Nýlega birtist úttekt í tímaritinu Der Spiegel á því hvernig Svíar fóru að í fyrstu bylgju Covid 19 þegar gamla fólkið dó í hrönnum og dánarhlutfallið varð margfalt hærra en annars staðar á Norðurlöndum. Dánarhlutfallið hjá Svíum er með því hæsta í heiminum, um 6% sýktra hafa látist samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Sambærileg tala hér á landi er 0,3%. Hlutfallslega hafa þannig tuttugu sinnum fleiri Svíar látist af völdum Covid 19 en Íslendingar.
Samkvæmt greininni í Spiegel er ástæðan einföld, það var ákveðið að taka á ástandinu með kerfisbundinni forgangsröðun tilfella þeirra sem fengju gjörgæslu og hver ekki. Þannig tókst vel að halda lausum gjörgæslurýmum þrátt fyrir að sóttin geisaði sérstaklega meðal eldri borgara og viðkvæmra hópa. Forgangsröðunin var þessi: Fólk yfir sextugu með tvenns konar undirliggjandi sjúkdóma mætti afgangi með gjörgæslupláss og var fremur sent í líknarmeðferð og hreinlega látið deyja. Sama gilti um fólk yfir sjötugu með einn undirliggjandi sjúkdóm og fólk yfir áttræðu var bara látið deyja.
Siðrofið sem að mínum dómi kemur fram með þessari „aðferðafræði“ er gott að hafa í huga núna þegar faraldurinn geisar sem aldrei fyrr og raddir sjálfskipaðra sóttvarnafræðinga verða æ hærri. Þessi svokallað „sænska leið“ felur ekkert annað í sér en að láta lækna fella dauðadóma með Excel-skjali gegn vilja sínum og Hippókratesareiði.
Höfundur er prófessor í þýðingarfræði við Haskóla Íslands.