Nú er að skapast sögulegt tækifæri til að ráðast í verkefni sem vinna í senn gegn efnahagssamdrætti, bregðast við yfirvofandi atvinnuleysi, og takast á við stærstu ógnina framundan, loftslagsvána.
Grænt fjárfestingarátak þar sem lífeyrissjóðir vinna með ríki og sveitarfélögum getur skapað gríðarlegan samfélagslegan ávinning um leið og það bætir umhverfið og ávaxtar iðgjöldin okkar til lengri tíma.
Í samkomulagi Seðlabankans og lífeyrissjóðanna frá 17. mars, féllust sjóðirnir á að halda aftur af gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga í þrjá mánuði. Samkomulagið var svo framlengt og mun gilda í þrjá mánuði til viðbótar, allt til 17. september.
Hér er um háar upphæðir að ræða, undanfarið hafa lífeyrissjóðirnir varið liðlega 10 milljörðum króna til erlendra fjárfestinga í hverjum mánuði, sem hefur verið nauðsynlegt og réttmætt fyrir sjóðina og samfélagið til að ávaxta fé og dreifa áhættu. Nú þarf hins vegar að verja þessum 60 milljörðum hér innanlands. Spurningin er bara hvernig.
Hér er lagt til að góðum hluta af þessum fjármunum verði varið til grænna verkefna.
Græna leiðin
Græna leiðin út úr kófinu felst m.a. í því að endurfjármagna og fjárfesta í sjálfbærri ferðaþjónustu sem getur byggt greinina upp að nýju á sjálfbærari grunni. Það þarf að ráðast í nauðsynlegar grænar innviðafjárfestingar, eins og Borgarlínu, innviði fyrir hjólandi og gangandi og koma orkuskiptum í samgöngum af stað af krafti.
Margt annað er hægt að ráðast í, eins og Grænt plan Reykjavíkurborgar ber vitni um, grænar skapandi greinar, ný græn hverfi osfrv. Nú bíðum við eftir að ríkið komi inn af mun meiri krafti í grænu málin, og að lífeyrissjóðirnir leiki lykilhlutverk ásamt alþjóðlegum fjárfestum sem sækjast eftir grænum fjárfestingum, og stórum fjármálastofnunum sem vilja gjarnan veita fé til slíkra verkefna.
5.000 milljarða hreyfiafl
Eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru nú yfir 5.000 milljarðar króna sem þarf að fjárfesta með ýmsum hætti til að sjóðfélagar uppskeri þegar komið er að eftirlaunaaldri. Takmörkuð tækifæri eru nú á innlendum hlutabréfamarkaði og aðrar forsendur í vaxtamálum en þegar sjóðirnir hófu af krafti að lána sjóðfélögum húsnæðislán fyrir fáeinum misserum.
Lífeyrissjóðirnir eru margir og fjölbreyttir og hver og einn vinnur eftir sinni fjárfestingarstefnu. Þeir verða að finna taktinn hver fyrir sig en um stór verkefni geta þeir unnið saman og lagt sameiginlegan kraft til að koma góðum málum fram.
Þótt fjármunirnir séu til staðar, skortir hreyfiaflið til að þeir nýtist til að takast á við þessar risavöxnu áskoranir í efnahags- og atvinnumálum sem Ísland stendur nú frammi fyrir í kjölfar kórónaveirunnar og gagnvart loftslagsvánni. Þar verða einfaldlega allir að taka höndum saman því staða Íslands gagnvart skuldbindingum fyrir umhverfið er engan veginn ásættanleg og það er engum í hag að stöðnun taki við eftir veiruna.
Grænn fókus til framtíðar
Þegar opnast fyrir erlendar fjárfestingar á ný, er nauðsynlegt að sjóðirnir taki fastar á því að fjárfesta með ábyrgum hætti, setji ekki fjármuni almennings til að styðja við félög sem menga og spilla, heldur leggi allt kapp á að fjármunir íslenskra lífeyrisgreiðenda fari til góðra verkefna sem bæta samfélög og umhverfi.
Til eru fjöldamörg tæki til að hjálpa þeim við að finna bestu grænu leiðirnar. Nú er því fullkomlega tímabært fyrir íslenska lífeyrissjóði að gera metnaðarfullar áætlanir um grænar fjárfestingar.
Grænt fjárfestingarátak fyrir lífeyrissjóði er svarið við mörgum af þeim spurningum sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er æpandi þörf fyrir atvinnuskapandi verkefni, þjóðhagslega arðbærar stórframkvæmdir og raunverulegar aðgerðir fyrir loftslagið. Nú þarf að bretta upp ermar og hreyfa við hlutunum til framtíðar!
Höfundur er ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.