Birting alþjóðasamninga eru í miklum ólestri hérlendis eins og komið hefur fram að undanförnu. Það er því mikið fagnaðarefni að forseti Alþingis hafi svarað grein undirritaðs, hér í Kjarnanum, sem vék að brotalömum varðandi birtingu tiltekinna alþjóðasamninga í lagasafninu á vef Alþingis.
Það hljóta allir að geta verið sammála um að mikilvægt sé að vefur Alþingis innihaldi ekki villandi eða rangar upplýsingar, enda reiða lærðir og leikir sig mjög á hann. Þar sem forseti þingsins hefur sýnt athugasemdum undirritaðs meiri áhuga en ritstjórn lagasafnsins ætlar hann að nota tækifærið og benda forsetanum á fleiri brotalamir sem snerta birtingu alþjóðasamninga og áhrif þeirra á íslenska löggjöf.
Gloppur í sóttvarnarlöggjöfinni
Algeng leið til að tryggja fylgni íslensks réttar við alþjóðlegar skuldbindingar er að í lögum sé vísað til þeirra. Nokkrar útfærslur eru til af þessu. Stundum er vísað almennt til alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins. Í öðrum tilfellum er vísað almennt til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og í enn öðrum tilfellum er vísað til tiltekins eða tiltekinna alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Þegar íslensk löggjöf vísar til alþjóðasamninga, með þessum hætti, er ekki nóg að íslenska ríkið hafi gerst aðili að umræddum samningi. Það er lagaskylda að birta samninginn í Stjórnartíðindum C svo hægt sé að beita honum gagnvart borgurunum. Samkvæmt lögum nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið er það meginreglan að birta skuli samninga við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra í stjórnartíðindum C.
Eitt dæmi af fjölmörgum
Hér er ekki um að ræða einstakt tilfelli. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin er einungis einn þeirra 300 alþjóðasamninga sem utanríkisráðuneytið hefur vanrækt að birta í C-deild Stjórnartíðinda. Fjöldinn allur af lögum og reglugerðum beitir sömu tækni og sóttvarnarlögin, þ.e. að vísa til alþjóðlegra skuldbindinga. Vegna þessa má telja afar líklegt að fjölmörg sambærileg tilvik séu til staðar í íslensku réttarkerfi. Það er grafalvarlegt mál sem opnar á margskonar glufur. Jafnvel er hægt að ræða um hlaðborð fyrir slynga lögmenn.
Í ritinu Stjórnskipunarréttur: Undirstöður og handhafar ríkisvalds eftir Björgu Thorarensen er bent á að farist birting fyrir á lögum vegna ásetnings ráðherra eða stórkostlegs hirðuleysis hans eða ef óhæfilegur dráttur verður á birtingu laga af sömu orsökum, geti það varðað viðkomandi ráðherra ábyrgð samkvæmt ákvæðum laga um ráðherraábyrgð. Spyrja verður hvort það sama eigi ekki við um birtingu reglugerða og alþjóðasamninga. Ofangreind orð undirstrika hversu alvarlega litið er á slíka vanrækslu.
Úrbóta þörf
Telja má fullvíst að umrædd vanræksla takmarki virkni íslenskrar löggjafar, þó óljóst sé í hversu miklu mæli. Auk þess gerir hún það að verkum að margvíslegar tilvísanir til alþjóðasamninga í íslenskum lögum hafa minni þýðingu en vilji löggjafans stendur til. Að mati undirritaðs er þetta málefni sem forseta þingsins ætti að vera umhugað um að laga. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðast í átak til að ráð bót á ástandinu. Það átak mun þó standa yfir í nokkur ár og er satt besta að segja ekki nægjanlegt því nauðsynlegt er að settur verði mun skýrari lagarammi um innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga hérlendis í takt við það sem hefur verið gert vegna EES-samstarfsins til að fyrirbyggja svona uppákomur. Annað er vart boðlegt fyrir fullvalda lýðræðisríki.
Höfundur er prófessor við lagadeild HR.