um þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni. 

Um þetta fyrirkomulag hefur ekki verið neinn ágreiningur frá því að blaðið hóf starfsemi 2009. Enda ógjörningur að ætla að viðhorf ritsins markist af pólitískri stefnu allra norrænu ríkjanna sem standa að útgáfunni, þar sem hún er mjög augljóslega afar ólík milli t.d. Íslands annars vegar og Svíþjóðar eða Finnlands hins vegar. 

Upplýsingar á Wikipediu

Í fréttum Kjarnans var upplýst að ástæðan sem ráðuneytið gaf upp var sú að Þorvaldur hafi verið, og væri enn, formaður stjórnmálaaflsins Lýðræðisvaktarinnar. Þetta var ekki rétt. Hann starfaði innan hennar um tíma á árinu 2013, en hætti í stjórn flokksins þá um haustið, fyrir tæplega sjö árum síðan.

Þegar spurst var fyrir um ástæður fyrir þessari röngu upplýsingagjöf og hvar ákvörðun um að beita sér gegn ráðningu Þorvalds hafi verið tekin fengust annars vegar svör um að hinar röngu upplýsingar hefðu verið að finna á Wikipedia-síðu um Þorvald, og hann í kjölfarið beðinn velvirðingar á rangfærslunum. Hins vegar hafi ákvörð­unin um að bera fram þessi sjón­ar­mið um Þorvald ekki verið „borin undir ráð­herra né aðra á skrif­stofu yfir­stjórnar ráðu­neyt­is­ins.“ 

Á meðan að Kjarninn beið svara við ítrekuðum fyrirspurnum um ákvörðunartökuna nafngreindu aðrir fjölmiðlar starfsmann ráðuneytisins sem sendi tölvupóstinn með höfnuninni. Við höfðum tekið ákvörðun um að gera það ekki þar sem að skýr svör um ákvörðunartökuna höfðu ekki, og hafa enn ekki, borist.

Gæti ekki gerst

Á fimmtudagsmorgun birti Kjarninn viðtal við sænska hagfræðinginn Lars Calmfors, sem var rit­stjóri NEPR frá 2017 og fram á síð­asta haust. Þar kom fram að hann mælti sjálfur með því að Þor­valdur yrði eft­ir­maður sinn í starfi. Hann er pró­fessor við Stokk­hólms­há­skóla og hefur meðal ann­ars setið í Nóbels­nefnd­inni í hag­fræði, verið ráð­gjafi í sænska fjár­mála­ráðu­neyt­inu og veitt rík­is­fjár­mála­ráði Sví­þjóðar for­mennsku.

Í viðtalinu sagði Calmfors að póli­tískar skoð­anir eða stjórn­mála­þátt­taka fræði­manna ættu ekki að hafa áhrif á fram­gang þeirra í akademísk störf og sagðist hafa mót­mælt þeirri afstöðu íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að ætluð pólitík Þorvalds kæmi í veg fyrir að hann ritstýrði ritinu. Hann sagði einnig að aðrir í nor­ræna stýri­hópnum sem tekur ákvörðun um ráðn­ingu rit­stjóra NEPR, full­trúar nor­rænna fjár­mála­ráðu­neyta, hefðu verið óánægðir með þá afstöðu íslenska ráðu­neyt­is­ins að hafna Þor­valdi á grund­velli stjórn­mála­þátt­töku hans.

„Ég gerði öllum ljóst að það var mjög rangt að gera þetta. Við getum ekki látið póli­tískar rök­semdir hafa áhrif, þetta er akademískt starf,“ sagði Calmfors við Kjarnann. Hann sagði einnig að hann vonaði að það væri ómögulegt að sænsk stjórnvöld myndu leggjast gegn ráðn­ingu þar­lends fræði­manns í þessa stöðu, eða svip­aða, vegna póli­tískra skoð­ana eða stjórn­mála­þátt­töku.

Auglýsing
Í morgun greindi Kjarn­inn svo frá því að Markku Stenborg, starfs­maður finnska fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins sem á sæti í stýri­hópnum sem gefur út NEPR, segði að hann myndi ekki leyfa þar­lendum stjórn­mála­mönnum að skipta sér af stjórnun þess. Danir hafa sagt að þeir hafi ekki tekið neina ákvörðun, með eða á móti, Þorvaldi. Þeir snerust svo á sveif með íslenskum ráða­mönnum þegar ljóst var að íslenska fjár­mála­ráðu­neytið studdi hann ekki.

