Það er stundum sagt að allir hafi sitt eigið fjall til að klífa en krakkar, mikið svakalega er ég orðin þreytt á þessu Covidklifri. Þegar ég vakna í rökkrinu þessa dagana er það fyrsta sem ég geri að teygja mig í símann og skoða íslenskar fréttaveitur. Ég held í mér andanum og bíð eftir jákvæðum fréttum af smitmálum á Íslandi. Ég er einn af þessum Íslendingum sem búa erlendis og ég hef ekki getað hitt fólkið mitt síðan síðasta vetur. Það er sárt að vera langt frá fólkinu sínu þegar maður hefur enga kosti að nálgast það. Það er líka þungt hljóðið í vinum og vandamönnum heima og ég finn til með þeim að vera aftur komin í sama Covid ástandið og í vor. Ég skil þau vel, það eru svo mikil vonbrigði að vakna aftur við rætur fjallsins sem maður hélt að maður væri búinn að klífa... í þriðja fokking skiptið!
Ég fylgdist spennt með íslenskum samlöndum mínum takast á við Covidveiruna í vor og þegar ég var spurð af hverju Íslendingar stæðu sig svo vel þá útskýrði ég að við værum snillingar í að redda málum. Ég talaði líka um þessa einstöku kreppustemmingu sem myndast þegar mikið bjátar á. Það er næstum eins og við höfum gaman af því og getum myndað hópefli í kringum hvað sem er. Við förum annað hvort að prjóna, baka í frystikistuna eða söfnumst fyrir framan sjónvarpið og syngjum með Helga Björns. Það er nefnilega einhver eldur í íslensku þjóðarsálinni sem kviknar þegar erfitt er. Þetta hlýtur að vera arfur frá því þegar lífsbaráttan var svo átakanleg að þau sem stóðu ekki saman áttu í hættu að lifa ekki af. Þessi kreppusamstaða er þykkur rauður þráður í sál Íslendingsins.
En þó að engin vilji heyra það þá er lífið samt núna. Það er ekki bara þegar gengur vel og sólin skín heldur líka núna þegar dagarnir taka á. Lífið er líka erfiðar stundir, sjálfsvorkunn og reiði. Það er nefnilega ekkert mál að segja #lifaognjóta og #lífiðernúna þegar dagarnir eru ljúfir, það er bara fyrir byrjendur. Það fer fyrst að telja þegar stundirnar eru erfiðar og það sem má ekki nefna fer ekki neitt og lægð situr yfir landinu.
Því ef við ætlum aftur upp á topp Covidfjallsins með geðheilsuna nokkurn veginn í lagi þá virkar gamla klisjan að pakka góðu viðhorfi. Dickens skrifaði: „Þetta voru bestu tímar, þetta voru verstu tímar, þetta var öld visku, þetta var öld heimsku, tiltrúin sat við háborðið, vantrúin sat við háborðið, þetta var tímabil ljóss, þetta var tímabil myrkurs, þetta var vor vonarinnar, þetta var vetur vonleysisins, allt var framundan, ekkert var framundan".
Á meðan allir fengu Covidfjall að klífa fékk ég úthlutuðum mínum persónulega krabbameinshnjúk. Snemma í vor fékk ég staðfest að ég væri með meinvarp í brjósti og þyrfti aðgerð og meðferð. Í miðju Covidfári skildi ég að ef þetta ætti ekki að keyra fjölskylduna mína í þrot þá yrði ég að trúa að bestu tímarnir koma með verstu tímunum. Það þýddi að nú þyrfti ég að velja hugarfar. Ég vissi að ég ætti erfiðar meðferðir eftir, fjölskyldan yrði félagslega einangruð í útlöndum, smithættur leyndust alls staðar (meira segja kvef var mér hættulegt) og því yrði ekki breytt. En spurningin var hversu mikið ætlaði ég að láta það skemma fyrir mér? Ég gæti valið mér að veltast upp úr sjálfsvorkunn en hversu innihaldsríkir dagar eru það ef ég fæ kannski ekki meiri tíma með fólkinu mínu? Dagarnir síðan þá hafa verið dásamlegur hrærigrautur af yndislegum stundum í bland við ömurlegar meðferðir. Lífið er nefnilega núna... Akkúrat núna.
Kæru samlandar, þvoið hendur, berið grímur, skoðið brjóstin á ykkur, kaupið Bleiku slaufuna og elskið fólkið ykkar. Covidtölurnar þurfa að fara niður því ég þarf að komast heim að knúsa pabba minn og mömmu. Ég þarf að sýna þeim að hvorki brjóstakrabbamein né Covid stoppar mig.
En plís... ekki meiri Helgi Björns.
Knús heim!
Höfundur er þriggja barna móðir í krabbameinsmeðferð og búsett erlendis.
#lífiðernúna #þakklæti #lifaognjóta #klisja #fuckcancer #kraftur #bleikaslaufan