Viðskipti hafa verið stunduð heimshornanna á milli í langan tíma. Það má gera sér í hugarlund að heimsveldi fortíðar hafi öll stundað einhverskonar hnattvæðingu, bæði hvað varðar viðskipti og menningu. En þær hindranir sem þau glímdu við eru að mestu úr sögunni með gríðarlegum tækniframförum síðustu ára.
Margir fræðimenn vilja einungis horfa til þeirrar þróunar sem við erum þátttakendur í núna en aðrir vilja skoða þessa þróun heildrænt og horfa til baka allt til þriðja árþúsundsins fyrir Krist. Ekki er ætlunin að fara langt aftur í tímann hér enda eru þær framfarir sem hafa átt sér stað á síðustu 50 til 60 árum svo ótrúlegar að af nógu er að taka. Það má til sanns vegar færa að það sem hefur átt sér stað á tuttugustu öldinni og nú á fyrstu árum hinnar tuttugustu og fyrstu sé mun nær því að vera sönn hnattvæðing en áður var möguleg. Þróun efnahagslegrar og menningarlegrar hnattvæðingar hefur fleygt fram með tækniframförum. Það má nefna tilkomu gufuskipa, gufuknúinna eimreiða, þotu hreyfilsins, gámaflutninga og mikilla framfara í samskiptum sem snúa að því að eiga samskipti við viðskiptavini um allan hnöttinn. Hér má nefna samskiptatækni sem hófst með símskeytum, símasambandi innan lands og á milli landa, þráðlaus samskipti hafa nú tekið við með tilkomu farsíma og internetsins sem stóla á endurvarp frá turnum og gervitunglum til að koma merkjum frá einu tæki í annað. Það er enn notast við kapla en þeir munu líklega heyra sögunni til innan skamms.
Undur tækninnar og nýjungar
Þær tækniframfarir og breytingar sem átt hafa sér stað síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk eru lygasögu líkastar. Sú tækni sem við teljum sjálfsagða núna í samskiptum manna á milli voru aðeins fyrir nokkrum tugum ára efni í vísindaskáldsögur.
Þeir sem eru komnir eitthvað á aldur muna eftir því að hafa orðið að tileinka sér notkun tölva í stað ritvéla til ritvinnslu og síðar bókfærslu. Skjöl voru skönnuð og send með fax tækjum á milli fyrirtækja og stofnana lengi vel. Ég man ennþá eftir því að hafa farið í flugferð og ferðast í bíl um landið með Ómari Ragnarssyni, fjölmiðlamanni og skemmtikrafti þegar hann burðaðist með einn af fyrstu farsímunum sem komu til landsins. Þetta var í raun símtól sem var tengt við stóra rafhlöðu. Ef ég giska á þyngdina þá hefur hún líklega verið á bilinu 7-8 kíló. Hann notaði símann mikið á ferðalögum sínum.
Á sjöunda áratugnum grúskuðu margir nördar við að skrifa sinn eigin tölvukóða sem var afritaður með hjálp Atari tölva á segulbandsspólur. Á þessum tíma voru Steve Jobs og Bill Gates þá þegar komnir á skrið með fyrirtæki sín. Jobs með Apple og Gates með Microsoft. Það má segja að þessi tvö fyrirtæki hafi breytt heiminum.
Appolo 11 geimfarið sem lenti á tunglinu var búið tölvu sem geimfararnir notuðu til að stýra farinu. Þessi tölva hafði ekki mikið minni né vinnsluminni en þótti samt ótrúlega öflugt tæki. Apple II og Commodor tölvurnar sem voru seldar almenningi seint á sjötta áratugnum voru sambærilegar. Síðan þá hefur margt breyst.
