„Vitið þið um spendýr sem er eins lítið undirbúið fyrir lífið við fæðingu og börnin okkar?“ spurði Andrea Leadsom landa sína. Og rökstuddi þannig mikilvægi þess að sinna litlu barni af alúð. Af náttúrulegum ástæðum fylgir því mikið álag að taka við litlu barni og sýna því kærleik og ást.
Við getum spurt að auki: „Veistu um þjóð sem hefur breytt lifnaðarháttum sínum jafn hratt og Íslendingar?“ Breytingum fylgja áskoranir, þær flækja hlutina enn frekar. Það eru ekki allir jafn vel í stakk búnir að bregðast við því álagi sem fylgir meðgöngu, fæðingu og tilkomu lítils barns. Þetta er afar viðkvæmt ferli sem má ekki við mikilli truflun.
Viðkvæmni ungbarna gerir gríðarlegar kröfur á foreldra, sem birtist t.d. í því að skilnaðartíðni foreldra yngstu barna eru mjög há. Tilkoma nýs barns eykur álag og streitu, sem getur valdið ýmiss konar erfiðleikum.Þannig eru 36 prósent af alvarlegustu barnaverndarmálunum í Bretlandi vegna barna á fyrsta ári. Foreldrar sem eru óöruggir í uppeldishlutverkinu, e.t.v. vegna erfiðs bakgrunns, eiga frekar á hættu að ná ekki að mynda örugg tengsl við börn sín. Erlendar rannsóknir sýna að 65-70 prósent barna eru með örugg tengslamynstur og rúm 30 prósent eru með óörugg tengslamynstur. Það getur aukið líkur á ýmiss konar geðrænum vandamálum síðar á ævinni. Hér á landi hefur þessu verið mætt með dýrum stofnana úrræðum og meiri notkun á lyfjum en víðast annarsstaðar.
Alþjóðlegar rannsóknir sýna að 30 prósent af heimilisofbeldi hefst á meðgöngu. Innlendar rannsóknir sýna að um 20 prósent íslenskra mæðra eru beittar ofbeldi á meðgöngu. Rannsóknir benda til að álag á meðgöngu geti leitt til ýmiss konar heilsufarsvandamála. Í kjölfar hrunsins komu aðvaranir frá Landlækni og fleirum og árið 2013 sýndu tölur að léttburafæðingum hafði fjölgað frá hruni. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna að þegar þroski barns er undir meðallagi fyrsta æviárið er barnið líklegt til að dragast enn meira aftur úr jafnöldrum sínum næstu árin.
Ungir foreldrar og pör þurfa á stuðningi að halda. Kærleiksrík fræðsla og ráðgjöf er sterkasta leiðin til að vinna gegn óöryggi og hjálpa fólki að fóta sig í foreldrahlutverkinu. Fræðsla byggð á starfi Gottman-hjónanna er nú notuð í 30 löndum, en þau eru oft nefnd þekktasta meðferðarpar veraldar. Gottman-hjónin hafi verið tíðir gestir á Norðurlöndunum og voru þau hér á landi árið 2012. Fjöldi bóka þeirra hefur verið gefinn út í Noregi og ein bók er nú til á íslensku. Þau leggja mikla áherslu á fræðslu og aðstoð sem þjónar þörfum beggja kynja á meðgöngu og fyrstu árin í foreldrahlutverkinu og hjálpar til að að fyrirbyggja álag og streitu. Reykjavíkurborg var fyrsta höfuðborgin til að nota fræðslu Gottman hjónanna í grunnþjónustu árið 2008-2009. Svo vel tókst til að Jafnréttisráð veitti starfinu viðurkenningu árið 2009. En síðan kom hrunið...
Höfundur er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.