Hér á landi býr ung stúlka að nafni Rewida. Hún er 12 ára gömul. Hún hefur búið hér á landi í meira en tvö ár. Hún er nú í felum frá íslenskum stjórnvöldum ásamt foreldrum sínum og þremur bræðrum sínum sem allir eru yngri en hún. Þau eru í felum vegna kerfisbundins ofbeldis íslenskra stjórnvalda á börnum á flótta.
Í stað þess að ganga í skóla, sem hún hefur unun af, hefur hún nú verið í felum í meira en viku ásamt fjölskyldu sinni. Í stað þess að vera að leika við vini sína, í stað þess að vera að læra og uppgötva nýja hluti um sig sjálfa, lífið og samfélagið sem hún tilheyrir, er hún í felum. Í stað þess að fá að njóta þess sakleysis sem felst í því að vera barn, í stað þess að upplifa þau ævintýri sem börn upplifa á hverjum degi, í stað þess að njóta alls þess sem við hin tökum sem sjálfsögðum hlutum, er hún eflaust heltekin af ótta og óöryggi um framtíð sína, bræðra sinna og foreldra og með áhyggjur, örvæntingu og kvíða þeirra allra á öxlunum.
Rewida er frá Egyptalandi. Í Egyptalandi eru 90% stúlkna og kvenna fórnarlömb ofbeldis sem felst í limlestingum á kynfærum þeirra. Hættan á slíku ofbeldi – sem Sameinuðu þjóðirnar skilgreina sem pyntingar og flest ríki heims fordæma – er hvergi hærri en í Egyptalandi. Hvergi í heiminum eru fleiri þolendur slíks ofbeldis og pyntinga.
Alþjóðlegur dagur gegn limlestingum á kynfærum kvenna er haldinn árlega. UNICEF og UN Women eru á meðal þeirra samtaka sem koma að því átaksverkefni að afnema limlestingar á kynfærum kvenna fyrir árið 2030 vegna skaðsemi slíks ofbeldis. Það er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem öll ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að framfylgja. Utanríkisráðuneyti Íslands hefur styrkt slíkt átak frá árinu 2011 um tugi milljóna króna árlega. Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands, skrifaði árið 2018 síðast undir samning um stuðning við átaksverkefnið.
Limlestingar á kynfærum stúlkna og kvenna í Egyptalandi hefur vegið stórt í ákvörðunum Útlendingastofnunar um að veita flóttafólki frá því landi alþjóðlega vernd á Íslandi. Fjallað hefur verið um slíkar pyntingar með veigamiklum hætti hjá stofnuninni. Viðurkennt er í lögum um útlendinga að hætta á slíku setur stúlkur og konur í sérstaklega viðkvæma stöðu sem lýsir mikilli þörf fyrir vernd. Þrátt fyrir það er hvergi vikið að slíku í máli Rewidu, sem er tíu ára þegar umsóknin um alþjóðlega vernd er lögð fram.
„Limlesting á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og ofbeldi,“ segir Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra. Í mati á hagsmunum Rewidu og mati á því sem er henni fyrir bestu - þegar hún sækir um vernd hér á landi – er stúlkan aldrei spurð um hvort hún sé þolandi slíkra pyntinga eða eigi í hættu á að verða fyrir slíku ofbeldi og hvergi er vikið að því í niðurstöðu Útlendingastofnunar um að neita henni og fjölskyldu hennar um vernd hér á landi.
Þegar bent er á þá staðreynd að eflaust hefði mátt spyrja stúlkuna meira um ofbeldi og pyntingar sem hún gæti hafa undirgengist eða eigi á yfirvofandi hættu að undirgangast – og minna um hvort það sé gaman að vera í Egyptalandi – stígur Útlendingastofnun (sem yfirleitt „má ekki tjá sig um einstaka mál“) fram með opinbera yfirlýsingu þar sem 10 ára stúlku er kennt um að slíkt hafi ekki verið rætt því hún hafi ekki nefnt það af fyrra bragði!
Þetta gerir stofnunin sem ber ábyrgð á að meta hagsmuni barna á flótta. Þess má geta að Útlendingastofnun ber lagaleg skylda til þess að framkvæma sjálfstætt mat á hagsmunum stúlkunnar á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalaga og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Þessi vinnubrögð hafa ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og þá sérstaklega dómsmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og forsætisráðherra stimplað sem eðlileg vinnubrögð – sum hver án þess að kynna sér málið almennilega „því málið er ekki á þeirra borði" og aðrir með þögn sinni.
Á sama tíma heyrist ekkert í þeim stofnunum og samtökum sem gefa sig út fyrir að standa vörð um hagsmuni barna og berjast gegn ofbeldi og pyntingum gegn börnum og konum. Á meðan almenningur í landinu berst harkalega gegn þeirri ómannúð og grimmd sem fjölskyldunni er sýnd af yfirvöldum.
Svo lengi sem enginn af þessum aðilum kemur Rewidu til varnar er hún enn í felum. Á meðan þau sem hafa völd til þess að tryggja Rewidu vernd frá ofbeldi og pyntingum sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að berjast gegn er fjölskyldan enn í felum. Á meðan leitar lögreglan að fjölskyldunni sem nú er eftirlýst.
„Börn þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma.“
Hvað Rewidu finnst um þessi orð barnamálaráðherra Íslands er erfitt að segja. Því hún er jú í felum frá kerfisbundnu ofbeldi íslenskra stjórnvalda á börnum á flótta.
Höfundur er formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur
og flóttafólk á Íslandi.