Niðurstöður rannsókna í íslenskum háskólum hafa gjarnan verið birtar í viðurkenndum fræðiritum á viðkomandi fræðasviði. Höfundur hefur þá ef til vill greitt útgefanda fyrir birtinguna og síðan hefur notandinn þurft að kaupa aðgang að greininni með áskrift að tímaritinu. Íslenskir háskólar eru áskrifendur að fjölda fræðitímarita og á Íslandi er Landsaðgangur að rafrænum áskriftum (hvar.is) sem veitir öllum sem tengjast netinu með íslenskum netveitum aðgang að tæplega 22 þúsund tímaritsgreinum. Íslenskur almenningur hefur því góðan aðgang að rafrænum tímaritsgreinum en fyrir áskrift Landsaðgangs greiða um 200 íslenskar stofnanir og fyrirtæki (t.d. háskólar, bókasöfn og rannsóknarstofnanir).
Aðgangur að þekkingu og niðurstöðum rannsókna er sem sagt talsvert háður fjármagni.
Í opnum aðgangi er gengið út frá því að almenningur hafi aðgang að niðurstöðum rannsókna sem fjármagnaðar eru af hinu opinbera án þess að tæknivandi eða fjármagnsskortur hafi áhrif á aðganginn, t.d. hátt áskriftargjald að tímariti eða gagnasafni sem veldur því að stofnun eða Landsaðgangur kaupir þá ekki áskriftina. Íslensk lög (nr. 3/2003) kveða á um að birta skuli rannsóknarniðurstöður sem kostaðar eru með opinberum styrkjum í opnum aðgangi en enn vantar stefnu íslenskra stjórnvalda um opinn aðgang.
Verkefnishópur mennta- og menningarmálaráðherra hefur unnið tillögur að stefnu um opinn aðgang. Þar er lagt til að fyrstu skrefin í átt að opnum aðgangi verði á grundvelli „grænu leiðarinnar“ en þá er vísindagrein birt samhliða í ritrýndu tímariti og í rafrænu varðveislusafni í opnum aðgangi. Jafnframt er lagt til að langtímamarkmið fram til ársins 2025 verði að allt efni sem stefnan um opinn aðgang nær til birtist í tímaritum í opnum aðgangi skv. „gullnu leiðinni“ en þá þarf notandinn ekki að greiða fyrir aðgang en höfundurinn gæti hins vegar þurft að greiða útgefanda tímaritsins gjald (Article Processing Charge) fyrir birtinguna í opnum aðgangi.
Í tillögum verkefnishópsins er líka lögð til stefna um innleiðingu með þátttöku háskólanna, rannsóknarstofnana, stjórna opinberra rannsóknasjóða, Rannís og bókasafna þar sem umgjörð birtinga sé samræmd. Þættir í innleiðingastefnunni eru m.a.:
- Vísinda- og tækniráð á að birta stefnuna á heimasíðu sinni.
- Mennta- og menningarmálaráðuneyti á að gera stefnuna að hluta af vísindastefnu sem birt er í fjármálaáætlun hvers árs sem og fylgjast með þróun á sviði opins aðgangs og rýna stefnuna á tveggja til þriggja ára fresti.
- Háskólar og rannsóknarstofnanir eiga að stuðla að því að höfundar birti ekki í blönduðum tímaritum (e. hybrid journals), afsali sér ekki höfundarrétti til útgefenda og setji opna leyfisskilmála að verkum sínum. Einnig skulu skólarnir og stofnanirnar tryggja:
- birtingu rannsóknarniðurstaðna í samræmi við opinbera stefnu.
- aðgang að þjónustu við vísindamenn varðandi birtingu í opnum aðgangi og umbuni fyrir slíka birtingu.
- að áfram verði unnt að birta greinar á íslensku í íslenskum ritrýndum tímaritum og gerðar verklagsreglur fyrir vísindafólk um safnvistun í varðveislusöfnin Opin vísindi og Hirslu.
- Bókasöfn og Landsaðgangur eiga að:
- tryggja að í áskriftarsamningum séu ákvæði um vistun ritrýndra lokahandrita í varðveislusöfnum.
- sameina Hirsluna og Opin vísindi í eitt varðveislusafn fyrir Ísland (Landsbókasafn og Landsspítali)
- veita sérfræðiþjónustu við birtingu í opnum aðgangi og styðja við tilfærslu íslenskra tímarita yfir í opinn aðgang.
- breyta hlutverki Landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum í samræmi við stefnu um opinn aðgang til að kostnaður vegna birtinga í opnum aðgangi verði ekki viðbót við kostnað sem liggur í áskriftum. Jafnframt skal gætt að því að ekki sé verið að greiða tvisvar fyrir sömu birtingu vísindagreinar þ.e. bæði fyrir áskrift að tímariti og útgáfu greina úr því í opnum aðgangi.
- stuðla að fræðslu um opinn aðgang.
- Rannís og opinberir rannsóknasjóðir eiga að fylgja því eftir að styrkþegar birti niðurstöður sínar í opnum aðgangi.
Gott og vel, nú er staðan þessi:
- Samkvæmt 10. grein laga nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir skulu rannsóknarniðurstöður sem kostaðar eru með styrkjum úr opinberum sjóðum birtar í opnum aðgangi og vera öllum aðgengilegar.
- Búið er að vinna tillögur í mennta- og menningarmálaráðuneyti að stefnu um opinn aðgang og þeim fylgir aðgerðaáætlun um innleiðingu og viðauki með grófu kostnaðarmati.
- Vísinda- og tækniráð mun, samkvæmt aðgerðaáætlun 2020-2021, leggja fram tillögur á næsta ári um innleiðingu opins aðgangs og greina hindranir og kostnað. Í innleiðingarferlinu verði tekið tillit til sjónarmiða um birtingatöf til að gera vísindamönnum kleift að birta niðurstöður sínar fyrst.
- Íslenskir háskólar hafa verið að eða eru að móta eigin stefnur um opinn aðgang.
- Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur mótað stefnu um opinn aðgang.
- Rannís hefur birt reglur um birtingu í opnum aðgangi á vef sínum.
- Háskóli Íslands hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti umsögn um tillögur ráðuneytisins. Þar kemur fram að brýnt sé að fá sem fyrst stefnu stjórnvalda um opinn aðgang.
Þó háskólar og stofnanir hafi sett sínar eigin stefnur í samræmi við lög nr. 3/2003 vantar opinbera stefnu ráðuneytisins og innleiðingu hennar fyrir stofnanirnar að vinna eftir. Það er þjóðinni dýrt að bíða eftir samþykktri opinberri stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Vinna við undirbúning og innleiðingu stefnunnar kostar sitt og á meðan þarf þjóðin að halda áfram að borga útgefendum fyrir bæði birtingu greina og áskriftir að tímaritunum.
Undanfarið hafa Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá farið mikinn á samfélagsmiðlum og krafist innleiðingar nýrrar stjórnarskrár með átaki þar sem þátttakendur leita að nýrri stjórnarskrá undir myllumerkinu #Hvar. Slíkt átak með myllumerkinu #HvarerOAstefnan mætti heimfæra upp á leit að stefnu stjórnvalda um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna og spyrja:
- Hvar er stefna stjórnvalda um opinn aðgang?
- Þarf að bíða til a.m.k. ársins 2022 eftir að hægt verði að hefja innleiðingu stefnu um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna?
Höfundur er forstöðumaður bókasafns og upplýsingaþjónustu Listaháskóla Íslands
#HvarerOAstefnan?