Ef þú sest í ríkisstjórn í einhverju ríki og vilt draga úr heilbrigðri virkni lýðræðisins, því sem fræðingar skilgreina sem frjálslynt lýðræði, þá er þrennt sem þú þarft að gera. Þú þarft að hafa óæskileg afskipti af dómstólum, fjölmiðlum og rödd sérhæfðra sérfræðinga.
Með því móti tekst þér að deyfa eðlilega gagnrýna umræðu, áhrif sérfræðinga og virkni stjórnsýslunnar. Af því sem maður hefur séð til þróunar mála t.d. í Ungverjalandi og Bandaríkjunum, þá hafa þeir sem hafa metnað í þessum efnum vitað þetta.
Frekar nýlega fór ég að finna fyrir stigvaxandi óþoli gagnvart málum sem virka á mig sem ögrun gagnvart sjálfstæði dómstóla, fjölmiðla og stöðu sérfræðinga.
Nú er ég ekki að reyna að halda því fram að íslenskt samfélag stefni í sömu átt og Ungverjaland eða Bandaríkin, ólíkir hlutir gerast í ólíkum löndum og aðstæður hér eru aðrar en þar eða í ýmsum öðrum löndum, en að sama skapi eru óæskileg afskipti af áðurnefndu í andstöðu við heilbrigða lýðræðisvirkni.
Mál sem lúta að þessu þrennu hafa ekkert að gera með hvort við skilgreinum okkur pólitískt til vinstri eða hægri – eða eitthvað þar á milli. Þau lúta að prinsippum sem þurfa, samfélagsins vegna, að vera æðri okkur, hvar sem við stöndum í pólitík. Öðruvísi getum við ekki verndað okkur fyrir sjálfum okkur og treyst því að hafa aðstöðu til að afla okkur nauðsynlegra upplýsinga og frelsi til að tjá okkur. Án skilvirkni þessarar heilögu þrenningar mega borgararnir sín of lítils gagnvart ráðandi valdi og valdaaðilum innan samfélagsins.
Í íslenskum stjórnmálum virðist of oft há stjórnmálamönnum að vera ekki nógsamlega meðvitaðir um valdastöðu sína, svo þeir skynja ekki augnablikið þegar þeir krossa línuna á milli venjulegra átakamála í pólitík og prinsippmála af þessum meiði. Slík mál eru þannig gerð að þau krefjast þess að við látum pólitíska stundarhagsmuni víkja, svo lýðræðisvirknin fái haldist sem heilbrigðust.
Pólitískur vilji ræður för
Svo ég nefni einhver mál sem hafa kveikt áðurnefnt óþol, þá má minnast á Landsréttarmálið, sem á rætur sínar að rekja í aðra ríkisstjórn en er eyrnamerkt Sigríði Á. Andersen, fyrrum ráðherra í núverandi ríkisstjórn, og hvílir nú hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg.
Eins má nefna nýlegt mál Þorvaldar Gylfasonar hagfræðings og afgreiðslu þess í fjármálaráðuneytinu, þar sem var hangið í manninum frekar en prinsippinu. Einnig má telja til mál sem varðar val menntamálaráðherra á Framsóknarmanni nokkrum til að gegna stöðu formanns í fjölmiðlanefnd – nokkuð sem vegur bæði að fjölmiðlum og stöðu sérfræðinga. Eins og kunnugt er fór menntamálaráðherra gegn tillögu sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu með því að skipa Einar Huga Bjarnason formann fjölmiðlanefndar í nóvember. Mælt hafði verið með Halldóru Þorsteinsdóttur, lektor í lögfræði við HR, en hún er einn helsti sérfræðingur í fjölmiðlarétti í landinu. Lilja valdi frekar mann sem, samkvæmt fjölmiðlum, hefur litla sem enga reynslu á sviðinu, en hefur setið í að minnsta kosti átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins.