„Við ráðum því“

Síðar á fimmtudag brást Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, loks við málinu. Fyrst í stöðuuppfærslu á Facebook og svo í viðtali við fréttastofu RÚV. Bjarni sagði að þótt öll samskipti væru ekki borin undir hann þá bæri hann á þeim ábyrgð. „Í þessu til­viki end­ur­spegl­ast vilji minn um að til­nefna hvorki né sam­þykkja Þor­vald Gylfa­son til þess­ara starfa. Reyndar hafði mér aldrei dottið í hug sá mögu­leiki og eng­inn nefnt hann við mig.“ Bjarni kom því líka á framfæri að hann hafi verið afar skýr um að Þorvaldur kæmi ekki til greina, enda teldi hann að „sýn og áherslur Þor­valdar Gylfa­sonar í efna­hags­málum geti engan veg­inn stutt við stefnu­mótun ráðu­neytis sem ég stýri.“

Við RÚV sagði Bjarni að hann teldi að Þorvaldur væri „ekki heppilegur samstarfsaðili fyrir okkur. Með hans digru yfirlýsingum á undanförnum árum hafi hann mjög vel sýnt það í verkefni að hann hefur hvorki stutt ríkisstjórnir sem hér hafa setið, harkalega mótmælt þeim.“ Þegar fréttamaður benti Bjarna, sem hafði ásakað fjölmiðla ranglega um rangfærslur í fréttaflutningi um málið, að munur væri á rangfærslum og tali hans um að heildarsamhengi yrði að fylgja slíkum fréttaflutningi, svaraði ráðherrann: „Það er mín persónulega skoðun, sem þú verður að sætta þig við, að þegar menn segja að ég hafi verið afskipti af þessu máli þá verða menn að láta því fylgja að við ráðum því. Við höfum neitunarvald.“

Og þar með var mergurinn málsins loksins kominn fram. 

Fréttnæmi

Það er auðvitað fréttnæmt þegar það gerist, í fyrsta sinn í sögu NEPR, að manni sem gerð er tillaga um að ritstýri ritrýndu riti, sem á að gefa út á fræðilegum grunni en ekki pólitískum, er hafnað vegna pólitískra skoðana hans. Það er fréttnæmt þegar ráðuneyti neitar að afhenda tölvupósta til manns sem þeir fjalla um og ber fyrir sig mikilvæga almannahagsmuni. Það er fréttnæmt þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafnar þeim málatilbúnaði og lætur ráðuneytið afhenda tölvupóstana. 

Það er líka fréttnæmt þegar opinberast að ráðuneytisstarfsmaður styðst við rangar upplýsingar af Wikipedia-síðu til að rökstyðja að það eigi ekki að ráða mann sem mælt hafði verið með í starfið. Það er fréttnæmt þegar ráðuneyti biðst afsökunar á því að hafa stuðst við rangar upplýsingar og það er eðlilegt að fjölmiðlar kalli eftir upplýsingum um það hvernig ákvörðun um þessa ákvörðun var tekin. Að endingu er auðvitað fréttnæmt að tveir valdamestu ráðamenn þjóðarinnar telji að það eigi að taka pólitíska ákvörðun um skipanir í ritstjórastól ritrýnds fræðirits. Ekki bara að það megi, sem liggur fyrir, heldur að það eigi. Sem er í andstöðu við afstöðu annarra ríkja sem eiga aðkomu að útgáfu ritsins.

Það er eiginlega fréttnæmt í lýðræðisríki að það þurfi að tiltaka það að þetta er allt fréttnæmt og eigi fullt erindi við almenning, sem getur svo myndað sér sínar eigin skoðanir á ferlinu. Nokkuð ljóst er á viðbrögðunum að þær eru ansi skiptar og aðallega eftir flokkslínum. Fylgjendur hluta stjórnarandstöðuflokka eru yfir sig hneykslaðir. Fylgjendur stjórnarflokkanna eru yfir sig hneykslaðir á hneyksluninni.