Risafyrirtæki fjárfestu í tölvum og þær tölvur þurftu mikið rými. Tölva með sæmilegt vinnsluminni sem áður þurfti marga fermetra undir sig rúmast nú í fartölvum sem mörg okkar eiga. Snjallsímar okkar eru mun öflugri en tölva tunglfaranna. Nú geta þær tölvur sem við berum með okkur hvert sem við förum reiknað flóknustu dæmi á nokkrum sekúndum. Við getum nú náð sambandi í gegnum síma eða internet nánast hvar sem er á landinu og nánast hvar sem er í heiminum. Ég hef dvalið í nokkur ár á Papúa Nýju Gíneu sem telst til vanþróaðra ríkja en hér hafa farsímar breytt mörgu hvað varðar samskipti fólks. Árið 2007 var símafyrirtækið Digicel sett á stofn hér. Þeir reistu turna með sendi og móttökutækjum út um allt land samfara því að selja ódýra farsíma. Núna er hægt að komast í farsíma samband hvaðanæva að um þetta mjög svo harðbýla land þar sem vegasamgöngur eru oftast nær mjög bágbornar. Þetta hefur breytt viðskiptaháttum og gert íbúum landsins betur kleift að vera í sambandi sín á milli.
Enn um breytingar
Gámar voru fyrst notaðir til flutninga árið 1956. Stærðir þeirra eru staðlaðar sem gerir það að verkum að notendur hvar sem er í heiminum geta pantað sér pláss í þeim og þurfa ekki að spyrja margra spurninga hvað varðar kostnað og ummál og þyngd þess sem á að flytja. Gámar eru fluttir með gámaskipum, járnbrautalestum og trukkum. Öll meðferð þeirra fer fram með krönum. Þessi flutningsmáti gerbreytti flutningum á vörum og hráefni og þar með viðskiptum á heimsvísu.
Áður fyrr voru vörur fluttar á milli landa á skipum sem höfðu opnar lestar. Þetta heyrir nú að mestu sögunni til og það sem hefur breyst er að nú er hægt að flytja nánast hvað sem er heimshorna á milli hvort sem um er að ræða hráefni eða fullunnar vörur.
Hér má nefna það ef farið er út í búð getur þú keypt ávexti og grænmeti sem er ræktað hinum megin á hnettinum. Þetta er tiltölulega nýtilkomið vegna kæli- og frystigáma sem geta til dæmis komið fullkomnum banönum frá Suður Ameríku til Evrópu og þeir eru í fullkomnu lagi þegar þeir eru komnir í verslanir hér. Sama má segja um aðrar vörutegundir og nú getum við keypt krydd og annað sem þarf til að elda exotíska asíska rétti hvenær sem við viljum. Ef okkur langar í ítalskan eða grískan mat er það heldur ekkert tiltökumál. Uppskriftirnar eru á netinu og hráefnið í næsta stórmarkaði. Sérvöruverslanir selja vörur frá öllum heimshornum og okkur skortir ekki neitt… þangað til eitthvað á sér stað sem stöðvar þessa flutninga og þá er voðinn vís. Fæstar þjóðir eru sjálfum sér nægar um allar nauðsynjar. Ef hið þéttriðna flutninganet nútímans stöðvast af einhverjum ástæðum getur skortur fljótlega látið á sér kræla. Þetta er mest áberandi varðandi matvöru.
Viðskiptahættir haf breyst gríðarlega á sama tíma. Hugsunin á bakvið IKEA hefði ekki komist af teikniborðinu nema af því að gámaflutningar komu til. Þetta fyrirtæki framleiðir húsgögn og annað til heimilisnota út um allan heim og selur síðan obbann af húsgögnunum sem í boði eru ósamsett beint til viðskiptavina sinna sem flytja svo borð, stóla, kommóður og annað sem þá vanhagar um heim og setja saman eftir öllum kúnstarinnar reglum bæklingsins sem situr efst í flötum kassanum sem geymir það sem keypt var.
Amazon, eBay, JD.com, Suning.com og Ali Baba eru allt risafyrirtæki sem stóla á flutninga á vörum með gámum og viðmót þeirra við viðskiptavini er í gegnum netið. Það má segja að net byltingin, framfarir í flutningum og hnattvæðingin sjáist einna gleggst hjá fyrirtækjum sem þessum.
Önnur fyrirtæki eins og Google, Microsoft, Facebook og Expedia svo einhver séu nefnd notast við internetið til að selja það sem þau bjóða upp á. Þessi fyrirtæki eru öll fjölþjóðafyrirtæki en ólíkt fyrirtækjunum sem voru nefnd hér að ofan þurfa þau ekki að flytja vörur á milli heimshorna þar sem það sem þau selja eru forrit eða annað sem viðskiptavinirnir hlaða niður af netinu og notað á þeim tækjum sem eiga við hverju sinni. Það má segja að Amazon sé brúin á milli þeirra þar sem þeir selja bæði vörur sem þarf að senda á milli staða og einnig vörur sem hægt er að hlaða niður af netinu.
