Bjarni Jónsson og Sylviane Lecoultre, stjórnarmenn í Lífsvirðingu, félags um dánaraðstoð leggja orð í belg í Kjarnanum 26. September sl. og fjalla um „Heilbrigðisstarfsfólk og dánaraðsoð.” Í pistlinum er m.a. gagnrýnd sú orðanotkun að nota „líknardráp” fyrir gríska orðið „euthanasia” sem víða er notað óþýtt en þó er stundum notað hugtakið „mercy killing” á ensku).
Höfundar pistilsins leggja til að nota orðið „dánaraðstoð” enda er það í heiti félagsins sem þau tala fyrir. Samsetta orðið „líknardráp” hefur óvenju mikið innra ósamræmi þar sem saman fara orðið „líkn” sem hefur mjög jákvæða skírskotun og orðið „dráp” sem er óneitanlega neikvætt hlaðið. Það hefur þó verið notað sem lýsing á því sem á grísku heitir „euthanasia” (ekki latínu eins og segir í skýrslu ráðherra) sem þýðir „góður dauði” og er líknardráp því ekki bein þýðing. Dánaraðstoð hefur mun jákvæðari blæ og því ekki undarlegt að þeir sem styðja þann verknað, að einn maður stytti öðrum aldri í líknarskyni, noti það. Undirritaður notar hins vegar orðið „líknardráp”, ekki síst vegna þess hversu mikil siðfræðileg togstreita felst í þeim verknaði að líkna einhverjum með því að binda endi á líf hans.
Áfram um orðanotkun. Í skýrslu Heilbrigðisráðherra) er hugtakið dánaraðstoð notað sem yfirheiti og undir því eru skilgreind fjögur undirheiti. Byggt er á hugtakanotkun í meistararitgerð við Lagadeild Háskóla Íslands) með þeirri undantekningu að í ritgerðinni var líknarmeðferð ekki skilgreind sem dánaraðstoð en það er hins vegar gert í skýrslunni af ástæðu sem ekki er rökstudd. Þessi fjögur undirheiti eru í skýrslunni:
- „Líknarmeðferð” (e.: palliative care). Þeir eru fáir sem hafa talið líknarmeðferð til dánaraðstoðar enda vandséð að svo sé. Líknarmeðferð er einmitt meðferð í lifanda lífi og ástunduð þegar um alvarlegan sjúkdóm er að ræða í því skyni að draga úr sársauka og annarri vanlíðan. Meðferðin getur verið notuð í daga og vikur en getur einnig staðið í mörg ár. Það er hins vegar á engan hátt verið að aðstoða einhvern við að komast yfir móðuna miklu.
- „Óbein dánaraðstoð” (e: passive euthanasia). Hér er átt við meðvitað athafnaleysi, þ.e. ekki er gripið til lífslengjandi meðferðar og henni jafnvel hætt heldur en náttúran látin hafa sinn gang. Að fella þetta undir hugtakið dánaraðstoð er langsótt því þá má segja að mikill hluti andláta á heilbrigðisstofnunum í dag verði við „óbeina dánaraðstoð”. Á síðustu dögum lífsins, þegar séð er að hverju stefnir, er lífslengjandi meðferð ekki beitt svo sem notkun öndunarvélar eða öðru tækni inngripi eða með því að gefa vökva í æð eða um slöngu niður í maga. Stöku sinnum er slíkri meðferð beinlínis hætt svo sem að taka öndunarvél úr sambandi eða hætta vökvagjöf í æð og er um það deilt hvort það falli undir dánaraðstoð en það er auðvitað ekki athafnaleysi (passive euthanasia) eins og gefið er í skyn er í skýrslunni því það felur í sér athöfn.
- „Sjálfsvíg með aðstoð læknis” (physician assisted suicide). Ekki er um það deilt að um er að ræða aðstoð við að nota beint inngrip í því skyni að enda lífið og er þetta löglegt í sumum ríkjum svo sem í Sviss og Kanada.
- „Líknardráp” (euthanasia) er inngrip læknis gert beinlínis í því skyni að enda lífið skjótt og án erfiðleika fyrir sjúklinginn. Holland er það ríki sem lengst hefur gengið og leyft þess konar inngrip árum saman á grundvelli laga. Um þetta má hafa mörg orð en hér er aðeins verið að horfa á orðanotkun og einu deilurnar í því tilliti eru um hvaða orð skuli notað á íslensku en engar deilur eru um innihald verknaðarins.
Að endingu. Í pistlinum umrædda eru færð ýmis rök fyrir því að skoðanir heilbrigðisstarfsfólks við dánaraðstoð séu vaxandi. Það skal þó á það bent að af 113 aðildarfélögum í Alþjóðasamtökum lækna eru aðeins tvö sem leyfa beina dánaraðstoð og samtökin sendu frá sér afdráttarlausa yfirlýsingu um þetta efni af síðasta aðalfundi í október 2019).
Höfundur er fyrrverandi forseti Alþjóðasamtaka lækna.