Það er margt sem getur pirrað á langri ævi. Eitt það sem veldur mér alltaf miklu hugarangri er fólk sem gengur um með þær hugmyndir að þeirra trú eða lífsskoðun sé hin eina rétta. Þeirra litarhaft sé það sem gefi þeim rétt á að setja sig skörinni… ja oftar en ekki svolítið meira en skörinni, hærra en þá sem eru af öðrum kynþætti eða öðrum trúflokki en þeir sjálfir. Það má finna sannleikann í mörgu en þegar hann hefur verið fundinn þá er ekki þar með sagt að hann sé sannfæring allra eða algild. Það hefur enginn rétt á að troða sinni sannfæringu upp á annan sem er ekki endilega sama sinnis. En þetta er auðvitað gert leynt og ljóst út um allan heim í skjóli rétttrúnaðar í trúmálum, rétttrúnaðar í stjórnmálum, rétttrúnaði í vísindum og bara rétttrúnaði sem hentar þeim sem stjórna á hverjum tíma fyrir sig.
Flöt eða ekki flöt það er spurningin
Blind trú er alltaf hættuleg. Það á bæði við um trú á menn sem eru settir á stall og eru Guði líkir í augum stuðningsmanna sinna og þær kennisetningar sem um er að ræða hverju sinni.
Annað er trú á vísindaleg eða trúarleg gildi. Fyrir það fyrsta er trú á vísindalegar kennisetningar háð því hvort að kenningar hafi verið sannaðar eða ekki og það á ekki að vera rúm til að stunda trúarbrögð innan vísindanna. Ég hef til dæmis enga trú á því að stórihvellur hafi átta sér stað. Jamm, þetta var svolítið stór hvellur fyrir þá sem trúa blint á þá kenningu. En þetta er einungis kenning og hefur ekki verið sönnuð að því er ég best veit. Þess vegna velti ég þessu enn fyrir mér sem leikmaður sem hefur gaman að því að láta hugann reika. Ég ber mikla virðingu fyrir vísindamönnum sem hafa sett þessa kenningu fram og vona að þeir haldi áfram að spá og spekúlera og fram muni koma betri útskýring á því hvað stjórnar tilveru okkar. Þangað til ætla ég að efast.
Ekki er hægt að sanna allar kenningar í tæka tíð
Stundum er ekki hægt að sanna svo óyggjandi sé að kenningar séu réttar þó að allt bendi til þess að það sem um er talað sé líklega rétt. Þetta á við um gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar sem eru að koma okkur öllum í mikil vandræði. Það eru allar líkur á því að skógareldarnir sem nú brenna í Bandaríkjunum séu af völdum hlýnunnar jarðar. Það má vel vera rétt hjá forsetanum að með betri umhirðu með skógunum loguðu færri eldar en það er þó ekki nóg til þess hrekja ábendingar vísindamanna um áhrif hlýnunnar jarðar. Skógareldar brenna á Ástralíu og Amazon skógurinn skíðlogar á hverju ári og minnkar í ferkílómetrum ár frá ári. Það vandamál verður líklega úr sögunni innan fárra ára þegar skógurinn er allur horfinn. Skógurinn þar sem gríðalega fjölbreytt plöntu-, dýra- og mannlíf á sér samastað mun hverfa með öllu ef ekki verður gripið til aðgerða. Það má þrátta endalaust um ástæðurnar en við stöndum frammi fyrir því að okkar kynslóð muni skila náttúruríki heimsins í mjög slæmu ástandi til næstu kynslóðar. Það sem er að eiga sér stað er að setja allt á annan endann.
Ræktun matvæla þarf að endurskoða á heimsvísu og skipuleggja aftur vegna þess að loftslagið, regn og vindar eru ekki þeir sömu núna og þeir voru fyrir nokkrum árum. Það sem óx og dafnaði áður gerir það ekki núna og finna þarf nýjan stað til að rækta á eða nýja tegund til að rækta. Matvælaöryggi okkar allra er í húfi og það er augljóst að vinna þarf hratt til að bregðast við þessum vanda. Ef ekkert er að gert mun hungur og vatnsskortur sverfa að innan skamms í ríkari mæli en orðið er. Nú þegar er viðvarandi uppskerubrestur af völdum þurrka og óveðra hverskonar hér og hvar í heiminum en sá vandi sem steðjar að mun einungis aukast ef ekki verður gripið í taumana og mun kosta ótal mannslíf. Styrjaldir sem verða enn og aftur háðar um aðgang að auðlindum munu kosta miklar fórnir. Það líður heldur ekki á löngu þar til stríð verða háð um aðgang að vatni. Sumar borgir heimsins eru í miklum vanda vegna loftmengunar. Þetta er allt tengt og ekki er hægt að horfa fram hjá þessu lengur. Það eru meira en 50 ár síðan fyrst var varað við afleiðingum bruna kolefna og gróðurhúsaáhrifin nefnd. Á þessum 50 árum hefur vandinn einungis aukist og fáar lausnir komið fram.