Nú síðast fór um mig vegna misskiptingar margumræddra styrkja til fjölmiðla, á þann hátt að maður fær á tilfinninguna að ráðamenn vilji styrkja verulega Morgunblaðið og Fréttablaðið, fjölmiðla sem eru fjármagnaðir af öflugum hagsmunaaðilum í samfélaginu, en Morgunblaðið ber auk þess blæ af ákveðnum kjarna Sjálfstæðisflokksins. Samkeppniseftirlitið hafði m.a. lagt fram að brýnt væri að styðja við fjölmiðla með almannafé og hafa það að meginmarkmiði að styðja við fjölræði og fjölbreytni. Fjölbreytnin er ekki meiri en svo að Árvakur, Sýn og Torg munu fá megnið af styrkjunum, 300 milljónir, en aðrir fjölmiðlar geta sótt í 100 milljóna afgang.
Aðrir fjölmiðlar fá þannig miklu minna í hlut sinn og því má leiða líkum að því að útfærslan veiki samkeppnisstöðu í rekstri fjölmiðla almennt. Bæði Kjarninn og Stundin hafa á sér orð fyrir að kafa reglulega í flókin og erfið mál á gagnrýninn hátt.
Með þessu móti er aðstaða fjölmiðla skekkt með opinberu fé. Annað eins inngrip – svo undarlega hugsað – hefði sómt sér í hvaða kommúnistaríki sem er, gjörningurinn að setja opinbert fé í sér þóknanlega miðla, þannig að það geti komið niður á síður þóknanlegum fjölmiðlum.
Aðferðafræðin er jú afsprengi pólitísks vilja og afhjúpar um leið hver hann er.
Pólitískur sveimhugi
Á meðan á þessu stendur er stjórnarráðið undir flaggi VG, flaggið er þeirra, þrátt fyrir hefð fyrir ráðherraræði. Þegar ríkisstjórnin var í fæðingu rökræddi ég við ófáa því ég hafði trú á einhverju sem ég kallaði samtalspólitík, að eftir allt sem á undan var gengið, þá væri tilraunarinnar virði að fá vinstrið og hægrið saman í stjórn, því í samfélagsumræðinu hafði skapast svo mikil pólarísering að kannski var kominn tími á vinna saman að hlutunum. Ég skrifaði meira að segja pistil um þetta – sem fékk 16 læk. Margir sem ég talaði við sögðu að Sjálfstæðisflokkurinn yrði alltaf ráðandi afl í slíkri stjórn, og þegar ég mótmælti og sagði að sá flokkur vildi allra síst stjórnarslit aftur svo VG myndi hafa töluverð völd, þá flissaði fólk að mér.
Ég er þó ekki í VG, frekar en öðrum flokki. Í gegnum tíðina hef ég kosið ýmsa flokka; Bjarta framtíð, Pírata, Samfylkinguna, einhver tímann kaus ég langt til hægri í borgarkosningum í Kaupmannahöfn, auk þess sem ég hef gælt við að kjósa Viðreisn. Og jú, ég hef einu sinni eða tvisvar kosið VG – af því að ég hef áratugum saman haft djúpa trú á Katrínu Jakobsdóttur; síðan ég var tuttugu og eitthvað og stofnaði saumaklúbb til að kynnast henni. Slíka trú að ég hef, á ská við hugsýn mína, verið flokksbundin um tíma í VG til að geta stutt hana í prófkjöri. En það á ekki við mig að vera flokksbundin, ég get ekki bundið mig við flokkslínu í ólíkum málum lengur en í tvo daga.
Fjórum sinnum hef ég verið beðin um að vera á lista hjá jafn mörgum flokkum og allir sem báðu mig um það brenndu sig á því. Eitt sinn var ég á lista hjá einum flokki, kaus annan og var á stuðningslista fyrir frambjóðanda þess þriðja. Ég er pólitískur sveimhugi! En ég trúi á fjölmiðla. Og frjálsa, ögrandi umræðu – og þær ófyrirsjáanlegu lausnir sem hún fæðir af sér. Upplýsingu og það að ræða málin frá öllum hliðum, án þess að óttast það, því samtal dýpkar sýn okkar.
Mál Þorvaldar afhjúpar slæman kúltúr
Einmitt þess vegna ólgar eitthvað í mér eftir umræðuna um Þorvald Gylfason, en í þeim stormi sá ég útsendingu frá Alþingi þar sem Katrín tjáði sig um það mál, svo snögg upp á lagið að einhver flissaði að hún hefði verið meiri Bjarni Ben en hann sjálfur.