Rangfærslurnar sem ekki eru til staðar 

Ekki einu sinni í fréttum Kjarnans um málið hefur því verið haldið fram að afskipti af ráðningu Þorvalds hafi verið utan þess sem ráðuneytið hefur heimild til. Í fyrstu frétt um málið sagði að innan norræna stýrihópsins sé hefð fyrir því að „öll nor­rænu ríkin þurfi að kom­ast að sam­eig­in­legri nið­ur­stöðu um ráðn­ingu rit­stjóra NEPR.“ Í frétt sem birtist á þriðjudag sagði að ljóst væri af sam­skiptum stýri­hópsins að eng­inn í þeim hópi leit svo á að búið væri að taka end­an­lega ákvörð­un um veitingu starfsins, enda þyrfti „sam­hljóða sam­þykki allra aðild­ar­ríkj­anna til þess að ein­stak­lingur sé ráð­inn í þetta starf.“ 

Semsagt: framsett gagnrýni á rangfærslur fjölmiðla er röng. Hún er ekki bara röng, heldur klassísk gaslýsing. Það er teiknuð upp atburðarás sem átti sér ekki stað, settar fram mótsagnir, skálduð afstaða og hengt sig í aukaatriði. 

Auglýsing
Tilgangurinn er að láta viðföng sem hafa haft aðra skoðun efast um eigin dómgreind. Í kjölfarið birtust svo hermenn til að segja að svart sé hvítt og öskra „fake news“, að Trumpískum sið. Hjá þeim gilda mjög einfaldar reglur: aldrei færa handbær rök fyrir neinu en ásaka aðra um rökleysu, fara alltaf í manninn og gera gerendur að fórnarlömbum, en fjölmiðla að óbilgjörnum gerendum. Það þarf enginn að efast um að stórhættulega mantran um að fjölmiðlar sem veita aðhald séu „óvinir fólksins“ er fyrir löngu orðin hluti af orðræðu kjörinna fulltrúa á Íslandi.

Hvattir til að tala ...

Í skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar Alþingis um aðdraganda og orsök bankahrunsins var háskóla­fólki legið á hálsi að hafa ekki haft uppi næga gagn­rýni á ástand mála fyrir hrun. Einn af fimm lærdómum sem Háskólasamfélagið átti að draga af bankahruninu og samfélagsgerðinni sem hafði verið í aðdraganda þess, samkvæmt skýrslunni, var að „hvetja þarf háskólamenn til að sýna samfélagslega ábyrgð, svo sem með þátttöku í opinberri umræðu um málefni á fræðasviði þeirra.“ 

Á kjörtímabilinu 2009-2013 var skipuð sérstök þing­manna­nefnd, sem skipuð var full­trúum allra flokka á Alþingi, sem vann sjálf skýrslu um rann­sókn­ar­skýrsl­una. Í meg­in­nið­ur­stöðum og álykt­unum þing­nefnd­ar­innar var sér­stak­lega vikið að sam­fé­lags­­um­ræðu á Íslandi og bent á að góð stjórn­mála­um­ræða náist fram „með því að láta and­stæð sjón­ar­mið mæt­ast þar sem byggt er á stað­reyndum og málin eru krufin til mergj­ar. Íslensk stjórn­mál hafa ekki náð að þroskast nægi­lega í sam­ræmi við það“. 

Í skýrsl­unni var jafn­framt að finna hvatn­ingu til háskóla­fólks „af ólíkum fræða­sviðum til að taka þátt í opin­berri umræðu og styrkja með því tengsl fræða­sam­fé­lags­ins, atvinnu­lífs­ins og hins almenna borg­ara“.

Hvatn­ingin til háskóla­fólks bygg­ðist á þeirri hug­mynd að þessi hópur hefði fram að færa ein­hverja þekk­ingu eða reynslu, umfram aðra borg­ara, sem nýst geti í hinni lýð­ræð­is­­legu umræðu. Sú þekk­ing eða reynsla gæti jafn­vel varpað nýju ljósi á ýmis mál­efni í sam­fé­lag­inu og stuðlað að því að rök­studdar og yfir­veg­aðar ákvarð­anir séu teknar í mik­il­vægum sam­fé­lags­mál­um. Hvatn­ingin hvíldi líka á þeirri hug­mynd að innan háskól­anna starfi fólk sem hafi það að mark­miði að afla nýrrar þekk­ingar eða leita „sann­leik­ans“, eins og það er stundum nefnt, með aðferðum vís­ind­anna sem byggj­ast á gagn­rýn­inni hugs­un.

