„Um allan heim hafa um 243 milljónir kvenna og stúlkna á aldrinum 15-49 ára þurft að þola ofbeldi af hálfu maka, á undanförnum tólf mánuðum.
Ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreitt vandamál í hverju einasta landi í heiminum. Það er drifið áfram af kynjamisrétti, félagslegum viðmiðum sem mismuna á grundvelli kyns og staðalímyndum, sem skerða völd og veikja stöðu kvenna og stúlkna.
Kynbundið ofbeldi hefur ekki eingöngu áhrif á líkamlega og sálræna líðan kvenna, heldur hindrar konur og stúlkur í að njóta grundvallarréttinda og frelsis, líkt og að afla sér menntunar og láta til sín taka í félags- og stjórnmálum.
Samhliða alvarlegum efnahags- og félagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins og aukinni félagslegri einangrun fólks hefur „skuggafaraldur“ kynbundins ofbeldis farið vaxandi um allan heim.
Margar konur og stúlkur eru einangraðar og bundnar heima með ofbeldismönnum sínum vegna samkomubanna og félagsforðanna. Á sama tíma er fjármagni beint frá nauðsynlegri stoðþjónustu á borð við kvennaathvörf og neyðarlínur.
Nýjustu úttektir og rannsóknir benda til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi.
Að koma á og viðhalda friði snýst ekki aðeins um að binda enda á ofbeldið sem á sér stað í víglínu átakasvæða heldur þurfum við að uppræta kynbundið ofbeldi sem heldur áfram að eiga sér stað fyrir luktum dyrum. Á meðan karlmenn eru enn ofbeldisfullir gagnvart konum heima við, búum við ekki við frið.
UN Women vinnur að afnámi ofbeldis gegn konum
UN Women hefur leitt þróun á samþættri stefnu um kynbundið ofbeldi og þar með hraðað áþreifanlegum viðbrögðum við Covid-19 við að koma á „zero tolerance“ stefnu gagnvart kynbundnu ofbeldi.
Fram til þessa hafa 146 lönd skuldbundið sig til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og stúlkum og gert það að lykilþætti í viðbragðsáætlunum sínum vegna Covid-19.
Í víðara samhengi, þá erum við hjá UN Women að vinna með stefnumótendum að umbótum á lögum sem mismuna á einhvern á hátt (til dæmis lög sem banna heimilisofbeldi og nauðganir í hjónabandi). Auk þess sem við vinnum að því að styrkja getu lögreglumanna- og kvenna til að rannsaka kynbundið ofbeldi og bregðast við á þolendamiðaðan hátt, á þann hátt að þolandanum sé trúað.
Síðast en ekki síst ber að nefna tímamótaátak UN Women Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality) sem felur í sér aðgerðabandalag um kynbundið ofbeldi, undir forystu Íslands og þriggja annarra aðildarríkja SÞ, í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ungt fólk og borgarasamtök.
Ísland getur náð raunverulegu jafnrétti
Að útrýma endanlega ofbeldi gegn konum og stúlkum er sönnun þess að komið hafi verið á raunverulegu jafnrétti í samfélagi. Þátt fyrir að vera smáríki er Ísland nú þegar leiðandi á svo mörgum sviðum jafnréttis. Nú þarf að velta úr vegi síðustu hindruninni – til að ná raunverulegu jafnrétti.
Höfundur er framkvæmdastýra UN Women.
Greinin er birt í tengslum við friðardaga í Reykjavík sem Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands stendur að í samstarfi við UN Women, UNICEF, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytið. Umræðan í ár fer alfarið fram á netinu, með hlaðvarpsseríu og völdum greinum sem birtar verða dagana 10. - 16. október á www.fridarsetur.is. Í ár er sjónum beint að því hvernig Ísland getur gert enn betur þegar kemur að ófriði í íslensku samfélagi og um leið verið öflugri málsvari á alþjóðavettvangi á sviði friðar og mannréttinda.