Hún vitnaði þá í reynslu sína af norrænu ráðuneytastarfi, sem mælikvarða, en norrænir viðmælendur í viðtölum hérlendis hafa sýnt fram á að málavextir virðast stangast á við kúltúrinn á hinum Norðurlöndunum, í því sem snýr að virðingu fyrir vinnuferlum fræðimanna.
Ég hef sjálf búið árum saman á Norðurlöndunum og líka í Þýskalandi og því fylgst með fjölmiðlaumræðu þar, ég hef jafnframt gefið út bækur þar og því átt töluverð samskipti við fræða- og fjölmiðlafólk, jafnt sem útgefendur; eins hef ég fengið smakk af norrænu samstarfi – en eitt af því sem ég kynntist fljótt, bæði þegar ég bjó í Danmörku og í Þýskalandi, var að prinsipp í verkferlum fjölmiðla voru yfirleitt strangari og skýrari en á Íslandi, og manni fannst að meiri virðing væri borin fyrir áliti sérfræðinga.
Í Þýskalandi hafði maður á tilfinningunni að fólk hefði óvenju margt styrka meðvitund um að prinsippin væru æðri okkur – til að vernda okkur frá okkur sjálfum. Einhvern veginn fannst mann blasa við í máli Þorvaldar að það afhjúpaði ólíkan kúltúr hér á landi, í þessum efnum. Kandídat í ritstjórastarf umrædds fræðirits þurfti samkvæmt bókinni að fá blessun ráðuneyta landanna, en þó lá í loftinu að andmæli hefðu tæpast borist úr hinum ráðuneytunum, nema viðkomandi væri ekki talinn hæfur á faglegum forsendum, því fagmönnum væri treyst til verksins.
Frelsið sjaldnast að finna hjá þeim sem hafa hæst um það
Umræddur kúltúr sem hefur mikið að segja um hvernig við umgöngumst grunnstoðir eins og fjölmiðla, sérfræðiálit og dómstóla.
Í góðum kúltúr er hægt að segja jeg synes og rökstyðja það, reiðubúinn að hafa rangt fyrir sér ef rök benda til annars. Raunar hefði ég viljað sjá Katrínu og Bjarna Ben velta afstöðu sinni fyrir sér og um leið margslungnari hliðum málsins, þó ekki væri nema til að rökstyðja niðurstöðuna betur og fjölbreyttar – til að sýna fram á meðvitund um mikilvægi álitamálsins í stað þess að pirrast. Þetta mál lýsir upp mikilvægar spurningar sem má ekki gera lítið úr og er gott að velkist um í samfélagsumræðunni, sama hvað ráðamönnum kann að finnast um umræddan mann.
Það angrar mann hversu oft er skautað framhjá mikilvægum spurningum. Hér á landi er furðu algengt að fólk persónugeri sig út frá skoðunum sínum og lagi þær of oft að fyrirfram gefinni línu og félagsmengi, í stað þess að hugsa frjálst í hverju máli og spyrja sjálft sig ögrandi spurninga. Kannski er þetta allt spurning um frelsi. Og frelsið er of sjaldan að finna hjá þeim sem hafa hæst um það.
Þessa dagana upplifi ég pólitísk vonbrigði. Þau beinast ekki beinlínis að flokki eða einstaka fólki, frekar djúpstæðri menningunni.
Það dýpkar vonbrigðin að ég er nýbúin að skrifa viðtal við mannréttindalögfræðing um útlendingafrumvarpið, og þó að það mál sé í eðli sínu ólíkt áðurnefndum, þá féllust mér hendur við að lesa alvarlega gagnrýni sérfræðinga úr ólíkum áttum á frumvarpið – frumvarp sem ber merki þess að vera gert til að friða ofur íhaldssamt Miðflokksmengi Sjálfstæðisflokksins. Allt í einu varð ég svo óþægilega viss um að fæstir myndu hlusta á sérfræðingana, nema til að pirrast eða finna hjáleiðir til að dempa gagnrýnina.