Hvað stjórnar ferð?
Það sem hefur verið nefnt hér að ofan er aðeins brot af því sem gerst hefur undanfarin ár. Hnattvæðingin stólar á samskipti á milli fyrirtækja og fólks í gegnum þau samskiptatæki sem eru til staðar. Þetta á bæði við um samskipti við viðskiptavini sem falast eftir vörum og þjónustu sem í boði eru, samskipti við birgja sem sjá um að koma því efni sem til þarf til að framleiða það sem viðskiptavinurinn vill og verksmiðjanna sjálfra sem framleiða það sem viðskiptavininn vantar eða telur sig vanta hverju sinni.
Það eru margar spurningar sem vakna varðandi þetta efni sem tengist okkur öllum á marga vegu. Ástæða þess að hnattvæðing hefur komist á skrið er sú að undanfarin ár hafa ríki heims gert með sér samninga sem gera það að verkum að miklu meira frelsi ríkir nú hvað varðar flutning á vöru og þjónustu á milli landa. World Trade Organisation vakir yfir þessari þróun ásamt og með öðrum stofnunum og hagsmuna aðilum. Það má gera að því skóna að þessi þróun sé ekki fullkomin. Margt á enn eftir að eiga sér stað.
Framtíðarvá í nútíðinni
Það vandamál sem við eigum öll eftir að eiga við að stríða er hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifanna margumtöluðu. Allflestar rannsóknir og niðurstöður vísindamanna sem um þessi mál fjalla benda eindregið til þess að íbúar jarðarinnar séu að koma sér í þá stöðu að með efnahagslegri þenslu séum við að breyta vistkerfi jarðarinnar. Vegna þessa mun veðrátta breytast til hins verra. Þetta er nú þegar að eiga sér stað. Íshellurnar á Grænlandi, suður- og norður heimskautinu bráðna með ógnar hraða. Amazon skógurinn brennur á hverju ári bæði af völdum manna og af völdum gróðurhúsa áhrifanna sem eru vitanlega líka af völdum manna. Skógar brenna með miklum ofsa í Ástralíu og Bandaríkjunum á hverju ári og þessar hamfarir skilja eftir sig sviðna jörð, mikið eignatjón og gríðarleg og slæm áhrif á vistkerfi svæðanna. Stormar sem herja á hinum ýmsu stöðum jarðarinnar eru að aukast í styrk og ofsa. Hitastig er að hækka á heimsvísu og á hverju ári deyr fólk af völdum þess.
Mengun er áhrifavaldurinn hér. Koltvísýringur sem safnast hefur í lofthjúp jarðar vegna brennslu olíu og kola sleppir sólarljósi inn en hleypir megninu af hitanum sem skapast ekki út fyrir gufuhvolfið aftur. Annars konar mengun hefur gríðarleg áhrif. Það er talað um eyju úr rusli, mest megnis plasti, í Kyrrahafinu. Þetta er í rauninni ekki eyja heldur þykkt lag af allra handa úrgangi sem hefur safnast saman, eftir að hafa borist með sjávarstraumum á afmarkað svæði. Þetta hefur mikil áhrif á líf villtra dýra sem deyja umvörpum vegna þess að þau innbyrða ruslið og drepast vegna þess eða komast ekki í átu og deyja úr hungri.
Endurvinnsla hefur verið til umræðu lengi en ekki þokast mikið áfram. Nærtækt dæmi má nefna að enn er framleitt ál á Íslandi þó að margra ára birgðir áls séu til staðar í heiminum í notuðum áldósum og öðru því sem ál er notað í. Hugsanlega gott dæmi um hnattvæðingu er að Rio Tinto Alcan flytur báxít alla leið frá Ástralíu til að gera úr því ál hér. Þetta fyrirtæki er sakað um að brjóta á réttindum starfsmanna sinna svo ekki sé talað um þau náttúrspjöll sem námuvinnsla þeirra hefur valdið. Þeir eru að reyna að komast undan ábyrgð á tjóni sem námuvinnsla þeirra olli í Bouganville í Papúa Nýju Gíneu. Fyrr á þessu ári sprengdu þeir upp Juukan Gorge í Ástralíu sem er menningarlega mikilvægur staður fyrir frumbyggja svæðisins. Járn er það sem þeir eru að sækjast eftir þar.
Olíuvinnsla og hreinsun þeirrar auðlindar er einnig mjög kostnaðarsöm fyrir lífríki jarðar og ekki sér fyrir endann á því og að þörfin fyrir olíu, gas og plast verði úr sögunni. Enn eru til ógrynnin öll af kolum sem bíða eftir að verða brennd. Þetta eru aðeins örfá dæmi um vandamál sem bíða úrlausnar en mega ekki bíða of lengi.
Framtíðin
Hnattvæðingin er komin til að vera. Hún hefur áhrif á okkur öll og það er líklegt að heimsmynd okkar sé að breytast hraðar en við gerum okkur grein fyrir. Allt bendir til þess að Bandaríkin séu að tapa forystuhlutverki sínu og flest bendir til að Kína sé að taka við af þeim. Ekki er auðvelt að spá um framhaldið núna þar sem alheimspestin heldur okkur enn í heljargreipum og sér ekki fyrir endann á henni.
Á því augnabliki sem þetta er skrifað eru 7.807.697.200 manneskjur á lífi á jörðinni. Við verðum öll að hugsa um nærumhverfi okkar en það er ekki nóg þar sem við erum öll tengd bæði hvað varðar efnahag okkar og stöðu jarðarinnar og þess lífríkis sem við búum við.
Með tilkomu internetsins hefur ekki einungis orðið breyting á viðskiptaháttum heldur er svæðisbundin menning mun aðgengilegri en áður var. Tónlistarmaður sem hleður upp myndbandi á Youtube eða Vimeo er í raun að gera efni sitt aðgengilegt á alþjóða vettvangi. Listamenn selja list sína í gegnum internetið með hjálp PayPal og kortafyrirtækja. Þó að ferðalög séu ekki möguleg eins og er þá er auðvelt að safna í sarpinn hugmyndum um draumaferðir þegar farsóttin er gengin yfir. Á netinu er ótrúlega mikið af upplýsingum um forvitnilega staði sem vert er að heimsækja. Ef við þurfum upplýsingar um nánast hvað sem er lítið mál að skella fram spurningu og sjá hvað blessað internetið gefur okkur af svörum. Þessar upplýsingar þarf auðvitað að skoða með gagnrýni að leiðarljósi.
Eins og alltaf er hefur hið góða sínar slæmu hliðar. Yin og yang eru svo sannarlega til staðar þegar rætt er um hið góða og slæma sem tilkoma farsíma, snjallsíma og internetsins hefur fært okkur. Fyrirtæki á borð við Facebook og Google hafa safnað ógrynni upplýsinga um okkur hvert og eitt. Þessar upplýsingar hafa verið seldar í einhverjum tilvikum til fyrirtækja sem nota þær til að selja okkur vöru og þjónustu sem þeir vita að við höfum áhuga á vegna þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um ferðir okkar á netinu.
Áður fyrr þurftu ofurtölvur tugi rúmmetra til að koma sér fyrir á. Nú eru þær ofurtölvur sem notaðar eru mun öflugri og geta þeirra til að vinna úr upplýsingum er gríðarleg. Það er hægt að fylgja einstaklingi eftir í gegnum myndavélar sem eru staðsettar á götum og inni í byggingum. Það er hægt að skjóta andlitsmynd okkar til tölvuveranna sem finna upplýsingar um okkur á augabragði. Þetta er hið besta mál þegar verið er að eltast við glæpamenn eða hryðjuverkamenn en við hin erum líka í skotlínu þessarar tækni.
Það er að mörgu að gæta og við sem erum jú einstaklingar en líka hluti þeirra 7.807.701.200 sem búa á þessari plánetu sem er sú eina sem við vitum af sem er byggileg í nágrenni okkar í alheiminum, verðum í sameiningu að fara hugsa heildrænt um framtíð okkar.
Höfundur er kennari/kvikmyndagerðarmaður.