Samtök atvinnurekenda (SA) segjast nú vilja segja upp Lífskjarasamningnum, vegna forsendubrests sem veirufaraldurinn hafi orsakað. Það er röng leið út úr kreppunni.
Farsælla er að Lífskjarasamningurinn haldi og að látið verði reyna á sveigjanleika vinnumarkaðarins, ásamt öflugum Keynesískum kreppuúrræðum stjórnvalda. Sú leið mun vinna betur á kreppunni en sú leið upplausnar og átaka sem felst í afstöðu SA-manna.
Rökin fyrir þessu eru eftirfarandi:
- Kreppan er einkum í afmörkuðum geira atvinnulífsins (ferðaþjónustu og nátengdum greinum, sem eru með um 10-15% vinnuaflsins). Fyrirtæki og stofnanir með um 85-90% vinnuaflsins ganga þokkalega. Þetta er sértæk kreppa.
- Sértæk kreppa kallar á sértæk úrræði, sem miðuð eru á hinn sértæka vanda, en ekki á almenn úrræði sem meirihluti fyrirtækja hefur ekki beina þörf fyrir.
- Almenn kjaraskerðing dregur úr innlendri eftirspurn, sem er eitt mikilvægasta eldsneytið fyrir efnahagslífið í kreppu, ásamt örvunarúrræðum stjórnvalda. Það er vel reyndur lædrómur af Keynesískum kreppuúrræðum um allan heim (sjá hér).
- Lífskjarasamningurinn hefur mikilvæga kosti á krepputímum. Hann bætir hag lægst launuðu hópanna hlutfallslega mest – sem lengi hefur verið kallað eftir. Láglaunafólkið ver öllum sínum tekjum til framfærslunnar, en það örvar hringrás efnahagslífsins mest og heldur uppi hærra atvinnustigi.
- Hringrás launa í efnahagslífinu er þessi: „Mín útgjöld eru þínar tekjur. Þín útgjöld eru mínar tekjur”. Launahækkanir koma aftur til fyrirtækja í formi aukinnar eftirspurnar.
- Á sama tíma er hækkun meðal- og hærri launa í Lífskjarasamningnum hóflegri, sem þýðir að hækkun launakostnaðar atvinnurekenda almennt er hóflegri en þegar prósentuhækkanir ganga upp allan stigann.
- Hluti af launahækkunum samningsins var skilyrtur af efnahagsþróuninni (hagvaxtartengd uppbót). Það hefur komið fyrirtækjunum vel á þessu ári og gæti gert það líka á næsta ári.
- Ef fyrirtæki utan ferðaþjónustu eiga í erfiðleikum með launakostnað geta þau gripið til þess að draga niður yfirborganir, sem eru algengar í atvinnulífinu. Ekki þarf að segja upp Lífskjarasamningnum til þess.
- Samningurinn, sem er til langs tíma, er því hagstæður atvinnurekendum. Hann færir stjórnvöldum líka mikilvægan stöðugleika.
Það er því margt sem mælir gegn því að atvinnurekendur segi upp Lífskjarasamningnum.
Lykillinn að lausninni
Stjórnvöld hljóta að láta sig stöðuna sem upp er komin miklu varða. Menn sáu hvernig margt gekk vel strax í sumar þegar landsmenn beittu kaupmætti sínum til að fjörga nærhagkerfið um allt land og örvunaraðgerðir stjórnvalda og seðlabankans léttu róðurinn.
Mikið af því fjármagni sem ætlað var í stuðning við fyrirtæki í vor og sumar hefur ekki gengið út og skuldaaukning íslenska ríkisins er hófleg miðað við önnur vestræn ríki. Þórður Snær Júlíusson segir raunar að flestar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar til þessa hafi geigað (sjá hér og hér).
Það er því ástæða fyrir stjórnvöld til að taka fastar í árarnar núna.
Eitt sem væri mikilvægt fyrir fyrirtækin er að lækka tryggingagjaldið, sem er hlutfall af launagreiðslum. Það auðveldar fyrirtækjum að taka á hækkun launataxta fyrir lægst launaða fólkið á vinnumarkaðinum og að halda fleirum í vinnu.
Lækkun tryggingagjaldsins þyrfti einungis að vera tímabundin, t.d. fram á næsta sumar. Það myndi auka skuldir ríkisins lítillega til viðbótar við annað, en skilar sé að öðru leyti í mildari afleiðingum kreppunnar og minni þörf fyrir útgjöld til atvinnuleysisbóta. Skuldirnar verða svo lækkaðar í næstu uppsveiflu. Þetta væri því góð smurning á vélar efnahagslífsins – og svigrúmið er fyrir hendi hjá ríkinu.
Lífskjarasamningurinn, með hlutfallslega mestri kjarabót fyrir láglaunafólk, er eitt besta meðalið við kreppunni og öflugar örvunaraðgerðir stjórnvalda sömuleiðis. Þetta styður hvort við annað. Ófriðarleið SA-manna gerir kreppuna einungis dýpri en hún þarf að vera.
Verum uppbyggileg og leysum vandann á vitrænan hátt – með samvinnu um þau úrræði sem best duga. Boltinn er hjá stjórnvöldum.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.