Svarta gullið og kolamolar
Gróðurhúsaáhrifin stafa af því að mannkynið er mjög duglegt að brenna orkugjafa sem senda koltvísýring út í loftið og þar veldur þessi mengun því að sólargeislar geta skinið í gegnum mengunina og hitað upp jörðina en hitinn sem skapast sleppur ekki aftur út vegna mengunar í loftslögunum og hiti jarðarinnar rís. En hvers vegna allar þessar verksmiðjur? Hvers vegna allur þessi bruni?
Svo má ekki gleyma lífsstíl okkar sem snýst um að versla vörur sem eru umvafðar umbúðum sem eru oft úr frauðplasti eða plasti. Skyndibitastaðir hafa verið mjög hægfara í að breyta umbúðanotkun sinni og framleiðendur matvara og drykkja eru enn við sama heygarðshornið. Stóru keðjurnar nota kassa úr pappa eða bréfpoka en enn eru strá og lok úr plasti á glösunum. Við sem kaupum þessar vörur og þær umbúðir sem þeim fylgja erum ekki saklaus þar sem við krefjumst ekki breytinga eða reynum að malda í móinn. Við erum öll samsek og ekki er nóg að benda á þá sem framleiða vörurnar við verðum einnig að breyta okkar hugsun og háttalagi. Umbúðirnar lenda á haugunum og það tekur þær mjög langan tíma að eyðast. Út um allan heim eru vörur úr plasti mikið vandamál vegna þess hversu langan tíma það tekur þær að hverfa. Það tekur frá 10 árum til 450 ára að eyða vörum úr plasti með urðun. Frauðplast tekur um 500 ár að hverfa eftir urðun á ruslahaugum. Þar sem það eru aðeins um 60 til 70 ár síðan þessar umbúðir urðu jafn útbreiddar og raun ber vitni þá er reynslan ekki nægileg til að meta þetta vandamál til hlítar en þetta er stórt vandamál sem ekki verður horft framhjá. Í Kyrrahafinu er svæði sem hefur verið talað um að sé eyja úr plasti. Þetta er ekki eyja heldur víðfeðmt hafsvæði þar sem hafstraumar draga til sín allra handa rusl og af megninu til plast og frauðplast. Þetta samsafn af drasli marar svo í sjónum og fuglar éta það og drepast af þess völdum eða þá að þeir komast ekki í fæði vegna óhroðans og drepast úr hungri. Það sama á við um annað dýralíf á svæðinu. Endurvinnsla er takmörkuð og þess vegna er framleiðslan á einn veg og einnota í flestum tilvikum. Þeir sem reykja nota Bic kveikjara og við sem þurfum að raka okkur notum Bic rakvélar sem við hendum svo að notkun lokinni. Til gamans má geta þess að tannburstar úr plasti taka eru 500 ár að eyðast í náttúrunni.
Nú þegar er bent á aðrar lausnir til að sporna við þessum vanda. Það er hægt að nota pappír og pappa í ríkari mæli. Hampur er efniviður sem getur komið í staðinn fyrir plast í mörgum tilvikum. Önnur efni sem eru ekki nándar nærri eins lengi að eyðast eru einnig í boði. Þróunin til þess að nota þessi efni er samt ósköp hæg.
Það má einnig nefna það að námuvinnsla er mjög kostnaðarsöm og erfið á margan máta. Heilu þjóðfélögin hafa orðið illa út vegna mengunar sem hefur sloppið frá námum í ár, vötn og sjó og skaðað lífríki eða drepið það alfarið. En efnahagur heimsins krefst þess að meira sé framleitt og að það sem við kaupum úreldist og meira er keypt. Neyslusamfélag okkar er það atriði sem þarf að endurskoða en aftur er komið inn á blinda trú á kerfi sem er ekki óbrigðult fremur en kommúnisminn forðum daga. Við erum öll samsek og verðum að skoða það sem mun hugsanlega verða menningu okkar og samfélagi að fjörtjóni.
Hvað er til ráða?
Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. En eitt sem kemur upp í hugann er að það ástand sem nú ríkir má ekki haldið áfram miklu lengur. Það er augljóst að mengun og ofnýting auðlinda er að koma okkur í koll og ef spár vísindamanna reynast réttar þá eru miklar breytingar í vændum. Breytingar sem munu verða á veðri. Ofurstormar, miklir hitar, skógareldar, breytingar á vaxtarskilyrðum fyrir plöntur og útrýming dýralífs. Sjávarborð hækkar vegna þess að jöklar og íshellur pólanna bráðna með miklum hraða. Þetta mun hafa áhrif á alla þá sem búa við sjó og í raun okkur okkur öll þar sem þetta mun hafa áhrif á úrkomu, vinda og hitastig. Landrof mun verða, erfiðara mun verða að stunda landbúnað og byggingar munu vera í hættu. Vísindamenn og þeir sem vinna með hag náttúrunnar að sjónarmiði vara stöðugt við því sem koma skal og í raun hefur tónninn breyst undanfarið þar sem þróunin virðist vera hraðari og það sem áður var spáð fyrir um að gæti orðið á næstu áratugum eða hundruðum ára er þegar orðið að raunveruleika.
David Attenborough og Jane Goodal hafa bæði barist allan sinn starfsferil fyrir því að maðurinn valdi ekki meiri skaða en orðið hefur á lífríki jarðar. Við þekkjum öll verk þeirra og það er samt næsta víst að þau hafa bæði orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að það hefur verið skotið skollaeyrum við þeim boðskap sem þau hafa fram að færa. Dýr sem þau hafa fjallað um hvort á sinn hátt eru í útrýmingarhættu og hugsanlega horfin algerlega. Það getur enginn með vissu sagt til um það hversu margar tegundir hafa horfið í því umróti sem er í Amazon skóginum og hvort einhver möguleiki er á því að þær nái sér aftur ef þróuninni er snúið við.
Í síðustu viku vöktu tvær fréttir athygli mína. Önnur fjallaði um grindhvali sem komu á land á Íslandi og drápust í fjörunni og háhyrningar réðust á báta á Gíbraltarsundi. Þetta virðast vera dæmi sem eru óskyld en bæði vöktu athygli mína þar sem það er mjög óvanalegt að svona nokkuð eigi sér stað og hugsanlega rennir þetta enn frekari stoðum undir það að ekki sé allt með felldu í lífríki jarðarinnar þegar skepnur sem eru taldar með þeim skynugustu á jörðinni breyta atferli sínu.
Það eina sem er til ráða e, er að við sem íbúar á jörðinni en ekki sem einstaklingar, þjóðir, trúflokkar eða kynþættir sameinumst um að leysa þau vandamál sem að okkur steðja. Það er engin önnur pláneta sem við getum komið okkur fyrir á og byrjað upp á nýtt. Þó að Elon Musk og aðrir vilji ólmir koma mönnum til Mars og aðrir sem vilja hefja námuvinnslu á tunglinu þá breytir það ósköp litlu fyrir okkur sem búum á jörðinni núna. Vandinn er aðsteðjandi og hverfur ekki þó að gaman sé að fylgjast með draumum vísindamanna og framsækinna viðskiptajöfra.
Við megum heldur ekki gleyma því að kapítalismann þarf að skoða eins og önnur kerfi sem við höfum tileinkað okkur. Það er ekki hægt að trúa á þann -isma eins og um trúarbrögð sé að ræða frekar en aðra -isma. Lýðræði þarf að auka og tryggja þarf að allir jarðarbúar hafi nóg að bíta og brenna og það síðar nefnda kannski ekki í raun þar sem bruni er að koma okkur í koll. Að þessu þarf að huga áður er kerfið okkar fellur vegna aðgerðarleysis og ótæpilegrar græðgi fárra manna. Það þarf að skoða það heildrænt og aðlaga það að breyttum aðstæðum. Hugsanlega tekst okkur þá að komast frá þeim mikla vanda sem að okkur steðjar án þess að milljónir þurfi að falla í valinn vegna styrjalda, hungursneyða og náttúruhamfara sem eru auðvitað náttúruhamfarir af manna völdum.
Höfundur er kennari/kvikmyndagerðarmaður.