… en samt eiga þeir að þegja

Þrátt fyrir þessa hvatningu sýndi könnun Björns Gíslasonar, sem gerð var árið 2014 og fjallaði um við­horf háskóla­fólks til þátt­töku í opin­berri umræðu á vett­vangi fjöl­miðla, að sjötti hver íslenskur háskóla­maður sagðist á þeim tíma hafa komið sér hjá því að tjá sig við fjöl­miðla vegna ótta við við­brögð valda­fólks úr stjórn­mála- og efna­hags­lífi. Þá taldi meiri­hluti aðspurðra háskóla­manna að akademísku frelsi fræði- og vís­inda­manna á Íslandi stafaði ógn af gagn­rýni eða hót­unum frá valda­fólki í stjórn­málum og efna­hags- og atvinnu­lífi. Á meðal dæma sem vísað var í var þetta hér, og þetta hér, og þetta hér.

Þessi ótti er ekki horfinn. Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, skrifaði til að mynda á Facebook í vikunni, í tengslum við mál Þorvalds: „Sjaldan hef ég verið eins feginn að vera óháður íslenskum stjórnmálamönnum um atvinnu mér til lifibrauðs eins og ég er í dag.“ 

Gauti B. Eggertsson, hagfræðiprófessor við Brown-háskólann í Bandaríkjunum, skrifaði á sama stað um sama mál: „Þessi litla saga rifjar upp fyrir mér þá köfnunartilfinningu sem ég stundum hafði þegar ég bjó á Íslandi fyrir meira en tveimur áratugum og horfði uppá hvernig ráðið var í hinar ýmsu stöður í þjóðfélaginu. Hreint út sagt ömurlegt að lesa þetta. Mega þeir sem stóðu að þessum atvinnurógi hafa ævarandi skömm fyrir.“

Val og staðreynd

Allt ofangreint er afleiðing af því að við búum við afar óþroskaða stjórnmálamenningu á Íslandi. Þrátt fyrir allskonar fyrirheit um að vilji sé til þess að breyta því, og taka skref í að faglegri og heilbrigðari stjórnsýslu og stjórnmálum sem voru tekin fyrir áratugum síðan á hinum Norðurlöndunum, þar sem frjáls skoðanaskipti ógna ekki atvinnuöryggi og meira skiptir hvað þú getur en hver þú ert, þá breytist auðvitað ekkert. Við skulum muna að það eru einungis nokkrir dagar síðan að það tókst, á síðustu stundu, að stöðva frumvarp sem átti að þrengja stórkostlega aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum, vegna þess að Samtök atvinnulífsins höfðu beðið forsætisráðuneytið um að gera það. Það er engin klisja að við búum í andverðleikasamfélagi. Það er staðreynd og ástæðan fyrir því er val stjórnmálamanna sem fara með völd að hafa samfélagið þannig.

Ljóst er á viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherrans að það er lítill vilji til að stíga skref í átt að breytingum. „Við ráðum“ er viðbragðið. Og þau ráða. Um það er enginn vafi. Á meðan er háskólafólk, og fullt af öðrum sérfræðingum, hrætt við að taka þátt í þjóðfélagsumræðu vegna þess að það er sannfært um að það skaði möguleika þeirra á því að afla lífsviðurværis.

Þeir sem reyna að stuðla að heilbrigðri lýðræðislegri umræðu og veita eðlilegt aðhald, t.d. flestir fjölmiðlar landsins, eru smættaðir af ráðamönnum og viðhlæjendum þeirra fyrir það. Sérstök lenska er að ráðast gegn nafngreindu fólki sem starfar í fjölmiðlum og ásaka það um óheilindi. Kerfisbundið er þrengt að rekstrarumhverfi þeirra með andvaraleysi og þegar það nægir ekki eru þeir ásakaðir um rangfærslur án raka. Sagðir ekki alvöru. „Fake news“. 

Harkaleg viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra á fimmtudag slógu enda kórréttan tón inn í kjarnafylgishóp hans. Þar er að finna ansi marga pilsfaldarkapítalista sem gengur illa að skapa sér tækifæri með eigin verðleikum, og treysta því á flokkshollustu sem matarholu. Í staðinn, klæddir í hugmyndafræðilega grímubúninga frelsis, taka þeir að sér hlutverk tuddans á skólalóðinni. Taka við gaslampanum og lýsa með honum á samfélagsmiðlanna, samhliða því að hlæja dátt að fáránleika þeirra sem skilja ekki hvernig hlutirnir virka á Íslandi. Hér skiptir miklu meira máli hver þú ert en hvað þú getur.

Þess vegna þegir háskólafólkið. Það er hrætt um að hafa ranga skoðun. Og að stjórnmálamenn láti þau gjalda fyrir það.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari