Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að taka loftslagsmálin föstum tökum. Við Íslendingar erum ekki undanþegnir þeirri skyldu, sérstaklega vegna þess að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er með því mesta í heimi. Til samanburðar er losun á mann í Evrópu nokkuð innan við 9 tonn á ári en á Íslandi er hún a.m.k. 14 tonn af CO2 ígildum. Ef öll losun er tekin með í reikninginn þ.e. ESR (Effort Sharing Regulation), ETS (Emissions Trading System) og Landnotkun (LULUCF) er losunin á mann 44 tonn, sem er mikið áhyggjuefni og ætti að vera tilefni víðtækra aðgerða.
Gert ráð fyrir að helmingur náist án aðgerða
Ríkisstjórnin birti fyrir nokkru aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem má finna í samráðsgáttinni. Margt ágætt er að finna í áætluninni og ef horft er til skuldbindinga Íslands gagnvart Parísarsamningnum þar sem miðað er við um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá tilteknum flokkum (Orka, Landbúnaður og Úrgangur, sjá mynd 2) árin 2005-2030 dugar þessi aðgerðaáætlun líklega. Mikilvæg forsenda er að gert er ráð fyrir því að næstum helmingurinn af árangrinum náist hvort sem farið verði í þessar aðgerðir eða ekki. Hafa ber í huga að 10 ár er langur tími og markmiðið ekki sett hátt. Mynd 1 sýnir skjáskot úr aðgerðaáætluninni.
Þegar skoðað er hversu mikið eigi að draga úr losun með öllum aðgerðunum sem tilgreindar eru verður árið 2030 búið að draga úr losun á um 1 milljón tonna. Inni í því eru verkefni sem eru í mótun eins og orkuskipti í sjávarútvegi og aðgerðir til að draga úr losun frá þungaflutningum og bílaleigubílum. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir samdrætti á um 1.2 milljónum tonna með endurheimt votlendis árið 2030.
Horft fram hjá stærstu losunarþáttunum
Það sem er sérstaklega gagnrýnisvert er að áætlun ríkisstjórnarinnar sleppur nær alveg stærsta losunarþættinum sem er landnotkun (LULUCF) þ.e. losun frá framræstu votlendi og illa förnu land, m.a. vegna ofbeitar. Bæði atriði tengjast landbúnaði og kjötframleiðslu sem nýtur mikils stuðnings frá hinu opinbera.
Þegar heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er skoðuð á mynd 2 sést að hér er ekki verið að vinna að því að leysa loftslagsvandann nema að mjög litlu leyti heldur uppfylla kröfur Parísarsamningsins sem hér á Íslandi taka til mjög lítils hluta losunarinnar. Iðnaðarferlar eru ekki taldir með í því stóriðjan er í ETS kerfinu þar sem samdráttur á að vera um 40% til ársins 2030. Í aðgerðaáætluninni er því nær eingöngu horft á losun frá flokkunum Orku, Landbúnaði og Úrgangi.
Heildarlosunin frá framræstu eða röskuðu votlendi og illa förnu landi er því rúmar 18 milljónir tonna af þeim 23 sem heildarlosun Íslands er, sjá mynd 2.
Kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 óraunhæft
Markmiðið með aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er að draga úr árlegri losun á rúmum 2 milljónum tonna árið 2030 á sama tíma og heildarlosunin er líklega um 23 milljónir tonna á ári. Markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2040 hljómar í þessu samhengi frekar langsótt og vandséð að það geti orðið. Það verður að teljast mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli ekki setja markið hærra en raun ber vitni.
Hægt er að bæta áætlunina umtalsvert og myndi tvennt skipta miklu máli:
- Búa til kerfi sem fær landeigendur til að endurheimta framræst eða raskað votlendi með því að stífla skurðina eða loka þeim alveg. Fá þannig vatnið aftur í jarðveginn svo súrefnið fari úr honum.
- Banna strax sauðfjárbeit á þeim svæðum þar sem gróður þolir ekki beit og fara í markvissar aðgerðir til að bæta gróðurþekjuna.
Með góðri samvinnu við landeigendur og bændur er hægt að leysa þetta hratt og vel. Hið opinbera verður að koma að því máli. Betur má ef duga skal.
Greinarhöfundur er í loftslagshópnum París 1.5°.